Leita í fréttum mbl.is

Þjófstartað á sundmóti

 

Við hjónaleysin skröltum með Þann Einhverfa á hans fyrsta sundmót síðast liðinn sunnudag. Við vorum nokkuð spennt yfir þessu. Eiginlega bara forvitin að vita hvernig þetta myndi ganga.

Nýtt umhverfi, óþekkt fólk, ný lífsreynsla........

Í anddyrinu á Laugardalslauginni skildu leiðir. Bretinn og Sá Einhverfi töltu inn í búningsklefa en ég hélt beinustu leið upp á áhorfendapallana.

Mér gjörsamlega féllust hendur þegar þangað kom. Tvær ástæður. Önnur: þvílík breyting sem gerð hefur verið á gömlu laugunum ''mínum''. Þessi innilaug er stórkostleg.

Hin ástæðan: Ég gerði mér enga grein fyrir stærð og umfangi þessa móts þegar Olli, sundkennari Þess Einhverfa, sagðist hafa skráð hann á sundmót. Ég hélt að þetta væri eitthvað lítið og pent. Nokkur börn og foreldrar. Ég vissi ekki að það væri til eitthvað sem héti Nýárssundmót íþróttasambands fatlaðra. Allur hinn félagslegi heimur fatlaðra er nýr fyrir mér. Nú er drengurinn minn orðinn stór og margt nýtt (sem betur fer) að gerast í hans lífi. Ég læri...

Það fór að renna upp fyrir mér að þetta yrði ekki stutt stopp. Þeim Einhverfa yrði ekki fleygt ofan í laugina eftir 10 mínútur og í sturtu 10 mínútum seinna. Nei, þetta leit út fyrir að taka nokkra klukkutíma og ég byrjaði fljótlega að svitna. Það voru líka tvær ástæður fyrir því: gífurlegur hiti í sundhöllinni og kvíðakast yfir öllum þeim uppákomum sem gætu drengurinn gæti skapað. Ég sá fyrir mér að ég gæti þurft að fleygja mér út í laug í öllum fötunum ef hann tæki upp á að taka sundsprett í miðju flugsundi unglinga eða eitthvað slíkt.

En í sannleika sagt hagaði hann sér að mestu eins og engill. Það var aðeins í eitt skipti sem hann ákvað að stinga mig af. Hljóp hringinn í kringum sundlaugina og smeygði sér fram hjá meðlimum lúðrasveitarinnar sem stóðu á bakkanum. Ég bað heitt í hljóði að enginn með hljóðfæri í höndunum endaði í vatni.

Að sjá allar þessar hetjur. Börn og unglinga. Blind, líkamlega fötluð, sum í hjólastól, þroskaheft. Gleðin skein úr andlitunum og það virtist ekki skipta neinu máli hver lenti í hvaða sæti. Þetta var allt bara gleði og ánægja.

Það var undarlega gleðilegt að sjá litla stóra drenginn standa þarna með félögum sínum í Ösp, í stórri græn- og svartröndóttri íþróttatreyju, með óvænt stolt í svipnum.

Ég held.. nei ég er viss um að minn maður var sá eini sem tók 25 metrana með lokuð augu og vælandi. Lái honum hver sem vill. Hann þjófstaraði í sínum riðli. Æddi skellihlæjandi af stað. Kona, sem ég ekki þekki elti hann og hann leit um öxl, herti sundið og hló ennþá meira.

Það gladdi hann ekki mikið að láta draga sig til baka. Því fór það svo að þegar hann fékk loks að fara af stað var það með hægum sundtökum og ég sá hvernig það myndaðist smám saman skeifa á andlitinu á honum. Og svo fór hann að gráta.

Óó hugsaði ég. Æi. Ææ. Ég vorkenndi honum. En ég gat ekki annað en hlegið. Flissaði í hljóði. Við hvöttum hann áfram og hann synti yfir laugina með lokuð augu, sennilega til að halda aftur að tárunum.

Hann ætlaði aldrei að fást upp úr lauginni en þetta endaði allt saman vel. Þó að biðin eftir verðlaunaafhendingu væri löng. En allir fengu medalíu um hálsinn og Jón Margeir, sem sést hér , er sérstaklega flottur fulltrúi þessara krakka. Stórglæsilegur íþróttamaður.

Hvernig sem á það var litið var þessi dagur mikill sigur fyrir okkur öll þrjú. Ekki skyggði á að Sá Einhverfi átti sitt fyrsta ''úti-pisserí'' á ævinni á leiðinni heim. Barnið var í spreng og það var ekki um annað að ræða en að bruna inn á næsta stæði, hendast út úr bílnum og rífa niður um aumingja krakkann. Hann horfði undrandi og kátur á bununa standa út í loftið, en þar sem hann var með pylsu í annarri hendi og frostpinna í hinni átti engin stýring sér stað. Enda fengu flíspeysan mín og gallabuxurnar skerf af herlegheitunum.

Við keyrðum kát heim á leið.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Hrönn Sigurðardóttir

Þarna svífur hinn sanni ungmennafélagsandi yfir vötnunum

.....en Jóna! Þú náttúrulega fleygir þér ekkert á eftir stráksa út í laug! Til hvers heldurðu að Bretinn sé?

Hrönn Sigurðardóttir, 6.1.2009 kl. 23:58

2 Smámynd: Jóna Á. Gísladóttir

Hrönnsla mín. Ég veit það ekki.. hef lengi velt því fyrir mér

Jóna Á. Gísladóttir, 7.1.2009 kl. 00:00

3 Smámynd: Vilborg

Jiiii hvað ég hló mikið við þessa færslu....sé þetta allt saman fyrir mér....mömmuna að reyna að ná barninu upp úr....lúðrasveitarmeðlim í fullum skrúða út í laug

Gleðilegt ár mín kæra og takk endalaust fyrir að leyfa mér að fylgjast með

Vilborg, 7.1.2009 kl. 00:07

4 Smámynd: Ragnheiður

Endalaust skemmtilegt og ég las samviskusamlega fyrir Steinar minn sem flissaði að þessum æfingum öllum.

Takk fyrir þetta Jóna mín

(tek annars undir athugasemd Hrannar með Bretann)

Ragnheiður , 7.1.2009 kl. 00:16

5 Smámynd: Jóna Kolbrún Garðarsdóttir

 

Jóna Kolbrún Garðarsdóttir, 7.1.2009 kl. 01:15

6 Smámynd: Ómar Ingi

Ómar Ingi, 7.1.2009 kl. 01:35

7 Smámynd: Helga skjol

Helga skjol, 7.1.2009 kl. 07:46

8 Smámynd: María Guðmundsdóttir

 frábært!!

María Guðmundsdóttir, 7.1.2009 kl. 08:48

9 Smámynd: Ía Jóhannsdóttir

Ía Jóhannsdóttir, 7.1.2009 kl. 09:03

10 Smámynd:

Til hamingju með þetta. Stór áfangi hjá stráksa. Og hann komst alla leið. Það er sigur í sjálfu sér.

, 7.1.2009 kl. 09:59

11 Smámynd: Sigrún Jónsdóttir

Til hamingju með þennan áfanga....yndisleg lesning að venju

Sigrún Jónsdóttir, 7.1.2009 kl. 13:05

12 identicon

Frábær lesning að vanda og drengurinn bara snillingur.

Við hjónin höfum notið þeirra forréttinda í nokkur ár að fá að fylgjast með sundmótum fatlaðra í gegnum fyrrverandi stuðningsbarn, frábærust mót sem hægt er að fylgjast með og hjarta að springa úr stolti í hvert sinn, þið eigið svo sannarlega góða og skemmtilega tíma fyrir höndum ef prinsinn heldur sundinu áfram.

bestu kveðjur, Kristín

Kristín (IP-tala skráð) 7.1.2009 kl. 18:47

13 Smámynd: Helga Magnúsdóttir

Þetta hefur verið meiriháttar viðburður fyrir alla fjölskylduna. Aldrei hef ég á ævinni heyrt um nýárssundmót fatlaðra. Ég held að fjölmiðlar ættu að hunskast til að fjalla um þetta og kannski aðeins minna um þessa endalausu boltaleiki af öllum toga.

Helga Magnúsdóttir, 7.1.2009 kl. 19:23

14 Smámynd: Högni Jóhann Sigurjónsson

Ég er svo stolltur af honum og ykkur öllum sem voruð þarna.

Takk fyrir mig.

Högni Jóhann Sigurjónsson, 7.1.2009 kl. 22:47

15 identicon

Frábær skrif hjá þér Jóna og vonandi sjáist þig guttinn á fleiri mótum.

Ég man bara þegar ég var að mæta með minn gutta á fyrstu mótin í Sundhöllinni við Barónsstíg, úff hvað það er mikið vatn runnið til sjávar síðan.

Guttinn minn var að keppa þarna í síðasta sinn sökum aldurs og gerði það með stæl. Við komum þó örugglega til með að mæta á þessi mót framvegis til að styðja ungu krakkana.

Kveðja Sverrir G. varaformaður Aspar og faðir Jón Margeirs

Sverrir G (IP-tala skráð) 7.1.2009 kl. 23:11

16 Smámynd: Svala Erlendsdóttir

Hehe sé hann alveg fyrir mér, þjófstartandi og skellihlæjandi, alveg sko fyrstur í lauginni

Svala Erlendsdóttir, 8.1.2009 kl. 09:48

17 identicon

Frábær lýsing Jóna,

Nýársmót fatlaðra er fyrsta sundmót sem haldið er ár hvert og þykir toppurin á sumdmótum fatlaðra því allir fara heim með glaðning hvort sem þau voru fyrst síðust eða þjófstörtuðu allir jafnir.  Það var gaman að fylgjast með honum taka sín fyrstu sundtök á þessu móti og hvað hann var ákafur að hefja sundið, að láta stöðva sig var ekki alveg það sem hann vildi enda vissi hann engin deili á þessari konu sem kom þarna á eftir honum.

Ég vona bara að við eigum eftir að njóta nærveru hans á komandi árum á sundmótum fatlaðra.

Björn Valdimarsson (IP-tala skráð) 10.1.2009 kl. 23:52

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Jóna Á. Gísladóttir
Jóna Á. Gísladóttir

 

 

 Ég er nokkuð dæmigerð íslensk útivinnandi kona. Hef lokið grunnnámi í markþjálfun og gengur betur að hjálpa öðrum við markmiðasetningu en sjálfri mér. Mér lætur líka betur að stjórna öðrum en sjálfri mér. 

 netfangið mitt er jonaagisla@gmail.com

 

 

 

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (23.11.): 0
  • Sl. sólarhring: 3
  • Sl. viku: 8
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 7
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Bloggvinir

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband