Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, ágúst 2008

Þangað sem lífið leiðir okkur

Í fyrra fór ég á námskeið sem ber nafið Skapandi skrif. Það er Þorvaldur Þorsteinsson, rithöfundur og listamaður sem er með þessi námskeið. Ég fékk ótrúlega mikið út úr þessum 4 kvöldum og var ákveðin í að fara á framhaldsnámskeið seinna meir.

Ég sá það svo auglýst um daginn og gat ekki hætt að hugsa um það. En ég gat heldur ekki gleymt peningunum sem ég á ekki til. En á föstudaginn hugsaði ég: what the f..., maður lifir víst bara einu sinni og ákvað að skella mér. Og ekki slæmt, kostar 40.000 en ég fæ 20.000 frá VR.

Ég byrja annað kvöld og hlakka þessi lifandi ósköp til.

Í tilefni af þessu kemur hér smásaga sem varð til í þeirri miklu andagift sem ég fylltist af í návist skáldsins Cool. Eg birti hana reyndar í fyrra, svo einhver ykkar hafa lesið hana. Hún er nú samt að einhverju leyti breytt og bætt. 

Þangað sem lífið leiðir okkur

Snjórinn er kaldur og harður viðkomu. Berir fæturnir eru orðnir rauðir og þrútnir af kuldanum og hún er hætt að finna fyrir þeim.

Samt heldur hún sínu striki. Hún veit varla hvað það ser sem rekur hana áfram. Aðeins að þessi draumur kallar fram svo sterk viðbrögð að hún má engan tíma missa.

 Á meðan hún bröltir yfir kalt hjarið streyma svipmyndir frá nóttunni fram í höfuð hennar. Myndir frá Draumnum. Eins og leiftursýnir birtist hvert myndbrotið á fætur öðru. Sum svo björt að hún lokar augunum andartak.

Ískur. Undarlegir brestir. Rauðleitur hlutur flýgur í gegnum loftið og ber við rökkvaðan himinn. Skaðræðisóp. Samanhnipruð mannvera. Blóð. Sársauki. Grátur. Er þetta karlmaður að gráta?

Hún hristir höfuðið eins og til að losa sig við þessar sýnir og tárin byrja að renna niður kinnarnar á henni. En hún finnur það ekki. Skynjar ekkert nema þennan mikla ákafa að halda áfram.

Einhver er í vandræðum... lífshættu.. hún verður að finna út hver það er. Koma til hjálpar. Hún er næsta viss að það er einhver henni nákominn. En þetta er einhver vitleysa. Hver ætti svo sem að vera kominn hingað uppeftir.

Hún er farin að tala upphátt við sjálfa sig en það er eins og orðin komi frá einhverjum ókunnugum. Hún er orðin hrædd, en getur ekki stoppað. Einhver ósýnilegur kraftur neyðir hana áfram í ísköldu næturloftinu.

Hún hefur alltaf verið berdreymin. Eiginleiki sem hún tekur ekki fagnandi. Hann veldur henni oft sársauka og vanlíðan.Stjórnar lífi hennar á margan hátt. Eins og núna. Hvaða manneskja með fullu viti myndi rjúka út um hávetur, íklædd engu nema ermalausum kjól? hugsar hún með sjálfri sér. Berfætt? Til að leita einhvers sem sennilega er draumur. Draumur og ekkert annað.

Hún og Kristján höfðu ákveðið að fara hingað upp eftir, í sumarbústað foreldra hans. Fengu bústaðinn lánaðan yfir helgina. Hann stendur afskekkt og þau ætluðu að njóta þess að vera saman, bara tvö ein áður en prófin byrjuðu og myndu aðskilja þau um tíma.

Hún heyrir Kristján kalla á sig:

RAKEL RAKEL 

Undrunin og skelfingin í rödd hans er eins og bergmál af hennar eiginn ótta. En hún getur ekki svarað honum. Þó hún þrái ekkert meira en að finna heita og sterka arma hans umlykja sig. En hún verður að halda áfram. Áfram.

Í nokkra stund rýfur ekkert kyrrðina, fyrir utan marrið í snjónum undir fótum þeirra beggja. Rakel veit að Kristján nálgast og bara tímaspursmál hvenær hann nær henni. Hún heyrir másandi og öran andardrátt hans fyrir aftan sig. Hann má ekki ná til hennar. Hún veit að hann mun stoppa hana og hún verður að ljúka þessu. Verður að fá svörin.

Hún gerir sér ekki grein fyrir því hversu langt þau hafa farið fyrr en hún sér glitta í veginn fyrir ofan bústaðinn. Það er stjörnubjart og tunglið sendir birtu sína niður til hennar.

RAKE HVAÐ ERTU AÐ GERA.. HVERT ERTU AÐ FARA

Kristján er orðinn skelfingu lostinn. Heldur líklega að ég hafi misst vitið, hugsar Rakel og flissar móðursýkislega með sjálfri sér. Kannski er hún búin að missa vitið. Hún er ekki viss. Ekkert virðist raunverulegt á þessari stundu.

En hún getur ekki hugsað um það núna. Hvorki um geðheilsu sína né um ótta Kristjáns. Hún mun útskýra þetta brjálæði fyrir honum seinna. Ekki núna. Það eru aðeins örfá skref eftir upp á veg og hún finnur að ef hún aðeins nær þangað þá verður allt eins og það á að vera.

Já, segir hún stundarhátt út í nóttina. Upp á veginum fæ ég öll svörin. Þá getum við snúið við og allt verður eins og það á að vera.

Hún klifrar upp á veginn, aðframkomin af þreytu og örvinglan. Henni er ískalt og óskar þess að hún hefði að minnsta kosti vettlinga. Fingurnir eru dofnir og hún kreppir þá og réttir á víxl til að fá blóðið á hreyfingu. Eitt andartak stansar hún til að líta við og athuga hversu langt Kristján á eftir.

Ljósgeisli rýfur rökkrið og Rakel blindast af birtunni. Ósjálfrátt ber hún hendur upp að augunum til að verjast áleitnu ljósinu. Heyrir Kristján öskra nafnið hennar um leið og hávært ýskur í bremsum sker í eyrun. Brestirnir í brotnandi beinum eru óraunverulegir finnst Rakel. Hljóð sem hún hefur aldrei heyrt áður en þekkir strax. Líkami hennar í rauða kjólnum flýgur í gegnum loftið og ber við himininn. Sýnin er tilkomumikil í skini mánans.

Einhver öskrar af öllum lífs og sálar kröftum. Hún skynjar sársauka. Hann er ekki líkamlegur. Og hann er ekki hennar.

Á meðan líf hennar fjarar út heyrir hún grát. Er þetta karlmaður að gráta?


Geltandi karlmaður

 

Viddi Vitleysingur og ég fórum í göngutúr í dag. Hjá sumum væri það svo sem ekki í frásögur færandi en það er það í mínu tilfelli.

Göngutúrar eru hreinlega með því leiðinlegra sem ég tek mér fyrir hendur. Eða voru. Ég held ég sé að komast upp á lagið með þetta. Hef farið markvisst í gönguferðir síðustu tvær vikur og í  dag brá svo við að ég fann fyrir örlítilli frelsistilfinningu þegar við Viddi röltum í áttina að Rauðavatni. Og þegar við fengum yfir okkur slagveðursrigningu varð ég ofsakát. Ótrúlega hressandi.

Viddi Vitleysingur er ekki fyrirmyndarhundur í alla staði. Hann er auðvitað Íslendingur í húð og hár og eins og þeim kynstofni er von og vísa, þá á hann það til að gelta á röngum forsendum, á ranga aðila, á röngum tímapunkti.

Á leið okkar í dag varð ungur maður, ég myndi giska á um þrítugt. Viddi byrjaði að gelta um leið og hann sá manninn því Viddi heldur að allt Seláshverfið sé hans og ókunnugir eru þar engir auðfúsugestir að hans mati.

Ég stytti strax í ólinni á hundskömminni og hastaði á hann og þá var málið dautt. Eða það hélt ég þar til ég heyrði gelt koma frá sirka þeim stað sem ungi maðurinn var kominn til. Ég litaðist um eftir þessum hundi sem ég ákvað í huganum að væri að smærri gerðinni því geltið var frekar máttleysislegt. Ég mætti augnaráði þessa manns og viti menn.. það var hann sem gelti. Hann var greinilega ósáttur við þennan illa uppalda hund og vanþóknun sína tjáði hann með þessum hætti. Augnaráðið var þungbúið og ásakandi. Eins og hann væri stórmóðgaður. Hann sneri sér svo undan og hélt geltandi áfram för sinni þvert yfir móaana í átt að Norðlingaholtinu.

Ég segi það satt að ég var dauðfegin. Ef hann hefði haldið í átt að Rauðvatni hefði ég snúið við. Eða eru þetta fordómar í mér að finnast það ekki sjálfsagt að fullorðið fólk gangi geltandi um?

Viddi Helga

það er nú ekki hægt að vera lengi móðgaður eða reiður við þennan öðling


Ömurleg og óréttlát móðir

 

Nú er fyrsta vika skólaársins að enda og allt búið að ganga eins og í sögu með Þann Einhverfa. Vikudagskráin fína sem ég set nú alltaf upp fyrir hann hangir á ísskápnum og er skoðuð daglega. Jafnvel tvisar til þrisvar sinnum á dag.

Þetta hefur verið einfalt plan alla vikuna, enda algjör óþarfi að vera að flækja málin eitthvað á meðan hann er að komast inn í skólarútínuna aftur.

  • Rúta
  • Skóli
  • Vesturhlíð
  • Rúta - heim 

Þegar hann kemur heim með rútunni /skólabílnum, byrjar hann á því að sækja sér penna og strikar svo vandlega kross yfir daginn í dag.

En í morgun vaknaði stráksi og var ákveðinn í því að hann ætlaði ekki í Vesturhlíð í dag. Þetta kom mér á óvart þar sem þetta hefur gengið svo vel alla vikuna og ég skildi ekkert í því hvað var skyndilega hlaupið í drenginn.

Hann náði í penna og vildi strika yfir Vesturhlíð á planinu sínu en ég bannaði honum það. Þá beygði hann af og tárin spýttust í allar áttir. Hann grét í fanginu á mér góða stund og við áttum í rökræðum sem hljómuðu einhvern veginn svona:

Sá Einhverfi: ekki Vesturhlíð

Ég: Jú Ian

Sá Einhverfi: Nei ekki Vesturhlíð buhuhuhu

Ég: Í dag er föstudagur og það er rúta, skóli, Vesturhlíð.....

Sá Einhverfi (grípur fram í á gólunum): nei ekki rúta ekki Vesturhlíð

Við komumst svo sem ekki að neinni sameiginlegri niðurstöðu við mæðginin, en það rann skyndilega upp fyrir mér ljós. Í fyrravetur áttum við aðeins pláss í Vesturhlíð 4 daga vikunnar vegna manneklu og það voru föstudagarnir sem duttu út.

Og þessi ömurlega mamma ætlaði barasta að breyta um stefnu þennan veturinn. Þvílíkt ranglæti í þessum heimi. Þvílíkar byrðar.

Það var brúnaþungur og ósáttur strákur sem skundaði út í rútu í rokinu í morgun. Hann skutlaði skólatöskunni af bakinu þegar inn í rútuna kom, og treysti á að bílstjórinn myndi grípa hana.

Ég sá, þar sem ég stóð fyrir utan, að svipurinn var þóttalegur er hann fékk sér sæti og spennti á sig beltið. Þrátt fyrir að mér finndist öll dramatíkin fyndin þráði ég að hann liti á mig í gegnum rúðuna. Gæfi mér eitt lítið vink eða örsmátt bros í kveðjuskyni. Eitthvað sem segði mér að hann myndi ganga glaður inn í Vesturhlíð í dag eins og alla hina dagana.

En hann sneri í mig baki og lét eins og hann ætti enga móður.  Allavega ekki almennilega.

En það er allt í lagi. Ég veit að hann mun elska mig í tætlur í kvöld þegar ég ber Dominos pizzu á borð fyrir hann.

 


Sleppum ekki börnunum úr augsýn

 

Við Íslendingar erum auðvitað óttalega græn fyrir öllu sem viðkemur barnsránum. Sem betur fer, má kannski segja. En það breytir því ekki að við þurfum að skipta um gír þegar til útlanda er komið.

Þessi náungi hefur verið sérstaklega kræfur að grípa í barnið að móðurinni ásjáandi og á fáförnum stað hefði hann vel getað tekist ætlunarverk sitt þrátt fyrir að barnið væri ekki eitt.

Ég hvet t.d. alla til að hleypa börnunum sínum aldrei nokkurn tíma einum á almenningssalerni. Ekki einu sinni hér á landi.

Ég man eftir atburði á Englandi fyrir örfáum árum síðan þar sem 6 eða 7 ára gömlu barni var nauðgað á salerni inn á veitingastað á meðan foreldrarnir sátu grunlausir yfir matnum og í sjónmáli við dyrnar að salerninu.

Eitt sinn er ég var að ferðast ein með Gelgjuna og Þann Einhverfa sátum við föst á Kastrup vegna bilunar á Flugleiðavél. Gelgjan var um 2 ára og Sá Einhverfi bara ungabarn í vagni. Ég reyndi auðvitað allt til að drepa tímann og gera biðina bærilega fyrir Gelgjuna og hleypti henni í leiktæki á meðan ég sat á bekk og horfði á. Leiktækið var frekar stór flugvél sem litlu krakkarnir á staðnum gátu farið inn í nokkur í einu.

Og allt í einu var Gelgjan horfin. Gufuð upp. Fyrst var ég tiltölulega róleg; skimaði í kringum mig og bjóst við að koma auga á hana á hverri sekúndu. En það gerðist ekki. Og hræðslan byrjaði að stigmagnast innra með mér en samt byrjaði ég ekki að öskra og kalla. Sem er auðvitað afar skrítið. En ég held að það sé hugsunin: ekkert slæmt kemur fyrir mig, ekkert hendir börnin mín, ég er Íslendingur og ég ætla ekki að fara að gera mig að fífli út af engu.

Bilað, ekki satt.

En andartaki síðar (sem virkaði eins og margar mínútur) kom karlmaður gangandi á móti og leiddi prinsessuna sem var hæstánægð. Maðurinn var ekki jafn ánægður og hellti sér yfir mig. Hann var danskur og tjáði sig á sínu ástkæra ylhýra.

Nægar leyfar af skóladönskunni voru enn til staðar í hausnum á mér til að ég skildi að hann hafði fundið stelpuskottið mitt í könnunarleiðangri aðeins fjær og að hann var að húðskamma mig fyrir að passa barnið mitt ekki betur og að ég ætti ekki að eiga börn.

Eftir á að hyggja var þessi maður svo ótrúlega reiður við ókunnuga manneskju,  að ég hef grun um að hann hafi einhvern tíma lent í einhverju slæmu.

Ég skammaðist mín niður í tær og gerði lítið annað en að kinka kolli og reyna að þakka manninum fyrir. Hann vildi ekki heyra það. Ég held hann hafi dreymt um að gefa mér ærlegt spark í rassgatið.

Það er aldrei of varlega farið og forvitið barn sem er beint fyrir framan nefið á þér hefur ótrúlegan hæfileika til að vera horfið sekúndubroti seinna eins og jörðin hafi gleypt það.

 


mbl.is Reynt að ræna íslensku barni í Frankfurt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ekki er ég faðir neins af drengjunum

og ekki heldur móðir. En ég finn nú samt sem áður til samkenndar með pabba hans Róberts okkar Gunnarssonar. Undanfarna daga hef ég öðru hverju orðið fyrir því að fyrirvaralaust vöknar mér um augu eða fæ kökk í hálsinn.

Einfaldir hlutir eins og íslenski fáninn, umræða í útvarpinu um samkennd þjóðarinnar í kringum þennan sigur í Kínalandinu, Dorrit að klofa yfir sætisbök í almenningsfarartæki í sama landi, Óli Raggi klappandi í mynd...

Sem sagt afskaplega lítið hefur þurft til að ég finni hjartað þrútna í brjóstinu á mér af ættjarðarást og stolti yfir að vera Íslendingur.

Hvað er í gangi? segi ég nú bara. Er ellin að færast yfir mig.

En ég segi það satt að í fyrsta skipti á ævinni hef ég þokast millimetra í áttina að því að skilja fólk sem flykkist í herinn í sínu landi á stríðstímum. Eða heiftina í baráttunni um landamæri. Hvernig myndi okkur líða ef hér birtist skyndilega erlendur her og svipti okkur réttindum í okkar eigin landi?  Ef þannig ástand myndi skapast hér, að við sæum okkur ekki annað fært en að flýja land?

Ég get ekki hugsað það til enda.

Ég er Íslendingur og er meira en lítið stolt að því. En ég ætla að herða mig upp. Fólk getur farið að fá einhverjar hugmyndir um drykkjuvenjur mínar ef ég held áfram að vera glaseygð með brostna rödd.

 


mbl.is Með stöðugan kökk í hálsinum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

pirr pirr

 

Það er engin hemja hvað ég get verið pirruð. Það pirrast enginn meira en ég. En ég veit um eina sem pirrast jafn mikið og ég. Og þú veist hver þú ert. Devil

Pirringurinn hjá mér er líkamlegur. Ég finn hvernig allar taugar krullast upp í permó-ástand eins og þær hafi fengið andlegt raflost.

Klukkan 22:47 í kvöld að staðartíma kom Gelgjan til mín með nýju gallabuxurnar og sagði: mamma ertu til í að festa uppábrotin?

Og ég tuðaði og röflaði og tautaði og skammaðist yfir þessari alslæmu tímasetningu, þar sem öll helgin var að baki.

  • Afhverju hún hefði ekki beðið mig um þetta fyrr í dag (t.d. þegar ég þurfti nauðsynlega að leggja mig í 4 klst svo meðvirk var ég þreytu landsliðsins),
  • eða í gær (þegar ég var bissí við að fara út með Vidda Vitleysing, versla vegna tilvonandi kvöldmatargesta, elda matinn og svo taka á móti gestum)
  • eða á föstudaginn (þegar ég sveif á rauðbleiku skýi eftir sigur strákanna gegn Spánverjum og var ekki til viðtals í sigurvímunni)

Og eftir allt tuðið ákvað ég að hún skyldi sko fá að eyða jafnmiklum tíma í þetta og ég, svo ég lét hana standa upp á stól og vera í buxunum á meðan ég tyllti uppábrotunum með örfáum saumsporum.

En ég var pirruð. Pirruð yfir tímanum sem fór í þetta. Pirruð yfir nýtilkominni ellifjarsýninni sem gerði mér erfitt fyrir að þræða nálina. Og í hvert skipti sem ég stakk sjálfa mig í fingurna fann ég hvernig taugarnar á mér pirruðust alveg út í afró-krullur.

Og þar sem ég kraup við fætur dóttur minnar sem furðanlega ónæm fyrir skapvonskunni í mér, fann ég klapp á kollinn og hughreystandi rödd sagði: mamma þú ert flink að sauma.

Já finnst þér það sagði ég og stakk sjálfa mig í vísifingur.

Og þar sem Bretinn er bissí við að horfa á golf, þá létti ég á hjarta mínu við ykkur.

 


Silver is the new Gold**

**(verð að taka það fram að ég stal þessari fyrirsögn frá bloggvini, sem aftur sá hana einhvers staðar annars staðar hér á blogginu. Fólk er svo hrifið af þessu að það staðfestist hér með að ég veit ekki hver á þessi fleygu orð. Ef sá hinn sami les þetta, má hann gjarnan láta vita).

Það er nú sennilega að bera í bakkafullan lækinn að setja hér inn pistil um handboltann. En ég verð að gera það.

Eins og allir hinir settist ég fyrir framan sjónvarpið eldsnemma í morgun eftir að hafa í flýti kveikt á sjónvarpinu inni í herbergi Þess Einhverfa.

Hann byrjar allar morgna um helgar á því að rölta niður í stofu og hertaka imbakassann þar og ég átti alveg eins von á því að úr þessu yrði eitt allsherjar vandamál. Eitthvað sem ég myndi ekki hafa nokkra þolinmæði í að leysa við þessar aðstæður.

En gaurinn kom mér á óvart með því að hanga í herberginu sínu allt til loka leiks svo ég þurfti ekki að hafa meiri áhyggjur af því.

Á fyrstu mínútum leiksins hefði ég þurft á gangráði að halda. Ég var með óþægilegan hraðan hjartslátt og fann fyrir löngun til að breiða teppi yfir hausinn á mér.

Ég get ekki horft á þetta, hugsaði ég enda enginn til að tala við. Bretinn hengslaðist ekki niður fyrr en í hálfleik enda ekki íslenskur ríkisborgari. En það er Dorrit ekki heldur (eða hvað?)

En fyrst að strákarnir gátu spilað, þá hlaut ég að geta horft. Þegar ljóst var í hvað stefndi fékk á kvíðakast yfir viðbrögðum íslensku þjóðarinnar. Sá fyrir mér að vanþakklæti eitt myndi ráða ríkjum og liðið hefði betur hreppt bronsið og endað á sigurleik en taka silfrið og enda á tapleik.

Fannst helvíti gott það sem Siggi Sveins sagði í spjallinu í Smáralindinni að eftir tapleiki væri liðið alltaf með 300.000 þjálfara.

Sannari orð hafa vart verið mælt held ég. En ég er nú líka óvenju viðkvæm fyrir gagnrýni á strákana MÍNA og það lá við að Bretinn og ég lentum í hár saman. Einfaldega vegna þess að ég vildi ekki ræða hvað hefði verið að í leiknum. Sagði að mér finndist fáránlegt að tala um að eitthvað væri að liðinu þegar það stæði á verðlaunapalli á Ólympíuleikum. En ég róaðist og leyfði mér að pæla aðeins í þessum eina leik. Leyfði meira að segja Bretanum að tala.

En ég skil ekki hvernig ættingjar og ástvinir þessara drengja halda sönsum heima í stofu eða í áhorfendastúku. Þegar þeir tóku við medalíunum sínum streymdu tárin í stríðum straumum hjá mér og hjartað ætlaði út úr brjóstinu á mér svo mikið var stoltið.

Ég veit ég er að kafna úr væmni núna en sannleikurinn er sá að ég fann hreinlega fyrir áður óþekktu þjóðarstolti og föðurlandsást hjá sjálfri mér í  morgun.

Þessi pistill var í boði hópsálarinnar Jónu Á. Gísladóttur

 


mbl.is Ísland í 2. sæti á ÓL
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fimmta skólaár Þess Einhverfa að hefjast

 

Á föstudagsmorgunn var skólasetning í Öskjuhlíðarskóla. Sú fimmta í okkar lífi. En sú fyrsta sem reyndist aðeins gleði og kátína.

Með stundaskránni góðu sem nú er notuð fyrir Þann Einhverfa, var þetta ekkert mál og hann mætti kátur  í stofuna sína. Og bara nokkuð stoltur þótti mér.

Sat rólegur við borðið og ''hlustaði'' á nýja kennarann sinn. Harry Potter komst ekkert að fyrr en eftir að kennarinn lauk máli sínu. En þá flæddi hann líka yfir allt, drakk eitur, hóstaði, sagði Ó no og féll síðan örendur í gólfið.

Á meðan Sá Einhverfi og Harry Potter runnu saman í eitt þarna í skólastofunni, kíktum við Bretinn í körfuna sem geymir liti, skæri, blýanta og annað sem Sá einhverfi notað í skólanum. Athuguðum hvort ekki væri kominn tími til að endurnýja þetta dót.

Í körfunni fundum við ótal verðlaunapeninga sem var vel við hæfi í ljósi þess sem gerðist í Peking seinna um daginn. En þessir verðlaunapeningar voru allir fyrir hlaup kvenna 50 ára og eldri. Lá sem sagt ljóst fyrir að þeir voru ekki fyrir íþróttaafrek Þess Einhverfa á neinu sviði.

Þar sem við Bretinn stóðum og flissuðum eins og ráðsettum og ábyrgum foreldrum sæmir, kom í ljós að kennarinn á þessa peninga. Einhverjum af hennar nemendum frá því í fyrra þykir afskaplega gaman að skreyta sig með öllum hennar medalíum en hvernig þær svo enduðu í körfu Þess Einhverfa mun verða ráðgáta um ókomna tíð.

Eftir skólasetninguna fóru allir út á skólalóð og þar var hægt að fá pylsur með öllu og safa að drekka. Sá Einhverfi afþakkaði veisluna en skoppaði kátur í kringum okkur á meðan við spjölluðum við foreldra og starfsfólk.

Það er áberandi hvað andrúmsloftið er alltaf létt og skemmtilegt á þessum stað. Kannski er það vegna þess að þarna eru börnin okkar á sínu yfirráðasvæði. Með sínum jafningjum.

Það er synd og skömm... nei.. það er glæpur að til standi að leggja þennan skóla niður. Ég þarf einmitt að snúa mér að því máli þegar bókarskrifum lýkur.....

 


Af fjórfætlingum

 

Einu sinni vann Viddi Vitleysingur titilinn Afrekshundur ársins. Það var fyrir hans framlag til aukinnar málnotkunar Þess Einhverfa. Þ.e.a.s. tilvera Vidda virtist auka orðaforða og samfélagshæfni drengsins.

Þessari tík mætti svo sannarlega gefa svipaða nafnbót.

Sögur af fjórfætlingum sem segja frá næmni þeirra og blíðu í garð okkar mannfólksins, ylja mér alltaf um hjartarætur. 

Og svo vona ég að blessuð stúlkan sem fæddi barn undir berum himni, og hefur án efa verið skelfingu lostin, fái þá hjálp sem hún þarf.


mbl.is Yfirgefið barn fannst öruggt í umsjá tíkur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vi er röde

 

Ég er svolítið að missa mig yfir þessum leik. Eins og allir hinir auðvitað. Því það hringir ekki síminn (ég er í vinnunni sko) og það er sama hvaða kúnna og hvers konar fyrirtæki ég tala við; allir hafa sömu sögu að segja. Síminn er dauður.

Ég veit líka að Hrói höttur var búinn að móttaka um 500 pantanir á pizzum strax í gær. Svo við hér ákváðum að fá okkur frekar Subway samlokur yfir leiknum en að treysta á að pizzastaðirnir mættu vera að því að sinna okkur í hádeginu í dag.

Og strákarnir OKKAR leika í rauðum búningum og tölfræðin hefur sýnt að okkur gengur betur í rauðu búningunum en þeim bláu.... hvað sem er svo til í því.

Vi er röde..... ÁFRAM ÍSLAND ÁFRAM ÍSLAND


Næsta síða »

Höfundur

Jóna Á. Gísladóttir
Jóna Á. Gísladóttir

 

 

 Ég er nokkuð dæmigerð íslensk útivinnandi kona. Hef lokið grunnnámi í markþjálfun og gengur betur að hjálpa öðrum við markmiðasetningu en sjálfri mér. Mér lætur líka betur að stjórna öðrum en sjálfri mér. 

 netfangið mitt er jonaagisla@gmail.com

 

 

 

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (29.3.): 0
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 9
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 9
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Bloggvinir

Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband