Leita í fréttum mbl.is

Færsluflokkur: Trúmál og siðferði

Ný mynd um Guðföðurinn í bíó á næstunni

 

Ég hef það eftir áreiðanlegum heimildum að þetta sé sú besta sem framleidd hefur verið. Sem er reyndar mjög óvenjulegt þegar um framhaldsmyndir er að ræða

 

The Godfather


Heilaþvottur

 

Þessi frétt og þetta, næstum því fjörutíu ára gamla mál, er ágætis áminning um hversu mikið er hægt að fokka upp hausnum á fólki.

Svona einöngruðum hópum (oft sértrúarsöfnuðir) er í svo til öllum tilvikum stjórnað af sjálfskipuðum einræðisherrum. Geðsjúkum og siðblindum aðilum sem hungrar í völd. Þeir einangra fólkið sitt frá umheiminum og heilaþvo það smátt og smátt.

Listin er alþekkt í smækkaðri mynd, þ.e. inn á heimilum þar sem andlegt ofbeldi er notað til að brjóta niður sjálfsmynd makans (og barna) smátt og smátt, þar til viðkomandi er orðinn einráður innan veggja heimilisins og stjórnar því hverja hinir umgangast.

Svo er stærri myndin. Hann Hitler boy. Hann var virkilega fær í þessari listgrein og þurfti ekki einangrunina til að vinna fólk á sitt band.

Illskan er alls staðar. Líka þar sem hennar ætti að vera síst von.

 


mbl.is Vill fá frelsi áður en hún deyr
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Af barnatrú og dæmisögum

Ég ólst upp hjá ömmu og afa.

Amma var virk í kvenfélagi Langholtskirkju og trúuð kona. Þegar ég segi trúuð þá meina ég á þann hátt að henni þótti gaman að fara í messu á sunnudögum, hún trúði á Guð og fór með bænir fyrir mig á fyrir svefninn..

Að öðru leyti varð ég ekki mikið vör við trúnna sem slíka. Minnist þess ekki að amma hafi mikið talað um Guð.

Sonur ömmu og afa dó í slysi 27 ára gamall, en ég heyrði t.d. ömmu aldrei tala um að ''trúin hefði komið henni yfir þá erfiðu lífsreynslu'' eða eitthvað í þeim dúr.

Það var sem sagt ekkert endilega talað mikið um trúnna á heimilinu. Hún bara var þarna. Ég átti mína barnatrú án þess nokkurn tíma að trúa sögunni um Evu og Adam eða taka hana bókstaflega.

Það eina sem benti til þess að afi deildi þessari trú með ömmu var að hann kenndi mér bæn;

Vertu Guð faðir, faðir minn, í frelsarans Jesú nafni, hönd þín leiði mig út og inn, svo allri synd ég hafni.

Mér hefur alla tíð þótt afar vænt um þá bæn. Því afi kenndi mér hana.

Ég hef alltaf verið ánægð með mína barnatrú. Í rauninni verið þakklát fyrir hana. En ég hef líka lagt próf fyrir Guð. Og merkilegt nokk, ekki í mína þágu. Einhvern tíma skipaði ég Guði að hjálpa manneskju sem mér fannst hafa þolað nóg. Manaði hann til að sanna fyrir mér að hann væri til. Enn hefur hann ekki sannað neitt fyrir mér en barnatrúin lifir þrátt fyrir það.

Ég hef reynt að feta sömu leið með börnin mín. Hef kennt þeim bænir og á hverju kvöldi eyði ég smá stund með þeim upp í rúmi, strýk á þeim bak eða handlegg, segi bænirnar og signi.

Stundum höfum við Gelgjan rætt Guð og trú. Hún hefur spurt mig hvort ég trúi og hverju ég trúi. Og ég hef ætíð gætt þess að fullyrða ekki neitt, heldur útskýrt hverju ég trúi og á hvaða hátt. Hef líka sagt henni að það séu mismunandi trúarbrögð í heiminum og ekki kalli allir sinn guð sama nafni.

Í vikunni hrikti aðeins í stoðunum hjá mér. Gelgjan var að læra heima í kristinfræði og námsefnið var boðorðin og einhverjar dæmisögur. Það sem kallaði fram nýja og óþekkta tilfinningu í þá átt að finnast boðskapurinn óásættanlegur var dæmisagan um týnda sauðinn.

''Nú á einhver yðar hundrað sauði og týnir einum þeirra. Skilur hann ekki þá níutíu og níu eftir í óbyggðinni og fer eftir þeim, sem týndur er, þar til hann finnur hann? Og glaður leggur hann sauðinn á herðar sér, er hann finnur hann. Þegar hann kemur heim, kallar hann saman vini sína og nágranna og segir við þá: ,Samgleðjist mér, því að ég hef fundið sauðinn minn, sem týndur var.' Ég segi yður, þannig verður meiri fögnuður á himni yfir einum syndara, sem gjörir iðrun, en yfir níutíu og níu réttlátum, sem ekki hafa iðrunar þörf’’.

Að lesa þetta, og horfa á, með augum dóttur minnar þá fannst mér skilaboðin vera eitthvað á þessa leið: Gefa bara skít í þá sem haga sér almennilega til að elta uppi einhvern vitleysing og dyntina í honum. Eða eins og þetta er orðað í þroskaþjálfa bransanum: að verðlauna óæskilega hegðun.

Gelgjan átti að segja hvaða merkingu hún legði í þessa dæmisögu og bað mig um hjálp. Ég gerði mitt besta. Las söguna yfir mörgum sinnum og margbyrjaði á einhverri gáfulegri útskýringu.

Skyndilega datt upp úr mér: Veistu það Anna Mae að þetta er bara bull.

Hún horfði á mig með vandlætingarsvip og sagði þóttalega; ég trúi á Guð.

Já elskan mín, það geri ég líka, sagði ég. En það þýðir ekki að ég trúi öllu sem stendur í biblíunni.

Þetta fékk mig til að spekúlera í kristinfræðikennslu í barnaskólum. Sjálfri þótti mér gaman í kristinfræði í skóla og fékk alltaf háar einkunnir í faginu. Ólst upp við kristna trú en fékk fyllilega að mynda mér mínar eigin skoðanir.

Þarna yfir skólabókunum með Gelgjunni fór ég að hafa áhyggjur af því að hún væri ekki að mynda sér sínar eigin skoðanir heldur af kennslubókum. Því kennslubækurnar kenna kristna trú eins og hún sé það eina sanna, biblían staðreynd og óvéfengjanleg. Biblíuna er vissulega hægt að túlka á marga vegu. En þegar maður er 10 ára þá túlkar maður ekki. Maður les og annaðhvort tekur maður trúanlega eða ekki. Eða hvað?

Ég held að það sé kominn tími til að taka kristinfræði út af stundaskrá barnaskólanna og taka upp trúabragðafræði. Kenna á hlutlausan hátt um hin ýmsu trúarbrögð í heiminum.

 

Þrjár Þjóðhátíðar í Eyjum og Benny Hinn

Þrisvar hef ég farið á Þjóðhátíð í Eyjum. Skemmti mér konunglega í öll skiptin.

Fyrsta skiptið var ég fimmtán ára. Systir mín bjó í Eyjum á þessum tíma og ég fékk að fara undir því yfirskini að ég væri að fara að heimsækja hana. Sem og ég var. Eyddi samt litlum tíma undir hennar þaki. Aðeins yfir blánóttina.

Í annað skiptið var ég 24 ára og flaug frá Bakka með tveimur vinkonum mínum. Á þeirri Þjóðhátíð gerði ég allt sem ég gat til að koma vinkonu minni saman við einhvern breskan hljóðmann. Í dag gengur hann undir nafninu Bretinn í bloggheimum.

Í þriðja skiptið fór ég í félagi við Todmobile og má segja að ég hafi upplifað Þjóðhátíðina ''baksviðs'' í það skiptið. Eina Þjóðhátíðin sem ég var edrú allan tímann.

Að fara á Þjóðhátíð er sannkallað upplifelsi. Brekkusöngurinn og flugeldasýningin eru náttúrlega barasta gæsahúðarmóment og jákvæð múgsefjun. Algjörlega yndislegt. Það er stórkostleg upplifun að sjá 10 þúsund haugfulla Íslendinga setjast á rassgatið eins og þæg leikskólabörn og kyrja gamla útileguslagara og lög eftir Ása í Bæ með laglausan mann á kassagítar sem forsöngvara. Og hrópa awwww.... óóóóó... vááááá með tárin í augunum yfir glæsilegri flugeldasýningu.

Benny Hinn nær ekki upp betri stemningu á sínum besta degi


Dauð og enn að setja á Visa rað

Vegna gátunnar hjá henni Kristínu Kötlu datt mér í hug nokkuð sem ég heyrði um daginn. Er það rétt að þó maður vilji láta brenna sig (sko eftir að maður er dauður) að þá þurfi ættingjar samt sem áður að punga út fyrir rándýrri líkkistu?

Það sé skylda að manni sé troðið í líkkistu fyrir 300 þúsund kall. Svo sé maður brenndur ásamt  öllum þúsund köllunum.

Afhverju má maður ekki frekar ánafna þessum pening í eitthvað vitrænt. Eiga líkkistusmiðir almennt ættir að rekja inn á þing? Hver setur annars þessar reglur? Landbúnaðarráðuneytið?

Anyone...?!


Ég var að vakna. Eruð þið sofnuð?

Skreið upp í með Þeim Einhverfa um kl. hálf tíu í kvöld og barasta vaknaði nógu snemma til að skríða upp í með Gelgjunni og segja bænirnar fyrir hana.

Hefði síðan átt að skríða upp í til Bretans... nei hann er vakandi ennþá. Ég hefði samt átt að skríða upp í mitt rúm og halda áfram að sofa. Fyrst ég er búin að rífa mig á lappir verð ég að setja inn eins og eitt blogg (það er hér sem sagt) og nú er ég glaðvöknuð.

Sé að þið hafið verið dugleg að kommenta hjá mér og ég missti af Önnu í Essex. Aaarghhhh..


Gaddakylfan 2007

Gaddakylfan, smásagnakeppni Mannlífs, Grand Rokk og Hins íslenska glæpafélags, er haldin í fjórða sinn í ár. Glæpafélagið hélt keppnina fyrst í samvinnu við Grand Rokk fyrir þremur árum en ári síðar hætti Mannlíf sér út á refilstigu glæpasagnanna, gekk til liðs við Glæpafélagið og síðan þá hefur keppnin verið kennd við Gaddakylfuna, vígalegan verðlaunagripinn sem veittur er þeim sem skrifar bestu smásöguna hverju sinni.

Verðlaun verða veitt fyrir þrjár bestu sögurnar að mati dómnefndar. Höfundur bestu sögunnar fær veglegan verðlaunagrip, Gaddakylfu, sem listakonan Kogga hannar, og öfluga fartölvu. Verðlaunafé fyrir annað sætið eru 30 þúsund krónur og 20 þúsund fyrir það þriðja. Þá verða verðlaunasögurnar þrjár birtar í bók sem mun fylgja Mannlífi í lok júní. Mannlíf áskilur sér einnig rétt til þess að velja fleiri innsendar sögur til birtingar í glæpasagnakverinu.

Mig langaði hrikalega í þessa fartölvu. Varð ekki að ósk minni en sagan mín verður birt í bókinni. Ég er mjög glöð yfir því. Langaði samt alveg helvíti mikið í fjandans fartölvuna.

Ég ætla ekki að birta þessa glæpasögu hér en í staðin kemur hér smásagan sem ég skrifaði sem verkefni á námskeiðinu hjá Þorvaldi sæta Þorsteinssyni. Ég tek það fram að það er engin skylda að lesa söguna. En þeim sem ekki lesa hana verður hent út af bloggvinalista hjá konunni. Devil  Verkefnið var byggt upp þannig að allt var gert í öfugri röð. Þ.e. fyrst fann ég titil á smásögu (alveg út í loftið) og svo skrifaði ég söguna. Vatnið sem hvarf var upphaflegi titillinn og var með smá tilllögubeiðni hér á blogginu til ykkar um hvaða vatn þetta væri sem myndi hverfa. Ég fékk hugmynd frá ykkur sem þróaðist og breyttist og endaði í nýjum titli:

 

Á ferðalagi hvernig sem viðrar

 

 

Tíu ára glókollur kemur valhoppandi eftir stígnum. Regndroparnir, sem falla reglulega úr hárinu á honum og smjúga niður hálsmálið á úlpunni, virðast ekki hafa truflandi áhrif á hann. Hann blístrar glaðlega falska tóna og kinnar og nefbroddur eru rjóð, líkt og sólin hefði leikið um andlit hans allan daginn.

 

Mamma stendur við stofugluggann og horfir á guttann sinn nálgast húsið. Hún nýtur þess að sjá hversu glaður og áhyggjulaus hann er því innan skamms mun það breytast.

Amma varð bráðkvödd í morgun og mamma er óviss hvernig glókollurinn hennar mun bregðast við fréttunum. Allt frá því að hann fæddist hefur amma búið hjá þeim og hann þekkir ekkert annað fjölskyldumunstur en að hafa bæði ömmu og mömmu á heimilinu.

 

Þegar hann var lítill vann mamma mikið. Þá var gott að hafa ömmu hjá sér og saman brölluðu þau tvö ótrúlegustu hluti. Þau tvö voru vinir. Bestu vinir.

Með ömmu lærði Glókollur að njóta náttúrunnar og sjá það fallega í öllum veðrabreytingum. Þau fóru í göngutúr á hverjum degi, sama hvernig sem viðraði og Glókolli lærðist að klæða sig eftir eftir veðri.

Þau fóru saman á leikvöllinn og amma mokaði í gríð og erg sandi ofan í marglitar plastfötur á meðan glókollur sturtaði úr þeim jafnóðum aftur. Þau veguðu salt og ýttu hvort öðru í rólunum. Amma kenndi honum að miðla málum á leikvellinum á ýmsan

hátt í stað þess að henda grjóti til að lýsa vanþóknun sinni og óánægju.

  • - Góð pólitík að kunna að miðla málum, sagði amma stundum.

 

Þau gengu fjöruna og varplöndin í kring milljón trilljón sinnum á fyrstu æviárum Glókolls og þar lærði hann að bera virðingu fyrir fuglalífinu og hann lærði að verjast kríunni um varptímann með því að veifa húfunni, rekadrumb eða öðru handhægu fyrir ofan höfuðuð á sér.

Mörg kvöldin læddust þau um í blautu grasinu í garðinum, vopnuð vasaljósum og fötum með mosa í. Ofan í föturna týndu þau ánamaðka fyrir veiðiferðirnar hans Sigga á Snæbóli. Hann var vinur og veiðifélagi afa á meðan afi lifði.

Amma var alltaf skemmtilegur félagsskapur og aldrei að flýta sér eins og mamma. Hún hafði alltaf tíma fyrir Glókoll. Þó honum finndist hann vera orðinn of stór fyrir sögustundirnar hennar ömmu og segði engum frá þeim, þá var uppáhaldstíminn hans á kvöldin þegar hann var komin í náttfötin því þá var komin sögustund. Hann vissi  ekkert betra en að liggja í stofusófanum með höfuðið í kjöltunni á ömmu og hlusta á sögurnar hennar. Stundur voru það ævintýri sem amma span jafnóðum og stundum voru það minningar frá æsku hennar. Það þótti Glókolli merkilegar sögur því amma fæddist snemma á síðustu öld og ólst upp í torfbæ. Æska ömmu var svo gjörólík því sem börn áttu að venjast í dag.

Glókolli dreymdi stundum á nóttunni að hann væri staddur á æskuslóðum ömmu. Hann hafði aldrei komið þangað en lýsingar gömlu konunnar á fólki og stöðum stóðu honum ljóslifandi fyrir hugskotssjónum.. Í þessum draumum var hann stundum að reka kýrnar heim í fjós eða leika sér með ‘'gulllin'' hennar ömmu. Amma kallaði öll leikföng gull og honum líkaði orðið vel.

Amma kynnti Guð fyrir Glókolli. Glókollur átti erfitt með að trúa því að Guð væri raunverulegur og amma sagði að það væri allt í lagi. Hverjum og einum væri í sjálfsvald sett hverju þeir tryðu. En hún útskýrði fyrir Glókolli að fyrir henni væri Guð æðri máttur og tákn alls þess góða sem í mannfólkinu býr.

-Mér þykir gott að trúa því að einhver sé okkur æðri og fylgist með okkur og leiðbeini þegar erfiðleikar steðja að, sagði amma og strauk Glókolli um hárið.

-Mikilvægast er að þú trúir á sjálfan þig og það góða sem í þér býr. Það mun færa þér hamingju og gott líf.

Og hún kenndi honum að fara með bænir.

Glókollur viðurkenndi það ekki einu sinni fyrir ömmu en á hverju kvöldi fór hann með allar bænirnar sem amma hafði kennt honum í hálfum hljóðum áður en hann fór að sofa.

 

Allt þetta rifjaði Glókollur upp í huganum um kvöldið, eftir að hafa fullvissað mömmu um að það væri allt í lagi með hann. En sannleikurinn var sá að hann er með skrýtinn hnút í maganum og honum líður eins og hjartað hans geti brostið á hverri stundu. Hann þrýstir andlitinu ofan í koddann til að mamma heyri ekki litlu kveinin sem brjótast út fyrir varirnar á honum. Að lokum sígur á hann höfgi og hann sofnar kærkomnum, draumlausum svefni.

 

Næstu dagar eru bæði skrítnir og annasamir. Fjöldinn allur af fólki kemur í heimsókn til að votta þeim samúð sína. Sumir koma með blómvendi og aðrir eitthvað að borða eins og smákökur, tertur eða pottrétti til að hita upp.

Ég elda nú stundum tautar mamma taugaveikluð og brosir skökku brosi.

Hún er þreytuleg og hefur miklar áhyggjur af Glókolli. Það hefur rignt stanslaust í þrjá daga og Glókollur eyðir löngum stundum við eldhúsgluggann og starir á regnið skella lárétt á rúðuna.

-Viltu ekki fara og heimsækja einhverja af vinum þínum spyr mamma Glókoll á um það bil klukkustundar fresti.

En hann situr bara sem fastast í stólnum hennar ömmu og handleikur uppáhaldskaffibollann hennar. Hann er þungbúinn á svipinn og það dregst varla orð upp úr honum.

Mamma er ráðvillt. Hún veit að drengurinn hennar er sorgmæddur og saknar ömmu sinnar. En frekar vildi hún að hann henti sér í gólfið og öskraði og gréti en að þessi þögn ríkti.

En það eru miklar annir hjá henni við að undirbúa jarðarförina og erfidrykkjuna. Það er margt sem þarf að huga að og skipuleggja. Sjálf er hún yfirkomin af þreytu  og ekki síst þarf hún að takast á við eigin örvinglan og söknuð.

Mitt í öllu annríkinu reynir hún að hlúa að Glókolli eftir bestu getu en drengurinn er þögull sem gröfin og fæst ekki til að ræða við hana um það sem skiptir máli.

Hún finnur að hann er reiður.

 

Amma er jarðsett á þriðjudegi í byrjun júlí. Þegar Glókollur vaknar um morguninn og lítur út um gluggann er litur dagsins í fullu samæmi við sálina í honum. Eins grár og íslenskur sumardagur getur orðið. Himininn er alþakinn dökkum óveðursskýjum sem gefa loforð um úrhellisrigningu og auðséð er að brátt muni hvessa.

Glókollur stendur við gluggann með hönd undir kinn og talar við Guð. Orðin koma hikandi og röddin er örlítið brostin. Aldrei hefur hann áður talað upphátt við Guð.

-Guð... amma mín sagði að þú værir til. Amma skrökvaði aldrei að mér.... en það er ekki að skrökva þegar maður segir eitthvað og trúir því sjálfur... er það nokkuð? Ha..? Guð.

Guð.. ertu til?

Barnshugurinn þráir svarið ákaft en hann veit að það kemur ekki.

-Þú finnur svör við öllum heimsins spurningum innra með þér hafði amma stundum sagt.

 

Glókollur starir upp í þungbúinn himininn um stund. Skýin eru á fleygiferð.

Hann veltir því fyrir sér hvert dána fólkið á himnum fari þegar svona óveður geysar þarna uppi. Samt veit hann alveg að það er ekkert dáið fólk á himninum. Amma sagði að þegar fólk dæi væri það bara líkaminn sem væri jarðsettur. Sálin héldi áfram að lifa og hún gæti ferðast eins og hana lysti á örskotsstundu.

-Hvað gæti verið meira gaman en að geta heimsótt alla þá staði sem mann langar til? Jafnvel alla á sama deginum, sagði amma oft.

Sú hugsun hvarlar að Glókolli að kannski sé amma bara ekkert leið að vera dáin. Nú gæti hún ferðast um víða veröld eins og hana hafði alltaf dreymt um.

 

Glókollur ákveður á þessari stundu að leggja próf fyrir Guð. Ef Guð er til þá getur hann bara vel sannað það. Það er ekki nema sjálfsagt og réttlátt finnst Glókolli. Og það verður   að vera erfið þraut. Eitthvað sem enginn getur gert... nema Guð... ef hann er þá til.

 -Sem hann er örugglega ekki, botnar Glókollur eigin hugsanir stúrinn á svip. Enginn máttur sem væri góður myndi taka ömmu frá honum. En, það mátti reyna þetta.

 

-Guð, segir Glókollur ákveðinn. Ef þú ert til þá lætur þú vera sólskin og gott veður í dag. Hún amma mín á það skilið.

Svo hlakkar svolítið í honum því eins og skýin þjóta yfir er ekki ólíklegt að það verði þrumuveður þegar líður á daginn.

 

Honum líður betur og þegar mamma kemur inn í herbergi til hans með nýpressuð sparifötin er hann tilbúinn að mæta deginum.

 

Í kirkjunni er óskaplega margt fólk og Glókollur þekkir bara nokkur andlit finnst honum. Ókunnugt fólk kemur til hans og vill kyssa hann og knúsa  og honum þykir nóg komið af því góða.

 

Mamma kreistir höndina á honum þegar þau eru sest og hann finnur að hún er örlítið skjálfhent.  Þetta verður í lagi, segir hann með hljómblæ ömmu og klappar mömmu sinni  hughreystandi á handarbakið.

Það koma viprur við munnvikin á mömmu og hún strýkur sér um augun. Svo kyssir hún hann á ljósan kollinn.

 

Glókollur furðar sig á því hversu mikið presturinn veit um ömmu. Hann segir allskonar sögur af henni og sumar fá fólk til að hlæja. Amma hafði líka alltaf verið góð í því. Að fá fólk til að hlæja og skemmta sér.

Glókollur fylgist með veðrahamnum út um marglitar rúðurnar á kirkjunni. Rigningin beljar á gluggunum og tréin fyrir utan dansa trylltan dans í takt við drunurnar.

 

Glókollur á afskaplega erfitt með að ímynda sér ömmu liggjandi ofan í hvítu kistunni sem stendur upp við altarið. Og þegar þau ganga á eftir kistunni út úr kirkjunni endurtekur hann sífellt í huganum: Þetta er bara líkaminn, þetta er bara líkaminn.

 

Rokið rífurog tætir í föt kirkjugestanna þegar út er komið og allir flýta sér sem mest þeir mega að bílunum sínum.

Á meðan Glókollur bíður eftir mömmu í anddyrinu kemur gömul kona í hjólastól og ávarpar hann. Höfuð hennar tifar til og frá eins og hún hafi ekki stjórn á því og vinstri höndin hennar er undarlega kreppt. En Glókolli líst vel á hana. Hún hefur svo góðleg augu.

-Sæll vinur minn, segir hún.

-Sæl, segir Glókollur kurteislega.

-Hún amma þín talaði mikið um þig.

Glókollur segir ekki neitt en honum þykir vænt um orðin.

-Ég heiti Sigríður frá Læk, heldur gamla konan áfram.

-Ó, segir Glókollur. Ert þú Sigga, æskuvinkona hennar ömmu?

-Já einmitt. Hún hlær örlítið. Við hittumst ekki oft þessi síðustu ár en töluðum reglulega saman í síma. Það er orðið svolítið erfitt fyrir mig að ferðast að norðan.

 

Hún klappar með heilbrigðu höndinni á arminn á hjólastólnum til að útskýra mál sitt.

 

-Það var gaman að sjá þig væni minn, segir hún hlýlega og strýkur honum um vangann.

-Já, segir Glókollur og brosir feimnislega.

 

Svo kemur bíll alveg upp að kirkjudyrunum og ungur maður stígur út.

Frakkinn hans verður rennblautur á þessum örfáu metrum sem eru á milli bílsins og kirkjudyranna. 

 

-Jæja amma, segir hann hressilega, ertu tilbúin? Og svo hverfa þau út í rokið.

 

Á meðan líkfylgdin sniglast áfram áleiðis í kirkjugarðinn leikur Glókollur sér af því að teikna sól á móðuna á bílrúðunni. Mamma leyfir honum að sitja frammí.

-Bara í þetta eina skipti segir hún.

Glókollur teiknar augu og munn á sólina og hugsar um svolítið sem amma sagði einu sinni.

-Ég vona að þegar minn tími kemur að Guð gefi mér að ég fái að sofna svefninum langa. Á meðan ég er ennþá heilbrigð á sál og líkama.

Hann skildi ekki þá hvað amma meinti. En hann skilur það núna. 

 

Presturinn stendur hátíðlegur við opna gröfina. Eins hátíðlegur og hægt er að vera þegar maður er gegnvotur. Öllum að óvörum hefur vindinn lægt og heldur dregið úr rigningunni.

Glókollur les í hljóði það sem stendur á legsteininum hans afa.

Ástkær eiginmaður og faðir Guðmundur Árnason. Hvíl í friði.

Glókollur var skírður í höfuðið á afa. Á legsteininum hafði verið skilið eftir pláss fyrir nafn ömmu. Við látum grafa það á steininn fljótlega hafði mamma sagt.

 

Þegar kistan sígur niður í jörðina passar Glókollur að horfa ekki ofan í opið. Hann einbeitir sér að auða blettinum á legsteininum og reynir að ímynda sér nafnið hennar ömmu þar. Friðleif Ásmundsdóttir.

Og nákvæmlega þar sem Glókollur heldur að Effið muni standa, birtist sólargeisli.

Geislinn stækkar og breikkar þar til allur legsteinninn er baðaður sólskini. Glókollur lítur til himins og feginsstraumur fer um hann allan.

Án þess að hann finni það streyma tárin niður rjóðar kinnarnar og mamma grípur utan um hann.

-Þetta lagast hvíslar hún blíðlega í eyra hans.

-Það er allt í lagi mamma, hvíslar hann á móti. Amma er á ferðalagi.

 

 

 

 


Þið eruð alveg frábær

Vildi bara segja ykkur hversu frábær þið eruð. Ég henti inn þessari ''afmælisfærslu'' hérna síðast og með henni upptalningu á áhugaverðu umræðuefni sem kom upp við kaffiborðið.

Þetta eru málefni sem margir hafa skoðanir á og mismunandi eru þær skoðanir.

Þetta var ekki ætlað sem spurningar sem þið þyrftuð að svara en mikið ofsalega var þetta skemmtilegt.

Við ykkur öll sem höfðuð fyrir því að svara samviskusamlega eins og um próf væri að ræða og þið hin sem deilduð með mér allskonar æskuminningum, skoðunum, fyrirkomulagi á heimilinu og draumórum (samanber sr. Svavar LoL), segi ég takk fyrir góða skemmtun og frábærar undirtektir.


Síðasti punkturinn í smásögunni sleginn

Var að reka endahnútinn á smásöguna. Margt gerðist á þeirri leið og m.a. er titillinn breyttur og jafnvel ekki endanlegur. Eins og er heitir hún Á ferðalagi hvernig sem viðrar en hét áður Vatnið sem hvarf.

Þorvaldur sæti hefur lýst því hvernig sögur skrifa sig sjálfar. Maður sé að skrifa og búin að plana eitthvað og svo barasta taki sagan allt aðra stefnu en maður áætlaði og maður ráði ekki neitt við neitt.
Ég hugsaði; yeah right. Maðurinn er náttúruskáld og svona gerist ekki hjá mér.

En vitið bara hvað! Það er nákvæmlega það sem gerist. Og ég ætla að nefna dæmi.
Þessi saga fjallar um dreng sem er mjög nákominn ömmu sinni sem deyr. Amman trúði á guð en drengurinn er ekki sannfærður. Hann verður reiður út í þennan Guð þegar amma hans deyr og leggur próf fyrir Guð sem á að sanna tilvist sína.

Ég var náttúrlega ekki búin með söguna í tímanum í gær en las upp það sem komið var. Sagði liðinu að ég hefði ekki hugmynd um hvaða vatn þetta væri sem ætti að hverfa. En ég væri ákveðin í því að sagan ætti ekki að vera svona eitthvað sentimental og ég þyrfti að ljúka þessari jarðarför af sem fljótast svo ég gæti snúið mér að prófinu á guð og allt það.

En viti menn! Sagan endar á því að vera UM jarðarförina.

Svona gerast kaupin á eyrinni.

VÁ HVAÐ ÉG GET SETT ÞESSA FÆRSLU Í MARGA FLOKKA. TIL OG MEÐ KVIKMYNDIR (þetta gæti orðið að kvikmynd), STJÓRNMÁL (málefni aldraðra koma þarna inn í), TRÚARBRÖGÐ (skýrir sig sjálft), MENNING OG LISTIR (skýrir sig sjálft hmmm)..... Finn samt enga tengingu við formúluna (líkfylgd fellur sennileg ekki þar inní) eða enska boltann (enginn Breti hér).


Afmeyjunin - Hin beina aðferð og Hin nærgætnislega aðferð

Úr bókinni Kynlíf eftir Fritz Kahn frá árinu 1937:

(Fyrri greinar úr bókinni um þetta efni: grein 168 Eftir veisluna, grein 169 Forleikurinn og grein 170 Særið ekki blygðunarkennd brúðarinnar, er að finna á þessari síðu.

 

grein 171. Hin beina aðferð.

Ef brúðurinn er hraust og sterkbyggð, og ef henni er lagið að mæta óþægilegum viðfangsefnum án tafar og undandráttar, þá er bezta aðferðin þessi: Ef blygðunarsemi er ekki til hindrunar (bezt er að dimmt sé í herberginu), þá dregur hún lærin upp að bolnum og heldur þeim síðan eins aðskildum og auðið er. Í þessari stellingu eru leggöngin eins opin og hægt er og meyjarhaftið er þanið og rifnar auðveldlega. Maðurinn færir getnarðaliminn milli skapabarmanna, upp að meyjarhaftinu, prófar mótstöðuna og viðkvæmnina með léttum þrýstingi og þrýstir honum síðan af afli gegnum haftið og þar með er afmeyjuninni lokið.

 

1937

grein 172. Hin nærgætnislega aðferð.

En ef brúðurin er fíngerð og viðkvæm eða sérlega feimin að eðlisfari svo að hún getur ekki fellt sig við hina ''beinu aðferð, þá verður að viðhafa nærgætni. Þannig hljóða arabisk fyrirmæli um þá aðferð, er nota skal: ''Sýnið mildi og nærgætni og reynið ekki að brjóta á bak aftur hina ólýsanlegu mótsöðu blygðunar hennar; hafið taumhald á hinni áköfu þrá yðar, og ef náttúran hefur gert yður of sterkan og þróttmikinn, þá hlífist ekki við að fresta tilraunum yðar til næsta dags eða jafnvel til þriðja dags''. Ef brúðurin er mjög viðkvæm, ætti brúðguminn að koma henni í skilning um, að hann ætli ekki að beita hana valdi, og láta sér nægja einfaldari athlot og reyna að venja hina blygðunarfullu konu við nálægð sína og karlmannleik. Þegar því marki er náð, ætti hann að láta sér nægja milda kynertingu og bíða átekta. Með rólegum fortölum og hægum aðgerðum, vinnur hann smátt og smátt bug á mótstöðunni, bæði hinni sálrænu og líkamlegu, og það miklu auðveldlegar en með valdbeitingu. Fyrstu nóttina ætti hann ekki að ganga lengra en hann álítur leyfilegt innan takmarka slíks skæruhernaðar. Hann ætti ekki að framkvæma afmeyjun fyrr en mótstaðan er þrotin, en hún varir venjulega ekki eins lengi og fyrst kann að virðast. Andstaða konunnar er eins og ísmoli. Í frosti heldur hann sér, harður eins og steinn, en í sólskininu bráðnar hann sem smjör. Þegar hin sálræna andstaða er horfin, fer hann með varúð að hinum lokuðu leggöngum, prófar mótstöðu meyjarhaftsins og reynir síðan að þrýsta limnum í gegn. Þegar hann er kominn þetta langt, er honum óhætt að ljúka verkinu með fullri karlmennsku. En hann verður fyrst að hafa komið getnaðarlimnum inn á milli innri skapabarmanna, upp að haftinu sjálfu. hann kyssir hana og með hönd yfir augu hennar þrýstir hann höfði hennar mjúklega en ákveðið niður í koddann. Hljóð, tár og andvörp, blandið sársauka og sælu, síðan bros og allir erfiðleikar eru á enda.

 


Næsta síða »

Höfundur

Jóna Á. Gísladóttir
Jóna Á. Gísladóttir

 

 

 Ég er nokkuð dæmigerð íslensk útivinnandi kona. Hef lokið grunnnámi í markþjálfun og gengur betur að hjálpa öðrum við markmiðasetningu en sjálfri mér. Mér lætur líka betur að stjórna öðrum en sjálfri mér. 

 netfangið mitt er jonaagisla@gmail.com

 

 

 

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 4
  • Sl. sólarhring: 5
  • Sl. viku: 17
  • Frá upphafi: 1640569

Annað

  • Innlit í dag: 4
  • Innlit sl. viku: 15
  • Gestir í dag: 4
  • IP-tölur í dag: 4

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Bloggvinir

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband