Leita í fréttum mbl.is

Kirkjugarðsþema og Bónus breytist í kaupmanninn á horninu

Yfirleitt sér Bretinn um að versla. Ég nenni því ekki. Og ég kemst upp með þetta því innkaupin mín eru alltaf dýrari en hans. 

Í þessu yndislega veðri sem við fengum að njóta í dag var ekki annað hægt en að Bretinn færi út á golfvöll. Og þar sem Gelgjan og Sá Sykursjúki (kynni hér með til leiks systurson minn 12 ára) voru hér bæði til að líta eftir þeim Einhverfa, ákvað ég að skella mér í Bónus.

Krakkarnir voru með einhvers konar hryllings-kirkjugarðs-dauða-þema í gangi hérna. Búin að hengja teppi fyrir glugga og fullt af slæðum og klútum yfir rjáfrin uppi á lofti. Í þetta voru svo bundnar fjöldinn allur af dúkkum. Þær voru dauðar. Hengdar væntanlega og dingluðu þarna með lokuð augu og reytt hár. Ofan í bastkistunni voru fleiri dauðar dúkkur og krakkarnir máluðu sig í framan þannig að um mig fór hrollur. Sá Einhverfi fylgdist með af miklum áhuga og í  höndum þessara sturluðu barna skildi ég hann eftir og dreif mig í Bónus. Það mun líka koma á óvart að mér var treyst fyrir sunnudagsmatseldinni og mig vantaði sætar kartöflur (Jenný Anna takk fyrir ábendinguna).

Við innganginn á Bónus í Árbænum er brauð og kökur o.þ.h. og ég var að skoða einhverskonar sixpack af rúnnstykkjum. Var mikið að spá í hvort þetta væri sniðugt (nákvæmlega ástæðan fyrir stærri og dýrari innkaupum en Bretinn gerir). Í þann mund sem ég ákvað að þetta færi ekki í innkaupakerruna og legg frá mér pakkann segir rödd fyrir aftan mig: Þetta er ofsalega gott.

Ég sný mér við og fyrir aftan mig stendur eldri maður sem ég hef aldrei séð áður. Við spjölluðum um rúnnstykkin og annað brauðmeti, frystingu á slíkri vöru og innkaup. Vorum samferða út ganginn. Leiðir skyldu við mjólkurkælinn. Í mjólkurkælinum heyrði ég tvær konur vera að velta því fyrir sér hvar g-mjólkin væri. Ég blandaði mér í það og benti þeim á mjólkina. Móment sem Gelgjan hefði látið sig hverfa á, ef hún hefði verið með í för. En ég uppskar fallegt bros að launum.

Þegar ég stóð við frystinn heyrði ég skarkala og læti og leit við til að sjá hverju sætti. Þá stóð kona, hálffalin á bak við stafla af plastílátum. Staflinn fór óðum minnkandi því eins og maður sér í bíómyndunum þá var allt að hrynja. Augu okkar mættust og ég brosti út að eyrum. Kunni ekki við að fara að hlæja. Þetta var ekki ég, kallaði konan til mín. Ég tók bara eitt. Augnaráðið var starandi.

Í annarri hendi hélt hún á Bónus-spjaldi sem stóð á ''Plastílát 199 kr'' og með hinni hendinni reyndi hún af veikum mætti að koma í veg fyrir að restin hryndi. Núna er ég með móral yfir því að hafa ekki hjálpað aumingja konunni að raða upp helvítis plastílátunum aftur.

Það var biðröð á kössunum. Á eftir mér kom maður um sextugt með 3 hluti í körfu. Ég benti honum með höfuðhneigingu að fara fram fyrir mig. Það flæddi út úr minni körfu. Takk skal du have, sagði hann, en kom upp um íslenskan uppruna sinn þegar hann spurði mig í næstu andrá hvort ég vissi hvar hann finndi beiskan brjóstsykur.

Ég fór léttstíg út úr Bónus í dag. Hver þarf á félagslífi að halda þegar innkaupaferðirnar eru svona gefandi?

Heima tóku á móti mér þrjú börn, hvert öðru hryllilegra í útliti. Gelgjan og Sá Sykursjúki höfðu málað Þann Einhverfa í stíl við sig. Kunni ég þeim bestu þakkir fyrir þegar ég tók fram hreinsigræjurnar mínar í kvöld til að þrífa á honum andlitið. Ekki sá samvinnuþýðasti. HJÁLP HJÁLP slepptu mér... slepptu mér segi ég.

Engin kom hjálpin og nú hvílir hann ljóshærður, búttaður, friðsæll og hreinn á koddanum sínum. Og ég ætla að leggjast á minn.

Góða nótt elskurnar.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jenný Anna Baldursdóttir

Og hvernig smakkaðist "ábendingin"?.  Það þarf ég að fá að vita um leið og þú vaknar ´sskan.

Takk fyrir frábæran pistil.  Nú verður sá Sykursjúki, minn pr-maður í sögunum, enda deilum við sömu örlögum ég og hann. 

Smjúts á þig

Jenný Anna Baldursdóttir, 8.10.2007 kl. 00:50

2 Smámynd: Jens Guð

  Bónus er verslun fátæka fólksins.  Það er metnaðarleysi að versla í Bónusi.  Við,  ríka fólkið,  borgum þokkalega háar upphæðir fyrir að versla í alvöru búðum:  Hagkaupum og 10 - 11.  Með reisn. 

Jens Guð, 8.10.2007 kl. 00:53

3 Smámynd: Bjarndís Helena Mitchell

Iss, hvernig heldur ríka fólkið utan um peningana sína? Nú, það verslar í Bónus og sparar sér skildinginn...

Takk fyrir frábæran pistil, það er alltaf gaman að lesa þín skrif, enda svo frábær í lýsingunum og viðhorfi! Góða nótt 

Bjarndís Helena Mitchell, 8.10.2007 kl. 01:40

4 Smámynd: Þorsteinn Valur Baldvinsson

Flest allir borgarbúar eru bændur sem fluttu á mölina og brugðu búi, kaupfélögin fóru flest á hausinn og samkomuhúsin urðu eftir í sveitinni hjá réttinni.

Félagsheimilin heita því Hagkaup, 10-11, Krónan eða Bónus í dag, enda fara margir út í búð án þess að eitthvað vanti, annað en nálægð við aðra sálu.

Sála leitar sálu, sagði mér kona eitt sinn.

Þorsteinn Valur Baldvinsson, 8.10.2007 kl. 01:52

5 identicon

Gott að það eru fleiri kurteisir í "kauffélaginu"en ég. Krónan og Bónus eru mitt kauffélag

Birna Dis Vilbertsdóttir (IP-tala skráð) 8.10.2007 kl. 07:19

6 Smámynd: Salka

Unglingarnir spyrja hvort ég sé að reina að eignast vini, þegar ég tala við fólk í búðunum.

Salka, 8.10.2007 kl. 07:24

7 Smámynd: Sigþóra Guðmundsdóttir

Hvernig fór ég að áður en ég rakst á síðuna þína? Takk fyrir mig...  

Sigþóra Guðmundsdóttir, 8.10.2007 kl. 08:18

8 Smámynd: Hrönn Sigurðardóttir

Verzlunarferðir geta verið svo gefandi.........

Hrönn Sigurðardóttir, 8.10.2007 kl. 08:29

9 Smámynd: Katrín Snæhólm Baldursdóttir

Jóna þú ert svo útsjónarsöm og klár...hvernig ferðu að því að láta bretanum finnast að það sé betra að hann geri allt...sjái um innkaup matseld og sollis?? Alger snillingur ertu kona. Ég verð að prófa þetta...Annars get ég ekki beðið eftir að fara að versla í Bónus og hitta fólk og segja hæ, ná í eina mjólk, lenda svo á kjaftatörn og svona. Eins gott að gefa sér góðan tíma fyrir matarinnkaupin þegar maður kemur til landins.

p.s kom einhvern tíman endir á söguna um liðið í Reykjavík....ég er enn að pæla í hvernig þetta fór eiginlega.

Katrín Snæhólm Baldursdóttir, 8.10.2007 kl. 09:27

10 identicon

Sjálfur er ég svolítið eins og sardína í dós þegar ég fer í Bónus (við Veiga skiptumst á) ... og er þeirri stund fegnastur (á annatíma) þegar ég er kominn út, en fatta svo heima að ég var aðeins of fljótur eða stressaður og gleymdi hlutum Ég hef hins vegar ekki lent í brauðsamtali við einhvern en ég hef oft upplifað þetta yndislega bros þegar maður er að víkja undan einhverjum eða leyfa öðrum að komast að ... o.s.frv.

Takk fyrir þessa sýn á búðarferðirnar, Jóna!

Doddi - Þorsteinn G. Jónsson (IP-tala skráð) 8.10.2007 kl. 09:30

11 Smámynd: Kristín Katla Árnadóttir

Já Jóna mín mart gerist í Bónus stundum heilu æfintýrinn.

Kristín Katla Árnadóttir, 8.10.2007 kl. 10:03

12 Smámynd: Gunnar Helgi Eysteinsson

Allt sem þú skrifar verður áhugavert... ég öfunda þig

Gunnar Helgi Eysteinsson, 8.10.2007 kl. 10:50

13 Smámynd: Sunna Dóra Möller

Ég fer nú líka oft í gegnum þessa Árbæjarbónus búð...oftast finnst mér það alveg hrikalega leiðinlegt og bara dreg andann djúpt og hleyp inn! En stundum einmitt koma svona ferðir þar sem að það er eiginlega bara gaman að versla og svona óvæntir atburðir eiga sér stað ! Ég verð að viðurkenna að ég finn til með þessari konu með ílátin...þetta er eitthvað sem að gæti komið fyrir mig og ég myndi deyja, höndla ekki svona neikvæða athygli ! Takk fyrir skemmtilega færslu !

Sunna Dóra Möller, 8.10.2007 kl. 11:23

14 Smámynd: Ásdís Sigurðardóttir

Svei mér þá ef ég hélt ekki bara að þú værir að skrifa um mig.  Mínum börnum fannst ekki alltaf gaman að versla með mér í den. Alltaf þurfti ég að hafa skoðun á öllu, hjálpa öðrum og hlaupa eftir því sem gamalt fólk fann ekki. Starfsmenn viðkomandi Bónuss búða voru orðnir vinir mínir eftir 4 heimsóknir. Enn í dag hef ég þetta svona og nýt minna búðarferða, ef einhver er með fýlu svip í röðinni þá brosi ég undurblýtt og lýsi yfir ánægju minni með hvað allt sé nú ódýrt og við heppin að fá að standa smá í röð og spjalla. Oftast hressist liðið við þetta, en sumum er ekki viðbjargandi.  Gott að þér tókst að þrífa þann einhverfa, en hver tók til í kirkjugarðinum??  Kær kveðja

Ásdís Sigurðardóttir, 8.10.2007 kl. 13:15

15 Smámynd: Anna Einarsdóttir

"Augnaráðið var starandi"   Hahahahaha     Jóna snillingur !

Anna Einarsdóttir, 8.10.2007 kl. 14:40

16 Smámynd: Heiður Þórunn Sverrisdóttir

Takk fyrir frábæra fæslu ...mig langar líka að vita hver tók til í Kirkjugarðinum....

Heiður Þórunn Sverrisdóttir, 8.10.2007 kl. 14:42

17 Smámynd: krossgata

Fyrirkomulagið á mínu heimili er svipað og hjá þér.  Minn ekta sér um innkaupin og eldamennskuna.  Stöku sinnum fer ég Bónus - mér finnst afar leiðinlegt að fara í búðir.  En ég er samt yfirleitt lengi að versla, því ég eyði löngum tíma í að skanna sjoppuna (það er alltaf verið að breyta skipulaginu í þessum búðum) og svo verslar maður og svo þarf ég aðeins að skoða allt það sem ég ætlaði ekki að kaupa til að athuga hvort ég finni ekki eitthvað sem bráðvantar og minn ekta hefur ekki auga fyrir.    Venjulega ákveð ég svo eftir þó nokkra umhugsun að ég ætli ekki að kaupa þetta núna sem ég fann og hann hafði ekki auga fyrir.  Svo það fer mestur tíminn í að skoða og hugsa.

krossgata, 8.10.2007 kl. 19:10

18 Smámynd: Guðríður Pétursdóttir

Um daginn, í bónus, hljóp um óður drengur með sólgleraugu og tók utan um allar myndarlegu stelpurnar í búðinni, þeim til mikils ama..

Fyrst létti mér yfir að hann hafi ekki komið til mín, svo áttaði ég mig og varð helvíti pissed

Guðríður Pétursdóttir, 8.10.2007 kl. 21:19

19 Smámynd: Guðríður Hrefna Haraldsdóttir

Frábær innkaupaferð. Svona er einmitt stemmningin í Einarsbúð ...

Guðríður Hrefna Haraldsdóttir, 8.10.2007 kl. 21:35

20 Smámynd: Jóna Á. Gísladóttir

Jenný, þó ég svari þér ekki fyrr en núna þá þýðir það ekki að ég hafi verið að vakna. Ég er reyndar í þann veginn að fara að sofa aftur. hehe. Kattöpplurnar brögðuðust algjörlega jammí. Takk elskan

Jens Guð. Þarna komstu upp um þig. Verslun ríka fólksins er Nóatún. Ég hef aldrei séð þig þar

Bjarndís mín þakka þér fyrir og ég býð þér góða nótt sólarhring seinna

Þorsteinn Valur. Ég held þetta sé lýsingin á ömmu. Skemmtileg innsýn í fortíðina. Takk fyrir það.

Arna ég trúi því bara ekki að þú sért ekki búin að uppgötva þetta félagsheimili sem Bónus er.

Já Lísa, þarna er nebblega allt að gerast.

Sigþóra ó hvað þetta var sætt af þér

Hrönn tell me about it...

Katrín mín þetta kostar margra ára útsjónarsemi og útreikninga. Tók sérstakt námskeið í hugsunarhætti karlmanna til að ná þangað sem ég er í dag. Hef enn ekki haft mig í framhald af sögunni

Doddi believe me... ég er sammála þér. Sardína í dós. það er svona yfirleitt mín upplifun af innkaupaferðum. Þess vegna sá ég sérstaklega ástæðu til að blogga um þessa því hún var aðeins öðruvísi.

Kristín mín Katla. Heilu ævintýrabækurnar gerast hjá bleika grísnum.

Gunnar ussussuss það er lesandinn sem gerir textann áhugaverðan. Þitt hugmyndaflug.

Sunna Dóra. Ég býst við að sérstaklega fyrir feimið fólk sem á ekki til vott af athyglissýki er þetta martröð

Ásdís. Þú ert nú sko týpan í að eignast vini í kjörbúðinni það er á hreinu. Svo ræðin, hress og skemmtileg.

Heiður. Krakkaskrípin tóku til eftir sig. Nema hvað?

Anna ég sá eiginlega ekkert nema augu á stilkum fyrir ofan plastbox

Guðríður.

Gurrí. Einmitt. Kaupmaðurinn á horninu.

Krossgáta. Eins og mælt úr mínum munni

Jóna Á. Gísladóttir, 8.10.2007 kl. 22:20

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Jóna Á. Gísladóttir
Jóna Á. Gísladóttir

 

 

 Ég er nokkuð dæmigerð íslensk útivinnandi kona. Hef lokið grunnnámi í markþjálfun og gengur betur að hjálpa öðrum við markmiðasetningu en sjálfri mér. Mér lætur líka betur að stjórna öðrum en sjálfri mér. 

 netfangið mitt er jonaagisla@gmail.com

 

 

 

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (24.11.): 1
  • Sl. sólarhring: 3
  • Sl. viku: 10
  • Frá upphafi: 1640375

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 9
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Bloggvinir

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband