Leita í fréttum mbl.is

Ný kynslóð, uppfull af kvenfyrirlitningu, að alast upp

Mér var sagt frá viðtali um daginn við karlmann sem í mörg ár hefur starfað með unglingum í unglingavinnunni eða ámóta starfi.

Ég hef ekki allar staðreyndir á hreinu, t.d. í hvaða  í blaði viðtalið birtist eða nafn mannsins þar sem það fylgdi ekki sögunni, en mikið brá mér að heyra um þetta;

Þessi maður sagði að aldrei nokkurn tíma hefði hann áður í starfi sínu orðið var við eins mikla kvenfyrirlitningu eins og núna frá þessum ungu drengjum sem starfa undir hans stjórn.

Hann sagði klámkjaftinn á drengjunum vera ofboðslegan og virðingarleysið við stúlkurnar sem þeir vinna með vera algjört. Þeir neita að sópa því það sé kvenmannsverk. Hann hefur margoft orðið vitni af yfirlýsingum drengja um fáránleikann í því hversu háum stöðum kvenfólk sé farið að gegna og svona mætti lengi telja.

Aðspurður hvað hann teldi vera orsökin fyrir þessu nefndi hann klámvæðinguna.

Ég er búin að vera lengi að melta þessa frásögn. Er enn að reyna. Hef verið að velta fyrir mér hvernig geti staðið á því að drengir sem alast upp við það að mamma og pabbi vinni bæði úti og eigi sér ''career'' hafi þessa sýn á kvenfólk. Auðvitað veit ég að ennþá er það afar algengt að öll húsverk og það sem viðkemur heimilinu falla á konuna, jafnvel þó hún vinni jafnlangan eða jafnvel lengri vinnudag en maðurinn. En það hlýtur samt að vera á undanhaldi. Eða hvað?

En sennilega skiptir þetta með heimilishald bara engu máli. Sennilega er þetta hárrétt hjá manninum. Þessi mynd sem krökkum er gefin í dag að kynlíf, klám, bert kvenfólk, súludansmeyjar, einkadans, tölvuleikir þar sem nauðgun er mission, munngælur er aðgangseyrir inn í partý.....

Ég hef hér á blogginu mínu birt greinar úr bók sem heitir Kynlíf og er skrifuð 1937. Þetta hef ég gert bæði í gríni og alvöru til að sýna fram á hversu fornaldarleg hugsunin var á þessum tíma varðandi konur og kynlíf. En svei mér þá ef sú sýn er ekki betri en það sem við erum að upplifa í dag.

Eins og í raunveruleikanum eru fjöllyndir karlmenn í klámmyndum ''folar'' en konurnar ''easy'' og ''glyðrur'' sem ''láta alla ríða sér'' (afsakið orðbragðið).

Það sem þarf hér er uppeldi uppeldi uppeldi uppeldi uppeldi. Feður þurfa að tala við drengina sína og ekki bara um að muna að nota smokkinn svo þeir geri ekki einhverja stelpu ólétta.

Pabbar: þið verðið að ræða við strákana ykkar um kynlíf. Að kynlíf snúist ekki um að ríða. Að nei þýðir nei. Að munngælur séu líka kynlíf. Að klámmyndir séu ekki raunveruleikinn. Að á bak við hvern súludansara, á bak við hverja stúlku í klámmynd, hverja vændiskonu sé sorgarsaga. Að ekki sé eðlilegt að kaupa sér kynlíf......

Hjálp! Ég er kjaftstopp. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Kristín Katla Árnadóttir

Þetta er ljótt að heyra, en eitt skal ég segja þér að hann sonur minn er ekki með klám kjaft  hann er feimin og kurteis . Mamma hann hefur alið hann vel upp. 

Kristín Katla Árnadóttir, 25.6.2007 kl. 13:52

2 Smámynd: Sigurlaug B. Gröndal

Ég las þessa grein og birtist hún í Blaðinu á föstudagsmorgun að mig minnir frekar en fimmtudagsmorguninn. Ég var sjálf hreinlega kjaftstopp eftir lesturinn. Það er eitthvað mikið að uppeldinu hjá mörgu ungmenninu í dag. Lengi vel er búið að gagnrýna skóla fyrir slælega frammistöðu í agamálum en uppeldið er fyrst og fremst í höndum foreldra. Ég held að margir foreldrar, því miður eru alltof uppteknir í vinnu og öðru til að hafa tíma til að eyða tíma með börnunum sínum. Það er líka reginn misskilningur að sleppa skuli hendinni af unglingnum sínum að fermingu lokinni og þegar kemur að framhaldsskóla, en það er alltof algengt. Ég er hrædd um að hérna þurfi foreldrar að taka til hendinni.  Ég held líka að tölvunotkun sé orðin alltof mikil hjá ungmennum í dag og verluleiki þeirra sé nokkuð mikið annar en hann er í raun. Það er tími til kominn að vakna!

Sigurlaug B. Gröndal, 25.6.2007 kl. 14:01

3 Smámynd: Rúna Guðfinnsdóttir

Þetta er með ólíkindum og vona ég að um illa uppalinn og illa gefinn minnihlutahóp sé að ræða. Ég bara trúi því ekki upp á hinn almenna unglingsdreng að hann líti svona á bekkjarsystur sína. Bara trúi því ekki...mig langar ekki að trúa því.

Rúna Guðfinnsdóttir, 25.6.2007 kl. 14:19

4 Smámynd: Jenný Anna Baldursdóttir

Klámið er stór faktor í öllu kvenhatrinu og fyrirlitningunni.  Einnig inni á heimilinu þar sem konan, eins og þú bendir réttilega á, gerir stóran part þrátt fyrir að vinna jafn mikið og karlmaðurinn.  Þetta er gamla tuggan um "gerðu eins og ég segi, en ekki eins og ég geri" sem felst í því t.d. að standa með sígóið í kjaftinum fyrir framan barnið sitt og halda eldheitan fyrirlestur um skaðsemi reykinga.

Jenný Anna Baldursdóttir, 25.6.2007 kl. 14:40

5 Smámynd: Ingibjörg Gunnarsdóttir

Það má auðvitað ekki setja alla ábyrgðina yfir á pabbana - við mömmur eigum líka að vera á varðbergi - bæði gagnvart strákunum okkar og líka stelpunum.  Til dæmis er ég ekki alveg að ná því - þegar ég sé ungar stúlkur (13-16 ára) málaðar eins og forsíðustúlkur glanstímarita..... Klæddar í mjög flegna boli og með litlu ungu brjóstin sín í "push-up" bróstahaldara - hvað er það?   Og við foreldrarnir erum/þorum jafnvel ekki að stoppa unglingana í vitleysunni...... Ungar stelpur sem líta út eins og litlar gleðikonur........ Ekki gott!

Ingibjörg Gunnarsdóttir, 25.6.2007 kl. 14:46

6 Smámynd: Jóna Á. Gísladóttir

Ingibjörg auðvitað er ég ekki að meina að ábyrgðin hvíli öll á pöbbunum en þarf ekki karlmanns fyrirmynd. það er ekki það sama að heyra þetta frá mömmu eins og frá pabba. En auðvitað þurfum við, mömmurnar, líka að láta i okkur heyra.

Jóna Á. Gísladóttir, 25.6.2007 kl. 14:49

7 Smámynd: Björg K. Sigurðardóttir

Ég vinn í verslun og þar starfar mikið af unglingum af báðum kynjum og ég hef alls ekki orðið vör við þetta viðhorf hjá strákunum hvorki gagnvart stelpunum né að þeir líti á einhver verk sem "kvenmannsverk". Sem dæmi þá er í lok dags einhver starfsmaður sendur í að taka til á kaffistofunni og stundum eru það stelpur og stundum strákar. Þeir, ekki síður en stelpurnar þurrka af borðum, setja í uppþvottavél og ganga frá samviskusamlega og það hefur aldrei verið neitt vandamál og þeir kvarta ekki. Mér sýnist samt oft eins og stelpurnar séu vanari þessum verkum heiman frá sér heldur en strákarnir og það er kannski eitthvað sem foreldrar þurfa að breyta. Þ.e. að láta bæði stráka og stelpur sinna sömu heimilisstörfum, allavega að bæði kynin kunni á þetta allt saman.

Björg K. Sigurðardóttir, 25.6.2007 kl. 14:50

8 Smámynd: Jóna Á. Gísladóttir

Björg sem betur fer, Guði sé lof, erum við vonandi að tala um minnihlutahóp. En þetta er alvarlegt mál engu að síður.

Jóna Á. Gísladóttir, 25.6.2007 kl. 14:57

9 Smámynd: Sólrún

Jáhh maður verðu nú eiginlega bara kjaftstopp við þennan lestur Ætla nú að vona það að þessir ungu menn eigi eftir að átta sig á því að þeir gætu nú endað í starfi með kvenmann sem yfirmann 

Sólrún, 25.6.2007 kl. 15:08

10 Smámynd: Jóna Á. Gísladóttir

Hættum að vera svona djöfulli opin fyrir öllu Arna. það á allt að vera svo fjandi frjálslegt og sjálfsagt, þ.á.m. allt tal um kynlíf og ekki síður sýningar á því. Við hreykjum okkur af því að vera fjálsleg og opin. Kannki erum við barasta að verða of frjálsleg. Við þurfum að senda börnunum okkar önnur skilaboð en þau eru að fá í dag

Jóna Á. Gísladóttir, 25.6.2007 kl. 15:10

11 Smámynd: Guðríður Pétursdóttir

Eins og Jóna segir: Uppeldi uppeldi uppeldi...Það er það eina sem við getum, frætt börnin okkar... vera með augun opin og kenna börnunum að koma vel fram við hvort annað

en ég verð að segja að ég er mjög hissa á þessu,trúi þessu barasta varla..

Guðríður Pétursdóttir, 25.6.2007 kl. 15:13

12 Smámynd: Hugarfluga

Ég er alveg á því að stór hluti foreldra nenni ekki/þori ekki/kunni ekki að neita börnum sínum um nokkurn skapaðan hlut. Þau fá allt og mega allt. Börn eru jafnvel farin að hóta foreldrum sínum að kæra þau fyrir misnotkun, ef þau fá ekki sitt í gegn. Þetta hef ég eftir vinkonu minni sem er kennari. Þetta er hræðilegt ástand.

Hugarfluga, 25.6.2007 kl. 15:29

13 Smámynd: Heiða B. Heiðars

Þetta er ein ástæða þess að við þurfum að horfa á "the big picture". Bann á einkadansi er einn af mörgum hlutum þess að senda skilaboð til samfélagsins um virðingu fyrir fólki

Heiða B. Heiðars, 25.6.2007 kl. 15:33

14 Smámynd: Jóna Á. Gísladóttir

Nákvæmlega það sem Heiða segir. Einkadans, súludans og hvers konar ''notkun'' á líkama fólks á að vera bannaður því það eru réttu skilaboðin. Burtséð frá því hvort slíkt fer svo fram fyrir luktum dyrum. Skilaboðin eru þó skýr til barna og unglinga. Ólöglegt.

Jóna Á. Gísladóttir, 25.6.2007 kl. 15:41

15 Smámynd: Aðalheiður Ámundadóttir

Ég las í bók sem kom út 198og eitthvað... sem fjallar um kynlíf og þar kom fram að karlinn þyrfti ekki að hugsa um að fullnægja konunni þar sem konur stunduðu eingöngu kynlíf af rómantískum ástæðum og vildu aðeins finna að þær væru elskaðar o.s.frv. meðan karlinn væri að svala líkamlegri nautn...

Já það er ekki lengra síðan en 198og eitthvað... Ég þarf að finna bókina á safninu til að geta gefið þér nafnið á henni

En vægast sagt sjokkerandi fræði 

Aðalheiður Ámundadóttir, 25.6.2007 kl. 16:02

16 Smámynd: Rögnvaldur Hreiðarsson

Af hverju eiga feður að tala við drengina sína en ekki mæður? Langar að vita hvaða hugarfar er á bakvið þessa yfirlýsingu.

Rögnvaldur Hreiðarsson, 25.6.2007 kl. 16:04

17 Smámynd: Guðríður Pétursdóttir

Það er ekki sagt frekar, bara líka....

Guðríður Pétursdóttir, 25.6.2007 kl. 16:10

18 Smámynd: Jens Guð

  Ég umgengst marga unglinga mjög mikið.  Ég er ekki viss um að karlremba og kvenfyrirlitning hafi aukist almennt frá því að ég var unglingur,  um og upp úr 1970.  

  Mig minnir að það hafi verið í skólareglum á Laugarvatni að stelpur áttu að klæðast kjól eða pilsi á sunnudögum.  Sennilega 1974 eða ´75 hófu fyrstu kvenstrætóbílstjórarnir störf.  Þá var búinn til nýr og lægri launataxti fyrir þær.  Jafnframt var töluvert um að fullorðnir menn hættu við að fara í strætó þegar þeir sáu að kona var við stýrið.

  Ætli sé ekki hátt í aldarfjórðungur síðan byrjað var að ráða konur í skautsmiðju álversins í Straumsvík.  Karlarnir fóru í verkfall í mótmælaskini.  Þeim þótti sem lítið væri gert úr þeirra karlmannlega starfi.

  Þetta nefni ég til samanburðar við viðhorf ungra stráka í dag.  Hinsvegar kannast ég við að sumir strákar gera út á karlrembuhúmor.  Ég veit ekki hvað mikil alvara fylgir því gríni.  En áreiðanlega fylgir alvara í einhverjum tilfellum. 

  Í dægurlagatextum og viðtölum við Guns ´N´ Roses,  Snoop Doggy Dogg og fleiri poppara er mikil kvenfyrirlitning.  Hugsanlega hefur það einhver áhrif.  Að minnsta kosti varðandi húmorinn.   

Jens Guð, 25.6.2007 kl. 16:14

19 Smámynd: halkatla

uss u suss, orðbragðið hér er rosalegt! hehe en samt góð grein!

ég verð að segja að þegar ég var krakki, svona 6-12 ára, þá voru vissir strákar alveg yfirfullir af kvenfyrirlitningu, ekki margir, en nokkrir. Þeir sögðu hluti einsog "stelpur mega ekki gera þetta" og "stelpur geta ekki gert þetta" - ég held að það hafi átt þátt í að gera mig svona reiða gagnvart ranghugmyndum. Krakkar og fólk gera bara það sem þeim langar til, það er málið, og það er ömurlega ósanngjarnt gagnvart einstaklingum að klína á þá einhverjum svona kynjadraumórum. Einu sinni var ég t.d bara úti að leika mér heima þegar strákur sem var í heimsókn hjá nágrannanum kemur og segir að stelpur leiki sér ekki í pollum. Ég var einmitt að því, og þetta var upphafið að því að ég fór virkilega að spá í þessum málum. Svo var það öðru sinni að ég var úti í sveit með frændfólki mínu og frændi minn skipar mér að passa lítið barn á meðan hann myndi kenna frændum mínum að kasta fyrir fisk, ég fékk áfall og gat ekkert gert nema sitja með krakkann í fanginu. Ég var 9 ára og hafði aldrei haldið á barni áður og vissi ekkert hvað ég ætti að gera. En reyndar var mér komið til bjargar og um leið og ég byrjaði að sýna takta með veiðistöngina kom í ljós að ég gat sko alveg veitt einsog hver annar Svartur var líka uppáhaldsliturinn minn útí gegnum æskuna af því að svo margir strákar sögðu að það væri ekki eðlilegt, og að bleikur ætti að vera uppáhaldsliturinn minn. Mér finnst allt svona fáránlegt og ég bara varð að tjá mig um þetta, greinin þín bauð uppá það. 

Btw Þetta er skelfileg þróun ef allt þetta er satt! Vonandi er þetta eitthvað afmarkað dæmi....  

halkatla, 25.6.2007 kl. 16:16

20 Smámynd: halkatla

ég hafði sko verið búin að hlakka til að fá að nota veiðistöng, þessvegna fékk ég áfall við að vera látin sitja eftir með ungabarn

halkatla, 25.6.2007 kl. 16:20

21 Smámynd: Jóna Á. Gísladóttir

þakka ykkur öllum fyrir kommentin. Allt saman þörf innlegg. Sagan hennar Önnu Karenar og frá fleirum sýnir að auðvitað hefur þetta ójafnrétti alltaf verið til. Við vitum það. Þess vegna varð rauðsokkahreyfingin til. Og svo kvenréttindafélögin, kvennalistinn o.sfrv. En að sama skapi var á vissan hátt borin virðing fyrir konunni og það sem hún stóð fyrir. Hlutir eins og stelpur eiga að gera þetta og stelpur eiga ekki að gera þetta voru eðlilegar skoðanir í den því þannig vorum við alin upp. En í dag....

Rögnvaldur eins og ég segi hér ofar; ég er ekki að segja að ábyrgðin hvíli öll á feðrunum en það er augljóst er það ekki að ef mamma fer á nektardansstað og skoðar karlmenn er það sama fyrirmynd og ef pabbi fer og kíkir á súludansstaðina og skemmtir sér yfir beru kvenfólki? Ég bara spyr því ég er ekki strákur. Þarf ekki karlmannsfyrirmynd í þessum málum?

Jóna Á. Gísladóttir, 25.6.2007 kl. 16:30

22 identicon

Fyrst og fremst finnst mér þetta vera dæmi um eins og þú segir: uppeldi uppeldi uppeldi. Feður þurfa að tala við börnin sín, strákana sérstaklega, og auðvitað mæður líka.

Heiða talar um "the big picture" og það er rétt. Það eru hins vegar of margir sem halda að boð og bönn nægi, sem auðvitað er ekki rétt. Við gætum bannað súlustaði, við gætum líka bannað ofbeldismyndir og -leiki, við gætum tekið fanatíska afstöðu gagnvart nekt, eins og fyrirfinnst í Bandaríkjunum, en það nægir ekki. Ef við höldum okkur við "the big picture" þá má sosum fara út í óhollustuna (feitan mat, sykurleðjur o.s.frv.) ...

Ef við náum að banna nógu mikið, þá er ekki eins og við getum sleppt uppeldinu. Ég er ekki að segja að ég sé helsti stuðningsmaður klámsins og ofbeldisins, þvert á móti. En stundum finnst mér andinn í þjóðfélaginu vera þannig í dag, að boð og bönn séu lausnin. Ábyrgðin liggur hjá okkur uppalendunum, foreldrum fyrst og fremst - og auðvitað spila skólarnir hlutverk líka.

Mín kenning er sú að neysluþjóðfélagið er komið út í svo miklar öfgar, það er allt svo dýrt, það þurfa allir að eiga svo og svo marga bíla, krakkarnir þurfa þetta merki af fötum og allir þurfa að eiga fartölvu, ... þegar við þetta bætist að það er dýrt að lifa, þá er það augljóst að vinna foreldrana gengur út á það að afla tekna til þess að mæta þessum væntingum neysluþjóðfélagsins. Og það þýðir í of mörgum tilfellum: minni tími fyrir börnin.

Agaleysi er oft stórt vandamál. Hrein boð og bönn leysa það ekki.

Kveðja frá Akureyri,
          Doddi

Doddi - Þorsteinn G. Jónsson (IP-tala skráð) 25.6.2007 kl. 16:37

23 Smámynd: Jóna Á. Gísladóttir

Við komum þarna að þessu enn og aftur; Uppeldi og Ægir, einmitt ekki síður agi. Hitler minn.

Jóna Á. Gísladóttir, 25.6.2007 kl. 20:50

24 Smámynd: Ómar Ingi

Við skulum líka muna að stelpurnar eru engu skárri í kjafti og hugsun um kynlíf og öðru slíku og þær eru að berja hvora aðra og kalla drengina ýmsusm nöfnum og sjálfar kalla þær hvora aðra Hórur osfv , Þetta er nú ekkert nýtt af nálinni frekar en slágsmál og annað sem blöðin blása upp , það er kanski öllu ýktara í dag ásamt öðru en það eru líka fjölmargir sneplar sem gera útá svona fréttir af slæmum unglingum osfv, Nú  boð og bönn færa klám áfengi og annað sem bannað er í undirheimana og muniði, að fyrir unglinga í dag er auðveldra að fá sér dóp en áfengi hvenar sem er sólarhringsins nokkur gsm númer og málið er dautt við erum að tala um heimsendingarþjónustu ef nógu mikið er keypt af efnum, Auðvitað er þetta fyrst og fremst uppeldi og fylgjast með börnunum okkar en gerum við það?,  flest segja já en flestir hafa ekki grænan grun um hvað er að gerast í tölvunum hjá krökkunum sínum og sms unum og partyiunum eftirlitslausu.

Klámkynslóðin er þreytt slogan og klám er ekkert nýtt af nálinni og hefur alltaf verið til.

Það er ekkert eitt sem veldur og engin töfralausn til.  En það eru krakkar þarna úti sem eiga foreldra sem ekki koma heim til sín svo dögum skiptir og eru í harðri neyslu þetta eru börn sem ala sjálf sig upp , hvað getum við gert þar , um hverja helgi á veturna eru nokkur börn ekki sótt á leikskóla borgarinnar vegna þess að ákveðin foreldri sækja þau ekki (Þetta er því miður satt) það er svo mikið sem fólk hefur ekki hugmynd um þarna úti, sannleikurinn er fránlegri en sjálf skáldsagan.

Svona er stundum raunveruleikinn, þetta um að allar séu hórur er ekki nýtt máltæki hjá karlmönnum síður en svo en þetta er kanski sagt upphátt í kvenna viðurvist nú á dögum í staðinn fyrir bara innan veggja golfklúbbsins enda konur komnar allstaðar þar sem karlar þóttust öruggir um að vera innan um karla, jafnréttið muniði.

En þessi saga um þessa unglinga er án efa ein af verstu tilfellunum , muna að unglingarnir hafa verið teknir af lífi fyrir veggjakrotið og hvað sýndi svo stöð 2 um daginn fullorðna konu vera að veggjakrota útum alla Kringlu.

sýnum stillingu en á meðan skulum við ala börnin okkar upp.

Það er líka til karlafyrirlitning jafnrétti takk

Ómar Ingi, 25.6.2007 kl. 21:12

25 Smámynd: Þorsteinn Gunnarsson

Sammála Dodda... vandinn liggur að stórum hluta í þjóðfélagsgerð nútímans. Foreldrar eru að miklu leyti hættir að ala upp börnin, og ef um hefðbundna fjölskyldu er að ræða eru yfirleitt báðir foreldrar að vinna og í allt of mörgum tilfella allt of langan vinnudag/vinnuviku. En mig minnir að svona karlrembuhúmor hafi nú alveg verið til staðar þegar ég var að komast á legg svo kannski hefur þetta ekki breyst eins mikið og við höldum. Orðaforðinn er annar í dag... krakkarnir eru að snara frösum úr rapptextum og staðfæra annað.

En síðan hefur svona barlómur um glataðar kynslóðir fylgt mannkyni frá örófi svo kannski er ekki ástæða til að æðrast um of.

Þorsteinn Gunnarsson, 25.6.2007 kl. 21:14

26 Smámynd: Jóna Á. Gísladóttir

Ómar hvað er síminn hjá þér. Ég þarf að ræða við þig  

Auðvitað er ég sammála öllu sem þú segir og ég veit þetta með börnin sem ekki eru sótt á leikskólann. Alveg hræðilegur ískaldur raunveruleiki. Sem og börnin sem ganga sjálfala. En það eru fleiri börn sem ganga sjálfala en bara börn drykkjufólks og eiturlyfjaneitenda. Það er nú málið. En mig langar að segja við þig því þú talar um að stelpur séu líka orðljótar o.sfrv. sem er vissulega rétt en hafa ber í huga að stelpur eru ekki að nauðga öðrum stelpum. Ungir strákar eru að nauðga jafnöldrum sínum í partíum. Hvað er það? Er það ekki partur af kvenfyrirlitningunni?

Jóna Á. Gísladóttir, 25.6.2007 kl. 21:20

27 Smámynd: Jóna Á. Gísladóttir

Í góðu lagi Ægir.

Þorsteinn, ég vona að þetta sé rétt hjá þér.

Jóna Á. Gísladóttir, 25.6.2007 kl. 21:23

28 Smámynd: Ómar Ingi

Jú Jóna, stundum gerist sá skelfilegi atburður að drengir nauðga stúlkum og ég verð að viðurkenna að í fæstum tilvikum eru það stelpurnar sem nauðga og ef svo er nánast aldrei tilkynnt eins og um mörg slík tilfelli yfir höfuð.

Kvenfyrirltning og ekki kvenfyrirlitning er glæpur ekki glæpur ?  og tal um að nauðga eða tal um að berja eða drepa er ekki sama og sjálf athöfnin en slæm samt.

En stelpurnar selja sig fyrir fíkniefni og selja sig fyrir að komast inní party alveg jafn mikið og strákar

Hvað kallarðu það er það ekki jafnrétti  Allavega er það ekki kvenfyrirlitning. Ég skil hvað þú ert að fara og þú vonandi mig , en mikið rosalega finnst mér konur vera farnar að koma fram við okkur á Nasista forsendum eitthvað sem flestar kalla Feminisma

Eins og er þori ég ekki að láta þig hafa simann

Ómar Ingi, 25.6.2007 kl. 21:44

29 Smámynd: Jóna Á. Gísladóttir

veistu það Ómar ég er ekki að ræða hér um jafnrétti. Jafnrétti á allavega ekki að snúast um að hafa jafnan rétt til að kalla hvort öðru ljótum nöfnum eða hafa bæði rétt til að selja líkama okkar í skiptum fyrir eitthvað eins fáránlegt og inngöngu í partí. En jú, ég skil þig og þú skilur mig, sem er súpergott .  Ég biðst afsökunar ef þér þykir koma hér í gegn einhver öfgafemismi sem hatar karlmenn og vill gefa út veiðileyfi á þá. það er alls ekki málið. Ég elska ykkur. Ég vil bara að pabbar tali við strákana sína og passi upp á fyrirmyndina. Og mömmurnar segi frá hinni hlið málsins. Alveg eins og ég vil að mömmurnar tali við stelpurnar sínar og pabbarnir tali við dæturnar og segja frá hlið strákanna á málunum. Basicly ég vil að foreldrar tali við börnin sín. Og ég vil að karlmenn muni að stúlkan sem dansar nakin á sviðinu er dóttir einhvers.

Jóna Á. Gísladóttir, 25.6.2007 kl. 22:05

30 Smámynd: Ómar Ingi

Já nú , ég hef semsagt bara verið að misskilja þig Jóna

Já ég er algerlega sammála þessu commenti þínu, og bið þig að muna að stúlkurnar sem horfa á nöktu stúlkurnar dansa eiga líka pabbaþær eru nefnilega ófáar sem koma á þessa staði konurnar og bara ekkert að því og svo eru þarna líka íslenskar konur sem dansa og eru ekki í eiturlyfjum en hljóta að vera soldið öðruvísi en flestir en svona er þetta bara og ég vil bara ekkert vera að banna þetta fyrir fólki sem vill sækja þessa staði og sama hversu mikil hroki eða klisja þér kann að þykja það þá er ekkert að því að horfa á fallega konu dansa í fötum eður ei , en það er ekki eitthvað sem ég hef mikin áhuga á en sumir hafa það.

Framboð og eftirspurn og vændi er bannað en samt stundað á íslandi.

póker er bannaður en samt stundaður á islandi

Casino er bannað en samt stundað á íslandi

Do i need to go on ?

Ómar Ingi, 25.6.2007 kl. 22:26

31 Smámynd: Þröstur Unnar

Ég hefði miklu frekar viljað stripplast upp á einhverju sviði fyrir framan konur, og fá miklu meira fyrir það $, heldur en að vera sendur á togara í þrjá mánuði yfir veturinn 17 ára.

Þröstur Unnar, 25.6.2007 kl. 22:27

32 Smámynd: Jóna Á. Gísladóttir

Þröstur ég held að þú myndir skipta um skoðun eftir nokkur kvöld þegar misfallegar konur á óræðum aldri, sumar jafngamlar ömmu þinni, illa þefjandi af brennivísdrykku og þaðan af verra væru búnar að troða seðlum ofan í nærbuxurnar þínar strjúka þér öllum og hvísla kynlífstilboðum í eyrun á þér.

Jóna Á. Gísladóttir, 25.6.2007 kl. 22:33

33 Smámynd: Þröstur Unnar

Ég fékk gaddfreðnar strokur af illalyktandi þorski um allann skrokkinn og brennivínsþefjandi öskur frá stýrimanni framan í mig, ef ég sosum reyndi að stinga frostnum fingrunum ofan í nærbuxurnar til að velgja þá.

Hefði frekar viljað koma heim með nærjurnar fullar af seðlum, heldur en litla vininn helfrosinn og áttaviltan.

Skil þig samt.

Þröstur Unnar, 25.6.2007 kl. 22:44

34 Smámynd: Jenný Anna Baldursdóttir

Flott Jóna: Þröstur nær þessu kannski. Karlar hafa sjaldan lent í þeirri niðurlægingu sem fylgir því að vera kyngerðir og trítaðir skv. því.  Þess vegna brestur á með "skopi" hjá þeim oft þegar svona mál ber á góma.  Sem betur fer eru flestir karlar ekki svona enda held ég að þetta sé skortur á "embathy" að geta sett sig í annara spor.

Btw. búin að svara meili.

Jenný Anna Baldursdóttir, 25.6.2007 kl. 22:44

35 Smámynd: Jenný Anna Baldursdóttir

OMG empathy

Jenný Anna Baldursdóttir, 25.6.2007 kl. 22:44

36 Smámynd: Þröstur Unnar

Hef alltaf verið kyngerður allt mitt líf, og að sjálfsögðu "trítaður" skv. því. Og þetta er ekkert skop.

Get alveg sett mig í spor þeirra kvenna sem þurfa að selja líkama sinn, og sárfinn til með þeim eins og öðrum sem þurfa þess, og þá ekki endilega kynferðislega.

Þröstur Unnar, 25.6.2007 kl. 22:54

37 Smámynd: Jóna Á. Gísladóttir

Krakkar veriði góð.

Jóna Á. Gísladóttir, 25.6.2007 kl. 22:56

38 Smámynd: Heiða  Þórðar

Ótrúleg lesning!

Heiða Þórðar, 25.6.2007 kl. 22:57

39 Smámynd: Jóna Á. Gísladóttir

Á hvaða hátt Heiða mín?

Jóna Á. Gísladóttir, 25.6.2007 kl. 22:59

40 identicon

Eftir að hafa lesið hugleiðingar þínar um almenna misnotkun og ofbeldi á konum þar sem karlmenn, og ekkert annað, fari um í trylltum hvötum er ég viss um að ég get ekki sett mig í spor þeirra kvenna og barna sem fyrir ofbeldinu verða. Ég hef ekki þessa reynslu og finnst leitt að menn verða svo veikir að versla vændi og beita aðra þessu ofbeldi. Það eru vissulega undantekningar þó karlmenn hafi fengið gott eða slæmt uppeldi. Ég þekki mjög vel konur sem eru tengdar mér sem hreinlega hata karlmenn – setja þá undir sama hatt vegna þess að þær hafa slæma reynslu. Það er ekki vændi og það er ekki mannsal en þvílíka ofbeldið sem ég varð vitni að á milli kynjanna. Held að þetta klám allt saman snúist um hverju sé haldið að börnum sem síðar verður fullorðið fólk. Það er eins og óp út í tómið að biðja um að fólk ali börnin sín betur upp. Allir eru sannfærðir um að þeir séu að gera rétt. Viðhorf eins og að konur eiga að gera þetta og hitt eins og að skúra, elda, vaska upp, þrífa, ala upp börnin, sjá um innkaupin,o.sv.frv í raun erfast og eins er um klámviðhorfið – það hefur erfst og er í mennina og konurnar meitlað og er orðið partur af genamengi okkar...liggur við. Það þýðir ekkert að segja við einhvern sem sækir sér klám að hann eigi ekki að gera það, ekkert frekar en að segja alkanum að hætta að drekka. Þetta er inngróinn mein. Sjálfur hef ég beitt ofbeldi og þótti það í lagi en það var þegar ég barði vitleysingana sem eltu systur mínar heim ef mér líkaði ekki við þá. Fyrirgefiði strákar. Ég er ekkert stoltur af því en svona var þetta bara.

Axel Jón Fjeldsted (IP-tala skráð) 26.6.2007 kl. 00:13

41 Smámynd: Marta B Helgadóttir

VÁ hvað þið eruð skemmtilega aktív!

Hef þetta til málanna að leggja. Ég elska ungmenni, finnst flest þau ungmenni sem ég þekki bæði áhugavert og skemmtilegt fólk. Fíla vel þetta æðruleysi sem einkennir unglingsárin og þroskaferlið sem þau eru að fara í gegnum.

Það er einhvers konar free spirit viðhorf í kornungu fólki sem mér finnst svo skemmtilegt og sem flestir tapa alltof snemma á ævinni - að allt sé hægt!

Það er flókin staða að finnast maður vera orðinn fullorðinn en enginn sér það ...allra síst mamma og pabbi  

EN: Ég hef oft látið það trufla mig hvernig kornungar stelpur klæðast eins og gleðikonur og tileinka sér ögrandi hegðun og sora kjaft. Götustrákar eru og hafa alltaf verið til en þeir eru ekki margir held ég. Götustelpur eru a m k jafnmargar og þær eru sko ekki skárri en strákarnir.

Marta B Helgadóttir, 26.6.2007 kl. 00:20

42 Smámynd: Marta B Helgadóttir

Jenný Anna, embathy er náðargjöf sem ekki öllum er gefin. Vel gerðar manneskjur hafa þessa hæfni, hún er yndisleg, gerir fólk að betri manneskjum.

Marta B Helgadóttir, 26.6.2007 kl. 00:24

43 identicon

Lengi vel hef ég bloggað um unglinga og þeirra talsmáta og hegðun. Ég er svo hjartanlega sammála Jónu með að þetta er orðið tú mutch. Unglingar í dag eru misjafnir eins og þeir eru margir.. og ég veit af eigin reynslu að þeirra hugmyndir um lífið og tilveruna koma ekki frá foreldrum þeirra. Alveg sama hvað þessir krakkar eiga góða mömmu og pabba .. vinirnir og umhverfið hefur meiri áhrif. Því miður. 

Svo má líka segja að þjóðfélagið er að skemma þessa krakka.. hérna áður fyrr máttu krakkar ekkert vera að því að velta sér upp úr ljótleika heimsins því að þau voru að VINNA !!! En í dag, meiga þau ekki vinna fyrr en þau eru orðin 16 ..eða 18 ara út af tryggingum og öðrum hallærislegum reglum.

Ég vill meina það að með þessari gríðarlegu forræðishyggju erum við að búa til aumingja úr börnunum okkar, því þau hafa ekkert annað við tímann sinn að gera en að mæla göturnar og finna sér eitthvað spennandi að gera. Og þar sem þau meiga hvergi vera og ekkert gera, þá er spennan aðalega fólgin í því að gera eitthvað af sér.

Fellum forræðishyggjuna og komum unglingunum í saltfisk.. kennum þeim ábyrgð og tökum af þeim tímann sem þau nota ekki í neitt hvort eð er.  

Iwanna Humpalot (IP-tala skráð) 26.6.2007 kl. 00:41

44 identicon

Hver hérna inni getur sett sig í spor þessara stúlkna sem eru að dansa á þessum stöðum? Svo maður notist við myndlíkinguna, þá er auðvitað um að ræða mismunandi stór spor og skófatnaðurinn ekki alltaf sá sami. Getur Jenný eða einhver annar hér sett sig í spor allra sem dansa inni á stöðunum? Er það sannað að allar þær konur sem dansa á svona stöðum eigi eitthvað erfitt og hrikalegt tímabil að baki?

Ég prófaði að leita að Chippendales á netinu og sá þar margar myndir (ég kann ekki að setja inn myndir í komment, en þessi linkur ætti að vísa á eina áhugaverða mynd: http://www.picardieweb.com/restaurant-el-latino/Photos/soirees/normal/chippendales_normal.jpg ) ... Á þessum link sést kona sitjandi í stól handfjatlandi mann sem situr klofvega yfir henni. Jú það sést í bringuna á honum en engin nekt. Ég myndi ekki hafa neitt á móti því að svona "útibú" yrði stofnað á Íslandi, og guð má vita hvað íslenskar konur tóku Chippendales fagnandi þegar þeir komu hingað. Eftirfarandi er útdráttur frá grapevine.is, eftir Steinunni Jakobsdóttur:

"One moment that summed up the evening was when the Chippendales started their search for the horniest table in the house while begging the women to take some Chippendales back to their homes after the show. At that point, the audience went insane and everyone was in for it, trying to sound hornier than the next group. I even spotted some women in their sixties standing on chairs slightly hysterical and applauding loudly when the guys walked out into the audience to make better contact with the ladies, and of course earn some tips.

As can be expected, the Chippendales’ arrival in Iceland has been the talk of town and not all are satisfied with this kind of amusement. Some find it humiliating, disgusting and are shocked at girls who want to pay to see this kind of disastrous entertainment where the male body is merchandised into a play toy for women. I’m not going to debate that issue. The only thing I have to say about it after seeing the show is that I at least didn’t find it humiliating for anyone. Women are diverse and while some girls in the crowd found the greased men to be the hottest thing on the planet, others were just in it for a laugh, and those who don’t like seeing stripping guys just didn’t attend that night. Watching their goofy moves and judging by the feedback I think the majority in the audience was laughing at them and the whole idea instead of being crazily turned on by the show."

Ég held að það sé hrikalega einfalt og hálf ósanngjarnt að væna karla um eintómt skop þegar svona ber á góma. Þetta er ekkert svart á hvítu dæmi, það eru til gráar hliðar. Og hvað vitum við um það hversu margar/margir taka þátt í svona líkamssýningum af fúsum og frjálsum vilja?

Eða ætli allir Chippen-deilarnir eigi vafasama fortíð? Tek annars undir það sem Ómar sagði: Jú, stelpurnar við súluna eiga pabba og eru dætur einhverra, en það eiga áhorfendurnir líka og þeir eru ekki allir karlkyns. Þarna skiptir máli hvernig uppeldi viðkomandi aðilar hafi fengið. Það er hægt að dansa og horfa á dans, án þess að hafa uppi einhverjar ranghugmyndir um viðkomandi aðila.

Ég skal viðurkenna að ég hef farið á svona súlustað (nokkur ár síðan), og ég hef skoðað nektarmyndir á netinu, og ég hef flett í gegnum Playboy ... en það er bara út af viðtölunum og greinunum ....

Doddi - Þorsteinn G. Jónsson (IP-tala skráð) 26.6.2007 kl. 00:56

45 Smámynd: Brynja Hjaltadóttir

Jóna..þori ekki annað en að standa úti

Brynja Hjaltadóttir, 26.6.2007 kl. 02:08

46 Smámynd: Jóna Á. Gísladóttir

brynja þú mátt koma inn

Jóna Á. Gísladóttir, 26.6.2007 kl. 10:00

47 identicon

Konur eru í leiðtogi með hinu illa

Um árið 1450 fékk Satan fjöldann allan af hættulegum fylgisveinum hér á jörðu. Í þennan hóp féllu allir sem efuðust um túlkanir kirkjunnar á Biblíunni – ásamt fjölda óheppinna kvenna, sem í nokkrum bæjum höfðu á einn eða annan hátt komið illa út. Nornirnar voru sagðar tilbiðja Djöfulinn í leyniathöfnum – þar sem kynlíf átti í hlut, meðan trúvillingar hreint og beint gengu erinda hans með því að tala gegn ótta vekjandi heimsmynd prestanna.

Las þetta á nýja söguvefnum, svona verða þjóðsögurnar til Jóna.

Axel Jón Fjeldsted (IP-tala skráð) 26.6.2007 kl. 22:33

48 Smámynd: Jóna Á. Gísladóttir

Sniðugur strákur Axel

Jóna Á. Gísladóttir, 26.6.2007 kl. 23:24

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Jóna Á. Gísladóttir
Jóna Á. Gísladóttir

 

 

 Ég er nokkuð dæmigerð íslensk útivinnandi kona. Hef lokið grunnnámi í markþjálfun og gengur betur að hjálpa öðrum við markmiðasetningu en sjálfri mér. Mér lætur líka betur að stjórna öðrum en sjálfri mér. 

 netfangið mitt er jonaagisla@gmail.com

 

 

 

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.11.): 3
  • Sl. sólarhring: 4
  • Sl. viku: 9
  • Frá upphafi: 1640371

Annað

  • Innlit í dag: 2
  • Innlit sl. viku: 7
  • Gestir í dag: 2
  • IP-tölur í dag: 2

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Bloggvinir

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband