Leita í fréttum mbl.is

Ofbeldi á konum og börnum - Opnum umræðuna upp á gátt

Hún Dísa Dóra er að opna umræðuna svo um munar með sínu framtaki.

Samtökin Styrkur - Úr hlekkjum til frelsis er undan hennar rifjum runnið og segir sitt um kjark og ákveðni þessarar konu. 

Ég er svo heppin að í vinnunni hefur verið afar rólegt það sem af er degi. Ég hef eytt tímanum hér opinmynnt við lestur reynslusagna á þessari heimasíðu. Það er alveg ljóst að ég mun lesa hvern krók og kima hennar í kvöld þegar ég hef hent börnunum blíðlega í rúmið.

Það er alveg með ólíkindum hvað sum börn og konur þurfa að lifa við. Og svo er reistur múr í kringum fjölskylduna, sem enginn kemst í gegn um. Börn og konur lifa í andlegri og/eða líkamlegri kvöl og þögn. Þögnin er það versta því hún er leyfisbréf geranda ofbeldisins til að stunda sína iðju óáreittur.

Í gær átti ég tal við yndislega konu sem er innvikluð í Stígamót. Hún segir það staðreynd að opin umræða hefur átt stóran þátt í því að nú leita fórnarlömb kynferðisofbeldis sér hjálpar og aðstoðar mun fyrr á ævinni.

Og það sem meira er, að þau eru betur í stakk búin til að takast á við og bægja frá ranghugmyndum um eigin sök á ofbeldinu og skömminni sem sem eru ófrávíkjanlegir fylgifiskar.

En betur má ef duga skal. Það þarf að halda umræðunni galopinni og sjá til þess að nágrannar, vinir, ættingar og aðrir sem verða varir við hverskyns heimilisofbeldi hiki ekki við að láta vita af slíku. Það þarf líka að sjá til þess að almenningur jafnt sem yfirvöld líti heimilisofbeldi jafn alvarlegum augum og ofbeldi gagnvart ókunnugu fólki.

Það er líka annað sem gleymist og ekki allir gera sér grein fyrir. Og það er að allir... allir geta fundið sig í þessum aðstæðum. Hversu margar konur hafa ekki komið fram... sterkir karakterar, sjálfstæðar konu á framabraut, uppfullar af sjálfstrausti.. og sagt frá því hvernig þær voru brotnar niður á lúmskan og markvissan hátt þar til ekkert var eftir annað en rústir einar.

Fordómarnir eru miklir og ég er svo sannarlega ekki saklaus af þeim. Ég er samt að þroskast og læra og skilja meira. Guði sé lof. Það væri ekki mikið vit í lífinu ef maður lærði ekki stöðugt eitthvað nýtt. Það eru ekki bara heimskar, illa menntaðar, veikgeðja konur sem lifa við ofbeldissambönd. Og það sama gildir um gerandann.

Munið bara að þið þekkið örugglega einhvern sem felur eitthvað á bak við veggi heimilisins. Jafnvel glæp í sinni verstu mynd.

Kíkið á Dísu Dóru og verið dugleg að kommenta. Sýnið í verki að framtakið er mikils virði og vel metið og takið beinan eða óbeinan þátt í því.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sunna Dóra Möller

Ég ætla að skoða þetta, takk fyrir góða og þarfa ábendingu

Sunna Dóra Möller, 6.11.2007 kl. 14:55

2 Smámynd: Kristín Katla Árnadóttir

Ég er búinn að líta á síðu Dísu Dóru mér finnst hún stórkostuleg kona ég mun fylkjast með henni áfram og það er rétta að opna svona mál upp á gátt ekki veitir af.

Kristín Katla Árnadóttir, 6.11.2007 kl. 15:00

3 Smámynd: krossgata

Þarft framtak.

krossgata, 6.11.2007 kl. 15:13

4 Smámynd: Nanna Katrín Kristjánsdóttir

Gott og þarft opna umræðuna, mér finnst bara svolítið slæmt að þetta sé miðað bara við konur og börn.  Karlmenn sem verða fyrir ofbeldi andlegu-, líkamlegu- eða kynferðislegu, eru ennþá í þögninni og eiga erfitt með að koma fram.  Að tala alltaf um konur sem þolendur og karlmenn sem gerendur, lokar á að þessi hópur manna komi fram.

Nanna Katrín Kristjánsdóttir, 6.11.2007 kl. 15:22

5 Smámynd: Jóna Á. Gísladóttir

Nanna ég vissulega velti því fyrir mér á meðan ég var að skrifa þetta. Getur vel verið að ég breyti þessu. Ég held samt að málið sé að karlmenn þurfa að ræða þau mál sín á milli. Koma sér upp samtökum. Eg held að það sé alveg sama hvað við reynum.. ofbelti á kvenfólki og ofbeldi á karlmönnum er tvennt ólíkt. Við erum svo ólík. Það er alveg sama hvað við hömrum á því við karlmann sem hefur verið beittur ofbeldi af konu sinni, að hann hafi ekkert að skammast sín fyrir. Fórnarlambið þarf á stuðningi annarra karlmanna að halda sem þekkja málið af eigin raun. ÞAÐ ÞARF NÝ SAMTÖK. Eins langt og við höfum komist með ofbeldisumræðuna, þá erum við stödd í fornöld hvað varðar karlmenn sem hafa þurft að þola heimilisofbeldi af hálfu konu sinnar (eða maka ef um samkynhneigt samband er að ræða).

Jóna Á. Gísladóttir, 6.11.2007 kl. 15:44

6 Smámynd: Jenný Anna Baldursdóttir

Frábær pistill, frábært framtak.

Jenný Anna Baldursdóttir, 6.11.2007 kl. 15:56

7 Smámynd: Dísa Dóra

Takk fyrir þennan frábærlega vel skrifaða pistil og fyrir að vekja athygli á þessari þörfu umræðu

Það er nú reyndar svo að samtökin Styrkur - úr hlekkjum til frelsis eru einnig fyrir karlmenn alveg jafnt og konur.  Í upphafi var meiningin að hafa þetta fyrir börn líka en það er aðeins barnarverndarstofa og barnarvernd sem er leifilegt að sjá um málefni þeirra í svona málum.  Börn undir 18 ára aldri hafa þó haft samband við okkur og fengið stuðning og ráð og aðstoð við að hafa samband við þar til gerð samtök og stofnanir.  

Karlmenn hafa einnig haft samband við okkur og fengið stuðning og ráð en því miður er það samt þannig að karlmenn hafa ekki viljað stíga fram og opinbera sögur sínar þar sem að enn virðist fylgja því skömm og miklir fordómar í samfélaginu gagnvart karlmönnum sem eru beittir ofbeldi.  Jafnvel enn meiri fordómar en gagnvart konum sem eru beittar ofbeldi en gagnvart þeim er samfélagið að breyta viðhorfum sínum síðustu ár.  Þá breytingu má einmitt rekja til aukinnar umræðu og fræðslu og þar af leiðir að almenningur veit í dag að það er engin skömm að hafa verið beittur eða vera beittur ofbeldi - skömmin á heima hjá gerandanum ekki þeim sem upplifir ofbeldið.

En betur má ef duga skal og því er svo gífurlega mikilvægt að ræða þessi mál opinberlega.  Þetta eru jú málefni sem á að tala í hel en ekki að þegja í hel hef ég oft sagt. 

Dísa Dóra, 6.11.2007 kl. 16:05

8 Smámynd: Edda Agnarsdóttir

Góð skrif Jóna, takk fyrir. Segi það sama og þú segir í kommenti, karlar verða að finna út úr sínum málum eins og konur hafa þurft að gera. Rannsóknir hafa sýnt að konur eru duglegri en karlmenn að finna út úr tilfinningalegum vandamálum, en konur hafa áhrif með þessu og karlar eru að sækja í sig veðrið.

Edda Agnarsdóttir, 6.11.2007 kl. 17:28

9 Smámynd: Rúna Guðfinnsdóttir

Ég hreint hata þetta umtal..það er æ í æ verið að rifja upp sárar minningar. Þetta er fyrir nefi manns á hverjum degi í flestum fjölmiðlum. Veröldin er skrítin og viðbjóðsleg á stundum, er einhver vonarglæta að hún lagist? Það held ég ekki.

Rúna Guðfinnsdóttir, 6.11.2007 kl. 17:30

10 Smámynd: Gunnar Helgi Eysteinsson

Mér finnst ég ekki segja það of oft... Dísa Dóra er hetja!
Frábært hjá þér Jóna að benda fólki á síðunna hennar.

Gunnar Helgi Eysteinsson, 6.11.2007 kl. 17:48

11 Smámynd: Heimir Lárusson Fjeldsted

Þökk fyrir ábendinguna.

Heimir Lárusson Fjeldsted, 6.11.2007 kl. 18:47

12 Smámynd: Huld S. Ringsted

Frábær pistill. Ég er búin að sitja í dag og lesa síðuna hennar. Hún er algjör hetja og frábært það sem hún er að gera.

Huld S. Ringsted, 6.11.2007 kl. 19:53

13 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Fyrir mörgum árum var ég að reyna að opna umræðuna um ofbeldi gegn börnum en fékk bara skömm í hattinn. Frá Stígamótum voru mér færðar þær köldu kveðjur að Sigurður væru umdeildur maður sem útleggst: Það er ekkert að marka hann. Ég læt mér því fátt um finnast.   

Sigurður Þór Guðjónsson, 6.11.2007 kl. 20:56

14 Smámynd: Jóna Á. Gísladóttir

Dísa Dóra. Já það stendur skýrum stöfum á síðunni ykkar að þetta sé alveg jafn fyrir karlmenn. Takk fyrir frábært framtak og gangi þér allt í haginn með þetta stóra verkefni.

Edda. Já það er einmitt málið. Við erum ólík, konur og karlar, og þeir þurfa eflaust aðra nálgun á málefnin.

Rúna. Í rauninni snýst þetta ekki um að einhver geri sér vonir um að heimurinn verði fegurri. Þetta snýst frekar um að aðstoða fólk og leiðbeina við að koma sér út úr ofbeldisfullum samböndum. Og fyrir þann sem losnar undan slíku hlýtur heimurinn að vera aðeins betri staður. Kannski ættir þú einmitt að kynna þér samtökin hennar Dísu Dóru

Sigurður minn Þór. Ertu ekki óþarflega langrækinn. Tímarnir breytast og mennirnir með.. sem betur fer í sumum tilvikum.

Jóna Á. Gísladóttir, 6.11.2007 kl. 22:38

15 Smámynd: Ómar Ingi

Hey muna eftir okkur sem eru lamdir af konum og beittir andlegu ofbeldi   Ég er að vísa í titilinn á færslunni þinni

Sko það eru til dæmi um slíkt sko , ekki gleyma og muna jafnréttið

En annars er ég 100% SAMmála þér Jóna og þarna er á ferðinni gott framtak.

Ómar Ingi, 6.11.2007 kl. 22:52

16 identicon

Takk Jóna er búin að kíkja á síðuna.

Birna Dis Vilbertsdóttir (IP-tala skráð) 6.11.2007 kl. 22:52

17 Smámynd: Marta B Helgadóttir

Vel til fundið að benda á þetta.

Marta B Helgadóttir, 6.11.2007 kl. 23:18

18 identicon

þetta var gott - skoða örugglega þetta

alva (IP-tala skráð) 7.11.2007 kl. 01:02

19 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Ég er ekki langrækinn að eðlisfari og finnst óþarfi að vera með það komment.  

Sigurður Þór Guðjónsson, 7.11.2007 kl. 14:10

20 Smámynd: Jens Guð

  Takk fyrir að benda á þessa síðu. 

Jens Guð, 7.11.2007 kl. 22:44

21 Smámynd: K Zeta

Löggjafinn okkar er gerandi í að viðhalda heimilisofbeldi því lögin ganga útá að að fórnarlambið kæri verknaðinn sem hver normalgreindur sér að er oft ekki gerlegt.  Þar sem ég bjó í Bandaríkjunum gátu lögreglumenn hafið rannsókn á heimilisofbeldi þótt fórnarlambið kærði ekki og jafnvel þrætti fyrir árár og kenndi eldhúshurð nefbrotið og glóðaraugun.  Að vísu var sönnunarbyrðin erfiðari ef fórnarlambið vitnaði ekki með en þannig er með mörg mál sem lögreglan þarf að rannsaka, t.d. morð eða mannshvörf þar sem engin kærir árás á sig sjálfan.  Tilgangurinn með slíkum lögum er fælandi fyrir árásaraðila og svo eru ofbeldisseggirnir oft skilyrtir til að sæta meðferð ella lenda í fangelsi þar sem meðfangar þeirra líta niður á þá.  Samt má ekki gleyma að karlmenn eru líka fórnarlömb ofbeldis og konur sömuleiðis gerendur, sérstaklega gagnvart börnum.

K Zeta, 8.11.2007 kl. 22:31

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Jóna Á. Gísladóttir
Jóna Á. Gísladóttir

 

 

 Ég er nokkuð dæmigerð íslensk útivinnandi kona. Hef lokið grunnnámi í markþjálfun og gengur betur að hjálpa öðrum við markmiðasetningu en sjálfri mér. Mér lætur líka betur að stjórna öðrum en sjálfri mér. 

 netfangið mitt er jonaagisla@gmail.com

 

 

 

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (13.5.): 0
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 15
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 15
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Bloggvinir

Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband