Leita í fréttum mbl.is

Færsluflokkur: Vinir og fjölskylda

Ný bloggsíða

 

Kæru bloggvinir og aðrir vandamenn W00t

Ég hef ákveðið að opna aðra bloggsíðu, svona í tilraunaskyni.

Ekki það að ég ætli að loka fyrir mbl síðuna mína. Alls ekki. Mun halda öllu opnu hér, aðallega til að auðvelda mér að fylgjast með ykkur.

Og ég mun linka á allar bloggfærslur á bloggar.is hér.

Vona... nei ég ætlast til þess að þið haldið áfram að kíkja við hjá mér. Og í öllum bænum ekki hætta að kommenta. Kannski smá vesen í fyrsta skipti að setja inn athugasemd og einhver atriði sem þarf að fylla út; en bara í fyrsta skipti.

Smile


Baráttan við bílinn

 

Ég ákvað að sækja Þann Einhverfa í Vesturhlíð og dragnast með hann á sundæfingu (þetta heitir sko ''æfing'' eftir að kappinn tók þátt í sundmóti) kl 5 í gær. Ekki er hægt að segja að ég hafi verið hress eftir að hafa faðmað Gustavsberg óheyrilega nóttina áður.

Það var skelfilega kalt í gær og ég hefði getað sagt mér það sjálf að ég myndi lenda í vandræðum með að opna bílinn minn. En heilinn á mér var ekki vel vakandi svo ég hóf glímuna við frosnar bílhurðir heldur seint.

Bíllinn minn er station bíll og ég uppgötvaði að afturhlerinn var það eina á hjörum sem ekki var frosið fast aftur. Meira að segja læsingarnar voru pikkfastar.

Ég kallaði á Gelgjuna og skipaði henni að skríða inn eftir bílnum og starta honum og þenja miðstöðina í botn. Planið var að hita bílinn svo ég gæti opnað hurðarnar. Sá ekki alveg fyrir mér að það myndi ganga upp að láta Þann Einhverfa skríða inn og út úr bílnum.

En ég var orðin sein svo ég hafði ekki mikla þolinmæði í að bíða. Fór inn, tók saman sunddótið fyrir drenginn, dúðaði mig í úlpu og lúffur frá 66°norður, smeygði hinni ómissandi tösku minni yfir öxlina og fór út aftur. Byrjaði aftur að hjakkast á bílhurðunum og fór mikinn. Ákvað loks að það væri ekki um annað að ræða en að skríða sömu leið og Gelgjan hafði gert. Kannski gæti ég opnað hurðar með því að leggjast á þær innan frá. Og ef það brygðist þá myndi ég bara keyra niður í Vesturhlíð með allar hurðar frosnar aftur. Bíllinn hlyti að vera orðinn nógu heitur þegar niður í bæ kæmi.

Þar sem ég hef hvorki til að bera kattarhreyfingar Gelgjunnar né lítinn og petite líkama hennar þurfti ég að leggja niður aftursætin í bílnum. Annars hefði ég sennilega fest afturendann á milli topps og höfuðpúða. Svo henti ég mér á allar hurðar en engin haggaðist.

ARGH ég var orðin sveitt, pirruð, stressuð yfir tímaleysi og ógleðin lét mig ekki alveg í friði. Ég skreið aftur í bílinn, skellti hleranum í lás á eftir mér. Skreið aftur fram í bílinn. Festi læri hér og rasskinn þar. Hlussaðist að lokum í bílstjórasætið másandi og blásandi. Festi á mig beltið og ætlaði að fara að reykspóla út úr innkeyrslunni þegar mynd skaut upp í hugann á mér. Svartur sundpoki með rauðum stöfum og svört kventaska með axlaról. Hvar var nú draslið sem ég tók með mér út. Jú, lá í hvítu frostinu í innkeyrslunni. Nákvæmlega þar sem ég lagði það frá mér til að ná betra taki á hurðarhandföngum.

Ég var fangi í eigin bíl. Allar hurðir frosnar aftur nema afturhlerinn. Og hann er óopnanlegur innan frá. Enda ekki beint hannaður sem manngeng inn- eða útgönguhurð.

Hugsanirnar suðuðu hver um aðra þvera í hausnum á mér. Það eina sem mér datt í hug var að hringja í einhvern. Hringja í Gelgjuna og biðja hana að opna fyrir mér. Hringja í Vesturhlíð og segja að ég kæmi ekki eftir allt saman. Hringja í bílstjóra skólabílsins og segja að hann ætti að keyra Þann Einhverfa heim í dag, þó að ég hefði sagt annað um morguninn...

Það var aðeins eitt sem ekki gekk upp í þessu plani: síminn minn var í svörtu töskunni sem lá á jörðinni, ekki nema 30 cm frá fótum mér. Gallinn var sá að málmur skildi okkur að. Mig og töskuna mína og símann minn.

Öll ég stytta upp um síðir, stendur einhvers staðar og einhverjum tíma seinna hrundi ég út  um hægri dyr að aftan eftir að hafa sett öxlina duglega í hurðina. 

Við mættum korteri of seint á æfinu Sá Einhverfi og ég. Kátur drengur og marin móðir.

 

 


Þennan dag fyrir tólf árum var ég rist á kvið og heftuð saman aftur

 

Í dag, 11. janúar, eru 12 ár síðan að Gelgjan fæddist með miklum harmkvælum.

Í tilefni dagsins komu vinir og vandamenn í brunch hér í dag og þar sem Bretinn stóð við að steikja beikon og egg heyrði ég hann stynja.

Mér flaug helst í hug að eldamennskan væri að gera út af við hann og spurði hvað væri að plaga hann.

Þá var þessi elska, með steikarspaðann í höndunum, horfin tólf ár aftur í tímann. Var kominn með annan fótinn inn á fæðingarstofu, þar sem reiður læknir æpti á starfsfólkið sitt: Upp á skurðstofu með þessa konu eins og skot!!!

Og svo inn á skurðstofu þar sem hann horfði á konuna sína rista upp í flýti og baráttuna við að ná barninu út um kviðinn á mér. Það gekk ekki vel því andlitið á því sat fast ofan í grindinni eftir afar harðar hríðar og sama sem enga útvíkkun.

Já hún kom með sannkölluðum harmkvælum í heiminn þessi stelpa sem við eigum. En það er líka í eina skiptið sem hún hefur valdið okkur  vandræðum. Hún lét ganga á eftir sér þarna í upphafi og hver einasta sekúnda eftir það hefur verið þess virði.

Til hamingju með daginn fallegust.

 

AM 12 ara


Jól kannski seinna

Það var með þó nokkrum trega sem ég tók niður jólaskrautið í dag. Grenið á útidyrakransinum mínum var enn fallega grænt og ilmandi þegar það hafnaði í ruslinu.

Bretinn fór að ná í Þann Einhverfa til Fríðu Brussubínu og co seinni partinn í dag og það var með nokkrum asa sem stráksi þeytti hér upp útidyra- og forstofuhurðum. Ég sá á öllu hans látæði að hann var alls ekki búin að gleyma daufum og lítt sannfærandi kommentum mínum í vikunni um jólaskraut sem þyrfti að fara ofan í kassa.

Hann horfði brúnaþungur á blettinn þar sem jólatréið hafði staðið. Þar sáust nú aðeins gólfflísarnar og þó nokkuð magn af greni sem átti eftir að sópa upp.

Drengurinn skimaði í kringum sig. Skannaði stofuna. Virti fyrir sér kassana sem lágu á víð og dreif og biðu eftir að verða fylltir.

Svo leit hann út um gluggann og sá að hér á fjöllum uppi hafði snjó fest í garðinum.

''Snjór var farinn'', sagði hann svekktur.

Við urðum að viðurkenna það, að víst hefði snjórinn farið en því miður væri hann kominn aftur.

Það er sumar, sagði hann þá vongóður.

Ekki gátum við alveg tekið undir það þó að við fegin vildum.

Jól kannski seinna, tilkynnti hann. Og þar með var hann farinn upp í herbergið sitt.

Það fór lítið fyrir látunum og skömmunum sem ég hafði búist við, fyrir að voga mér að fjarlægja jólin af heimilinu.

En jú, jólin koma kannski seinna Ian.

 


Sólskinsdrengur á föstudagskvöldið

 

Á morgun er 9. janúar og enn stendur jólatré í fullum skrúða í stofunni hjá mér. Ástæðurnar eru tvær: framkvæmdarleysi og tíu ára drengur sem neitar því að jólin séu liðin. Og ég hef hreinlega ekki haft orku í það í vikunni að týna glingló ofan í kassa með annarri hendi og láta stóran strák hanga vælandi á hinni. (Vælandi er afar pent orð yfir þau viðbrögð sem ég ætti í vændum).

En á morgun, föstudag, fer hann til Fríðu Brussubínu og Co og laugardagurinn mun verða notaður í að fjarlægja jólaskraut. Ég er ekki alveg sátt því ég ætlaði að gera tilraun þetta árið. Láta hann hjálpa til við að pakka niður skrautinu og sjá hvort hann yrði ekki bara sáttur með það.

En eins og ég sagði: ég hef ekki haft orku þessa viku til að takast á við málið svo tilraunin verður að bíða til næstu jóla.

Við Bretinn eigum skemmtilegt föstudagskvöld í vændum: Frumsýningu Sólskinsdrengsins.

Ég get varla beðið.

Endilega kíkið á allt efnið á bloggsíðunni þeirra. Áhugaverð viðtöl að finna þar.

Ef þú ert foreldri eða hefur fylgst með uppvexti barns sem þú elskar, þá ráðlegg ég þér að hafa tissjú-box með í för þegar þú ferð á þessa mynd. Ég hef ennþá ekki séð hana, aðeins brot, en þetta veit ég.

Það þarf vitundarvakningu í þjóðfélaginu. Einhverfu tilfellum fjölgar stöðugt um allan heim. Og enn vitum við ekki hvað orsakar hana. Og kannski er það ekki aðalmálið. Ekki núna. Núna þarf vitundarvakninguna. Kunnáttuna til að virkja einhverfa einstaklinga og gefa þeim líf á meðal okkar hinna.

 

 


þriðji reyklausi dagurinn að renna sitt skeið

 

Ég hefði aldrei trúað því að óreyndu, en kveðjurnar og reykleysissögurnar sem ég hef fengið, bæði hér á blogginu, tölvupósti og á fésbókinni stappa í mig stálinu í reykleysinu. Í alvöru. Takk kærlega fyrir þær.

Ég finn að, fyrir mér, er þetta aðeins spurning um hugarfar. Ég byrjaði að reykja sem unglingur. Sennilega 16 ára. Sem þýðir að ég reykti í 23 ár. Vá! Tók mína fyrstu pásu frá febrúar 2007 og fór í raun afar létt með það. Hætti að reykja til desember sama ár. Byrjaði þá að fikta aftur í einhverju kæruleysi. Helga hálfsystir segir að það hafi í raun reynst mér of auðvelt að hætta að reykja. Ég held það sé rétt hjá henni. Held að fyrir vikið hafi ég verið of borubrött. Ólíkt því sem hefði verið ef ég hefði þurft að ganga í gegnum það helvíti sem sumir gera við að sleppa sígarettunni.

Í fyrstu reykti ég afar lítið. Reykti nokkrar í góðum félagsskap og snerti svo ekki nagla í marga daga þess á milli.

En eins og með alla fíkn, þá er ekkert sem heitir ''stundum''. Hversu heitt sem mig langar til að geta haldið áfram að fá mér eina og eina. Það er allt eða ekkert. Ég hef verið verulega ósátt við sjálfa mig undanfarna mánuði. Í rauninni fundið hvernig tóbakið hefur smám saman byrjað að stjórna mér aftur á margan hátt.

Í fyrravetur, þegar enn mátti kalla þetta fikt, þá sagði ég við sjálfa mig: ég ætla aldrei að reykja á vinnutíma. Ég mun aldrei standa úti í frosti og kulda aftur til að geta sogið í mig sígarettu. Þegar ég fann mig í nákvæmlega þessum aðstæðum nú í vetur fór ég að finna að ég var svolítið reið út í sjálfa mig. Og það er aldrei góð tilfinning. Þess vegna hef ég, meðvitað eða ómeðvitað, verið að stappa í mig stálinu undanfarna mánuði til að taka ákvörðunina um að hætta. Ég tók hana endanlega á góðu rauðvínssumbli með vinkvennahópnum eitt kvöldið, rétt fyrir áramótin.

Ég er í fínum gír. Finn fyrir örlitlum leiða. Eirðarleysi. Kannski örlítið hvumpnari en venjulega (Bretinn gæti haft aðra sögu að segja). Treysti mér ekki alveg til að hitta nokkrar góðar vinkonur mínar sem reykja. Ekki strax. Annars er ég fín.

Þetta ER spurning um hugarfar í mínu tilviki. Í hvert skipti sem mér dettur í hug sígaretta, þá segi segi ég við sjálfa mig: nei, mig langar ekki vitund í.

Ég ætla að vera dugleg við að minna mig á hversu heppin ég er að vera hætt í hvert skipti sem ég sé einhvern hírast úti við húsvegg í kulda og vosbúð með rettu í munnvikinu.

Erfiðustu mómentin eru einfaldlega við aðstæður sem ég tengi við smókinn. Þess á milli gleymi ég litlu, grönnu hvítu vinkonu minni. En maður gleymir ekki vinum sínum. Það þýðir þá að við vorum í raun aldrei sannar vinkonur.

Ég á nýja vinkonu núna. Hún er líka lítil og nett. Hvít og ferköntuð. Hún heitir Nicorette.

 


Sá Einhverfi mótmælir þrettándanum, horfir á Söngvaborg og ætlar á sundmót

 

Eftir fjóra daga tökum við niður jólaskrautið, sagði ég við Þann Einhverfa í gær.

Neeeiii ekki taka jólin, sagði drengurinn, og mér fannst ég engu skárri en Trölli.

En á morgun ætlar stráksi að ''keppa'' á sínu fyrsta sundmóti. Og ég er að rifna af stolti, svona fyrirfram. Þrátt fyrir að ég viti að hann verði bæði með froskalappir og kork og muni að öllum líkindum gleyma sér í náttúruskoðun úti í miðri laug. Það skiptir auðvitað nákvæmlega engu máli.

Nú situr hann og horfir á Siggu Beinteins í Söngvaborg. Syngur með eftir bestu getu og það kemur skemmtileg áhersla á orðin sem hann kann á meðan hin verða hálfgert taut.

Öðru hverju lítur hann á mig. Er hreykinn af sjálfum sér og vill að mamma sé það líka.

Ef hann bara vissi....

Ian hress

 


Kelin kisa leitar heimilis

 

 

Sumarið 2007 eignaðist læðan Tinna þrjá kettlinga. Ég hef sett inn margar færslur og sögur af þessum köttum. Meðal annars um það þegar einn af kettlingunum; hún Perla, breyttist óvænt í Grím.

Planið var alltaf að láta alla kettlingana nema einn. Og læðan sem við nefndum Khosku fékk yndislegt heimili á Selfossi. Það varð ekkert úr því að við finndum heimili fyrir kettling númer tvö, svo tveir af þremur kettlingum ílengdust hjá mömmu sinni; Grímur og Elvíra.

Síðast liðið sumar varð Tinna fyrir bíl og dó. Það var mikil sorg á heimilinu og Gelgjan hefur enn ekki jafnað sig.

Stuttu seinna lentu fósturforeldrar Khosku í vandræðum, vegna nýrra húsreglna um dýrahald og okkur þótti þetta næstum því vera tákn. Khoska átti að koma til okkar aftur. Sem hún og gerði.

Systkini hennar tóku henni ekki opnum örmum, en við ákváðum að gefa þessu séns og til skamms tíma leit út fyrir að hún yrði tekin í sátt.

Nú er þetta fullreynt. Khosku vegna getum við ekki haldið henni hér. Hún er afskaplega blíður og kelinn köttur. Hún treystir fólki ótrúlega vel og veit ekkert betra en að kúra í fanginu á okkur. En hún þarf alltaf að vera á varðbergi, með bæði eyru og augu opin. Grímur og Elvíra leggja hana hreinlega í einelti. Og Viddi vitleysingur smitast af ástandinu og á til að elta hana þegar hann sér hana. Aumingja Khoska verður alltaf utangarðs inn á þessu heimili. Máttur hópsins er ótrúlegur.

Khosku vantar að eignast gott heimili.

Elskar þú ketti?

Myndir þú kunna að meta það að:

  • finna agnar-fíngerða kisu stökkva upp í fangið á þér og heimta strokur um ótrúlega mjúkan feld?
  • Vakna við malið hennar?
  • Fá blíðlegar móttökur þegar þú kemur heim eftir langan vinnudag eða erindagjörðir?
  • Hafa einhvern að tala við sem svarar þér og er alltaf sammála þér?

Ert þú:

  • í aðstöðu til að fá pössun fyrir kisu ef þú þarft að fara í burtu um tíma, eða að fá einhvern til að koma að gefa henni og tala við hana nokkrar mínútur á dag?
  • manneskja sem myndir aldrei aldrei í lífinu láta þér detta í hug að skella útidyrahurðinni í lás á eftir þér, fara í sumarfrí og láta ráðast hvort kisa lifir af eða ekki?
  • til í að taka litla, blíða kisu inn á heimili þitt og ekki síður inn í hjartað þitt?

Ef þú svarar öllu ofangreindu með já-i og ert ekki með fleiri dýr á heimilinu þínu, ertu það sem Khoska leitar að. Og Khoska er það sem þig vantar.

 

Hér er mynd af Tinnu með Khosku pínulitla

Tinna og Khoska

 

hér er Khoska eins og hún lítur út í dag.

khoska nuna

 

Ef þú hefur áhuga á að eignast Khosku, sendu mér þá línu á jonag@icelandair.is

 


Ég er ekki hægt

 

Er þetta ekki skrítið!?

Þegar langþráðu fríi er loksins náð.. fríinu sem ég fyrirfram lét mig dreyma um að liggja með fætur upp í loft og gera alls ekki neitt.. þá tekur það ekki nema þrjá daga að ég verði eirðarlaus.

Nú er ég að eðlisfari afskaplega löt manneskja og hef alla tíð verið ansi dugleg að gera ekki neitt. Það hefur farið mér vel. En einhvern veginn klæðir það mig ekki eins vel þessa dagana. Aðgerðarleysið.

En ég er föst. Letin heldur mér í heljargreipum. Eirðarleysið nær ekki í útlimina, aðeins í hugann og því sit ég sem fastast.

Ég veit ósköp vel að ef ég myndi standa upp af mínum breiða rassi, skella kroppnum í sturtu og andliti í anditið á mér, þá myndi ég endasendast eins og landafjandi út um allar jarðir. Aðallega bögga fólk sem ég náði ekki að fara og knúsa áður en jólin skullu á.

En enn sem komið er, þá sit ég hérna á náttfötunum og skrifa þessa gjörsamlega tilgangslausu færslu.

 


Gefum barninu í okkur tíma og rúm - Jólakveðja

 

Sá Einhverfi var kominn upp í rúm í gærkvöldi og ég sat hjá honum.

Jólaskrautið hefur smám saman týnst upp úr kössum og jólatréið stendur í allri sinni dýrð á stofugólfinu. Það var því aðallega frágangur og innpökkun sem fór fram heima hjá mér í gærkvöldi.

''Eigum við ekki að setja kassana undan jólaskrautinu upp á háaloft'' gólaði ég niður til Bretans.

Neeeeiiii hrópaði Sá Einhverfi. Nei nei...

Það tók mig aðeins andartak að skilja ofsafengnu viðbrögðin.

jólaskraut - háaloft....

Stikkorðin í setningunni töluðu til hans á hæsta styrk.

Þetta er allt í lagi Ian, sagði ég og strauk á honum bakið. Kassarnir eru tómir.

Nei nei ekki jólaskaut ekki háaloff, mótmælti hann og var órólegur mjög.

Viltu fara og athuga málið, sagði ég og gaf honum þar með leyfi til að yfirgefa rúmið sitt.

Hann var ekki seinn að taka boðinu og æddi út úr herberginu sínu og niður í stofu. Ég beið. Vissi sem var að hann var að athuga hvort jólaskraut og jólatré væri á sínum stað.

Og það stóð heima; aðeins sekúndum seinna kom hann töltandi upp stigann aftur og skreið undir hlýja sængina. Heimilið glitraði allt ennþá og hann sofnaði sáttur.

 

Ég ætla að reyna að tileinka mér, þó ekki sé nema brot af jólagleði stráksins. Gleðinni yfir þessu smáa. Þakklæti fyrir heimilið mitt. Nægjusemi og kátínu.

Enda engin ástæða til annars. Ég er svo óendanlega heppin. En stundum þarf maður að minna sig á. Og hver er betur til þess fallinn til að hrista upp í okkur en börnin okkar.

 

Ég óska ykkur öllum gleðilegrar hátíðar. Ég vona að sem flestir hafi það jafngott og ég og verði duglegir að finna í sér barnið þessi jólin.

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Jóna Á. Gísladóttir
Jóna Á. Gísladóttir

 

 

 Ég er nokkuð dæmigerð íslensk útivinnandi kona. Hef lokið grunnnámi í markþjálfun og gengur betur að hjálpa öðrum við markmiðasetningu en sjálfri mér. Mér lætur líka betur að stjórna öðrum en sjálfri mér. 

 netfangið mitt er jonaagisla@gmail.com

 

 

 

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (3.2.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 6
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 5
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Bloggvinir

Feb. 2025
S M Þ M F F L
            1
2 3 4 5 6 7 8
9 10 11 12 13 14 15
16 17 18 19 20 21 22
23 24 25 26 27 28  

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband