Leita í fréttum mbl.is

Familí C-J slakar á í sveitinni

 

Mánudaginn í síðustu viku hófum Bretinn og ég að hlaða station bílinn fyrir sumarbústaðarferðina.

Bretinn var búinn að staglast á því í tvo daga að við yrðum að fara á 2 bílum því við ætluðum að taka svo mikið af drasli með okkur.

Ertu brjálaður, hvæsti ég á hann. Heldurðu að ég láti það fréttast að það þurfi tvo bíla undir dótið sem fylgir 2 fullorðnum og 2 krökkum í 4-5 daga. Heilu fjölskyldurnar fara í útilegur og hringferð um landið og koma öllu sínu fyrir í skotti á VW. Af og frá. Eitt stykki station bíll dugar og hana nú.

Ég var grimm á svip og ansi viss í minni sök.

En ég varð heldur betur að láta í minni pokann. Játa mig sigraða. Ég hafði svoooo rangt fyrir mér. Gamla station beyglan var drekkhlaðin af töskum með fatnaði fyrir heila kommúnu, pappakössum með mat fyrir 20 manns, einu DVD tæki og einu stykki 14" sjónvarpi að ógleymdum öllum VHS spólunum og DVD diskunum.

Golfsett Bretans tók svo upp plássið í Yaris-num. Og Viddi Vitleysingur.

Og svo tættum við í austurátt. Fallegur bústaður að nafni Hálsaskógur beið okkar. Umkringdur rjóðri með útsýni yfir Heklu. Sannkölluð afslöppunarparadís.

Og það er nákvæmlega það sem við gerðum þarna í 5 daga; slöppuðum af.

Við fórum líka í berjamó. Og þurftum ekki að fara langt. Kjarrið umhverfis bústaðinn var þakið bláberja- og krækiberjalyngi og með hjálp Gelgjunnar og Þess Einhverfa söfnuðust nákvæmlega rétt magn af berjum til að nota út á skyrið á morgnana.

Gelgjan fór í reiðtúr og Bretinn sló nokkrar golfkúlur. Sá Einhverfi skrifaði heilu ritgerðirnar og svamlaði í heita pottinum. Ég féll næstum um staflana af eldgömlum tímaritum og lærði ansi margt á stuttum tíma; hvernig á að daðra án þess að fara yfir strikið, hvaða stellingu er best að sofa í til að minnka líkurnar á hrukkum, hvaða dýr ég var í fyrra lífi, hvað brasilískt vax þýðir í raun og veru og fleira sem er bráðnauðsynlegt fyrir konu á mínum aldri að vera meðvituð um.

Við fórum líka í vatnsstríð þar sem Bretinn var króaður af inni í áhaldageymslu af Gelgjunni. Til allrar óhamingju fyrir hana hafði Bretinn aðgang af hinum ýmsu hlutum í geymslunni og birtist skyndilega í dyrunum með fulla fötu af ísköldu vatni sem hann skvetti yfir hana þar sem hún stóð á sundbol og átti sér einskis ills von.

Sá Einhverfi tók þátt í vatnsstríðinu þó af veikum mætti væri. Í hvert skipti sem stuttermabolurinn hans fékk skerf af bunu vildi hann fara inn og skipta um bol. Það endaði með því að allir ofnar voru skreyttir eilítið rökum tuskum af Þeim Einhverfa.

Viddi Vitleysingur var sá lakasti af öllum. Hann flúði langar leiðir um leið og einhver beindi að honum vatnsbyssu.

Hann opinberaði sitt litla hjarta enn frekar þessa vikuna og tengdist það bröttum stiga upp á svefnloftið. Hann má þó eiga það að á 2 dögum hleypti hann í sig nægum kjarki til að komast upp stigann af sjálfsdáðum. En niðurferðin var allt önnur ella. Við urðum að taka hann undir handlegginn eins og hvern annan kjölturakka og bera hann niður. Allir fjórir fæturnir stóðu beinstífir út í loftið og maður gat fundið litla hundshjartað ólmast í brjóstinu á honum.

Fyrstu skiptin var ég dauðhrædd um að hann tæki upp á því að láta bununa standa út úr rassgatinu eins og hann gerði eitt sinn er við vorum að reyna að klippa á honum klærnar. Já hann er enginn Ríkharður Ljónshjarta hann Viddi.

Unglingurinn og kærastan kíktu á okkur í tvo daga og annað kvöldið var spilað Actionary með tilheyrandi hlátri en líka reiði- og pirringsköstum. Það er alls ekki gáfulegt að hafa hjón eða pör í sama liði.

Ég var mest móðguð þegar Bretinn skildi ekki kolkrabbann minn. Hreyfingarnar sem ég framkallaði með höndum og fótum hefði átt að kveikja á perunni hjá hverjum sem er.... vil ég meina.

Í sjónvarpinu á svefnloftinu sá ég landsliðið í handbolta spila tvo leiki í Kína-landi og brást illa við þegar hausinn á Bretanum gægðist eitt skipti upp um stigaopið eingöngu til að setja eitthvað út á spilerí minna manna. Hann sá þann kost vænstan að láta hausinn hverfa aftur áður en hann fengi að fjúka. Kellingin var meira en lítið æst.

Á þriðja degi spurði Sá Einhverfi: heim?

Ha? sagði ég. nei, ekki heim strax.

Heim kannski bráðum, sagði hann þá.

Þessu staglaðist hann á þó hann virtist ekki vera ósáttur þar sem við vorum.

En honum leið betur þegar ég gat sagt honum að við færum heim á laugardag. Þá var kominn fastur punktur í tilveruna hjá drengnum.

Og um leið og byrjað var að pakka niður á laugardeginum og bera út í bíl (ana) þá rauk hann út og inn í bíl. Spennti á sig beltið. Sat þar á meðan var verið að ganga frá og þrífa bústaðinn.

Það var greinilega kominn tími til að halda heim. Þar er alltaf best að vera þó að tilbreyting sé kærkomin.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ásdís Sigurðardóttir

Já, þetta hefur lukkast vel, en fóruð þið í alvöru á tveim bílum. Eina skiptið sem ég hef þurft tvo bíla til að komast í Ölfusborgir var þegar við fórum í fyrsta sinn með öll börnin okkar í viku ferð í Ölfusborgir, börnin voru 7 á aldrinum 9.mán til 15 ára og ég var búin að baka fyrir alla vikuna. En við vorum auðvitað hvorki með hund né golfsett, það er ávið 4 börn trúi ég, gott hvað þið skemmtuð ykkur vel og allir komu heilir og sáttir heim. Gangi þér vel í bókaskrifum mín kæra.  Góða nótt Good Night

Ásdís Sigurðardóttir, 19.8.2008 kl. 00:22

2 Smámynd: Jóna Kolbrún Garðarsdóttir

Ég fór alltaf á tveimur bílum í sumarbústaðinn, við vorum 8 farangurinn sem fylgdi okkur var svakalegur, stundum barnavagn, stundum ekki   Svo átti ég ekki stóran bíl, við hjónin vorum alltaf á tveimur bílum. 

Jóna Kolbrún Garðarsdóttir, 19.8.2008 kl. 01:04

3 Smámynd: Sporðdrekinn

Gott að heyra að allt fór vel

Sporðdrekinn, 19.8.2008 kl. 01:15

4 Smámynd: Lilja Guðrún Þorvaldsdóttir

Mér heyrist að það hafi bara verið gaman hjá ykkur, það er gott að heyra, en það er forvitnilegt að vita hvort Ian spyrji ekki bráðum hvort þið farið aftur í sveitina. -

Lilja Guðrún Þorvaldsdóttir, 19.8.2008 kl. 01:35

5 Smámynd: Ómar Ingi

Ómar Ingi, 19.8.2008 kl. 02:27

6 Smámynd: Ragnhildur Jóhanna Barðadóttir

Það er alltaf gaman að lesa bloggfærslurnar þínar. Svo sé ég að fólk er að óska þér góðs gengis með bókaskrifin og er orðin ansi forvitin að vita meira um það. Hlakka alla vega til að sjá bókina og lesa.

Ragnhildur Jóhanna Barðadóttir, 19.8.2008 kl. 02:38

7 Smámynd: María Guðmundsdóttir

hafid greinilega haft thad gott í bústadnum. en já, "no place like home"

María Guðmundsdóttir, 19.8.2008 kl. 04:45

8 Smámynd: Jenný Anna Baldursdóttir

Ég sé ekki betur en að þetta hafi verið hin týpíska sumarbústaðaferð Íslendingsins.  Þekki þetta "only to well". 

Það er gaman að fara í bústað, vera í honum líka, en best að koma heim.

Þannig á það líka að vera.

Jenný Anna Baldursdóttir, 19.8.2008 kl. 08:06

9 Smámynd: Hulla Dan

Jésús Pétur, hvað hefur verið gaman hjá ykkur.

Er ekki bara málið að það er alltaf best að koma heim aftur.

Hulla Dan, 19.8.2008 kl. 08:18

10 Smámynd: Hrönn Sigurðardóttir

.....og hvaða dýr varstu í fyrra lífi?

Hrönn Sigurðardóttir, 19.8.2008 kl. 08:18

11 Smámynd: Helga skjol

Helga skjol, 19.8.2008 kl. 09:37

12 Smámynd: M

Heima er best ... eftir frí

M, 19.8.2008 kl. 10:03

13 Smámynd: Anna Margrét Bragadóttir

Anna Margrét Bragadóttir, 19.8.2008 kl. 10:11

14 Smámynd: Guðrún Jónsdóttir

Nákvæmlega svona eiga sumarbústaðaferðir að vera. 

Guðrún Jónsdóttir, 19.8.2008 kl. 11:36

15 Smámynd: Guðrún Jóhannesdóttir

greinilega draumaferð í bústaðinn, yndislegt að þið skemmtuð ykkur vel og gott að guttinn var sáttur.

Gangi þér vel í skrifunum Jóna mín

Knús

Guðrún Jóhannesdóttir, 19.8.2008 kl. 11:55

16 Smámynd: Dísa Dóra

Þetta hefur greinilega verið alveg frábær sumarbústaðaferð.

Ég hef nú stundum grínast í vinkonu minni hvort hún vilji bara ekki sleppa því að pakka niður dótinu sínu og setja bara keðju í íbúðina í staðinn og draga hana með - hvort sem er meiri parturinn af búslóðínni kominn út í bíl.  Þú ættir kannski að athuga með keðju líka?

Dísa Dóra, 19.8.2008 kl. 11:57

17 Smámynd: Sigríður Hafsteinsdóttir

 Langt síðan maður hefur farið í vatnsslag, best að stefna á það fljótlega bara...

Sigríður Hafsteinsdóttir, 19.8.2008 kl. 12:12

18 Smámynd: Elísabet  Sigurðardóttir

Þetta hefur verið yndisleg ferð. 

Elísabet Sigurðardóttir, 19.8.2008 kl. 13:26

19 Smámynd: Erna

Velkomin heim frábæra fjölskylda

Erna, 19.8.2008 kl. 14:14

20 Smámynd: Jóhanna Magnúsar- og Völudóttir

Jóhanna Magnúsar- og Völudóttir , 19.8.2008 kl. 16:06

21 Smámynd: Guðríður Pétursdóttir

Aumingja Viddi.. viðurnefnið vitleysingur á mjög vel við..

Ég er ekki mikið fyrir ferðalög eða sumarbústaði þannig sér, kannski yfir helgi í mestalagi.. og ég meika ALLS ekki útilegur..

Mé finnst best heima hjá mér...eða mömmu

Það er ekki skrítið að þið þurftuð 2 bíla..það þurfti örugglega að fylla 2 töskur af bolum fyrir þann einhverfa fyrir vatnsstríðið

Guðríður Pétursdóttir, 19.8.2008 kl. 21:18

22 Smámynd: Högni Jóhann Sigurjónsson

Högni Jóhann Sigurjónsson, 19.8.2008 kl. 21:41

23 Smámynd: Kjartan Pálmarsson

Það er hægt að fá rútur á góðu verði í dag:=) Ef þú vilt enga hel..... rútu þá getur þú ábyggilega rekist á langferðabíl á fínum pris ;)

Kjartan Pálmarsson, 19.8.2008 kl. 23:22

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Jóna Á. Gísladóttir
Jóna Á. Gísladóttir

 

 

 Ég er nokkuð dæmigerð íslensk útivinnandi kona. Hef lokið grunnnámi í markþjálfun og gengur betur að hjálpa öðrum við markmiðasetningu en sjálfri mér. Mér lætur líka betur að stjórna öðrum en sjálfri mér. 

 netfangið mitt er jonaagisla@gmail.com

 

 

 

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (23.11.): 0
  • Sl. sólarhring: 4
  • Sl. viku: 8
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 7
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Bloggvinir

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband