Leita í fréttum mbl.is

Flottur texti sem felur í sér áskorun til félagsmálayfirvalda

Ég fékk þennan texta sendan í tölvupósti í dag frá Helgu hálfsystur. Þetta er dásamlegur texti og vakti mig til umhugsunar. En eftir þennan lestur situr líka leiði yfir aðbúnaði aldraðra á Íslandi. Ef öllu eldra fólki gæti liðið eins og konunni í þessari frásögn.. í sátt við sjálft sig, lífið og tilveruna. Það getur verið erfitt ef fólk á ekki til hnífs og skeiðar. Aldrað fólk hefur unnið sér inn þann rétt að lifa áhyggjulausu lífi. Þetta getur vel verið áskorun til félagsmálayfirvalda að bæta kjör aldraðra.

Ég ákvað að þýða þennan texta eftir bestu getu yfir á ástkæra ylhýra og í stað þess að senda hann áfram á 7 vini eins og mér er uppálagt ætla ég að birta hann hér til að leyfa sem flestum að njóta hans. Þetta er einstaklega mannbætandi frásögn að mínu mati og er reyndar afskaplega vel viðeigandi framhald af síðustu bloggfærslu hjá mér.

 

Jafnvel fyrir okkur sem erum ekki svo gömul ennþá, er þetta umhugsunarvert og gott lesefni:

Ung stúlka spurði mig um daginn hvernig það væri að vera gömul. Ég varð forviða því ég hugsa ekki um sjálfa mig sem gamla. Unga stúlkan varð samstundis skömmustuleg þegar hún sá viðbrögð mín, en ég útskýrði fyrir henni að mér þætti þetta áhugaverð spurning. Ég sagðist ætla að hugsa málið vandlega og gefa henni svo svar.

Eftir nokkra umhugsun ákvað ég að hár aldur er gjöf.

Núna er ég, sennilega í fyrsta skipti á ævinni, sú persóna sem ég hef alltaf viljað vera.

O-hó... ekki þó líkaminn. Ég örvænti stundum út af líkamanum mínum; hrukkunum, pokunum undir augunum og signum rassinum. Og oft verð ég forviða yfir gömlu konunni sem á heima í speglinum (og líkist móður minni).

En ég dvel ekki yfir þessum atriðum lengi. Ég myndi aldrei vilja skipta á ótrúlegu vinum mínum, yndislegu lífi mínu eða ástkærri fjölskyldu minni fyrir færri grá hár eða flatari maga.

Eftir því sem aldurinn færist yfir hef ég orðið vinsamlegri við sjálfa mig, og þar með gagnrýnt sjálfa mig minna. Hef orðið minn eigin vinur. Ég skamma ekki sjálfa mig fyrir að borða þessa auka kökusneið eða fyrir að búa ekki um rúmið mitt. Eða fyrir að kaupa þessa kjánalegu eðlu úr steypu, sem mig vantaði ekki en tekur sig svo fjandi vel út á veröndinni hjá mér.

Ég á rétt á að verðlauna sjálfa mig, leyfa mér ýmislegt, vera drusluleg, vera glæsileg.

Ég hef séð of marga kæra vini yfirgefa þennan heim of snemma; áður en þeir skildu hversu dásamlegt frelsið er sem fylgir því að eldast.  Hverjum kemur það við þó ég velji að lesa eða leika mér í tölvunni til klukkan fjögur að nóttu og sofa svo fram að hádegi næsta dag.  Eða ef mig langar til að dansa við sjálfa mig við lögin sem vermdu topp vinsældarlistanna 1960/70. Og ef mig langar um leið að væla yfir glataðri ást.. þá geri ég það.

Ég mun ganga eftir strönd í baðfötum sem eru strekkt yfir misvel staðsett aukakílóin og ég mun stinga mér í öldurnar af vítaverðu kæruleysi ef mig langar, þrátt fyrir samúðarfullt augnaráð þotuliðsins. Þau munu líka verða gömul.

Ég veit að ég er stundum gleymin. En þegar öllu er á botninn hvolft er sumt í lífinu betur gleymt en geymt. Og öllu jafna man ég það sem skiptir máli.


Auðvitað hefur hjarta mitt brostið nokkrum sinnum í gegnum árin. Hvernig er hægt að komast hjá því þegar þú missir einhvern sem þú elskar, barn þjáist eða jafnvel þegar gæludýrið þitt til margra ára verður fyrir bíl og endar lífið?

Brostin hjörtu eru það sem gefur okkur styrk, skilning og samkennd með öðrum. Hjarta sem aldrei hefur brostið er ósnert og dauðhreinsað og mun aldrei kynnast gleðinni í því að vera ófullkominn.

Ég hef verið blessuð til að lifa nógu lengi að sjá hár mitt verða grátt og æskuhlátur minn geymdan að eilífu í djúpu línunum í andliti mínu. Svo margir hafa aldrei hlegið... svo margir hafa dáið áður en hár þeirra fékk silfugráan tón.

Eftir því sem þú eldist, því auðveldara er að vera jákvæður. Þér stendur meira á sama hvað aðrir hugsa. Ég efast ekki um sjálfa mig lengur. Ég hef unnið mér inn réttinn til að hafa rangt fyrir mér.

Svo að hér kemur svarið við spurningunni:

Mér líkar vel að vera gömul. Það hefur frelsað mig. Mér líkar vel við þá manneskju sem ég hef orðið. Ég mun ekki lifa að eilífu, en á meðan ég er hér enn, mun ég ekki eyða tíma í að syrgja hvað hefði getað orðið eða hafa áhyggjur af hvað verður. Og ég ætla að borða ábæti og eftirrétti alla daga ef mig langar til.  

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jenný Anna Baldursdóttir

Ef ég upplifði mig ekki svona helv... unga þá myndi ég tileinka mér þetta.

Að gamni slepptu þá er þetta frábær texti, kannast nefnilega við að refsa mér stöðugt fyrir hitt og þetta, það eru auðvitað forréttindi að hafa heilsu og skemmta sér konunglega.  Brosti í kampinn yfir þessu með "að leika sér í tölvunni á nóttunni" kannast eitthvað pínulítið við það og mun héðan í frá gera það án samviskubits.  Það er ekki eins og það bíði eftir manni barnaskari til að húrra í föt og koma af stað.  Dæs.

Takk fyrir mig.

Jenný Anna Baldursdóttir, 19.11.2007 kl. 17:45

2 Smámynd: Þröstur Unnar

Var eiginlega búinn að setja sama í huganum bloggfærslu í framhaldi af þinni fyrri, um búðinga og bjórvambir á ótvíræðum aldri.

Held ég sleppi því og sitji bara með samviskubit í allt kvöld.

Þetta er svooooo falleg færsla Jóna, takk fyrir.

Þröstur Unnar, 19.11.2007 kl. 17:59

3 Smámynd: Hrönn Sigurðardóttir

.....og Jóna!! Þetta hefst allt um fertugt. Þá byrjaði ég að verða sátt við sjálfa mig!

Svo láttu þig hlakka til ;)

Hrönn Sigurðardóttir, 19.11.2007 kl. 18:08

4 Smámynd: Sunna Dóra Möller

Snilld! Ég hef eitthvað til að hlakka til miðað við þennan lestur! Ég er langt frá þessum stað en vonandi fikra ég mig áfram smátt og smátt ef að Guð leyfir ! Takk fyrir mig !

Sunna Dóra Möller, 19.11.2007 kl. 18:17

5 Smámynd: Ásdís Sigurðardóttir

Það er sko ekkert að því að eldast, þessi saga er algjörlega frábær og svona á fólk að hugsa, þannig er lífið skemmtilegt. Takk fyrir frábæra færslu.  Fat Woman 4 

Ásdís Sigurðardóttir, 19.11.2007 kl. 18:50

6 Smámynd: Katrín Ósk Adamsdóttir

Þetta er svo falleg færsla og engin annar en þú Jóna gæti gert það eftirsóknarvert að eldast

Katrín Ósk Adamsdóttir, 19.11.2007 kl. 19:23

7 Smámynd: Huld S. Ringsted

Falleg færsla og svo mikið til í þessu (þó að ég sé bara 45)

Huld S. Ringsted, 19.11.2007 kl. 19:52

8 identicon

Sæl Jóna.  Mér hefur oft verið hugsað til eldri manns sem vann einu sinni með mér, hann sagði mér það að móðir hans hafi verið lík-klæðsaumari.  Og það sem hún hafi alla tíð sagt honum var að síðustu klæðin okkar hafi ekki vasa á, svo hann ætti ekki að safna aurum heldur njóta þeirra meðan hann gæti.  Því ekki að lifa lífinu meðan maður getur og hefur þrek og orku til.  En ég vona svo sannarlega að það gerist með mig og þig líka:)  Þó maður gráni aðeins ( alltaf til hárlitir) hehhehehe

Magnea (IP-tala skráð) 19.11.2007 kl. 20:54

9 identicon

Jóna, þessi frásögn er yndisleg.  Ég gat nú ekki en brosað út í annað,  þetta með konuna í speglinum sem líkist mömmu   snilld.  Það er náð að fá að eldast og ekki öllum gefin.  Gleðjumst yfir hverjum degi sem við lítum,  því hann er fullur af gjöfum sem við verðum að seilast eftir.   

Rannveig Margrét Stefánsdóttir (IP-tala skráð) 19.11.2007 kl. 21:23

10 Smámynd: Ásta Steingerður Geirsdóttir

Það er sannarlega mikil speki í þessari litlu sögu og segir okkur ansi margt. Það er gott að láta ýta við sér og benda á jákvæðar hliðar þess að eldast. Það er of oft talað um það í neikvæðri merkingu. Takk fyrir

Ásta Steingerður Geirsdóttir, 19.11.2007 kl. 21:24

11 Smámynd: krossgata

Getting there.... það gengur bara svo svakalega hægt. 

krossgata, 19.11.2007 kl. 21:50

12 Smámynd: Guðríður Pétursdóttir

krúttlegt, ég hlakka til að verða gömul sko, það er ekki það, ég bara kvíði því þegar drengirnir fara að heiman og þá verð ég alein á jólunum...

nema að ég finni einhverntíman einhvern kall sem getur þolað mig,þá get ég verið með honum um jólin

Guðríður Pétursdóttir, 19.11.2007 kl. 22:04

13 Smámynd: Dagmar

Bara snilld ! Vona að ég nái að tileinka mér þessa speki þegar árin færast yfir...

Takk fyrir frábæra pistla  þú ert góður penni og greinilega frábær mamma líka !

Dagmar, 19.11.2007 kl. 22:06

14 Smámynd: Högni Jóhann Sigurjónsson

Þetta er frábært.

Enn kom mér í smá tilvistarkreppu, ég miða aldur minn við þroska, sem betur fer - hélt ég.

Högni Jóhann Sigurjónsson, 19.11.2007 kl. 22:52

15 identicon

Sael Jona.

 Eg hef lesid bloggin thin mer til mikillar anaegju og oft verid ad bera saman daglega lifid a Islandi vid thar sem eg by, utfra ymsu sem thu skrifar og svo hefurdu alveg frabaera syn a lifid og folkid i kringum thig.

Mig langar ad bydja thig ad maila til min upprunalegu utgafuna af thessu brefi sem thu birtir her ad ofan, svo eg geti leyft vinum minum her ad njota thess!!! 

Kvedja fra Nyja Sjalandi.

Liney (IP-tala skráð) 20.11.2007 kl. 00:31

16 Smámynd: Jóna Á. Gísladóttir

takk fyrir komment guys. Mér er allavega mikil huggun í þessum texta. Finnst hann frábær og upplífgandi.

Líney. sendu mér línu á jonag@icelandair.is

Jóna Á. Gísladóttir, 20.11.2007 kl. 00:35

17 Smámynd: Hanna

Þú ert yndisleg :)  Takk fyrir allar skemmtilegu og fallegu færslurnar þína :)

Hanna, 20.11.2007 kl. 10:09

18 Smámynd: Sigríður Hafsteinsdóttir

Þetta er einmitt það sem ég hef oft hugsað... Skrifaði einusinni sjálf blogg með yfirskriftinni "Allt er fertugum fært" og reyndi að lýsa því þar að ég hef alltaf, andstætt við margar kynsystur mínar, hlakkað til að eldast. En eitt sem ber að hafa í huga: til að vera sátt og reffileg kelling þarf maður að læra að fyrirgefa og ekki velta sér upp úr biturð og beiskju, það fylgir manni nefnilega upp í efri árin ef maður getur ekki sleppt takinu á því.. Því hef ég tekið eftir á mínum vinnustað og í samskiptum við aðra ellismelli..

Svo hef ég líka margoft rætt við vini mína á elliheimilinu hvað hugarleikfimi skiptir miklu máli til að halda sér virkum.. Man gör vad man kan..

Sigríður Hafsteinsdóttir, 20.11.2007 kl. 13:40

19 Smámynd: Sigríður Hafsteinsdóttir

By the way, ég telst víst ekki ellismellur sjálf, ennþá...

Sigríður Hafsteinsdóttir, 20.11.2007 kl. 13:51

20 Smámynd: Jóna Á. Gísladóttir

Hænan. Takk fyrir það

Sigríður. Beisk gamalmenni er ein sú mesta sóun sem hægt er að hugsa sér.

Jóna Á. Gísladóttir, 20.11.2007 kl. 13:56

21 Smámynd: Margrét Birna Auðunsdóttir

Vá! Ég er nú ekkert sérlega öldruð en ég er mikið búin að vera í þessum pælingum upp á síðkastið. Það hafa nefnilega verið að læðast að mér hugsanir um að kannski fari mér bara ágætlega að vera dálítið mjúk á kroppinn. Ég datt samt ekki á höfuðið, ég held bara að ég hafi fengið sjónina. Ég hef verið í skólakór í nokkur ár með rúmlega tvítugum krökkum sem gætu verið afkvæmi mín miðað við aldur. Eins og gengur í skólakórum eru krakkar að koma og fara og núna eru þau yngstu fædd '87. Aldursmunurinn eykst því sífellt og ég var mjög efins um hvort ég ætti að vera með í vetur eða segja þetta gott. En tímdi því ekki. Þau eru allavega í laginu en hvert öðru yndislegra og betra. Ég ætti að vera með í maganum yfir því að vera hrukkudýrið i hópnum en einhverra hluta vegna er ég það ekki því að á einhvern óútskýranlegan hátt erum við öll jafngömul og vitlaus og það er svo gaman. Ég held að ég sé ótrúlega heppin

Margrét Birna Auðunsdóttir, 21.11.2007 kl. 01:05

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Jóna Á. Gísladóttir
Jóna Á. Gísladóttir

 

 

 Ég er nokkuð dæmigerð íslensk útivinnandi kona. Hef lokið grunnnámi í markþjálfun og gengur betur að hjálpa öðrum við markmiðasetningu en sjálfri mér. Mér lætur líka betur að stjórna öðrum en sjálfri mér. 

 netfangið mitt er jonaagisla@gmail.com

 

 

 

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (24.11.): 2
  • Sl. sólarhring: 3
  • Sl. viku: 11
  • Frá upphafi: 1640376

Annað

  • Innlit í dag: 2
  • Innlit sl. viku: 10
  • Gestir í dag: 2
  • IP-tölur í dag: 2

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Bloggvinir

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband