Leita í fréttum mbl.is

HEFNDARÞORSTI - glæpasaga - 2. hluti - ekki fyrir viðkvæma

 

Hún tók einn fyrir í einu. Gaf hverjum og einum eins langan tíma og þurfti. Var ekkert að flýta sér. Kannski vildi hún treina verkefnið. Kannski var undirliggjandi hræðsla í huga hennar um framtíðina. Um það hvað tæki við þegar kæmi að leiðarlokum hjá þeim fimmta og síðasta. Hvaða stefnu tæki hennar líf eftir það? Þessar hugsanir ásóttu hana en hún bægði þeim frá sér eftir bestu getu. Hún lifði í núinu, í verkefninu, í markmiðinu.

 

 

Fjórði bekkur. Skelin var að harðna. Það þurfti meira til að græta stúlkuna. Hún beit á jaxlinn og barðist. Baráttan fór þó öll fram innra með henni. Hvorki með orðum né hnefum. Aðeins á sálinni. Hún var farin að skilja betur þá baráttu sem mamma hennar háði til að halda heimilinu saman. Elsku, duglega, blíða mamma sem hafði ekki hugmynd um hversu hratt örunum fjölgaði og hversu mikið þau dýpkuðu með degi hverjum. Stúlkan bar harm sinn í hljóði. Mömmu vegna.

 

 

Hún hafði fylgst með honum í mörg ár. Síðasta fórnarlambinu sínu. Á meðan hún planaði og lék sér að niðurrifi hvers og eins, hafði hún hina ávallt í sigtinu.

Hann var forstjóri vel þekkts verðbréfafyrirtækis. 35 ára myndarkarlmaður. Dáður fyrir dugnað. Kleif metorðastigann hratt og örugglega allt frá því að háskólanámi lauk. Hann átti gullfallega konu sem baðaði sig í aðdáun hans og sinnti börnunum þeirra tveimur af alúð og áhuga.

Sannkölluð vísitölufjölskylda, hugsaði hún meinfýsin. Fyrirmyndarfjölskylda í alla staði. En allir eiga sér leyndarmál. Eitthvað sem illa þolir dagsljósið. Jafnvel á litla Íslandi. Og hún var ákveðin í að finna hvað þar var. Þar myndi hún byrja á niðurrifinu. Þar ætlaði hún að hefja lokakaflann.

 

 

Fimmti bekkur. Hjartað var að harðna. Ekkert komst inn fyrir skelina lengur. Hún grét aldrei. Felldi aldrei tár. En sálin hrópaði og kallaði út í tómið. Skólasystur hennar létu hana afskiptalausa og hana sveið það sárar en sífelld niðurlægingin sem hún mátti sæta af hendi strákanna. Líkamlegt ofbeldi varð daglegt brauð fyrir henni. Þeir lágu í leyni og réðust að henni. Henni var hrint, spörkin dundu á henni og hún var lokuð inni í kompum og skúmaskotum skólans.

Með hverri önninni sem leið varð mamma stoltari af skúlkunni sinni fyrir iðjusemi í skólanum. Það varð haldreipi stúlkunnar. Hún lagði allt í lærdóminn. Fékk ávallt bestu einkunn í hverju sem hún tók sér fyrir hendur. Kennararnir töluðu um þöglu, námsfúsu stúlkuna sem aldrei brosti. Þeir furðuðu sig á henni en hún gaf þeim aldrei ástæðu til að halda að eitthvað væri að. Hún hleypti engum þeirra að sér. Það var einfaldlega of seint.

 

 

Það leið og beið og hún var orðin óþolinmóð. Óttaðist að hún myndi ekki finna útgangspunktinn. Fynndi engin leyndarmál. Að lokum hélt hún í þá von að svarið væri að finna hjá konunni hans. Eftir því sem hún fylgdist betur með hjónunum, því betur varð henni ljóst að hann elskaði konuna sína af ástríðu. Hann tilbað hana. Já. Eiginkonan var heppleg leið.

Með þetta í huga hóf hún leitina. Og ekki leið á löngu þar til ósóminn kom í ljós.

 

 

Sjötti bekkur. Einkunnir og ástundun ungu stúlkunnar var svo glæsileg að kennarinn hennar vildi færa hana upp um bekk. Hún varð skelfingu lostin og harðneitaði. Hún fann fyrir fáránlegu öryggi þar sem hún var. Hér vissi hún á hverju hún átti von. Stökk út í óvissuna hefði farið með hana. Og ofbeldið jókst og varð grófara. Fötin voru rifin utan af henni. Þeir alhörðustu leituðu á hana og hún fór að hata líkama sinn. Hataði sjálfa sig meira en kvalara sína.

 

 

Fljótlega eftir að hún beindi athyglinni að eiginkonunni gullfallegu, var ljóst hvers kyns var. Hún átti sér elskhuga. Og ekki bara einn. Þeir voru tveir sem henni tókst á listilegan hátt að skipta tíma sínum á milli. Og enginn af mönnunum þremur vissi af hinum. Byrjunin á leiknum var svo fullkomnuð þegar hún komst að því að yngra barnið var rangfeðrað og eiginkonan vissi það.

Hún hóf nafnlausar bréfasendingar til forstjórans, þar sem hún opinberaði svik eiginkonunnar. Með hatursfullri gleði fylgdist hún með upphafi hrunsins úr fjarlægð.

 

 

Sjöundi bekkur. Það komu stundir þar sem hún efaðist um að hún myndi lifa þennan vetur af. Í bókstaflegri merkingu. Þeir drekktu henni næstum því í eitt skiptið í sundtíma og í annað skipti héldu fjórir henni, á meðan sá fimmti brá meistaralega hnýttu reipi um háls hennar. Með sameiginlegu átaki hífðu þeir hana upp þar til hún blánaði í kringum varirnar. Hún gekk í rúllukragabol í margar vikur á eftir til að fela ummerkin.

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Kristín Katla Árnadóttir

Þetta er sorgar saga. en vel skrifuð.

Kristín Katla Árnadóttir, 8.8.2007 kl. 10:23

2 Smámynd: Markús frá Djúpalæk

Ég held nú að svona mikið ofbeldi myndi komast upp í hvaða skóla sem er. En sagan er spennandi - keep it coming.

Markús frá Djúpalæk, 8.8.2007 kl. 10:35

3 Smámynd: Jóna Á. Gísladóttir

þar held ég að þér skjátlist Markús. En þetta er nú bara saga.

Jóna Á. Gísladóttir, 8.8.2007 kl. 10:37

4 Smámynd: Óskar

Virkilega skemmtileg lesning þótt dapurleg sé. Góður penni. Svona nokkuð viðgengst í fleiri skólum en ekki. Því miður. Það hef ég sjálfur upplifað á þeim tíma sem ég var í kennslu.

Óskar, 8.8.2007 kl. 10:50

5 Smámynd: Jóna Á. Gísladóttir

Takk Óskar. Já, ég hélt það einmitt.

Jóna Á. Gísladóttir, 8.8.2007 kl. 10:53

6 Smámynd: Hugarfluga

Áhrifaríkt og vel skrifað en niðurdrepandi ... úff, er of snemmt að fá sér einn gráan?

Hugarfluga, 8.8.2007 kl. 10:54

7 Smámynd: Jenný Anna Baldursdóttir

Alls ekki skemmtileg lesning í þeim skilningi sem oftast er lagður í það orð. Sagan heldur manni fanginni, ég hélt niður í mér andanum og ofbeldislýsingarnar eru reyndar raunverulega til.  Það veit ég í gegnum mitt starf til margra ára.  Það er ekki eins og ofbeldi almennt, sé framið fyrir opnum tjöldum.  Mér finnst þetta átakanleg og brilljant skrifuð saga en af hverju fær maður ekki smá spennulosun hérna áður en maður lekur niður (alvegaðniðurlotumkominnkall)? 

Þú veist hvað mér finnst um þig og þinn "penna"

Smjúts

Jenný Anna Baldursdóttir, 8.8.2007 kl. 10:55

8 Smámynd: Ingibjörg Gunnarsdóttir

Þetta er snilldarsaga - og ég bíð eftir framhaldi.......  Þú ert góður penni Jóna - áfram, áfram........

Ingibjörg Gunnarsdóttir, 8.8.2007 kl. 11:17

9 Smámynd: Jóna Á. Gísladóttir

Hugarfluga. Þú þarft ekkert einn gráan. Kíktu í spegil og góða skapið verður komið fyrr en varir.

Takk Jenný mín. Hvernig spennulosun má bjóða þér?

Jóna Á. Gísladóttir, 8.8.2007 kl. 11:17

10 Smámynd: Jóna Á. Gísladóttir

Hæ Ingibjörg. Velkomin til mannheima

Jóna Á. Gísladóttir, 8.8.2007 kl. 11:19

11 Smámynd: Jenný Anna Baldursdóttir

Sögulok en að sjálfsögðu með lööööööööngum aðdraganda.  Smjúts

Jenný Anna Baldursdóttir, 8.8.2007 kl. 11:39

12 Smámynd: Guðríður Pétursdóttir

Þetta er orðið spennó og já ég er handviss um að þetta er alltof mikið um að svona nái að viðgangast

Guðríður Pétursdóttir, 8.8.2007 kl. 11:57

13 Smámynd: Edda Agnarsdóttir

Var að koma inn úr dyrunum og sá þá lika þessa svakalegu sögu! Ég bíð spennt einsog fleiri. Sammála Jenný og Óskari, að svona ofbeldi finnst og raunveruleikinn er nú því miður mun óhugnanlegri en skáldskapurinn.

Edda Agnarsdóttir, 8.8.2007 kl. 11:59

14 Smámynd: Ásdís Sigurðardóttir

Vil bara ítreka ánægju mína með söguna, búin að lesa hana og líkar vel.

Ásdís Sigurðardóttir, 8.8.2007 kl. 12:06

15 Smámynd: Ómar Ingi

NICE again þú bara klikkar ekki

Ómar Ingi, 8.8.2007 kl. 12:08

16 Smámynd: Ragnheiður

Mögnuð saga, og ein athugasemd. Markús það kemst ekki ekki upp vegna þess að maður segir ekki frá því

Ragnheiður , 8.8.2007 kl. 12:11

17 Smámynd: Georg Eiður Arnarson

Georg Eiður Arnarson, 8.8.2007 kl. 14:07

18 identicon

Ofbeldi í skólum er staðreynd. Og það fer líka fram fyrir utan skóla, af þeim sem eru nemendur. Og ljótt er það áður en það versnar um helming. Og þegar sá helmingur er kominn, minnka líkurnar um helming um að upp komist. 

Næturskjólið er óhugnarlegt.

Jóna, þú ert snillingur, þetta gæti mögulega opnað augu fólks sem ætti að sjá þetta, þegar það gerist í raun og veru. Of margir , já allt of margir loka augunum, þvi það er einfaldara, sársaukaminna og hentugara að einhverju leiti.

Guðrún B. (IP-tala skráð) 8.8.2007 kl. 14:07

19 Smámynd: Huld S. Ringsted

Já þetta er svo sannarlega mögnuð saga og svona ofbeldi viðgengst í mörgum skólum á sjálf dóttir sem er verið að vinna með eftir svona ofbeldis einelti en oft er ekkert vitað um svona fyrr en allt of seint, ég býð spennt eftir framhaldinu

Huld S. Ringsted, 8.8.2007 kl. 15:41

20 Smámynd: Sólrún

Maður fær í magann við þessa lesningu.  Ert ótrúlega góður penni stelpa!! Hvenær kemur svo stóra skáldsagan út??

Sólrún, 8.8.2007 kl. 15:43

21 Smámynd: Þröstur Unnar

Frábær saga. Skemmtilegt lyklaborð.

Þröstur Unnar, 8.8.2007 kl. 16:00

22 Smámynd: Svava frá Strandbergi

Ég fylgist þrælspennt með. Það er óhuggulegt að heyra að svona lagað ofbeldi þrífist í raunveruleikanum.

Svava frá Strandbergi , 8.8.2007 kl. 16:01

23 Smámynd: Jenný Anna Baldursdóttir

Jenný Anna Baldursdóttir, 8.8.2007 kl. 16:55

24 identicon

Frábær penni.Meira,meira.

Birna Dis Vilbertsdóttir (IP-tala skráð) 8.8.2007 kl. 16:57

25 Smámynd: Heiða B. Heiðars

Nánast handviss um að ég á eftir að kaupa bók eftir þig. 

Heiða B. Heiðars, 8.8.2007 kl. 19:33

26 Smámynd: Ólöf Anna

Er ég að misskilja eða er sagan ekki búinn??

En þessar lýsingar eru rosalega flottar og rosalega raunverulegar. Eiginlega alltof raunverulegar. Finn til að lesa þetta.

En gott lyklaborð (sorry Þröstur þurfti bara að stela þessu )

Ólöf Anna , 8.8.2007 kl. 19:43

27 identicon

Aftur er ég greinilega sein að lesa miðað við öll kommentin hér á undan. Eins gott, þá er styttra í framhaldið. Ég er að tryllast úr spenningi, elska sálfræðitrylla. Meira!

Þú ERT rithöfundur frú Jóna

Anna Ólafsdóttir (anno) (IP-tala skráð) 8.8.2007 kl. 19:58

28 Smámynd: Hrönn Sigurðardóttir

mér sýnist allt hafa verið sagt sem ég hefði viljað sagt hafa......

júgógörl!!!

Hrönn Sigurðardóttir, 8.8.2007 kl. 20:06

29 Smámynd: Jens Guð

  Nú verður maður að kíkja hér við daglega til að missa ekki af framhaldinu.  En ég kíki nú hvort sem er hingað daglega. 

Jens Guð, 8.8.2007 kl. 23:06

30 Smámynd: Marta B Helgadóttir

Frábær saga Hlakka til að lesa meira eftir þig. 

Marta B Helgadóttir, 8.8.2007 kl. 23:11

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Jóna Á. Gísladóttir
Jóna Á. Gísladóttir

 

 

 Ég er nokkuð dæmigerð íslensk útivinnandi kona. Hef lokið grunnnámi í markþjálfun og gengur betur að hjálpa öðrum við markmiðasetningu en sjálfri mér. Mér lætur líka betur að stjórna öðrum en sjálfri mér. 

 netfangið mitt er jonaagisla@gmail.com

 

 

 

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.11.): 2
  • Sl. sólarhring: 2
  • Sl. viku: 6
  • Frá upphafi: 1640368

Annað

  • Innlit í dag: 2
  • Innlit sl. viku: 5
  • Gestir í dag: 2
  • IP-tölur í dag: 2

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Bloggvinir

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband