Leita í fréttum mbl.is

Ég var stungin af í morgunsárið

Hundarnir gerðu mig að fífli í morgun.

Ég snaraðist á fætur rúmlega hálfsjö, fór í leppana og tilkynnti Vidda og Bósa að nú yrði farið í göngutúr. Tvær lafandi tungur og skælbrosandi skoltar voru það sem blasti við mér þegar ég dróg fram ólarnar þeirra. Ólarnar eru samt bara til vonar og vara þegar við förum svona snemma út því ég á ekki von á því að nokkur maður sé komin á hestbak á þessum tíma né að til séu eins hressir göngugarpar og ég.

Ég byrjaði á því að fara niður fyrir hús til að kíkja á verksummerki þar. Óþekki hundurinn minn, hann Viddi, hefur það nefnilega fyrir sið að grafa sig út úr garðinum. Mér þykir það ekki skemmtileg iðja hjá honum og girðingin hjá okkur er umkringd alls konar grjóti og ljótum spýtum sem ég stel af nágrönnunum og negli þær  neðst á grindverkið til að reyna að koma í veg fyrir að ævintýraþráin í Vidda fái að njóta sín.

Nema hvað að ég var svona gasalega morgunspræk og hress að burðast með grjót og spýtur úr nágrannagarðinum til að loka fyrir nýjasta gatið í grindverkinu  og leið bara eins og ég væri dugleg bóndakona á leið í fjósið að mjólka, svo mikil var vinnugleðin hjá mér.

Svo sný ég mér við sigri hrósandi þegar verkinu er lokið og verð örugglega svolítið kindarleg í framan (í stíl við allt annað). Hundarnir voru báðir horfnir. Og ég var stödd út í móa skal ég segja ykkur. Engin hús að flækjast í sjónlínunni. Samt var eins og jörðin hefði gleypt þá. Skammirnar.

Þarna stóð ég eins og fífl með tvær hundaólar í hendinni og vel byrg af plastpokum til að hirða upp skítinn eftir þá, en enga hundana. Þeir voru heppnir að ég náði ekki í þá á þessu andartaki. Ég hefði sennilega snúið þá úr hálsliðnum með annarri. Léttilega.

Ég neyddist til að byrja að ganga hringi í hverfinu og hvísla nöfnin þeirra. Vildi ekki að nágrannarnir heyrðu til mín. Ekkert bólaði á gaurunum. Þá ákvað ég að ganga í áttina að Rauðavatni og mætti þá fljótlega Bósa. Hann var bara ekkert skömmustulegur á svipinn þrátt fyrir að vilja ekki gefa upp um viðverustað Vidda. Þar sem ég veit að Bósi eltir bara Vidda og myndi aldrei víkja frá hlið mér nema vegna hans þá ákvað ég að spara kraftana þar til ég hitti óþekktarangann. Svo við Bósi röltum niður að Rauðavatni. Sáum engan hestamann eða göngugarp og alls ekki Vidda. En Lóur sá ég, og tjald. Ég var að bögga þau.

Við Bósi snerum því við og þá hringdi Bretinn.

Hvar ert þú? spurði hann.

Er Viddi kominn sagði ég ógnandi röddu án þess að svara spurningunni.

Já, sagði Bretinn svefndrukkinni, spyrjandi röddu. Fannst þetta greinilega of mikið að því góða kl. 7 um morgunn.

Snúðu hann úr hálsliðnum sagði ég með svörtustu röddinni minni og skellti á.

Haldiði að hundskömmin hafi ekki birst í garðinum og gelt móðgaður þegar engin var móttökunefndin. Hvernig hann komst inn í víggirtan garðinn er mér hulin ráðgáta.

 

Hvor haldiði að sé óþekktaranginn? 100_1072


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Svandís Rós

Ég held að þessi til hægri sé óþekktaranginn... virðist svo innilega ekki skammast sín fyrir eitt né neitt... á meðan hinn er frekar skömmustulegur

Svandís Rós, 14.5.2007 kl. 19:53

2 Smámynd: Guðríður Pétursdóttir

sammála Svandísi

Guðríður Pétursdóttir, 14.5.2007 kl. 20:11

3 Smámynd: Rúna Guðfinnsdóttir

Sá  sem brosir svona fallega eins og til að fela skömmina Reyndar finnst mér ég muna eftir honum úr dýravinum, þá áttir þú ekki Bósa, ekki satt???

Rúna Guðfinnsdóttir, 14.5.2007 kl. 20:15

4 Smámynd: Tómas Þóroddsson

Litli til hægri, svo lúmskur eitthvað.

Tómas Þóroddsson, 14.5.2007 kl. 20:46

5 Smámynd: Kristín Katla Árnadóttir

Guð þessi fyrri er alveg eins og Tóta mín ég veð senda þér mynd af henni  þá getur þú séð hvernig hún leit út ég fæ bara tár í augun.

Kristín Katla Árnadóttir, 14.5.2007 kl. 20:54

6 Smámynd: Brynja Hjaltadóttir

Örugglega þessi hægra megin...sé það á honum. Annars eru þeir algjör krútt þessir hundar.

Brynja Hjaltadóttir, 14.5.2007 kl. 23:02

7 Smámynd: Hólmgeir Karlsson

Það hlýtur að vera "litla rassgatið" til hægri, nema hinn sé svona góður leikari, saklaus og prúður.

Hólmgeir Karlsson, 14.5.2007 kl. 23:28

8 Smámynd: Jóna Á. Gísladóttir

Elsku krúttin mín. þakka ykkur fyrir góða þátttöku í þessari litlu hundagetraun. Agalega krúttlegt að sjá ykkur öll hér saman komin. Jú jú. Þið hafið öll rétt fyrir ykkur nema Guðmundur. Guðmundur, þessi vinstra megin hann kann sko að skammast sín og skammast sín venjulega fyrir hönd hins.

Óþekktaranginn er litla kvikindið hægra megin. Og eins og þið segið; ofsalega sakleysislegur að sjá og algjör prakkari sem kann ekki að skammast sín. Lúmskari en fjandinn sjálfur. En það er ekki annað hægt en að fyrirgefa honum jafnóðum hann er svo mikið rassgat eins og Hólmgeir segir. Rúna, þú manst rétt (alveg ertu ótrúleg). Kristín Katla, settu endilega inn blogg og mynd af Tótu þinni. Elísabet Lára: I know I know þetta er náttúrlega hrikalegt og ekki gaman fyrir fólk sem er hrætt við hunda að mæta hundum sem jafnvel flaðra upp um það. Ég er einmitt að taka mína í gegn með þann ósið. Þetta er hrikalega illa uppalið hjá mér. Bósi mun betur, enda var hann voðalega hlýðin þegar ég fékk hann 7 mánaða, svo ekki er það mér og mínu uppeldi að þakka. Börnin mín eru aftur á móti agalega vel upp alin    Váááá hvað þetta varð langt komment hjá mér.

Jóna Á. Gísladóttir, 14.5.2007 kl. 23:54

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Jóna Á. Gísladóttir
Jóna Á. Gísladóttir

 

 

 Ég er nokkuð dæmigerð íslensk útivinnandi kona. Hef lokið grunnnámi í markþjálfun og gengur betur að hjálpa öðrum við markmiðasetningu en sjálfri mér. Mér lætur líka betur að stjórna öðrum en sjálfri mér. 

 netfangið mitt er jonaagisla@gmail.com

 

 

 

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.11.): 2
  • Sl. sólarhring: 2
  • Sl. viku: 6
  • Frá upphafi: 1640368

Annað

  • Innlit í dag: 2
  • Innlit sl. viku: 5
  • Gestir í dag: 2
  • IP-tölur í dag: 2

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Bloggvinir

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband