Leita í fréttum mbl.is

Sá Einhverfi - Sá Einhverfi - Sá Einhverfi - Sá Einhverfi - Sá Einhverfi - Sá Einhverfi

 

Nú er ég að láta skoðanir ókunnugs fólks fara fyrir brjóstið á mér. Afhverju ætli maður geri það? Er það vegna þess að þegar allt kemur til alls er sjálfsmynd okkar byggð á áliti annarra?

Í þessu, eins og svo mörgu öðru, er hárfín lína á milli öfga og þess sem eðlilegt getur talist. Það er ekki nema eðlilegt að álit okkar nánustu hafi áhrif á mann. Svo getur það aftur á móti farið út í öfgar.

Ég get ekki annað en velt því fyrir mér hvernig standi á því að skyndilega, eftir að hafa verið nær daglega með bloggfærslu í 5 mánuði,  komi allt í einu upp þessi gagnrýni. Allt í einu er orðið áberandi í kommentakerfinu hjá mér hvað það fer fyrir brjóstið á sumum að ég skuli kalla son minn Þann Einhverfa.

Þessi færsla er ekki til að útskýra þessa nafngift á einn eða annan hátt. Ég er aðeins að velta því fyrir mér afhverju í ósköpunum mér finnist ég þurfa að verja þetta orðalag fyrir ókunnugu fólki. Fólki sem greinilega hefur ekki sama húmor og ég, ekki sömu sýn á lífið, og greinilega ekki sömu reynslu.

Sonur minn heitir Ian Anthony. Hann er skírður Ian út í loftið og Anthony eftir pabba sínum. Fyrsta baráttan sem ég háði fyrir Ian var við mannanafnanefnd. Hann hét Drengur í þjóðskrá fram til 2ja ára aldurs. Þegar þeirri baráttu lauk með sigri eftir mikla þrjósku af minni hálfu tók við annars konar barátta. Og hún mun ekki taka enda fyrr en ég er öll. Því miður.

Ian er yndislegur gutti. Hann er stórskrýtinn og gefur lífinu alla liti regnbogans. Ég er afar þakklát fyrir að fá að kynnast þessum skrýtna dreng og upplifa að lífið er aldrei bara svart eða hvítt. Hann er endalaus uppspretta hláturs. Stundum vegna þess að hann er einfaldlega fyndinn og stríðinn. Stundum vegna þess að hann er svo skrýtinn. Skrýtinn á mælikvarða okkar hinna sem teljum okkur ''normal''.

Í bloggheimum heitir Ian Sá Einhverfi. Þeir sem hafa eitthvað við það að athuga getið heimsótt aðrar bloggsíður en mínar. Nóg er af þeim.

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Kolbrún Jónsdóttir

Jóna mín, mér finnst það svo eðlilegt að þú kallir Ian, þann einhverfa.  Láttu ekki ókunnugt fólk hafa neikvæð áhrif á þig.  Einhverfir eru yndislegt fólk.

Kolbrún Jónsdóttir, 1.9.2007 kl. 22:56

2 Smámynd: Ragnheiður

Ég verð kyrr hér enda langt í hneykslunarþráðinn í mér. Hann fór fyrir löngu úr sambandi ásamt fleiri ættingjum ss dómhörku og illgirni.

Hafðu það sem best mín kæra vinkona og ég bið að heilsa Bretanum, Gelgjunni og Þeim Einhverfa.

Ragnheiður , 1.9.2007 kl. 22:58

3 Smámynd: Hrönn Sigurðardóttir

knús á þig og þann einhverfa

Hrönn Sigurðardóttir, 1.9.2007 kl. 22:59

4 Smámynd: Hulda Bergrós Stefánsdóttir

Þín fjölskylda er bretinn, gelgjan, unglingurinn og sá einhverfi í bloggheimum og öðrum varðar bara ekkert hve þeirra réttu nöfn eru

En það er svo skrítið að alltaf skulum við detta í þann drullupoll með hvað öðrum finnist um okkur í staðin fyrir að baða okkur í hreinu lindinni og láta okkur fátt um finnast hvað aðrir hugsa

Á meðan mér og mínum líður vel þá þarf ég ekki að hafa áhyggjur af skoðunum annarra á mér eða réttlæta hvað öðrum finnst um mig

Hulda Bergrós Stefánsdóttir, 1.9.2007 kl. 23:00

5 Smámynd: Hallgrímur Óli Helgason

þú ert greinilega yndisleg kona,

Hallgrímur Óli Helgason, 1.9.2007 kl. 23:11

6 identicon

Ég verð að kommentera á þetta. Ég á yndislegan einhverfan son, stórundarlegan, fyndinn, fallegan og bara fallegustu lífsins gjöf.

Þennan dreng kalla ég oft "stór furðulegan" einfaldlega af því að hann er það í öllum sínum skringilegheitum. Fáir, enginn hefur fengið mig, dætur mínar, vini okkar og Christian minn sjálfan til að hlæja jafnmikið.

Stundum horfi ég drenginn minn og hugsa: Hvað er að gerast í höfðinu á þér ? Stundum langar mig þarna inn í skipulagða ruglið og stundum öfunda ég hann. Einfaldlega af því að lífið hans er svo einfald í þessari skrítnu skipulagningu, kröfulaust og það þarf svo lítið til að gleðja þessa fallegu þroskaheftu og einhverfu sál.

Til hamingju með "Þann einhverfa".

Sigríður

Sigríður Aðalsteinsdóttir (IP-tala skráð) 1.9.2007 kl. 23:12

7 Smámynd: Þóra Sigurðardóttir

Jóna , ég stend með þér og mundu þegar þú ert að láta álit ókunns fólks (sem ég er auðvitað) hafa áhrif á þig að "margur hefði getað orðið vitur hefði hann ekki haldið sig vera orðinn það"

Af bloggi þínu hér finnst mér þú frábær

Þóra Sigurðardóttir, 1.9.2007 kl. 23:13

8 identicon

Mér finnst það bara vera þitt hvað þú kallar fjölskyldumeðlimi þína. Kemur okkur hinum ekkert við 

Bryndís R (IP-tala skráð) 1.9.2007 kl. 23:18

9 Smámynd: Jóna Á. Gísladóttir

Erlingur. híhí já ég sé það að þér hefur fundist það svolítið sérstakt

Kolla mín ég veit. Sjáumst við ekki allavega einu sinni enn ?

Ragnheiður. Elsku Ragnheiður. Ég fékk eiginlega bara tár í augun þegar ég sá þig hér. Þú sterka flotta kona. Takk.

Hrönn. knús til þín líka

Hulda Bergrós. Þetta er rétt hjá þér. Ég ætla að muna þetta

Hallgrímur. Ég veit það nú ekki. Ég á mér ansi dökkar hliðar

Sigríður. Takk innilega fyrir komment. Ég sé að þú upplifir þetta nákvæmlega eins við í þessari fjölskyldu. Ég þekki þetta svo vel sem þú talar um; að spái í hvað sé að gerast í höfðinu á honum. Við erum greinilega heppnar báðar. Það eru svo margir einhverfir vansælir. Á meðan drengirnir okkar hlæja þá munum við svo sannarlega hlæja líka.

Þóra. Takk fyrir það. Góður vísdómur þarna

Jóna Á. Gísladóttir, 1.9.2007 kl. 23:20

10 Smámynd: Marta B Helgadóttir

Flott þetta!  knúþ til þín þæta þtelpa - ég er ánægð með þig

Marta B Helgadóttir, 1.9.2007 kl. 23:23

11 Smámynd: Huld S. Ringsted

Mér finnst bara krúttlegt að þú skulir kalla hann Þann einhverfa, hef aldrei getað séð neitt athugavert við það. Fordómar eru sprottnir af þekkingarleysi og fólk sem vill ekki fræðast um hluti fyrir utan "normið" getur bara haldið sig annarstaðar.

Huld S. Ringsted, 1.9.2007 kl. 23:27

12 Smámynd: Halla Rut

Það er svo merkileg að þrátt fyrir að 100 mans hrósi þér þá hafa þessir 2 eð a 3 mest áhrif á þig. Sínir hversu óörugg við erum og viðkvæm fyrir gagnrýni. 

Elska skrif þín og ég þekki þann einhverfa, gelgjuna og Bretann mjög vel. Er búin að sjá fyrir mér hvernig þau líta út og þau eru persónur í mínu lífi. Þannig að þú sérð hvað þú ert góður penni. Þú talar um þau í þriðju persónu til að virða þeirra einkalíf. Þú gerir nafngiftina "einhverfur" að eðlilegum hlut og þannig er þú að leggja tromp í baráttu gegn fordómum. VEI fyrir þér, mér finnst þú frábær. 

Halla Rut , 1.9.2007 kl. 23:27

13 identicon

Jóna - elsku Jóna - þú veist hvar þú hefur mig í þessu máli. Endurtek það hér: Lít á þetta sem stílbrigði. Finnst eiginlega stórundarlegt að einhverjir skuli horfa neikvæðum augum á þessa nafngift. Ég vona að þú haldir áfram að nota þennan stíl sem gefur blogginu þínu sérstakan, persónulegan og skemmtilegan blæ og gerir það að verkum að við hlökkum til og bíður alltaf spennt eftir að sjá nýja færslu frá þér. Þú ert frábær - svona - nákvæmlega svona 

Anna Ólafsdóttir (anno) (IP-tala skráð) 1.9.2007 kl. 23:29

14 identicon

Halla Rut hefur nokkuð til sín máls.. við könnumst öll við þetta.. flestir hrósa.. en maður man mest eftir þessu eina lasti.. hvað er þetta með okkur?

Jóna u r our women... og lestu það og trúðu því..

Björg F (IP-tala skráð) 1.9.2007 kl. 23:30

15 Smámynd: Guðríður Hrefna Haraldsdóttir

Ef þú kallaðir hann Ian og segðir frá einhverju sniðugu og óvenjulegu sem hann gerði myndi ókunnugt fólk eflaust spyrja þig hvort hann væri heilbrigður o.s.frv. Ég kalla son minn alltaf erfðaprinsinn á eigin bloggi! Bíð spennt eftir að einhver skammi mig fyrir það ... Þú ert búin að opna lesendum þínum inn í heim sem þeir eiga ekki að venjast flestir og það er bara frábært. Mér er a.m.k. farið að þykja voða vænt um fjölskylduna þína í gegnum bloggið! Haltu ótrauð áfram. 

Guðríður Hrefna Haraldsdóttir, 1.9.2007 kl. 23:32

16 Smámynd: Jóna Á. Gísladóttir

Elskurnar mínar. Ekki misskilja mig. Hvert einasta komment frá ykkur gleður mig (nema you know...). Er þakklát fyrir hvert og eitt einasta. En það er rétt; ekki bloggaði ég um alla mína frábæru bloggvini og þeirra komment. híhí. Þannig að það er rétt, þessir fáu neikvæðu hafa áhrif. of mikil. En ég náði því út úr systeminu með því að blogga um það og svo með öllum þessum stuðningi. Takk elskurnar. Þið eruð alveg yndisleg.

Jóna Á. Gísladóttir, 1.9.2007 kl. 23:34

17 Smámynd: Jóna Á. Gísladóttir

Gurrí. hehe þú átt örugglega eftir að fá spurningar eins og: er blátt blóð í æðum þinnar fjölskyldu. Hvað mun sonur þinn erfa. Nú? Ekki nema íbúðina. Og ekkert blátt blóð. Afhverju kallarðu hann þá erfðaprins??

Jóna Á. Gísladóttir, 1.9.2007 kl. 23:36

18 Smámynd: Jenný Anna Baldursdóttir

Ég segi eins og Anna, þú veist hvað mér finnst.  Ég viðurkenni líka fúslega að eiga mína slæmu daga þar sem ég er auðsærð af fólki sem mér má í léttu rúmi liggja.  Þannig er það bara.  Ég nefni stelpurnar mínar með ákveðnum greini því í mínum huga er bara til ein Helgan, ein Maysan og ein Saran, svo má fólki þykja hvað því vill.

Er stolt af þér og þínum skrifum. Knús í kremju.

Jenný Anna Baldursdóttir, 1.9.2007 kl. 23:37

19 Smámynd: Georg Eiður Arnarson

Til hamingju með þann einhverfa.

Georg Eiður Arnarson, 1.9.2007 kl. 23:39

20 Smámynd: Hólmgeir Karlsson

Elsku besta Jóna, hafðu engar áhyggjur af þessum skoðunum "sumra" hér á blogginu. Þú kallar drenginn þinn þann einhverfa hvað sem hverjum finnst. Veröldin er svo skrítin stunfum, og þar er bloggveröldin ekkert undanskilin. Allt í einu er eins og allt fyllist af alvitrum siðapostulum sem vita allt betur en maður sjálfur og jafnframt þeir einu sem þekkja siðareglurnar og þeir sem hafa leifi til að dæma allt og alla.

Þú ert bara YNDISLEG Jóna og það er hreint frábært að fylgjast með hvernig þú tekst á við lífið með þinni fjölskyldu með alvöruna og léttleikann sem samferðamenn. Láttu þér ekki detta í hug að láta svona raddir hafa áhrif á þig því þetta er bara sprottið af einhverri innantómkennd hjá öðru fólki að nagast útí þetta orðaval þitt.

Þú ert hetja Jóna, stafað H E T J A, og þú heldur áfram að ferðast um bloggheima með bretann, gelgjuna og þann einhverfa þér við hlið :):)

Sendi ykkur öllum mínar bestu kveðjur og hvatningu til fleiri sigra á undrum og upplifunum lífsins.

Þinn bloggvinur Hólmgeir

Hólmgeir Karlsson, 1.9.2007 kl. 23:41

21 Smámynd: Katrín Snæhólm Baldursdóttir

Jóna....þetta er þín fjölskylda og þú métt alveg tala um hana alveg eins og allir aðrir gera á blogginu. Nema þarna er í ykkar fjölskyldu lítill yndilsegur drengur sem er einhverfur. Því verður ekki breytt. Þarna er líka Breti og Gelgja. Og það sem þú hefur gert með skrifum þínum er að opna leið inn í hvernig lífið er alls ekki eins hjá okkur öllum. Við erum öll hvert á sinn hátt að takast á við alls konar hluti.  Segi bara takk fyrir að gefa okkur innsýn....skiptir engu máli þó einstaka mannvera skilji ekki eða meðtaki ekki. Það skín hreint og tært í gegnum skrif þín hvað þú elskar strákinn þinn mikið.

Það er t.d mikið farið í offorsi um mig á síðu manns sem er vantrúarmaður.....hann sér bara allt illt í mér fyrir að tala um drekaflugu.

Haltu áfram á þinni braut...það er bara óverjandi að láta gamlan hugsunarhátt sitja fyrir framförum og skilningi. Þú ert að leggja þitt lóð á vogarskálarnar og það skiptir máli. Þú ert bara frábær og horfðu bara...nei einblíndu á allt það sem er satt fyrir þér og láttu hitt lönd og leið.

Knús frábæra kona!!!!

Katrín Snæhólm Baldursdóttir, 1.9.2007 kl. 23:53

22 Smámynd: Þröstur Unnar

Frábært hjá þér Jóna. Vonandi heldur þú bara áfram með þín skemmtilegu, húmorsríku og fræðandi innlegg í bloggið.

Þröstur Unnar, 1.9.2007 kl. 23:54

23 identicon

Sá einhverfi er dásamlegur strákur og gaman að hafa "kynnst"honum í gegnum bloggið þitt.Haltu bara áfram að kalla hann þann einhverfa. Mér þykir orðið svo undur vænt um þennan skemmtilega gutta. Ég var einu sinni með einhverfan gutta í stuðningi og það var mjög krefjandi, gefandi og skemmtilegt. Áfram á sömu braut. Þú ert bara frábær.

Birna Dis Vilbertsdóttir (IP-tala skráð) 1.9.2007 kl. 23:58

24 identicon

Ég hef verið að lesa bloggið þitt og segi nú bara til hamingju með skrifin þín og þann Einhverfa

Ef allir væru eins og þú að sjá spaugilegu hliðina á lífinu og tilverunni þá væri öruggleg annað viðhorf í heiminum.  Það að eiga einhverft barn er ekki alltaf auðvelt en einhverfa er ákafleg mismunandi og einstaklingsbundið hvernig hún birtist hjá hverjum og einum eins og þú veist eflaust.  Þeir sem gagnrýna þig fyrir þetta .... ég segi bara áts aumingja þau.   Haltu áfram að vera þú sjálf og ég vil lesa meira um Gelgjuna, Bretann og þann Einhverfa

Rannveig Margrét Stefánsdóttir (IP-tala skráð) 2.9.2007 kl. 00:07

25 Smámynd: Ásdís Sigurðardóttir

Ég er að velta því fyrir mér hvort fólk sem skilur ekki að þú kallir Ian einhverfan, sé sama fólkið sem vill loka "öðruvísi einstaklinga" inni á stofnunum til að þurfa ekki að sjá þá og þannig sé ekkert "skrítið " fólk til

Ásdís Sigurðardóttir, 2.9.2007 kl. 00:10

26 Smámynd: Kristín Katla Árnadóttir

Guð Jóna mín mér mér finnst þú yndisleg manneskja ég er oft að hugsa til þín með elsku drenginn  það sem ég er að glíma með minn langveika barn mitt sem ég veit ekki hvað hann lifir lengi þá er ég dauðhrædd um hann hann er komin í hjólastól hann er er langveikur þess i elska sem þykir væntum mig hann elskar mig þessi elska mudu að ég hugsa alltaf il þín.

Kristín Katla Árnadóttir, 2.9.2007 kl. 00:11

27 identicon

Frábært blogg hjá þér og sá einhverfi er greinilega algjörlega frábær og nöfnin á þínu fólki bara snilld. Hlakka tila að lesa meira.

lesandi (IP-tala skráð) 2.9.2007 kl. 00:14

28 identicon

Eg á einhverfan son og er mjög stolt af honum, ad kalla son þinn einhverfan finnst mer ekki rétt

lisa (IP-tala skráð) 2.9.2007 kl. 00:17

29 Smámynd: Hugarfluga

Blessuð góða, blástu á svona komment.  Ekki láta "ókunnugt fólk út'í bæ" koma þér úr stuði með tuði. Haltu áfram að skrifa frá eigin hjarta, um eigin upplifanir og láttu skoðanir sjálfskipaðra prófarkalesa vera einmitt það; ÞEIRRA skoðanir.

Ég náði í tilvitnanabók og greip niður í henni ... viss um að mómentið myndi leiða mig á eina góða tilvitnun þér til handa ... opnaði bókina, lokaði augunum og lét puttann lenda á síðunni:

"Hundur bítur ekki með rófunni." 

Hmmm ... oh well. Better luck next time, baby.

Hugarfluga, 2.9.2007 kl. 00:20

30 Smámynd: Katrín Snæhólm Baldursdóttir

Af hverju má ekki kalla einhverfan einstakling einhverfan???

Ég skil barasta ekkert í svona rökum eins og hér á undan. Ofvirkir eru sagðir ofvirkir...fók með hálsbólgu er sagt með hálsbólgu....Furðuleg viðhorf.

Katrín Snæhólm Baldursdóttir, 2.9.2007 kl. 00:23

31 Smámynd: Brattur

Jóna... þú ert svo hrein og bein eins og þú ert... þess vegna finnst mér gaman að lesa það sem þú skrifar úr daglega lífinu þínu... að vera trúr sjálfum sér er aðalatriðið þegar upp er staðið... haltu þínu striki...

Brattur, 2.9.2007 kl. 00:25

32 Smámynd: Vilborg

Haltu bara áfram á þinni braut. Ekki láta þessar örfáu hræður, sem ekki geta lesið þetta blogg með opnum huga, pirra þig.  Finn fyrir stoltinu og kærleikanum sem þú leggur í orðin: Bretinn, Gelgjan og Sá Einhverfi...einfaldlega frábært hjá þér

Lisa: ég á barn með sérþarfir s.s Tourette, ofvirkni, athyglisbrest, röskun á einhverfurófi og ýmislegt annað og mér finnst betra að nefna það sínum réttu nöfnum og vil að fólk í kringum hann viti af því, þannig er hægt að koma í veg fyrir mikinn miskilning og árekstra. Elska hann út af lífinu og er mjög stolt af honum!

Vilborg, 2.9.2007 kl. 00:43

33 Smámynd: Vilborg

Vistaði of snemma

Ef Jóna kallaði Ian einhverju öðru en sá einhverfi, þá væri ég mikið búin að pæla í því hvort að það væri eitthvað að td. einhverfa eða eitthvað annað....þarna er búið að upplýsa okkur á frábæran máta um þennan dreng sem er greinilega algjör perla! 

Vilborg, 2.9.2007 kl. 00:47

34 Smámynd: Ingólfur Ásgeir Jóhannesson

Hæ, Jóna, ég er einn af þeim sem ætla að fá að njóta þess að lesa sögur þínar og frásagnir, njóta stílsins og frásagnargleðinnar og því sem gefur innsýn í þitt líf. Það gerir heiminn betri, það er ég sannfærður um.

Ingólfur Ásgeir Jóhannesson, 2.9.2007 kl. 00:52

35 Smámynd: Guðríður Pétursdóttir

Mér hefur bara fundist þetta svo heimilislegt og krúttlegt..

we all love you og þann einhverfa

Guðríður Pétursdóttir, 2.9.2007 kl. 01:10

36 identicon

Auðvitað er Sá einhverfi Sá einhverfi! Hvað annað ætti hann svo sem að vera?! There are many strange things in a cow's head. 

Steini Briem (IP-tala skráð) 2.9.2007 kl. 01:30

37 Smámynd: krossgata

Eins og ég hef oft sagt áður þá finnst mér þetta heimilislegt og hlýlegt.  Eitt af því sem gerir þig þig. 

Gurrý kom nú líka með góðan punkt, af hverju agnúast fólk ekki út í aðrar nafngiftir eins og erfðaprinsa, smiði, rafvirkja, pjattrófuna.  Það er annar hver bloggari sem setur einhvern sem talað er um í 3ju persónu.  Er það kannski bara þegar sagt er sá einhverfi, sá ofvirki, sá lesblindi osfrv. sem að það fer fyrir brjóstið á fólki að notuð séu viðeigandi orð?  Það að nota rétt orð útskýrir margt ef ekki allt í einu orði.  Getur bara ekki verið þægilegra bæði fyrir höfund og lesendur.  Bestu þakkir. 

krossgata, 2.9.2007 kl. 01:53

38 Smámynd: Laufey Ólafsdóttir

Barátta við mannanafnafasistana? Láttu mig þekkja það! Dóttir mín er skírð Tara Jelisha en ég fæ ekki seinna nafnið samþykkt undir neinum kringumstæðum! Ég varð á endanum að gefast upp því ég gat ekki látið barnið heita Stúlka Laufeyjardóttir á vegabréfinu. Hvað gerðir þú til að fá þetta í gegn? Maður fær ekki einusinni viðtal við þetta lið

Sá einhverfi er annars greinilega yndislegt barn og þið fjölskyldan hans líka! 

Laufey Ólafsdóttir, 2.9.2007 kl. 08:02

39 Smámynd: Gunnhildur Inga Rúnarsdóttir

Mér þykir svo gaman að lesa um þessa stórkostlegu fjölskyldu þína Jóna.  Það er ekkert skemmtilegt að vera eins og allir aðrir. Lífið verður frekar tilbreytingalaust þannig.

Ég yrði örugglega fljótt leið á sjálfir mér ef ég væri ekki eins furðuleg og ég er.

Gunnhildur Inga Rúnarsdóttir, 2.9.2007 kl. 08:13

40 identicon

Ég sé ekki hvað það kemur öðrum við hvað þú kallar þína fjölskyldumeðlimi. Það skín úr þér væntumþykja og hlýja ... og það er einföld ástæða fyrir því af hverju þú ert svona vinsæl hér: þú ert þú sjálf, einlæg og opin.

Ekki láta einhvern einn eða tvo pirra þig - hlustaðu frekar á okkur hin.  

Doddi - Þorsteinn G. Jónsson (IP-tala skráð) 2.9.2007 kl. 09:15

41 Smámynd: Gunnar Helgi Eysteinsson

Mér finnst þú vera frábær, skil nákvæmlega hvað þú átt við og ég stend með þér 100%

Ég ætla samt að segja þetta:Það er afskaplega létt að verða miskílinn hér á blogginu. Eitt orð + Enter og þú ert stimplaður. Ég er að hugsa um þennan mann sem vogaði sér að setja út á að þú notaðir orðið einhverfa á son þinn. Ég hef ekki hugmynd um hvort blogg gesturinn var "vondur" eða bara óvitandi um að þetta gæti verið særandi. En ég vill samt reyna skilja hans hlið á þessu máli.

Áður en ég eignaðist son sem er með einhverfu og þroskaheftu, þá voru þetta ljót orð í mínum huga. (Fáfræði og heimska frá minni hálfu) Þess vegna gat það farið í mig ef einhver notaði þessi orð t.d. sá þroskahefti, sá einhverfi  os.fr. Sonur minn veit að hann er einhverfur og þroskaheftur og hann skammast sín ekkert fyrir það. Þegar krakkar eða fullorðnir spyrja; Hvað er að þér drengur. Þá getur bróðir hans sagt: Hann er þroskaheftur. Flestir horfa bara á hann forviða en hann hefur líka verið skammaður fyrir að nota svo ljót orð um bróðir sinn.

það sem ég á við er að þetta var kannski bara fáfræði hjá blogg gestinum og núna situr hann fyrir framan tölvuna og skammast sín... ég vona það og ég vona líka að hann láti í sér heyra.

Es. Ekki miskilja mig.

Gunnar Helgi Eysteinsson, 2.9.2007 kl. 10:48

42 Smámynd: Gúrúinn

Mér finnst svona nafngiftir fínar. Fyrir löngu síðan á öðru bloggi kallaði ég vin minn og vinnufélaga "Andsetann" enda sat hann andspænis mér. Enn þann dag í dag þekkist hann undir því nafni og sumir félaga minna vita ekki hans rétta nafn. 

Það er reyndar nokkuð eðlilegt að maður vilji halda smá nafnleysi á netinu, sér í lagi á þessum síðustu og verstu. Maður veit jú aldrei hver les mann. Það eru alls kyns perrar á sveimi (sbr. Barnalandsmyndirnar sem dúkkuðu upp á rússneskum barnaníðingssíðum). Því er ekki óeðlilegt að maður nafngreini ekki fjölskyldumeðlimi (amk ekki til að byrja með og síðan  festast þessi nörn á þeim).

Ég hef t.d. alltaf talað um Konuna, Soninn og Dótturina þegar ég blogga um mín fjölskyldumál. Mun halda því áfram.

Og ég mun halda áfram að lesa færslurnar þínar um þann Einhverfa, Gelgjuna og Bretann (og kannski laumast færsla um litlu rasista-konuna ).

Gúrúinn, 2.9.2007 kl. 10:48

43 Smámynd: Halla Rut

Einmitt Gunnar þetta er málið.

Til hamingju Jóna með titilinn hjá Gunnari...lesið hér

Jóna er ekki bara góður penni heldur góður karakter og sterk persóna. Hún getur jafnt verið ljúf, góð og skilningsrík sem og kaldhæðin og fyndin. Besta mix sem til er.

Minn "einhverfi" sem er næstum því fimm ára sagði áðan "Addi (litli bróðir hans) koma leika. Og er það í fyrsta skipti í ca 2 mánuði sem hann bætir við sig nýju orði (leika). Góð byrjun á degi.

Halla Rut , 2.9.2007 kl. 11:01

44 Smámynd: Helga Auðunsdóttir

Einhvernveginn, hefur mér fundist þetta allt mjög eðlilegt, hér á heimilinu eru börnin sjaldnast kölluð sínu nafni, og alskonar gælunöfn komið miðað við karaterinn hjá hverjum og einum. En hvað um það ég styð þig heilshugar í þessu og skil ekki afhverju fólk er að amast við þessu.

Helga Auðunsdóttir, 2.9.2007 kl. 11:30

45 Smámynd: Björg K. Sigurðardóttir

Jóna mín, þú skrifar af ást og virðingu um drenginn þinn og fræðir okkur hin í leiðinni um einhverfu og gefur okkur innsýn inn í heim sem við kannski fæst þekkjum. Skrifaðu eins og þér sýnist og kallaðu þitt fólk það sem þú vilt - þannig  á það að vera

Björg K. Sigurðardóttir, 2.9.2007 kl. 11:31

46 Smámynd: Bjarndís Helena Mitchell

Váááá, gat ekki lesið öll kommentin..en mig langaði bara að segja að mér finnist bara fullkomlega eðlilegt að nefna drenginn þessu nafni, segir í hnotskurn allt sem segja þarf, algjör óþarfi að nafngreina líka. Mínir strákar eru t.d. "hæfileikaríki gelgjugrísinn", "miðjustrákurinn minn" og "litli sjálfstæðismaðurinn". Ég vil ekki nafngreina þá einfaldlega vegna þeirra sjálfra. Óþarfi að gera það líka. Öllum kemur ekki allt við, einfalt.... Mér finnst gaman að lesa bloggið þitt, því þú ert frábær penni með húmor í lagi. Þú ert fín eins og þú ert og kærðu þig kollótta um eitthvað annað fólk og þeirra skoðanir....Knús í kremju frá mér.

Bjarndís Helena Mitchell, 2.9.2007 kl. 13:35

47 Smámynd: Þórdís Guðmundsdóttir

Það var akkúrat það að þú skyldir nefna soninn þinn þessu heiti sem leiddi mig hingað inn á þessa síðu hér einu sinni og tel ég það mikið happaspor!  Mér finnst í góðu lagi að láta vita að dóttir mín sé einhverf, eiginlega miklu betra en að þegja þunnu hljóði.  En ég þekki það að fólki finnst þetta stundum óþægilegt.  Þegar dóttirin fékk frumgreininguna að hún gæti hugsanlega verið einhverf var áfallið náttúrlega gífurlegt.  Við þróuðum með okkur ákveðinn húmor sem gekk um tíma dálítið út á einhverfubrandara, auðvitað á okkar kostnað.  En ég man að einni manneskju fannst þetta skrítið og spurði hvernig við gætum verið að grínast með þetta.  Svarið var að að hinn valkosturinn við að grínast með þetta væri að háskæla og okkur fannst þetta mun betri lausn.  Það er gott og nauðsynlegt að draga svona hluti í umræðuna.  Haltu áfram og stay strong!

Þórdís Guðmundsdóttir, 2.9.2007 kl. 14:12

48 Smámynd: halkatla

ekki láta teprurnar draga þig niður, það er hægt að finna að og kvarta yfir öllu, meiraðsegja einhverju svona ég bara skil ekki sumt fólk. En þú heldur þínu striki - kveðjur til þín og þinna, þ.e.a.s fólksins með sniðugu nafngiftirnar

halkatla, 2.9.2007 kl. 14:42

49 Smámynd: Ómar Ingi

Elsku Jóna

Ekki láta einhverja vitleysinga vera pirra þig og mundu fólk er fífl.

Þú kallar eða skrifar um barnið þitt og aðra fjölskyldumeðlimi eins og þér sýnist.

Halltu áfram ótrauð að skrifa þú ert penni af guðs náð, littla krúsidúlla

Ómar Ingi, 2.9.2007 kl. 14:58

50 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Ég og Míó minn stöndum með þér og hinum Einhverfa!.

Sigurður Þór Guðjónsson, 2.9.2007 kl. 15:01

51 Smámynd: Hjalti Garðarsson

Eitt skalti læra af þessu.  Það skiptir ekki rassgat máli hvað öðrum finnst um þig eða hvað þú segir.  Á meðan þú ert með það sjálf á hreinu, þá geta allir sem ekki eru sammála hoppað þangað sem sólin aldrei skín.

Þú ert bara æðisleg, aldrei gleyma því.

Hjalti Garðarsson, 2.9.2007 kl. 15:29

52 identicon

Æi Jóna mín ! Viltu skrifa áfram um Ian á blogginu mér finnst þú skrifa svo skemmtilega og fallega um hann einmitt þannig að manni er farið að þykja vænt um hann og mér finnst "Sá Einhverfi" svoooo sætt. 

skondrumamma (IP-tala skráð) 2.9.2007 kl. 15:46

53 Smámynd: Benedikt Halldórsson

Þú átt minn stuðning, en stundum þegar maður sér allt hrósið í kommentakerfinu þínu hefur maður svo sem ekkert við það að mæta enda alveg sammála flestu. En ég held, að þegar þú eða bara hver sem er nær visssum vinsældum verður sumt fólk gagngrýnið og leiðinlegt, bara til að segja eitthvað annað. En það verður bara hver að blogga eftir sínu höfði og engin á að segja neinum fyrir verkum. Láttu bara innsæið ráða!

Benedikt Halldórsson, 2.9.2007 kl. 15:46

54 Smámynd: Benedikt Halldórsson

Þú átt minn stuðning, en stundum þegar maður sér allt hrósið í kommentakerfinu þínu hefur maður svo sem engu við það að mæta enda alveg sammála flestu. En ég held, að þegar þú eða bara hver sem er nær visssum vinsældum verður sumt fólk gagngrýnið og leiðinlegt, bara til að segja eitthvað annað. En það verður bara hver að blogga eftir sínu höfði og engin á að segja neinum fyrir verkum. Láttu bara innsæið ráða!

Benedikt Halldórsson, 2.9.2007 kl. 15:52

55 Smámynd: Högni Jóhann Sigurjónsson

Hugarfluga! þetta er málið í þessari umræðu "hundur bítur ekki með rófunni"

Högni Jóhann Sigurjónsson, 2.9.2007 kl. 15:56

56 Smámynd: Benedikt Halldórsson

...sjálfu blogga ég nánast ekkert um mitt persónulega líf. Ég treysti mér ekki til þess, þó lifi ég bara reglusömu og góðu lífi, það er ekki málið. Ég dáist að hugrekki fólks eins og þér Jóna sem þorir, og hefur kjark til að koma til dyranna eins og það er klætt, þannig séð.

Benedikt Halldórsson, 2.9.2007 kl. 15:59

57 Smámynd: Jens Guð

  Færslurnar um Þann einhverfa hafa einungis dregið upp jákvæða mynd af drengnum - og þar með af einhverfu fólki almennt. 

  Ég hafði ekki hugmynd um að einhverf börn gætu verið svona fyndin og skemmtileg fyrr en ég las færslurnar þínar um hann.   Þetta er bara flott hjá þér.   

Jens Guð, 2.9.2007 kl. 16:57

58 Smámynd: Gunnar Helgi Eysteinsson

100% sammála þér Jens

Gunnar Helgi Eysteinsson, 2.9.2007 kl. 17:04

59 identicon

Jóna

Þú ert einhver ferskasti bloggarinn, ekki síst vegna efnistaka þinna og umræðu.  Vonandi heldur þú áfram að vera fersk og skemmtileg í skrifum þínum.

Ég vann lengi með einhverfum einstaklingum og þekki því vel að "Einhverfir" eru jafn fjölbreytilegir einstaklingar og þeir einstaklingar, sem ekki hafa á sér neinn sérstimpil.

Við erum bæði foreldrar, við erum bæði Íslendingar, við búum bæði á höfuðborgarsvæðinu, við erum bæði fjölskyldufólk og svo má lengi áfram að telja.  Þetta eru allt saman stimplar, sem eiga að gera okkur eins.  Því fer hins vegar víðs fjarri.  Við erum einstaklingar og við erum ekki alveg eins og allir hinir !  Við erum við og verðum aldrei alveg eins og allir hinir né hinir eins og við.

Það er ekki út í hött að eiga sér kennitölu, því hana eigum við ein !

Kristinn Dagsson (IP-tala skráð) 2.9.2007 kl. 18:20

60 Smámynd: Edda Agnarsdóttir

Ég held ég hafi aldrei lesið annað eins kommentaflæði á blogginu og kannski ekki bætandi á það. Það sést best á þessu hvað þú gefur fólki mikið með þínum skrifum.

Við getum hafið upp raust okkar og sungið fyrir okkur öll,

 Fatlað fól fatlað fól keyrandi á tíugíra spítthjólastól!

Edda Agnarsdóttir, 2.9.2007 kl. 18:38

61 Smámynd: Högni Jóhann Sigurjónsson

Ég ætla að taka undir með Jensi þú hefur eimitt ekki gert neitt annað en að opna augu okkar betur fyrir því að við erum ekki öll eins, við gleymum því í ákafanum við að skoða útihurðirnar hjá öðrum og fara svo í að skipta ef einhver í götunni er kominn með flottari.

Það er alltaf annað slagið fólk eins og þú að koma í sjónvarpið mitt og segja mér að til er fólk eins og t.d. langveik börn, nú fá börn líka krabbamein ó, eða MND sem að ég vissi ekki að væri til eða hvernig það væri fyr en vinkona okkar fékk MND ja ég seigi til þess að þroska okkur sem í kringum hana vorum eða hvernig ég á að koma fram við blina og heyrnalausa ofl.ofl.

Það er nefnilega svo að á tímum þessa mikkla hraða sem er í dag þá þarf að segja manni svona hluti því að annars vitum við of lítið eða jafnvel ekki neytt og mætti alveg vera sjónvarpsþáttur einu sinni í viku sem er helgaður kynningum á fólki sem þarf að kynna fyrir mér og fleirum og eins líka að koma þá meira inná hvernig ég á að vera þegar ég mæti því fólki og eða hvað ég get gert í tifellum eins og þegar sykursjúikir fá alvarlegt sykursjokk og fleira í þeim dúr, ég hef oft hugsað um að svona sjónvarps þáttur gæti komið að gagni, í það minnsta fyrir mig.

Högni Jóhann Sigurjónsson, 2.9.2007 kl. 18:53

62 Smámynd: Anna Einarsdóttir

Það verður að bíða betri tíma að lesa öll kommentin hér á undan....... vertu þú sjálf Jóna því þú ert frábær og taktu ekkert neikvætt inn á þig.  Þú veist að þú elskar drenginn meira en lífið sjálft og Guð minn góður, það er bara skylda að hafa húmor..... og því meiri erfiðleika sem maður glímir við..... því nauðsynlegra er að hafa húmorinn í lagi.  Áfram þú !

Anna Einarsdóttir, 2.9.2007 kl. 19:03

63 Smámynd: Rebbý

  fátt fleira að segja nema, sá aldrei annað en umhyggju og ást út úr skrifunum þínum þrátt fyrir þessar nafngiftir þínar.    Haltu ótrauð áfram  

Rebbý, 2.9.2007 kl. 19:14

64 Smámynd: Anna Sigga

 Strákur sem ég þekki á systur með Downs-heilkenni, hann sagði að henni væri sýnd virðing með því að vera ekki að tipla á tánum í kringum "veikleika" (veit ekki hvernig ég á að orða þetta) hennar, með því að forðast að nota orð eins og Downs-heilkenni.Í þessu tilviki vildu þau ekki að henni finndist þetta e-ð óeðlilegt og viðkvæmt mál. 

  Þú hefur gefið syni þínum líf, þú elskar hann ef öllu hjarta, eins og hann er, þú skrifar af ást og umhyggju, hvað er annað að taka eftir? Mér finnst þú sýna einhverfu hans virðingu með að viðurkenna hana fyrir öðrum og þú gæðir orðið jákvæðari merkingu. Hvað er slæmt við það!?! 

  Vildi bara hrósa þér, kem ekki orðum vel frá mér en allt er þetta meint á fallegasta hugsanlega máta

Anna Sigga, 2.9.2007 kl. 19:34

65 Smámynd: Gunnar Helgi Eysteinsson

Mitt val var ekki vitlaust...
þú ert bloggari mánaðarins
og eflaust bloggari ársins.

Gunnar Helgi Eysteinsson, 2.9.2007 kl. 19:58

66 identicon

Ég meina, er drengurinn ekki einhverfur? Er fólk að ætlast til að þú farir eitthvað í felur með það? Hér á blogginu kalla ég drengina mína yfirleitt Þann Eldri og Þann Yngri, er ég þá að mismuna þeim út af aldrinum?
Ólíkt dæmi, ég veit, en nota það bara til að undirstrika þessa hallærislegu smámunasemi í fólki.
Mér hefur alltaf fundist gaman að lesa allar einlægu og opnu lýsingarnar þínar á Þeim Einhverfa, soldið annað en þessar dramatísku sem maður sér alltof mikið af í kringum sig.
Bið að heilsa hinum uppnefndu fjölskyldumeðlimunum.

Maja Solla (IP-tala skráð) 2.9.2007 kl. 20:41

67 identicon

Yfir öllu geta sumir tuðað!

Hlustaðu ekki á þetta. 

Ragga (IP-tala skráð) 2.9.2007 kl. 20:50

68 Smámynd: Steingerður Steinarsdóttir

Það er kannski að bera í bakkafullan lækinn að kommentera á þetta en ég verð bara að segja Rock On Jóna. Ég á lítinn frænda sem er einhverfur og ég skynja ekkert niðrandi í því að kalla fólk einhverft. Mér hefur alltaf fundist það undarlegt hvernig fólk getur skynjað fötlun sem niðrandi. Ef maðurinn minn væri haltur eða blindur þætti mér ekkert ljótt við að kalla hann þann halta meira að segja stafkarlinn, eins og við kölluðum pabba eftir hann fór að ganga með staf finnst mér ekki niðrandi. Fötlun er eitt af fjölmörgum tilbrigðum lífssins og ekkert ljótt við hana.

Steingerður Steinarsdóttir, 2.9.2007 kl. 21:44

69 Smámynd: Jóna Á. Gísladóttir

Hvað get ég sagt? Þið gerið mig orðlausa. Kærar þakkir þið öll fyrir öll fallegu orðin ykkar. Stóð mig að því að tárast margoft yfir lestrinum. Oft gera málefni Þess Einhverfa mig eitthvað svo meyra. Takk fyrir allar skoðanirnar, stuðninginn, sögurnar og ykkar hlið á svipuðum málum. Knús til ykkar allra.

Jóna Á. Gísladóttir, 2.9.2007 kl. 23:40

70 Smámynd: Ása Hildur Guðjónsdóttir

Jóna takk fyrir öll einlægu skrifin um þann Einhverfa mér finnst það nafn bera í sér ást um umhyggju sem skín í gegnum öll skrifin þín. Gott að hafa líka húmor fyrir hinu sem fellur ekki innan normsins.

Þú er dugleg kona og mátt alls ekki láta fáa sérvitringa trufla þig í skrifunum

Ása Hildur Guðjónsdóttir, 3.9.2007 kl. 01:48

71 Smámynd: Ásta María H Jensen

Ég held að þeir sem eiga ekki þroskaheft börn viti hvað við erum að meina þegar þetta liggur svona auðveldlega í munni hjá okkur hinum. Eg geri stundum grín að mínum sem er 7 að verða 8 og gengur óstöðugur, og ég segi " þú gengur einog fyllibitta" Þetta er bara svona til að blaðra eitthvað við hann og hann er ekkert að spá hvað maður er að segja. Hinum krökkunum mínum fannst þetta fyndið en samt sögðu þau" mamma hvernig talar þú" Ef við megum ekki grínast yfir því sem annars er talið vera birgði hvernig eigum við þá að gleðjast þegar hlutirnir eru ekki alltaf auðveldir.  Hvað er svo að því að segja þroskaheftur þegar það er raunin. Verra finnst mér þegar þetta er notað í neikvæðum tilgangi.

Ásta María H Jensen, 3.9.2007 kl. 02:43

72 identicon

Sú staðreynd að þú skulir kalla elsku drenginn þinn "sá einhverfi" opnar líka umræðuna um börn með þessa fötlun. Og það er bara gott mál, og ekkert annað en gott. Það eru allt of miklir fordómar gagnvart fötlun og sjúkdómum í samfélaginu í dag.  

Þú ert móðir þessa drengs og það sést á öllum færslum þínum um hann hversu mikils virði hann er og hvað hann er einstakur. Persónulega fyrir mig, þá hef ég lært mikið um einhverfu bara með því að lesa. Rétt eins og fólk bloggar um krabbamein og aðra sjúkdóma þá get ég ekki séð að þetta sé neitt öðruvísi. Hann er einhverfur og það þarf ekkert að fela það neitt.

Mér finnst bara gott að lesa það sem þú skrifar, því að þú gefur svo mikið frá þér. Haltu áfram að kalla hann einhverfa á blogginu þínu, það er partur af því hver þú ert og hvernig þú skrifar.

Hinum sem ekki höndla þetta, kemur þetta bara ekkert við.

Knús

Guðrún B. (IP-tala skráð) 3.9.2007 kl. 09:03

73 identicon

Svei mér þá, það sést nú bara hér í commentakerfinu að það er engu við þetta að bæta, hrós héðan, gaman að lesa skrifin þín elska þau reyndar.

Margrét Össurardóttir (IP-tala skráð) 3.9.2007 kl. 10:23

74 identicon

Þessi nafngift á drenginn þinn finnst mér alveg endalaust skemmtileg og um leið og ég rakst á síðuna þína sendi ég hana á kærustuna og skipaði henni að lesa yfir hana.

Strákurinn okkar er 4 ára og hann er líka með einhverfu. Hann var mjög seinn til að tala og er frekar óskýr en er alltaf að bæta sig og er ótrúlega duglegur. Við höfum oft hugsað hvað það er gott að hann endaði hjá okkur en ekki hjá fólki sem ekki skilur hann og getur séð allt það jákvæða í fari hans eins og þið gerið greinilega með ykkar!

Er þetta erfitt? Já og nei...það erfiðasta finnst mér persónulega að hlusta á gömlu kellingarnar í ættinni sem geta hreinlega ekki trúað því að eitthvað ami að drengnum, en að ala strákinn minn upp finnst mér barasta ekkert mál! Auðvitað er þetta öðruvísi en maður hafði hugsað sér í upphafi en samt alveg yndislegt! Ég myndi aldrei vilja skipta :) Hann er líka alveg endalaust fyndinn...

Svona skrif eins og þín, sem tekur lífinu greinilega eins og það er og snýr því neikvæða upp í eitthvað jákvætt, bjarga deginum hjá mér og ég vill persónulega þakka þér kærlega fyrir að leyfa okkur hinum að taka þátt.

Kær kveðja frá Danmörku,
Hjörtur

Hjörtur Stefánsson (IP-tala skráð) 3.9.2007 kl. 10:53

75 Smámynd: Jóna Á. Gísladóttir

Takk Ása mín

Ásta María. Þú gengur eins og fyllibytta. hahaha. Yndislegt.

Guðrún. Takk fyrir komment. Þetta er svo sannarlega rétt hjá þér

Magga. Ekki amalegt að heyra þetta

Hjörtur. Til hamingju með drenginn þinn . Ég veit hvað þú meinar með gömlu kellingarnar.... amma mín hélt t.d. að allir heyrnarlausir væru þroskaheftir. Þetta er gamli skólinn.. vonandi vex þjóðfélagið upp úr þessari vitleysu. Kveðjur til Danaveldis

Jóna Á. Gísladóttir, 3.9.2007 kl. 11:24

76 Smámynd: Sigrún Friðriksdóttir

Þetta var nú alveg frábær lesning bæði bloggið og ÖLL kommentin, vááá. Datt inn hjá þér í gegnum bloggið hjá Gunna Svíafara og ég hef ekki lesið blogg sem ég skildi eins vel og þitt, nema kannski þegar  Gunnar skrifar um sinn son. Ég á sjálf tvö börn með einhverfu og einhverfueinkenni og lífið með þeim hefur sko alla liti regnbogans eins og þú sagðir. Allt frá því að heimurinn sé að farast í einu augablikinu til að allir liggja á gólfinu í hláturskrampa. Ég persónulega held að ég gæti ekki gert mína  vinnu vel með þeim ef ég hefði ekki húmorinn í lagi. Hann er alfa og ómega hér á heimilinu, og ég geri sjálf í því að muna þessi skemmtilegu augnarblik og nota þau óspart. Að lokum langar mig að segja þér að þeir sem hafa misskilið þig svona , held ég kanski að hafi meint vel en fáfræðin skýn út úr þeim. Þeir halda að þeir séu að  reyna að verja einhverfa en skilja ekki lífið og dásemdina með að búa með einhverfum. Frábært komment líka hjá Ástu með fyllibyttuna, svona er húmorinn bestur í daglega lífinu okkar !!!

Risa klem og knús og hlakka til að fylgjast með þér áfram !! 

Sigrún Friðriksdóttir, 3.9.2007 kl. 12:25

77 Smámynd: Didda

Keep going girl

Didda, 3.9.2007 kl. 12:26

78 Smámynd: Halldór Egill Guðnason

Hrós til þín

Halldór Egill Guðnason, 3.9.2007 kl. 14:41

79 Smámynd: Heiða B. Heiðars

Þú mátt kalla hann keisarann í kína mín vegna! Breytir akkúrat engu á meðan maður finnur ástina til hans skína úr hverju orði

Heiða B. Heiðars, 3.9.2007 kl. 19:23

80 Smámynd: Katrín Vilhelmsdóttir

Að sjálfsögðu kallar þú drenginn þinn þann einhverfa ef þú kýst svo, eru ekki allir með einskonar "gælunöfn" á sínum nánustu. Ég hef verið svo heppin að fá að vinna með einhverfum sem og einstaklingum með aðrar þroskaraskanir. Starfið hefur haft það mikl áhrif á mig að nú er ég að læra þroskaþjálfann, skemmtilegasta vinna og nám sem ég get hugsað mér.

Katrín Vilhelmsdóttir, 3.9.2007 kl. 21:58

81 Smámynd: Eva

Þú ert bara svo endalaust krúttleg einlæg og sætt, í skrifum þínum um þann einhverfa. Sumir eru bara vitlausir og þannig verður það alltaf,,, gott hjá þér að biðja þá bara um að vera annarstaðar. Varð bara að sýna þér minn stuðning

Eva , 4.9.2007 kl. 13:08

82 identicon

Það er nú orðið helv... hart ef fólk má ekki lengur nota sín gælunöfn á þá sem þeim eru kærir. Það er ekki orðið sjálf sem máli skiptir heldur hvernig maður segir það eða notar. Sjálf nota ég oft mín gælunöfn á ættingja mína og vini. Að fólk skuli vera gera athugsemdir við hvað þú kallar son þinn finnst mér fáránlegt. Kannski eiga þeir enga ættingja og vini til að kalla sínu gælunafni og þá er þeim mikil vorkunn.  

Ragnheiður Ástvaldsdóttir (IP-tala skráð) 4.9.2007 kl. 18:27

83 identicon

Axel Jón Fjeldsted (IP-tala skráð) 7.9.2007 kl. 00:02

84 Smámynd: Jóna Á. Gísladóttir

Takk kærlega fyrir öll komment. Þið eruð náttúrlega bara dúllur og snúllur og margt fleira.

Jóna Á. Gísladóttir, 7.9.2007 kl. 00:31

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Jóna Á. Gísladóttir
Jóna Á. Gísladóttir

 

 

 Ég er nokkuð dæmigerð íslensk útivinnandi kona. Hef lokið grunnnámi í markþjálfun og gengur betur að hjálpa öðrum við markmiðasetningu en sjálfri mér. Mér lætur líka betur að stjórna öðrum en sjálfri mér. 

 netfangið mitt er jonaagisla@gmail.com

 

 

 

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (23.11.): 2
  • Sl. sólarhring: 2
  • Sl. viku: 10
  • Frá upphafi: 1640374

Annað

  • Innlit í dag: 2
  • Innlit sl. viku: 9
  • Gestir í dag: 2
  • IP-tölur í dag: 2

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Bloggvinir

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband