Leita í fréttum mbl.is

Ómálga Nýbúinn minn

Með mér býr sambýlismaður minn og barnsfaðir. Þetta er sem sagt einn og sami karlmaðurinn.

Maðurinn er ekki af íslensku bergi brotinn og ég get svo svarið það að ég get ekki mælt með svona tungumála-blönduðum sambúðum. Sem skýtur kannski skökku við því við höfum búið saman í tæp töttöguogfemm ár.

Þessi gaur nam land á austfjörðum fyrir sirka 30 árum er hann ók sportbílnum sínum út úr Norrænu og hélt til höfuðstaðarins.

Hann tengdist inn í undirheima íslenskrar tónlistar og gerðist svo frægur að eiga ,,Athyglisverðasta lagið‘‘ í Landslagskeppninni á Hótel Íslandi árið sautjánhundruðogsúrkál. Það kvöld var ég ekki aðeins stödd á Hótel Íslandi heldur hafði ég samþykkt að gera vinkonu greiða og ,,mæma‘‘ bakrödd á sviðinu. Við vorum því bæði að flækjast baksviðs þetta kvöld án þess að rekast á eða veita hvort öðru athygli á einhvern hátt. Enn liðu því fimm ár þangað til við hittumst og rugluðum saman reitum. Á þeim tíma afrekaði hann að búa til eitt stykki sveinbarn og er ég afskaplega þakklát fyrir að hafa ekki verið til staðar til að trufla þann prósess því drengurinn sá er sannkallaður gullmoli.

Vinna við tónlist, innan um tónlistarfólk og sinna pí-ar vinnu nær eingöngu á öldurhúsum borgarinnar, innan um sama markhóp ásamt misdrukknum Íslendingum. Ekki beinlínis vænleg leið til að læra íslensku. Það get ég fullyrt. Íslendingur í glasi mun ekki láta tækifæri til að æfa enskukunnáttuna fram hjá sér fara; Rilí, jú ar from Íngland? And jú lif hér? Vodd dú jú dú? Ó jú ar in mjúsik? Há dú jú læk Æsland?

Því fór það svo að á því herrans ári 1993 á Gauki og Stöng hittust ung íslensk kona, með ekki svo frambærilega enskukunnáttu og svolítið eldri Breti, ótalandi á íslensku. Kenning mín er sú að ef annaðhvort okkar hefði verið betur að sér í tungumáli hins hefðum við aldrei náð saman.

Og hér erum við. Rúmlega miðaldra með uppkomin börn í ,,eigin‘‘ húsnæði í 110 Reykjavík og tungumálaerfiðleikar eru ennþá staðreynd.

Samtal rétt fyrir svefninn í vikunni sem leið:

Hann (veifandi spjaldtölvunni): Er nóg batterí on tölvunni?

Ég: já

Hann: (gerir sig líklegan til að fara með tölvuna í hleðslu)

Ég (ekkert minna/meira undrandi en alla aðra daga lífs míns): hvert ertu að fara með ipadinn, ég ætla að lesa í honum?

Hann: sagðirðu ekki að það væri nóg batterí?

Ég: jú einmitt.

Hann: ég ætla að setja þetta í hleðslu

Ég: ég skil ekki, af hverju spyrðu mig hvort það sé nóg batterí og þegar ég segi já þá ætlarðu að hlaða hann?

Við störðum á hvort annað í nokkrar sekúndur þar til rann upp fyrir mér ljós.

Ég: Fjandinn hafi það, ég veit stundum ekki hvort þú ert að tala íslensku eða ensku. Ég hélt þú meintir nóg, ekki no

Hann (sauðslegur): sagði ég ekki ,,is there no batterie on the computer‘‘ ?

Ég: nei það gerðirðu svo sannarlega ekki…

 Ég hái baráttu, mismarkvissa, hvern dag við bjagaða íslensku og mann sem er frekar áhugalaus um að bæta við sig kunnáttu á því sviði. Hann er kominn á þægilegan stað; hann skilur allt, fólks skilur allt (næstum því) sem hann segir og það er nóg? Finnst honum.

Krakkarnir gera góðlátlegt grín að pabba sínum og ég tek fullan þátt (kannski á minna góðlátlegan hátt).

Look at my æðs er setning sem vakti óstjórnlega lukku fyrir fjöldamörgum árum, einhverju sinni þegar karlinn var að furða sig á hversu sýnilegar æðarnar voru á framhandleggjunum hans. Krakkarnir hafa aldrei gleymt þessu og þetta er orðinn fjölskyldufrasi þegar Bretinn kemur með óvenju slæmar setningar. Þá líta þau hvort á annað og segja: Look at my æðs

En á einhvern undarlegan hátt snýst þetta ekki bara um tungumálatvist. Þankagangur hans virðist oft vera öðruvísi og flóknari en allra annarra og er Alias spilamennska á þessu heimili eitt það forvitnilegasta sem hægt er að verða vitni að.

Bretinn að reyna að ná út úr samherja sínum orðinu Mínúta = þegar þú sýður egg…

Heilsugæsla = þegar þú ert krypplingur….

Og hann botnar ekkert í því af hverju fólk tengir ekki eggsuðu við mínútu eða kryppling við heilsugæslu.

Þó er það, sem tekur öllu öðru fram og er sífelld uppspretta kátínu, atriði (ekki hægt að kalla það annað) sem átti sér stað á aðfangadag fyrir tveimur árum; vinkona okkar rak inn nefið með jólaglaðning og við settumst niður og spjölluðum saman. Bretinn var upptekinn í eldhúsinu (þessi elska) og hlustaði á okkur með öðru eyranu. Eftir skamma stund sýnir vinkona mín á sér fararsnið og eins og vill verða færðist samtalið fram í forstofu. Eftir áframhaldandi spjall þar í smástund kyssumst við og föðmust og óskum hvor annarri gleðilegra jóla. Hún fer svo í dyragættina og kallar í átt að eldhúsinu: GLEÐILEG JÓL NICK!

Nick kemur stormandi fram með sleif í annarri hendi og með hina höndina á bak við eyrað eins og áttrætt gamalmenni og segir í spurnartón: GLEÐILEG...?

Þetta er óspart notað gegn honum þegar hann þykir sýna óvenju mikið skilningsleysi.

Hvað hreint og fagurt mál varðar, verð ég að viðurkenna að öll fjölskyldan er smituð og enginn talar skammlausa íslensku. Samræður okkar á milli og krakkanna fara yfirleitt fram á einhvers konar samkrulli af íslensku, ensku og íslensk-ensku/ensk-íslensku. Og þegar samtöl eru rifjuð upp og kemur til: hann sagði/hún sagði þá man enginn hvort var töluð íslenska, enska eða hvorutveggja.

En hvað sem má segja um kunnáttu eða vankunnáttu mannsins míns í íslensku og pirringsköstin sem ég get tekið yfir því, þá kann ég afskaplega illa að meta glósur utanaðkomandi vegna þess. Ég hef einkarétt (ásamt börnunum hans) á skotum og skætingi. Það er bara þannig. Enda veit enginn eins vel og ég hversu fjandi gáfaður, víðlesinn og vel upplýstur hann er um allt og ekkert. Og þegar ég kem með spurningar sem opinbera fáfræði mína á málefnum sem ættu að vera mér vel ljós lætur hann mér aldrei líða eins og þeirri ljósku sem ég get verið. Hann svarar mér ávallt af virðingu, án þess að dæma vankunnáttu mína á neinn hátt.

Hann hefur ómældan húmor fyrir sjálfum sér sem og útlendingafælni Íslendinga. Til marks um það skírði hann fyrirtækið sitt Newcomer/Nýbúi

Hann sýnir líka ótrúlega þolinmæði við eilífum íslensku-aðfinnslum mínum. Fyrir stuttu síðan tók ég hann á teppið og sagði að þetta gengi ekki lengur. Honum færi aftur og varla kæmi heil setning út úr honum sem ekki væri eitthvað athugavert við.

Hann setti upp ómótstæðilega hvolpasvipinn, hugsaði sig um andartak og sagði svo: ég er bara að verða gamalt.

Sum stríð eru bara óvinnandi.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurður Kristján Hjaltested

Góður, skemmtilegur og fróðleikur pistill.

laughinglaughinglaughing

Sigurður Kristján Hjaltested, 14.3.2018 kl. 23:56

2 identicon

Snilldarlegur pistill! Þekki einkennin svo vel.

Nanna Gunnarsdóttir (IP-tala skráð) 21.3.2018 kl. 08:43

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Jóna Á. Gísladóttir
Jóna Á. Gísladóttir

 

 

 Ég er nokkuð dæmigerð íslensk útivinnandi kona. Hef lokið grunnnámi í markþjálfun og gengur betur að hjálpa öðrum við markmiðasetningu en sjálfri mér. Mér lætur líka betur að stjórna öðrum en sjálfri mér. 

 netfangið mitt er jonaagisla@gmail.com

 

 

 

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (29.3.): 0
  • Sl. sólarhring: 2
  • Sl. viku: 9
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 9
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Bloggvinir

Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband