Leita í fréttum mbl.is

Athugasemdirnar ykkar og bloggin

Sæl krakkar mínir.

Eftir að hafa lesið öll kommentin við færslunni hér á undan fór ég að hugsa (sjaldgæft, en það gerist). Þarna setti ég inn eigin hugsanir, skrifaðar fyrir um 2 árum, nákvæmlega eins og þær voru. Tilfinningar mínar varðandi glataðan draum. Ekkert merkilegt. Allir hafa átt sér drauma sem ekki rættust. Eða drauma sem splundruðust óvænt.

En svo komu fallegu kveðjurnar ykkar og sum ykkar virtust lesa eitthvað út úr þessari færslu. Hluti sem ég hef aldrei spáð í eða velt fyrir mér. Eins og Hugarfluga sagði:

Öll eigum við okkur vonir, þrár og drauma. Sumir draumanna rætast ... aðrir ekki. Þeir eru lánsamir, sem kunna að spila úr þeim spilum sem lífið úthlutaði þeim og fara ekki hamförum yfir að fá ekki alla slagina. Held að þú sért ein af þessum manneskjum.

...Og ég hugsaði: Kannski er þetta bara rétt. Kannski á ég bara fulla virðingu skilið fyrir hvernig ég hef tekið á málunum. Með yndislegan mann mér við hlið. Að sníða sér stakk eftir vexti, eins og Laufey segir. Það er nákvæmlega málið. Það er það sem flestir gera í lífinu. En fólki ferst það misvel úr hendi.

Á bak við hvert einasta andlit hér á blogginu... í kommentakerfinu mínu og ykkar... er saga. Það er vissulega misjafnt hvaða spil lífið gefur okkur, og misjafn hvernig við spilum úr þeim. En allir eiga sér sögu og allir hafa gengið í gegnum skin og skúrir í lífinu.

Jenný Anna. Deilir með okkur af hreinskilni edrúmennsku sinni og hvernig var fyrir henni komið

Þröstur. Saknar daglegra samskipta við dóttur sína sem hann elskar meira en allt annað

Ragnheiður sem af ótrúlegu æðruleysi hefur leyft okkur að fylgja sér skref fyrir skref í gegnum missi sonar síns

Birna Dís hefur einnig þurft að sjá á eftir barninu sínu og hefur á sinn hátt lært að lifa með sorginni

Guðmundur glímir við ólæknandi sjúkdóm ´

Ásdís. Gekkst nýlega undir aðgerð eftir langvarandi líkamskvalir

Sigrún. Hefur gengið í gegnum miklar andlegar sveiflur, vonir, væntingar og vonbrigði með sín tvö andlega fötluðu börn

Elísabet Lára. Ung að árum gekk hún í gegnum ótrúlega erfiða lífsreynslu þegar barnsfaðir hennar og unnusti svipti sig lífi. 

....svona gæti ég haldið endalaust áfram en ætla að láta vísun í þessa bloggara nægja. Fólkið hér að ofan, sem og fjöldi annarra, hefur nýtt bloggheima til að opna umræðuna um þessi málefni og í hvert sinn sem það er gert opnar það augu einhvers. Einhver þarna úti hefur minni fordóma gagnvart vissu málefni eftir að lesa færslur um efnið. Og við minnkandi formdóma fer heimurinn batnandi. Við erum öll sammála um það.

 

Stundum hjálpar það að taka Pollýönnu á málin. ''Þetta hefði nú getað verið verra'' eða ''hvernig á ég að geta kvartað, þegar Sigga er að ganga í gegnum svona mikla erfiðleika''. En öll höfum við réttinn til að syrgja. Það má aldrei gleymast. Við förum langt á hnefanum og samanbitnu tönnunum en það fleytir okkur aldrei alla leið. Ekki á gæfuríkan hátt að minnsta kosti.

Ég á góða vinkonu sem fékk þær fregnir, þegar hún gekk með síðasta barnið sitt, að það væri með skarð í vör. Hversu mikið eða alvarlegt það væri var engin leið að sjá fyrir. Henni var að vonum brugðið. Það er erfitt að fara í gegnum meðgöngu með svona vitneskju og hún streðaði með alls konar vondar tilfinngar, kvíða og sorg.

Einhverju sinni sagði hún við mig að hún skildi bara ekkert í sér að vera í hnút yfir þessu. Hvernig stæði á því að hún setti svona atriði fyrir sig þegar ég til dæmis ætti fatlað barn.                             Ég sagði við hana að þó að ég ætti fatlað barn og aðrir kannski stærri vandamál en hún, þá hefði hún fullan rétt á því að syrgja það að barnið hennar væri ekki alheilbrigt. Sorgir annarra gerðu hennar ekki minni eða auðveldari viðfangs. Hún sagði mér seinna hvað þetta hefði verið mikil opinberun fyrir sig og léttir.

Þetta er orðið lengra og flóknara en ég ætlaði. Mig langaði bara til að þakka ykkur fyrir allar kveðjurnar og sögurnar sem þið deilduð með mér. Hvert komment er lesið og geymt hér: Heart


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Katrín Snæhólm Baldursdóttir

Katrín Snæhólm Baldursdóttir, 7.10.2007 kl. 12:36

2 Smámynd: Guðrún Þorleifs

Enn einu sinni orðlaus yfir skrifum þínum, það er engu við að bæta.

Takk fyrir einlægnina, hún er svo sjaldgæf en verðmæt

Guðrún Þorleifs, 7.10.2007 kl. 12:44

3 Smámynd: Jenný Anna Baldursdóttir

Ég elska þig til tunglsins og til baka aftur.  Það er eins og við höfum alltaf þekkst.  Mér þætti það nokkuð leim ef ég hefði ekki fengið að kynnast þér (er að reyna að hafa hemil á væmninni). Takk fyrir mig elsku Jónsí mín

Jenný Anna Baldursdóttir, 7.10.2007 kl. 12:48

4 Smámynd: Edda Agnarsdóttir

Já - ég hef fáu við að bæta. Þessi skrif þín að ofan er eru í demantslíki. Ég kom hingað inn til að tala um hinn pistilinn sem birtist í Mogganum í dag, ég var búin að lesa hann hér, en það er skrýtið og allt öðruvísi að lesa það í Mogganum sjálfum, vægið verður annað. Hér í bloggheimum er margt að lesa og mikill hraði, með Moggann uppi í rúmi eru rólegheit og skrifin eins og þín verða en dýpri. Skora á alla að prófa!

Edda Agnarsdóttir, 7.10.2007 kl. 13:15

5 Smámynd: Ásta María H Jensen

Þetta eru mikil sannindi.  Og datt mér þá í hug að skrifa um það hér  http://hekla.blog.is/blog/hekla/entry/331069/

Ásta María H Jensen, 7.10.2007 kl. 13:36

6 Smámynd: Ásdís Sigurðardóttir

Þetta er sko hvorki langt né flókið sem segir mér bara það að þú ÁTT að skrifa, snilldarpenni. Sannleikurinn og hlýjan í skrifum þínum er yndisleg og hvernig þú vefur okkur vini þína saman í fallegan sveig ! þú átt bara heiður skilinn.  Takk fyrir að vera vinkona mín  Eigðu ljúfastan dag.

Ásdís Sigurðardóttir, 7.10.2007 kl. 14:00

7 Smámynd: Þröstur Unnar

Elska þig lengra en Jenný, og nú er marr væminn.

Þröstur Unnar, 7.10.2007 kl. 14:18

8 Smámynd: Sunna Dóra Möller

Takk fyrir þessi skrif. Ég fór að hugsa hvað það þarf mikinn kjark til að opna sig svona eins og þú og þau öll sem að þú nefnir hér að ofan og svo fleiri sem að hafa gert það líka á bloggi. Ég veit ekki hvort að ég gæti það svona, eins og þú segir að þá eigum við öll okkar sögu og reynslu en þegar kemur að því að opna sig með það þá verður það erfiðara, það er miklu auðveldara að setja upp sparibrosið og láta sem að allt sé í himnalagi! Takk fyrir mig og það fordæmi sem að þín skrif og annarra á sömu nótum gefa mér á hverjum degi! 

Sunna Dóra Möller, 7.10.2007 kl. 14:19

9 Smámynd: krossgata

Þetta er falleg orð og full af umburðarlyndi og alveg ljóst að þú hugsar oftar en öðru hvoru. 

krossgata, 7.10.2007 kl. 14:30

10 Smámynd: Sigrún Friðriksdóttir

Takk fyrir að vera til og deila þínu lífi og hæfileikum með okkur. Þú gerir mig ríkari !!

Sigrún Friðriksdóttir, 7.10.2007 kl. 14:36

11 Smámynd: Heimir Lárusson Fjeldsted

Þakka trúnaðinn.

Heimir Lárusson Fjeldsted, 7.10.2007 kl. 14:57

12 Smámynd: Ragnheiður

Sko, hver steinn í götu manns. Ég skil alveg hvað þú ert að segja með vinkonuna sem átti von á barninu. Hvert vandamál sem sýnir sig, viðbrögðin eru misjöfn við þeim. Lífið er hreint ekki auðvelt. Sumir segja td við mig að þeir skammist sín fyrir að kvarta yfir smáatriðum. Mér finnst bara allt í lagi að fólk geri það. Þó að ég hafi misst son minn þá hef ég engan einkarétt á því að vera í rusli. Þetta er ekki keppni. Ég veit ekkert hvort mér tekst að koma þessu skiljanlega frá mér.

Takk fyrir Jóna mín.

Ragnheiður , 7.10.2007 kl. 15:05

13 Smámynd: Hjalti Garðarsson

Elsku Jóna mín.

Þú ert einfaldlega bara æðisleg.

Hjalti Garðarsson, 7.10.2007 kl. 15:50

14 Smámynd: Guðrún Jóhannesdóttir

Guðrún Jóhannesdóttir, 7.10.2007 kl. 17:26

15 Smámynd: Kristín Katla Árnadóttir

Þetta er mjög góð færsla hjá þér Jóna mín takk fyrir það.

Kristín Katla Árnadóttir, 7.10.2007 kl. 17:48

16 Smámynd: Anna Einarsdóttir

Þú ert svo yndisleg.  

Anna Einarsdóttir, 7.10.2007 kl. 17:51

17 identicon

Elska þig meira en Jenný og Þröstur.  Djók. Elska þig samt og Bretann og gelgjuna og þann einhverfa og Vidda og skrifin þín Jóna eru bara yndisleg

Birna Dis Vilbertsdóttir (IP-tala skráð) 7.10.2007 kl. 18:23

18 Smámynd: Ívar Pálsson

Þakka þér fyrir Jóna og ykkur hinum öllum sem víkkið sjóndeildarhring manns til muna. Ég les allt þitt Jóna og margra hinna, en er kannski of spar á athugasemdirnar, í anda staðlaðrar íslenskrar karlmennskuímyndar. En vita skaltu að þú skrifar vel og þarflega, af innsýn og léttúð sem hæfir, jafnvel þegar um er að ræða erfið mál. Vinsældir bloggsins þíns er engin tilviljun.

Ívar Pálsson, 7.10.2007 kl. 18:26

19 Smámynd: María Anna P Kristjánsdóttir

Þakka þér fyrir Jóna að leyfa okkur að deila þessum hugsunum með okkur,það þarf mikinn kjark til,og þú hefur hann svo sannarlega.

María Anna P Kristjánsdóttir, 7.10.2007 kl. 18:32

20 Smámynd: María Anna P Kristjánsdóttir

Jóna ég ætlaði að segja ,deila þessum hugsunum með þér.

María Anna P Kristjánsdóttir, 7.10.2007 kl. 18:33

21 Smámynd: Hugarfluga

Við erum öll svo mennsk .. öll svo breisk. That's the glory of .. that's the story of life. Enn og aftur vekurðu mig til umhugsunar og fyrir það hneigi ég mig pent, gríp létt í pilsfaldinn og segi: Takk

Hugarfluga, 7.10.2007 kl. 19:55

22 identicon

Við erum í mogganum í dag Jóna . Með mynd og allt.

Birna Dis Vilbertsdóttir (IP-tala skráð) 7.10.2007 kl. 20:53

23 Smámynd: Guðríður Pétursdóttir

Já ég hef hugsað þetta sama, það hafa allir rétt á að syrgja, ef maður tekur sem dæmi: ég grét sárt þegar sambandið við seinni barnsföður míns lauk, eldri sonur minn grætur ef ég hendi óvart einhverju frá honum sem hann hefur fundið úti, yngri sonur minn grætur þegar ég tek af honum sjónvarpsfjarstýringuna sem hann hafði mikið fyrir að ná í...

Hver hefur rétt á að dæma hverju okkar líður verst, hvaða tilfinning sé sárust..?

Guðríður Pétursdóttir, 7.10.2007 kl. 22:14

24 Smámynd: Einar Vignir Einarsson

Þakka þér fyrir allt sem þú hefur gefið okkur öllum hinum.

Einar Vignir Einarsson, 7.10.2007 kl. 22:16

25 identicon

Takk fyrir að vera til Jóna, þú sýnir af þér gríðarlega gæsku og mannelsku. 

Það er nokkuð ljóst að heimurinn er betri með þig í honum.   Knús á þig.

Guðrún B. (IP-tala skráð) 7.10.2007 kl. 22:59

26 Smámynd: Huld S. Ringsted

Góður pistill og svo hverju orði sannara, við eigum öll okkar sögu um væntingar og þrár, sorgir og raunir, sumir eiga bara auðveldara með að deila þeim en aðrir. Ég veit það bara að það líf sem mig dreymdi þegar ég var barn og unglingur var engu líkt því sem ég svo fékk með öllum þessum pökkum en sé samt ekki eftir mínútu af því. Ég hef þá trú að allt sem á vegi okkar verður er fyrir okkur til að læra af. Það er alltaf jafn gaman að lesa opinskáa pistla þína.

Huld S. Ringsted, 7.10.2007 kl. 23:01

27 Smámynd: Steingrímur Helgason

Þú ert farin að minna mig dáldið á þá tíma þegar ég las Þórberg fyrst.

Maður les línuna, þetta síast inn, & hraðles næstu, hugsandi ennþá um þá fyrri, & gjóar svo aftur til baka, & smattar á í huganum. Klárar fram að greinarskilum, leggur frá sér bókina & hugsar, nammi, hvað var nú gott að fá að lesa þetta.

S.

Steingrímur Helgason, 7.10.2007 kl. 23:19

28 Smámynd: Fríða Eyland

Mikið til í þessu hjá þér Stingrímur, textar Jónu eru vandaðir og vel skrifaðir, léttir og þungir í senn.

Jóna ekkert að þakka, í sama anda.

Fríða Eyland, 7.10.2007 kl. 23:51

29 Smámynd: Halla Rut

Þetta er orða sanni sem þú segir: Sorgir annarra gerðu hennar ekki minni eða auðveldari viðfangs.



Halla Rut , 8.10.2007 kl. 22:33

30 Smámynd: Dísa Dóra

MJög vel orðaður og husunarverður pistill.  Hef lengi kíkt hér inn en ekki skilið eftir mig spor áður.  Takk fyrir góða pistla

Dísa Dóra, 9.10.2007 kl. 09:28

31 Smámynd: Fjóla Æ.

Oft hef ég fengið að heyra frá áhyggjufullum foreldrum, afsakanir á því að þeirra barn sé ekki eins veikt og mitt barn. Ég hef sagt að mér finnist það ekki skipta máli hvað er að barninu. Þetta er þitt barn og að sjálfsögðu hefur þú áhyggjur. Venjulega kemur þetta svar mitt á fólk, mitt barn er nefnilega svo mikið veikt en það er ekki málið.

Fjóla Æ., 9.10.2007 kl. 12:47

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Jóna Á. Gísladóttir
Jóna Á. Gísladóttir

 

 

 Ég er nokkuð dæmigerð íslensk útivinnandi kona. Hef lokið grunnnámi í markþjálfun og gengur betur að hjálpa öðrum við markmiðasetningu en sjálfri mér. Mér lætur líka betur að stjórna öðrum en sjálfri mér. 

 netfangið mitt er jonaagisla@gmail.com

 

 

 

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (24.11.): 1
  • Sl. sólarhring: 3
  • Sl. viku: 10
  • Frá upphafi: 1640375

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 9
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Bloggvinir

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband