Leita í fréttum mbl.is

Færsluflokkur: Bækur

Andskotans leti er þetta

red wineNú vantar mig sjálfsagann. Og ekki bara núna. Hefur aldrei verið mín sterka hlið.     Á að vera að skrifa eitthvað allt annað en þetta blogg. Kem mér ekki í verkið. Sit hérna og sturta í mig rauðvíni (hvað er betur við hæfi eftir að hafa rifið í mig steikta ýsu í kvöldmat?) og japla á nikótíntyggjói. Húsbóndinn er að horfa á golfið, Masters. Gleður mig að Tiger er í öðru sæti eins og er. Leit ekki vel út hjá honum eftir fyrsta hring á fimmtudaginn. Tiger woods

Brá mér hér út fyrir áðan með hundana sem hoppuðu og hlupu um með tík nágrannans í smá stund á meðan ég spjallaði við hann (nágrannann sko). Fór upp að kyssa þann einhverfa góða nótt þegar ég kom inn. Alla vikuna er hann búinn að vera að söngla: ''sunnudagur páskaegg, sunnudagur páskaegg''. Þrætti meira að segja við mig á föstudaginn og vildi meina að það væri laugardagur. Það hefði auðvitað þýtt að hann fengi páskaeggið daginn eftir.

 

 100_1017

 

10 ára Gelgjan og Eva, vinkona hennar hlupu heim til Evu að athuga hvort sjónvarpið þar væri líka upptekið í golfinu. Sárlangaði að horfa á Stelpurnar. Ekki beint þáttur fyrir 9-10 ára krakka en ég er svakalega líbó með þetta. Á móti passa ég að ræða hlutina við stelpuskottið mitt og halda henni hérna megin við raunveruleikann.

þetta gengur náttúrlega ekki. Verð að snúa mér að öðrum og (vonandi) veigameiri ritsmíðum. Bless í bili.

 

stelpurnar

 


Æskan og ellin

Þær faðmast. Eins og þær hafi ekki hist í marga mánuði. En þær hittast á hverjum degi. Alltaf seinnipartinn. Og alltaf er faðmlagið jafn þétt og innilegt.

Amman og stúlkan. Sú eldri hokin af lífsins reynslu, sú yngri geislandi af lífsþrótti og tilhlökkun. Hrukkóttur vangi ömmu, hlýr af hitanum frá pönnukökubakstri og sléttur vangi barnsins, rjóður og kaldur af útiverunni, snertast.

Þær brosa glaðar hvor við annarri. Svo hleypur amma við fót inn í eldhús til að huga að pönnukökunum. Stúlkan klæðir sig úr úlpu og húfu og hengir á snagann sinn. Í 10 ár hefur hún hengt útiflíkurnar sínar á þennan sama snaga þegar hún kemur til ömmu og afa. Snagann festi afi í vegginn rétt eftir að hún kom í heiminn. Nú er afi dáinn. Hann dó í vor. Yfir snaganum eru 10 litlar ljósmyndir af stúlkunni. Afi festi nýja mynd af henni við snagann á hverju ári. Festi þær með teiknibólum. Teiknibólan á nýjustu myndinni er blá. Vegna þess að þetta árið er uppáhaldsliturinn hennar blár. Myndin frá í fyrra er með hvítri teiknibólu. Það árið fannst henni hvítur fallegasti liturinn. Hún strýkur fingrunum létt eftir öllum myndunum. Finnur nærveru afa.

''Ertu ekki að koma ömmuskott'' er kallað og stúlkan flýtir sér inn í hlýjan borðkrókinn í eldhúsinu. Hún sest við borðið og virðir ömmu fyrir sér þar sem hún veifar pönnukökuspaðanum, íklædd skrautlegri svuntu og raular fyrir munni sér.

''Amma'', segir hún.

''Já skottið mitt''.

''Ég er orðin 10 ára''

''Ég veit það skottið mitt''.

''Þú verður að hætta að kalla mig skott''.

''Ég veit það hjartað mitt''

Þær hlæja báðar og stúlkan stendur upp og nær í sultutauið hennar ömmu í ísskápinn og ískalda undanrennu að drekka með pönnukökunum.


Kynlíf árið 1948 - Viðhorfið 2007

sexEitt af því sem ég ''erfði'' eftir ömmu er afar áhugaverð bók sem heitir einfaldlega Kynlíf.

Það sem mér þykir merkilegt við þessa bók er að hún sýnir svart á hvítu hvernig viðhorf til kvenna og þeirra hlutverks í svefnherberginu var á árum áður. Þessi bók var nefnilega gefin út á Íslandi árið 1948 en fyrst gefin út í Sviss árið 1937. Skrifuð af einhverjum dr. Fritz Kahn sem eflaust þótti afar framúrstefnulegur og opinskár á sínum tíma.

Bókin var þýdd á fjölda tungumála og um íslensku þýðinguna sáu Hjörtur halldórsson rithöfundur og Einar Ásmundsson hæstaréttarlögmaður. Kannski hefur þessi bók ennþá einhver áhrif á lögmannastéttina og í leiðinni dómara þessa lands og skýrir þau fáránlegu vettlingatök sem notuð eru á kynferðisbrotamenn enn þann dag í dag, og afhverju sönnunarbyrðin í kynferðisbrotamálum hvílir svona sterkt á fórnarlömbunum.

Í dag bloggar Sóley Tómasdóttir http://soley.blog.is/blog/soley/#entry-163471  um umdeilanlega auglýsingaherferð þar sem verið er að höfða til kvenna varðandi drykkju þeirra og enn og aftur má lesa á milli línanna að nauðgun sé á ábyrgð kvenna ef þær eru ofurölvi www.knowyourlimits.gov.uk 

Þegar ég las þetta datt mér í hug eftirfarandi texti úr bókinni:

''Hvernig getnaðarlimnum er komið inn í leggöngin.

Náttúran hefur verndað konuna gegn ágengni og samförum, sem ekki er óskað eftir, með því að koma leggangaopinu fyrir á hinum leyndasta og best varða stað líkamans. Leggöngin eru í skjóli búksins að ofan og hinum sterkustu vöðvum líkamans til hliða og að neðan. Ennfremur er leggangaopið hulið skapahárunum ásamt skapabörmunum. Allar þessar varnaðarráðstafanir gera það að verkum, að ekki er auðvelt að komast inn í leggöngin, og yfirleitt ómögulegt gegn vilja konunnar. Hinu algenga yfirvarpi kvenna, að þeim hafi verið nauðgað, ber að taka með tortryggni. Það er í rauninni ekki hægt að hafa samfarir við konu, sem berst á móti''.

Need I say more.....?


« Fyrri síða

Höfundur

Jóna Á. Gísladóttir
Jóna Á. Gísladóttir

 

 

 Ég er nokkuð dæmigerð íslensk útivinnandi kona. Hef lokið grunnnámi í markþjálfun og gengur betur að hjálpa öðrum við markmiðasetningu en sjálfri mér. Mér lætur líka betur að stjórna öðrum en sjálfri mér. 

 netfangið mitt er jonaagisla@gmail.com

 

 

 

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.4.): 2
  • Sl. sólarhring: 2
  • Sl. viku: 13
  • Frá upphafi: 1640681

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 10
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Bloggvinir

Apríl 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30      

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband