Leita í fréttum mbl.is

Fatafullkomnunarárátta æskuáranna

Jenný er hér með úlpufærslu og talar um ''ofbeldi'' sem hún varð fyrir í æsku þegar henni var troðið í úlpu gegn vilja hennar. Og við lestur þessarar færslu rifjaðist upp hið gífurlega ''fataofbeldi'' sem ég varð fyrir á æskuheimilinu.

Hún amma min hefur án efa upplifað kulda í æsku. Enda var konan alin upp í torfbæ. Og þegar ég, litla englabarnið, flutti til hennar 5 ára gömul hefur amma örugglega hugsað: þessu barni skal sko aldrei verða kalt. Fyrst reyndi hún ullarnærföt. Argh.. mig byrjar að klæja við tilhugsunina á sama hátt og kláðinn í hársverði verður óstjórnlegur þegar minnst er á lús.

Hún hafði klárlega ekki hugmynd um mína ofsalegu sérvisku þegar kom að fötum. Ein af minum fyrstu minningum er af mér, sitjandi á svefnbekk, með hvíta sportsokka á fótunum. Ég var í annarlegu ástandi vegna þess að mér fannst ég aldrei getað fengið sokkana til að vera nákvæmlega jafn háir upp á fótleggina. Nákvæmlega jafn háir áttu þeir að vera. NÁKVÆMLEGA. Ekkert minna kom til greina.

Það gat tekið mig óratíma að girða peysuna ofan í buxurnar (jú maður var vel girtur á þeim tíma) því peysan átti að vera algjörlega fellingalaus innan undir buxunum. Ein felling eða krumpa pirraði mig óstjórnlega og ég gat tekið nett fitt yfir aðstæðum.

Þegar ég hugsa til þessarar fullkomnunaráráttu mína á sléttum og felldum fatnaði er klárt mál að ég hef rambað völtum fótum á einhverfurófinu. Geri sennilega enn.

Ullarnærfötin og ég sömdum ekki frið og næst bar amma á borð fyrir mig sokkabuxur. Í þá daga voru sokkabuxur sko ekkert úr neinu bómullardrasli. Ó nei, þær voru ullarblandaðar. Og ég man vel eftir léttinum sem gagntók mig við að rífa mig úr sokkabuxunum að kvöldi dags. Þá hefði vírbursti verið vel þeginn til að losna við kláðann.

Á einhverjum tímapunkti voru buxnapils í tísku. Oh dear Lord þvílík hörmung. En ég varð að eignast eitt slíkt og amma, þessi elska settist niður og sneið og saumaði á englabarnið.

En eitthvað var englabarnið ekki sátt við rennilásinn og áráttan og pirringurinn sem gagntók mig gerði mér algjörlega ókleift að vera þakklætið uppmálað, hvað þá að þegja yfir óánægjunni. Þá særði ég ömmu mína og skammast mín fyrir það enn þann dag í dag. En gott ef ég skammast mín ekki enn meira fyrir að hafa viljað eignast þennan óskapnað sem buxnapils voru. Og aldrei klæddist ég fjandans flíkinni.

Munið þið af minni kynslóð eftir svörtu leikfimibolunum með löngu ermunum sem var skylda að klæðast í leikfimitímum? Þær sem voru uppreisnargjarnar keyptu sér ermalausa og Guð hjálpi þeim sem fjárfestu í dökkbláum. Þær voru nú bara á hraðri leið til glötunar. 

Daginn sem ég átti að mæta í minn allra fyrsta leikfimitíma hafði ekki náðst að kaupa handa mér leikfimibol. Og ég var send með bol og stuttbuxur í poka. Ég leið vítiskvalir við tilhugsunina að falla ekki í fjöldann og mæta í svona ólöglegum fatnaði. Léttirinn sem ég fann fyrir þegar þessum leikfimitíma var aflýst vegna veikinda kennara er ólýsanlegur. Ég get enn fundið hann hríslast um kroppinn á mér.

Húfur voru kapítuli út af fyrir sig. Amma hótaði mér sífellt með heilahimnubólgu og áunninni sköddun á hljóðhimnu en húfu fékkst ég ekki til að setja á hausinn á mér. Það var nú bara hégóminn sem réði þar ferð. Mér fannst ég ljót með húfu. Finnst það reyndar enn en þegar fertugsaldrinum er náð nær skynsemin yfirhöndinni. Allavega hvað húfunotkun snertir.

Nú fer ég hiklaust út að ganga með Vidda Vitleysing, og skil alla tískuvitund eftir heima. Íklædd úlpu með loðkanti á hettu (alls ekki ásættanlegt að mati Jenfo), húfu merktri Icelandair Cargo, með ullarvettlinga á lúkunum, í strigaskóm (með engum hælum) og vindbuxum sem gera nákvæmlega ekki neitt fyrir mig útlitslega.

Á himninum situr amma sigri hrósandi og glottir niður til mín.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Karl Tómasson

Við erum greinilega á sama aldri Jóna mín. Heilahimnubógufaraldshræðslan var oft notuð.

Bestu kveðjur frá Kalla Tomm úr Mosó.

Karl Tómasson, 1.10.2008 kl. 00:43

2 Smámynd: Hrafnhildur Ýr Vilbertsdóttir

Ég skil nákvæmlega hvað þú ert að tala um í sambandi við að fötin hafi þurft að vera slétt...ég gekk á tímabili eins og ég væri með staurfætur því annars komu hnjápokar í buxurnar og svo eignaðist ég barn með asperger svo ég spyr mig oft hvort ég hafi ekki líka vegið salt á einhverfurófinu......

Hrafnhildur Ýr Vilbertsdóttir, 1.10.2008 kl. 01:15

3 Smámynd: Jóna Kolbrún Garðarsdóttir

Ég með öll mín aukakíló fer í rauðan pollagalla og nokia stígvélin mín þegar ég fer út að ganga í rigningu með hundinn minn.  Sem betur fer hefur enginn tekið mynd af mér í gallanum

Jóna Kolbrún Garðarsdóttir, 1.10.2008 kl. 02:05

4 identicon

Hahaha þetta er æðisleg færsla, og ég er svo sammála henni, þó að (sem betur fer) ég hafi sem betur fer aldrei þurft að gyrða peysuna ofan í buxurnar, er af annarri kynslóð.

Ása Ninna Katrínardóttir (IP-tala skráð) 1.10.2008 kl. 02:19

5 Smámynd: Steinunn Helga Sigurðardóttir

frábærlega var gaman að lesa þetta ! Ég hugsaði líka, "asberger" þegar ég heyrði lýsinguna á fataáráttunni, enda er ég í því umhverfi alla daga. hehe. ég átti svona bláan leikvinmisbol, með stuttum ermum !!!!

takk fyrir þessa yndislegu lesningu sem fylgir mér inn í nýjan dag með bros á vör.

KærleiksLjós til þín

steina

Steinunn Helga Sigurðardóttir, 1.10.2008 kl. 07:06

6 Smámynd: Jóhanna Magnúsar- og Völudóttir

Það var mikil húfubarátta á mínu heimili, mér var ekkert kalt á hausnum, en mömmu var það fyrir mína hönd. Hún trúð heklaðri húfu (blárri og hvítri) á höfuðið á mér og mér fannst ég eins og smákrakki með þessa húfu! (Þetta var þegar ég var  9 ára og sko enginn smákrakki ) .. Ég gekk niður tröppurnar með húfuna, út og ég vissi að mamma fylgdist með mér í glugganum, en um leið og ég var komin fyrir horn þá var hún rifin af (húfan ekki mamma) og sett ofan í skólatösku. 1-0 fyrir mér! ... Að vísu var ég með innbyggða ofursamvisku (og er það enn) þannig að ánægjan var aðeins 75% þegar upp var staðið.

Jóhanna Magnúsar- og Völudóttir , 1.10.2008 kl. 08:41

7 Smámynd: Ía Jóhannsdóttir

Dóttir mín var að berjast við sinn tveggja ára hér í morgun, nei ekki rauða, bláa.  Hehehehe.. snemma byrjar það og hann fékk að ráða! 

Eigðu góðan dag Jóna mín.

Ía Jóhannsdóttir, 1.10.2008 kl. 09:53

8 Smámynd: Einar Örn Einarsson

Skemmtileg færsla.

Er svo heppinn sjálfur að vera lítið upptekinn af fatnaði. Númer eitt að vera laus við kuldabola. Man eftir vinkonum mínum í gegn um árin, sem voru stundum helbláar af kulda, hálf berar eins og þrælar tískunnar, og uppskáru blöðrubólgu og tulbehör. En að fara í úlpur eða annak skjólfatnað NEI! Ein af þessum skemmtilegu þversögnum í tilverunni.

Einar Örn Einarsson, 1.10.2008 kl. 10:08

9 Smámynd: M

Yndisleg færsla

M, 1.10.2008 kl. 10:39

10 identicon

Hehehehehe.Gammó,man eftir þeim Ö=)(//&&%#".og kláðinn og léttirinn við að komast úr þeim.Það var hvítur bolur og bláar stuttbuxur sem maður saumaði í handavinnu árið áður,sem notaðar voru í minni leikfimi.

Birna Dis Vilbertsdóttir (IP-tala skráð) 1.10.2008 kl. 11:33

11 Smámynd: Anna Margrét Bragadóttir

'Eg átti svona svartan ermalausan  leikfimibol og ekki hægt að nota neitt annað.

En ég man það eins og það hafi gerst í gær,þegar þú sast gólandi í sófanum að reyna að jafna sokkanna þína og ég krullaðist öll upp,vitandi það að sokkarnir yrðu aldrei alveg jafnir að þínu mati

Er að berjast við guttann það er nærri ill mögulegt fyrir mig að koma honum í úlpu,og allra verst er það með sokkanna,skyldu þið vera eitthvað skyld

Eigðu góðan dag

Anna Margrét Bragadóttir, 1.10.2008 kl. 11:56

12 Smámynd: Róslín A. Valdemarsdóttir

Ef þetta tíðkaðist enn þann dag í dag með íþróttabolina myndi ég annað hvort skrópa að mæta bara með stuttbuxur og bol!
Það myndi ekki hvarfla að mér að fara í svona, ojjjj

Róslín A. Valdemarsdóttir, 1.10.2008 kl. 13:39

13 Smámynd: Edda Agnarsdóttir

Knús - ég er af einhverri annari fatakynslóð!

Edda Agnarsdóttir, 1.10.2008 kl. 16:56

14 Smámynd: Ómar Ingi

Ómar Ingi, 1.10.2008 kl. 18:07

15 Smámynd: Rúna Guðfinnsdóttir

Hvað sem heilahimnubólgu og heilaskaða snertir...þá er ég virkilega ljót með húfur!  Ég er þó hatta og húfukona, en það fer mér bara alls ekki að bera slík höfuðföt! Unhappy Face

Skemmtileg lesning að vanda.  Kveðjur og heilsanir í bæinn!

Rúna Guðfinnsdóttir, 1.10.2008 kl. 18:20

16 Smámynd: Jóna Á. Gísladóttir

Kalli. Ég vissi ekki að þetta hefði verið landlæg aðferð til að fá húfu á haus

Hrafnhildur. Nú hló ég. Staurfætur.... ég held ég hafi ekki verið svona langt leidd

Jóna Kolbrún. Þetta líst mér vel á, rauður pollagalli. Kannski að ég fái mér einn í gamla gula litnum

Ása Ninna. hehe bíddu bara. þetta verður án efa trend áður en langt um líður.

Steinunn. Já einmitt Asperger. Ætli það sé ekki málið

Jóga. hahahaha var samviskubitið að drepa þig? Já þú hefðir sennilega bara fengið meira út úr því að láta þig hafa það.

Ía. Það er hrikalegt þegar þau byrja svona ung að hafa skoðun á hverju á að klæðast  akkúrat þegar mömmunum finnst svo gaman að dúlla í þessu.

Einar Örn. Ó já, sjálf gekk ég um berfætt í mokkasínunum öll unglingsárin, sama hvernig viðraði.

M. Takk fyrir það og takk fyrir innlitið.

Birna Dís. Hahahahaha þvílík nýting

Anna sys. Já svei mér þá ef það er ekki einhver skyldleiki þarna

Róslín. Þú ert svo samviskusöm að þú myndir ekkert skrópa. En þú myndir sennilega reyna að fá breytingu í gegn.

Edda. Já er það? hverju klæddist þú í leikfimi í denn?

Ommi. Knús til baka

Rúna. Ææ hvernig fer það saman? Að elska hatta og húfur en vilja ekki nota. Áttu lager upp í skáp?

Jóna Á. Gísladóttir, 1.10.2008 kl. 19:26

17 Smámynd: Róslín A. Valdemarsdóttir

Ég myndi þykjast vera hölt eða eitthvað - allt annað en að vera í einhverju þröngu... ég sjáðu til er algjör púki þegar að klæðnaði kemur - mikið af efni utan um mig takk...

Róslín A. Valdemarsdóttir, 1.10.2008 kl. 19:31

18 Smámynd: Rúna Guðfinnsdóttir

Ég vil svo sannarlega nota hatta og húfur, en aðeins einn hundraðasti sem ég máta fer mér vel.  (ég kaupi auðvitað ekki höfuðföt sem fara mér illa......en þau eru möööööörg)Ég er langleit og með asnalegan haus sem fer ekki að klæðast í húfur eða hatta!Dismal

Rúna Guðfinnsdóttir, 1.10.2008 kl. 19:31

19 identicon

Algjörlega, fullkomlega dásamleg lýsing.  Og það var nú ýmislegt sem rifjaðist upp af fatamálum undirritaðrar hér í den. Aldrei að vita nema sagaðr verði sögur af tískudrósinni þeirr á bloggi þó síðar verði.

Anna Ólafsdóttir (anno) (IP-tala skráð) 1.10.2008 kl. 20:11

20 Smámynd: Brynja Hjaltadóttir

Ég átti bláan stutterma leikfimibol og það áttu fleiri í mínum bekk. Þótti  bara fínt og minnist ég ekki að það þætti neitt glatað. Enda bjó ég nú bara í sveitinni Hvolsvelli. Ég þjáðist lengi af svona húfufælni en í dag geng ég oftast með derhúfu í vinnunni og prjónahúfu þess á milli og finnst ég geggjað flott  Betra er að vera heitt en heimskur...

Brynja Hjaltadóttir, 1.10.2008 kl. 22:02

21 identicon

Dásamleg færsla! 

Kannast svo sannarlega við þetta með af föt mega ekki krumpast innanundir utanyfirflíkum...  Þjáist af þessu enn í dag - þarf t.d. að setja vettlingana utan yfir úr og armband og svo úlpuermina utan yfir stroffið á vettlingnum - spurning um hvaða syndrómi maður þjáist af???

Ég held að gáfulegasta tíska síðustu ára hafi verið þegar kraft- gallarnir urðu tískuvara.  Þá gátu börn og unglingar verið klædd í samræmi við íslenska veðráttu og þó verið í móð...

Anna Lilja Torfadóttir (IP-tala skráð) 1.10.2008 kl. 23:23

22 identicon

Ég á eina svona gamla góða bláa Álafossúlpu.. Samkvæmt mínum útreikningum er hún a.m.k. orðin 35 ára og ég er þriðji ættliðurinn sem gengur í þessari úlpu.  Úlpan er kyrfilega merkt afa mínum með fallegum skrautskriftar stöfum í hálsmálinu.  Eftir af afi dó fékk pabbi hana og þegar pabbi lést fyrir 3 árum síðan þá erfði ég hana, og hef notað hana óspart síðan, eina flíkin sem ég á sem ég ber mikla virðingu fyrir og ber hana með stolti.   Það sér ekki á þessari úlpu hún er eins og ný.... aðeins ein smellan að  framan á er pínu beygluð!!!!

Ég vek alls staðar eftirtekt í úlpunni, bæði eldra og yngra fólk hefur spurt mig að því hvar ég hafi fengið þessa úlpu.  Fór til læknis í fyrra í úlpunni góður og hann sagði;  Ég spyr nú aldrei sjúklingana mína hvar þeir versli fötin sín... en hvar fékkstu þessa úlpu eiginlega!!!  

Ég hlakka til vetrarins þá get ég farið að nota Álafoss úlpuna mína, hún er svo hlý og notaleg.  

Get svo sem líka sagt það að ég hlakka ekkert sérstaklega fyrir vetrinum vegna einhverfa guttans míns..  Hann HATAR úlpur, peysur og ÚTIBUXUR.  Kuldagalli er ekki einu sinni til í hans orðaforða, enda færi hann Aldrei í svoleiðis....en húfunum sína elskar hann :)  Þær eiga ekki sjö dagana sæla framundan starfsfólkið á deildinni hans á leikskólanum að reyna að klæða hann í múnderinguna í vetur .... Sá myndband þar sem hann stóð og þrjóskaðist við... henti teettch mydnunum í gólfið og sagði bara NEI NEI NEI !!!!!   Mamman gat nú ekki annað er brosað út í annað......   svona þangað til hún þurfti að klæða hann næst í alla múnderingunar.

Sif (IP-tala skráð) 2.10.2008 kl. 00:16

23 Smámynd: Jens Guð

   Mikið sem mér þótti gaman að lesa þessa færslu.  Eins og reyndar allar færslur þínar.  Þetta "pjatt" er mér svo framandi.  Vegna jarðarfarar mágkonu minnar komum við 6 systkinin saman.  Sem sjaldan gerist vegna búsetu víðsvegar um heim.  Í samtali okkar kom upp umræða um fatasmekk.  Ég hélt ranglega að vegna þess að við vorum alin upp í útjaðri Hóla í Hjaltadal hafi klæðnaður aldrei skipt máli.  Ég var hinsvegar upplýstur um að ég einn okkar systkina hafi aldrei hugsað út í klæðaburð.  Mér hefur alltaf nægt að næstu buxur eða skyrta passaði nokkurn veginn.  Litir eða snið skiptu mig aldrei máli.  Systur mínar héldu því meira að segja fram að ég hafi aldrei hirt um að taka sokka almennilega upp um mig.  Hvað þá að ég hafi tekið eftir því hvort ég var í "spariskóm" eða strigaskóm við hin ýmsu tækifæri.

  Í mínum huga er fatnaður fyrst og fremst til að hylja nekt.  Ef ég hefði ekki lent í gagnrýni frá systkinum mínum í gær hefði ég að óreyndu haldið að uppeldi í sveit hefði gert mig ónæman fyrir "pjatti" varðandi klæðaburð.   

Jens Guð, 2.10.2008 kl. 01:33

24 Smámynd: Jens Guð

  Ég ætla að bæta við hrósi fyrir hvað færslan er vel skrifuð.  Með inngangi,  risi,  framvindu og  kröftugri "punch line".  Eins og ég hef lesið mér vel til á langri ævi um bókmenntafræði þá er ég búinn að uppgötva - eftir að hafa lesið margt eftir þig - að þú hefur "instant" tilfinningu fyrir "prósa".  Ef ég miða við mína sérfræði þekkingu á myndlist og tónlist (en ekki bókmenntun nema sem leikmaður.  En samt bókmenntadellukall) þá er þér svo eðlislægt að afgreiða texta á þennan hátt að þú átt alfarið að halda þig við þennan stíl.  Það er að segja alls ekki reyna að fara eftir annarri uppskrift.   

Jens Guð, 2.10.2008 kl. 03:32

25 identicon

Almáttugur það var alltaf stríð á mínu heimili því ég var alltaf hálf ber úti vildi aldrei vera í úlpu var frekar við það að frosna.

Eyrún Gísladóttir (IP-tala skráð) 2.10.2008 kl. 08:34

26 Smámynd: Guðríður Pétursdóttir

eitthvað rámar mig í svona fráþví ég var lítil. Annars held ég að enginn toppi Hörð Frans minn í fata sérvisku.

Hann vill helst ekki vera í úlpu,ever.sama hvernig veður er. Hann verður að vera í gallabuxum. Það er ekki sama hvernig gallabuxum samt.

Í gær var panikkað af því að það voru íþróttir og við fundum ekki arsenal buxurnar hans og hann gat alls ekki verið í arsenal bol og adidas buxum.. það var ekki alveg að ganga

Guðríður Pétursdóttir, 2.10.2008 kl. 09:50

27 Smámynd: Jóna Á. Gísladóttir

Anna. Ég bíð spennt

Brynja. Myndin af þér talar sínu máli

Anna Lilja. Alltaf gaman að ''sjá'' þig. Eitthvað syndrome er það allavega  Sammála þér með kraftgallana.

Sif. Frábær saga af úlpunni. Takk fyrir hana

Jens. Þú ert nú meira krúttið. Ég veit ekki hvort ég á þetta professional hrós skilið en gott er það. Þú ert sem sagt sjálfskipaður sveitadurgur

Eyrun. Þetta var greinilega landlægt í denn

Guðríður. Hörður er með stíl

Jóna Á. Gísladóttir, 3.10.2008 kl. 00:04

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Jóna Á. Gísladóttir
Jóna Á. Gísladóttir

 

 

 Ég er nokkuð dæmigerð íslensk útivinnandi kona. Hef lokið grunnnámi í markþjálfun og gengur betur að hjálpa öðrum við markmiðasetningu en sjálfri mér. Mér lætur líka betur að stjórna öðrum en sjálfri mér. 

 netfangið mitt er jonaagisla@gmail.com

 

 

 

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.11.): 1
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 5
  • Frá upphafi: 1640367

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 4
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Bloggvinir

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband