Leita í fréttum mbl.is

Færsluflokkur: Ljóð

Hefði aldrei farið í bíó ef ég hefði vitað þetta

Ég settist hérna niður í sakleysi mínu í kvöld til að fara bloggvina-rúntinn. Þetta átti að taka fljótt af. Ég ætla ekki, skal ekki, vil ekki, mun ekki fara seint að sofa í kvöld. Það er einlægur ásetningur minn. Ég las hvert bloggið á fætur öðru. Þessir vinir mínir eru einstaklega afkastamikið fólk og duglegt að blogga.

Ég öfundaðist út í Lísu því hún fór á Josh Groban í gær.

Ég hló að sögu um konu sem Kristín Katla þekkir sem datt í Austurstrætinu og minntist um leið þess þegar ég datt sjálf í Austurstrætinu sem unglingur. Hræðileg lífsreynsla.

Ég er enn að vinna í því að komast yfir að lesa öll bloggin hennar Gurríar og bíð eftir svari um leyndarmál sokkabuxnanna

Þorsteinn samdi limru um brjóstin á mér og flaggaði brjóstunum á Sophia Loren á bloggi sínu. Þorsteinn var mjög brjóstgóður maður í dag

Guðríður Péturs, hún Emma mín, er sannfærð um að enskan hennar sé slæm. En það er allt í lagi því það er bull og svo gaf hún mér pakka í gær.

Brynja hætti sér á hálan ís í dag. Bæði í vinnunni og á blogginu. Gladdi okkur perrana með dónalegum bröndurum en móðgaði örugglega einhverja sem eru minna-perralega-sinnaðir. Hún móðgaði líka nýjan starfsmann í vinnunni hjá sér.

Benedikt er í einhverjum framtíðarpælingum og ég gat ekkert hjálpað honum með það. En margir aðrir hjálpuðu samt svo ég er ekkert með samviskubit.

Guðmundur Búdda lenti í ævintýri í dag því hann gekk inn í Gurríar-blogg. Var eiginlega In the Twilight zone..

Svampur (sonur Sveins) hefur áhyggjur af kynslóðatímabilum en það er nú ekki Krónu virði finnst mér.

Hrólfur opinberaði það fyrir alþjóð að hann hangir inn á Barnalandi alla daga og rífst við einhverjar kerlingar

En svo ég gerði mistök. Ég fór inn á bloggið hennar Jennýar. Ég las nýjasta bloggið hennar. Sem ég hélt að væri það eina sem ég ætti eftir að lesa. Nei, ekki var það nú alveg. Ég las því næsta blogg á undan því. Og næsta þar á undan.. og þar á undan og þar á undan og skyndilega sé ég að ég missti af bloggi frá frúnni síðan í gær (eiginlega fyrradag þar sem við erum núna komin inn á fimmtudag). Þar sem hún nefnir nafnið mitt ca 10 sinnum. Nafnið mitt. Blogg ætlað mér. Og ég les það ekki fyrr en sólarhring seinna. Ég meina.... Guð á himnum. Ég hefði sko aldrei farið í bíó í kvöld með Gelgjunni ef mig hefði grunað þetta.

Og það er meiri bömmer í stöðunni. Þetta er ástæðan fyrir fjölgandi heimsóknum hjá mér. Því Jenný bloggaði um mig. Ég er ekkert nema vanþakklætið. Svei því.

Ykkur hin, mínir elskulegu bloggvinir, sem ég hef ekki minnst á hér að ofan bið ég innilega að hafa mig afsakaða þangað til á morgun. Jenný barasta dregur úr mér allan mátt. Mig svíður í augun af oflestri og er komin með harðsperrur í kjálkana af því að hamast á nikótíntyggjóinu hérna fyrir framan tölvuskjáinn.

Ég held ég fari að leggja mig. Vona að það verði slagveðurs rigning á morgun svo ég hafi afsökun fyrir því að fara ekki út með hundana og hafi tíma til að fara restina af bloggrúntinum.


hvet alla til að lesa þetta

Bloggvinur benti á þetta á bloggi sínu.

Þetta er svo sem ekkert nýtt fyrir mér. Hef kynnst þessu í gegnum t.d. systur mína og fjölskyldu hennar. Hérna er maður sem hefur unnið allt sitt líf, borgað í lífeyrissjóð og skilað sínum sköttum og skyldum til þjóðfélagsins. Þegar svo heilsan gefur sig og hann þarf á þjóðfélaginu að halda hvað gerist. Ég veit, þetta er ekkert nýtt en afhverju í ósköpunum látum við þetta yfir okkur ganga??? Þetta er náttúrlega bara rugl. RUGL. Það rífur úr manni hjartað að lesa svona pistil, þar sem allur tilfinningaskalinn er, reiði, sorg og vonleysi. Töpuð lífsbarátta. Hugsið ykkur. Þetta vekur mann til umhugsunar og rúmlega það. Þetta er að gerast allt í kringum okkur og getur orðið líf manns sjálfs einhvern daginn. Ég á góðri heilsu að fagna en það getur allt breytt til hins verra á svipstundu.

Við lesturinn, mundu að þetta gæti verið þú.

http://gjonsson.blog.is/blog/tilveran/entry/197031/


Æskan og ellin

Þær faðmast. Eins og þær hafi ekki hist í marga mánuði. En þær hittast á hverjum degi. Alltaf seinnipartinn. Og alltaf er faðmlagið jafn þétt og innilegt.

Amman og stúlkan. Sú eldri hokin af lífsins reynslu, sú yngri geislandi af lífsþrótti og tilhlökkun. Hrukkóttur vangi ömmu, hlýr af hitanum frá pönnukökubakstri og sléttur vangi barnsins, rjóður og kaldur af útiverunni, snertast.

Þær brosa glaðar hvor við annarri. Svo hleypur amma við fót inn í eldhús til að huga að pönnukökunum. Stúlkan klæðir sig úr úlpu og húfu og hengir á snagann sinn. Í 10 ár hefur hún hengt útiflíkurnar sínar á þennan sama snaga þegar hún kemur til ömmu og afa. Snagann festi afi í vegginn rétt eftir að hún kom í heiminn. Nú er afi dáinn. Hann dó í vor. Yfir snaganum eru 10 litlar ljósmyndir af stúlkunni. Afi festi nýja mynd af henni við snagann á hverju ári. Festi þær með teiknibólum. Teiknibólan á nýjustu myndinni er blá. Vegna þess að þetta árið er uppáhaldsliturinn hennar blár. Myndin frá í fyrra er með hvítri teiknibólu. Það árið fannst henni hvítur fallegasti liturinn. Hún strýkur fingrunum létt eftir öllum myndunum. Finnur nærveru afa.

''Ertu ekki að koma ömmuskott'' er kallað og stúlkan flýtir sér inn í hlýjan borðkrókinn í eldhúsinu. Hún sest við borðið og virðir ömmu fyrir sér þar sem hún veifar pönnukökuspaðanum, íklædd skrautlegri svuntu og raular fyrir munni sér.

''Amma'', segir hún.

''Já skottið mitt''.

''Ég er orðin 10 ára''

''Ég veit það skottið mitt''.

''Þú verður að hætta að kalla mig skott''.

''Ég veit það hjartað mitt''

Þær hlæja báðar og stúlkan stendur upp og nær í sultutauið hennar ömmu í ísskápinn og ískalda undanrennu að drekka með pönnukökunum.


« Fyrri síða

Höfundur

Jóna Á. Gísladóttir
Jóna Á. Gísladóttir

 

 

 Ég er nokkuð dæmigerð íslensk útivinnandi kona. Hef lokið grunnnámi í markþjálfun og gengur betur að hjálpa öðrum við markmiðasetningu en sjálfri mér. Mér lætur líka betur að stjórna öðrum en sjálfri mér. 

 netfangið mitt er jonaagisla@gmail.com

 

 

 

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (23.4.): 2
  • Sl. sólarhring: 2
  • Sl. viku: 12
  • Frá upphafi: 1639940

Annað

  • Innlit í dag: 2
  • Innlit sl. viku: 12
  • Gestir í dag: 2
  • IP-tölur í dag: 2

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Bloggvinir

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband