Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, nóvember 2007

Nauðgun = neyddur, nauðung ?

 

Ja hérna hér. Ég er svo aldeilis hlessa eins og hún amma sagði svo oft.

Maður, dæmdur fyrir að nýta sér ölvunarástand konu og brjóta á henni á kynferðislegan hátt, reis upp og mótmælti. Ekki dómnum heldur orðalagi DV í grein um málið.

Þessi stolti maður, sem ekki má vamm sitt vita, höfðaði meiðyrðamál á hendur DV á þeirri forsendu að hann hefði ekki gerst sekur um nauðgun, en sú sögn (nauðga) var margnotuð í grein DV um málið.

Ekki veit ég nákvæmlega hvað þessi maður gerði stúlkunni, en vegna þess að hann átti ekki beint samræði við hana, finnst honum greinilega að hann hafi ekki nauðgað henni.

Já, það er lengi hægt að réttlæta hlutina fyrir sjálfum sér. Er ekki orðið nauðgun komin af orðinu nauðung?

Hverju var maðurinn að reyna að ná fram með þessari málsókn? Bjarga mannorðinu? Fá uppreisn æru?

Ef þetta er ekki siðblinda, þá hef ég ekki minnsta grun um hvað það orð þýðir.

 


mbl.is Réttlætanlegt að nota orðið nauðgun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Mynd af gleði

 

Enn skora Íslendingar á erlendri grundu og það er alltaf gaman að því.

Hljómsveitin Hraun er komin í 20 hljómsveita úrslit í tónlistarkeppni sem nefnist The Next Big Thing á vegum BBC.

Ég veit ekkert um þessa hljómsveit og hef aldrei heyrt hana nefnda. En það sem heillar mig upp úr skónum er myndin við þessa frétt. Hún sýnir væntanlega hljómsveitarmeðlimi og ekki ólíklegt að hún sé tekin á því andartaki sem tilkynnt er um áframhaldandi þátttökurétt, eða eitthvað slíkt.

Það er svo mikil gleði í þessari mynd og takið eftir barninu á myndinni. Ekki hægt annað en að fyllast gleði og hlæja svolítið yfir þessu litla andliti sem lítur út fyrir að vera hundrað prósent með á nótunum.

 


mbl.is Hraun í úrslit í tónlistarkeppni BBC
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Danir drekka á ábyrgð vinnuveitenda í desember

 

Þetta er almennilegt.

Í jólamánuðinum, þegar fylleríis-samkomur á vinnustöðum eru hvað algengastar, eru Danir tryggðir fyrir óhöppum. Þá erum við að tala um í jólaglögginu, á Litlu Jólunum, Jólatrésskemmtuninni, Jólagleðinni og på Julefrokosten og Julesmörrebröd-samlingen.

Ef einhver sauðdrukkinn starfsmaðurinn brýtur á sér lappirnar eftir að hafa húrrað niður af borði í  kjölfar villtra danstakta á jólagleði fyrirtækisins er hann gulltryggður. Veikindadagar og sjúkradagpeningar og alles. Værsogod.

Og skiptir þá engu máli hvort fyrirtækið sá mönnum fyrir vínveitingunum eða hvort starfsmaðurinn fótafúni laumaði fleyg inn á staðinn í rassvasanum og drakk eigin veigar.

Þarna galopnast leið til að næla sér í gott og langt jólafrí, með báða fætur hátt upp loft.

Löngum höfum við tekið Dani okkur til fyrirmyndar á ýmsum sviðum. Látum ekki staðar numið í þeim efnum. Aukum fríðindi á vinnustöðum. Tökum upp danska drykkjusiði í desember.

Skål

 


Fegraðu þitt heimili - missið ekki af þessu stórkostlega tilboði

 

Ég tek fullan þátt í neyslubrjálæðinu. Viðurkenni það fúslega. Ég er material girl eins og Madonna orðaði það svo skemmtilega hér um árið. Held oft að ég verði hamingjusamari og lífið betra ef ég bara fæ þetta eða hitt.

En það er eitt sem ég tek ekki þátt í og það er merkjabrjálæði. Er samt alveg meðvituð um að stundum er maður að borga fyrir gæði. Stundum er merkjavara mark um gæði og endingu. Stundum ekki.

Ég kalla ekki allt ömmu mína í þessum efnum en stundum... stundum verð ég bara alveg bit.... svo bit að ég blogga um það.

Í laugardagsblaði 24 stunda er auglýsing frá Mirale á bls. 63. Og haldiði ekki barasta að neytendur hafi heppnina með sér þessa helgi. Ef þið drífið ykkur þá er enn von um að geta nýtt sér þetta stórkostlega tilboð á Ávaxtakörfunni frá Alessi (??? Who the hell is Alessi?). Opið til kl. 16 í dag, góðir hálsar.

Drífa sig. Missið ekki af þessu. Það er enginn maður með mönnum nema að hann eigi ávaxtaskál upp á mörg þúsund krónur. Og ég meina.. það er 3.000 kr afsláttur á þessum dýrgrip.

Hér er slóðin á blaðið á netinu.

 


Prestur á glapstigu

 

Hagstofa Íslands - Þjóðskrá

8. október 1998

Þjóðskrá hefur borist skírnarskýrsla frá séra Braga Skúlasyni, vegna skírnar hans á syni Jónu Ágústu Gísladóttur og Nicholas Anthony Cathcart-Jones hinn 11. september 1998. Drengurinn var skírður eiginnöfnunum Ian og Anthony.

Samkvæmt 2. mgr. 3. gr. laga um mannanöfn nr. 45/1996, er Þjóðskrá óheimilt að skrá eiginnöfnin Ian og Atnhony að svo stöddu, þar sem þau nöfn eru ekki á mannanafnaskrá.

Með vísan til þessa og samkvæmt heimild í ofangreindri lagagrein er eiginnöfnunum Ian og Anthony hér með skotið til úrskurðar mannanafnanefndar.

Tekið skal fram að sé eiginnafn ekki á mannanafnaskrá er presti hvorki heimilt að samþykkja það að svo stöddu né gefa það við skírn heldur skal nafnið borið undir mannanafnanefnd. Presturinn hefur því ekki fylgt skýru ákvæði 1. mgr. 3. gr., sbr. og 2. mgr. 10. gr. mannanafnalaga. Rétt þykir að upplýsa viðkomandi prófast um málavöxtu.

Skúli Guðmundsson, skrifstofustjóri

 

Ég man hvað ég hafði miklar áhyggjur af aumingja prestinum eftir að ég fékk þetta bréf. Hélt að hann yrði tekinn á beinið og settur í skammarkrókinn. Bréfið hljómar eins og manngarmurinn hafi gerst sekur um hræðilegan  og refsiverðan glæp.

Sá Einhverfi hét drengur í Þjóðskrá í ein þrjú ár. Þetta var fyrsta baráttan sem var háð fyrir hans hönd. Ég fékk þær upplýsingar frá Hagstofunni að ef við bara bættum við einu íslensku nafni aftan við Ian Anthony þá gengi þetta allt saman í gegn. Það var sem sagt málið. Að aumingja barnið með útlenska nafnið fengi allavega eitt gott og gilt íslenskt nafn, s.s. Karl eða Sveinbjörn eða eitthvað slíkt.

Ég þrjóskaðist við. Eina skiptið sem ég var í þann veginn að gefa eftir var þegar ég uppgötvaði að án nafns fengi hann ekki vegabréf og án vegabréfs gat ég ekki tekið barnið til útlanda. En í staðinn fyrir að gefa eftir þá eiginlega tjúllaðist ég og krullaðist upp í kuðung af þrjósku einni saman. Fékk bráðabirgðavegabréf með nafninu Drengur á. Meira andskotans ruglið.

Svo einn góðan veðurdag fékk ég bréf þess efnis að skapast hefði hefð fyrir nafninu Anthony á Íslandi og málið var dautt. Ég held þeir hafi sleppt prestinum á skilorði á svipuðum tíma.

 


Crazy Indian video

Sumt er bara hlægilegra en annað. Svo einfalt er það.

Hér kemur George Michael þeirra Indverja.

 Takið eftir getnaðarlegum munngeiflunum. Þeir eru líka vel girtir ennþá þarna fyrir austan.

 ''Listamaðurinn'' er klárlega undir vestrænum áhrifum. Örugglega brjálaður ''hittari'' á Indlandi. W00t

Það sem mig langar að vita er hvar þeir fá þessar úlpur!

 


Vangaveltur um bílaskoðun 2008 eða 2009

 

 Númerið á bílnum mínum endar á einum. Sem þýðir að það á að skoða hann í janúar. Síðasta lagi mars. Það fer sem sagt  að koma að skoðun.

En á sama tíma má segja að ég sé dauðans matur ef löggan spottar mig. Ég fór aldrei með bílinn í skoðun á þessu ári. Er búin að vera á leiðinni í 11 mánuði. Það er ég í hnotskurn. Stundum kem ég mér ekki í verkin. Hversu einföld sem þau geta virst fyrir meðal-Jóninn.

Nú velti ég því fyrir mér hvort ég fengi skoðun á bílinn til ársins 2009 ef ég færi með hann í skoðun... ja segjum á morgun. Eða hvort ég fengi bara skoðun til 2008 og þyrfti þá að mæta aftur á skoðunarstöð eftir mánuð. Í síðasta lagi eftir 3 mánuði. It wont happen ef ég þekki mig rétt.

Ég velti því líka fyrir mér hvort ég eigi að draga þetta í 2 mánuði í viðbót við þessa 11 mánuði og fara bara með bílinn í janúar 2008.

Hata samt tilhugsunina að vera x-mas shopping, koma út úr Kringlunni með fangið fullt af pokum og pinklum og búið að klippa af bílnum. Aaargghhh. Ég leggst næstum því í rúmið við tilhugsunina. Og hver á þá að kaupa jólagjafirnar fyrir fjölskylduna.

Ég veit svei mér þá ekki hvort ég á að taka sénsinn á því að vera heppin mikið lengur. Ég ætla að sofa á þessu í nótt.

 

 


Flottur texti sem felur í sér áskorun til félagsmálayfirvalda

Ég fékk þennan texta sendan í tölvupósti í dag frá Helgu hálfsystur. Þetta er dásamlegur texti og vakti mig til umhugsunar. En eftir þennan lestur situr líka leiði yfir aðbúnaði aldraðra á Íslandi. Ef öllu eldra fólki gæti liðið eins og konunni í þessari frásögn.. í sátt við sjálft sig, lífið og tilveruna. Það getur verið erfitt ef fólk á ekki til hnífs og skeiðar. Aldrað fólk hefur unnið sér inn þann rétt að lifa áhyggjulausu lífi. Þetta getur vel verið áskorun til félagsmálayfirvalda að bæta kjör aldraðra.

Ég ákvað að þýða þennan texta eftir bestu getu yfir á ástkæra ylhýra og í stað þess að senda hann áfram á 7 vini eins og mér er uppálagt ætla ég að birta hann hér til að leyfa sem flestum að njóta hans. Þetta er einstaklega mannbætandi frásögn að mínu mati og er reyndar afskaplega vel viðeigandi framhald af síðustu bloggfærslu hjá mér.

 

Jafnvel fyrir okkur sem erum ekki svo gömul ennþá, er þetta umhugsunarvert og gott lesefni:

Ung stúlka spurði mig um daginn hvernig það væri að vera gömul. Ég varð forviða því ég hugsa ekki um sjálfa mig sem gamla. Unga stúlkan varð samstundis skömmustuleg þegar hún sá viðbrögð mín, en ég útskýrði fyrir henni að mér þætti þetta áhugaverð spurning. Ég sagðist ætla að hugsa málið vandlega og gefa henni svo svar.

Eftir nokkra umhugsun ákvað ég að hár aldur er gjöf.

Núna er ég, sennilega í fyrsta skipti á ævinni, sú persóna sem ég hef alltaf viljað vera.

O-hó... ekki þó líkaminn. Ég örvænti stundum út af líkamanum mínum; hrukkunum, pokunum undir augunum og signum rassinum. Og oft verð ég forviða yfir gömlu konunni sem á heima í speglinum (og líkist móður minni).

En ég dvel ekki yfir þessum atriðum lengi. Ég myndi aldrei vilja skipta á ótrúlegu vinum mínum, yndislegu lífi mínu eða ástkærri fjölskyldu minni fyrir færri grá hár eða flatari maga.

Eftir því sem aldurinn færist yfir hef ég orðið vinsamlegri við sjálfa mig, og þar með gagnrýnt sjálfa mig minna. Hef orðið minn eigin vinur. Ég skamma ekki sjálfa mig fyrir að borða þessa auka kökusneið eða fyrir að búa ekki um rúmið mitt. Eða fyrir að kaupa þessa kjánalegu eðlu úr steypu, sem mig vantaði ekki en tekur sig svo fjandi vel út á veröndinni hjá mér.

Ég á rétt á að verðlauna sjálfa mig, leyfa mér ýmislegt, vera drusluleg, vera glæsileg.

Ég hef séð of marga kæra vini yfirgefa þennan heim of snemma; áður en þeir skildu hversu dásamlegt frelsið er sem fylgir því að eldast.  Hverjum kemur það við þó ég velji að lesa eða leika mér í tölvunni til klukkan fjögur að nóttu og sofa svo fram að hádegi næsta dag.  Eða ef mig langar til að dansa við sjálfa mig við lögin sem vermdu topp vinsældarlistanna 1960/70. Og ef mig langar um leið að væla yfir glataðri ást.. þá geri ég það.

Ég mun ganga eftir strönd í baðfötum sem eru strekkt yfir misvel staðsett aukakílóin og ég mun stinga mér í öldurnar af vítaverðu kæruleysi ef mig langar, þrátt fyrir samúðarfullt augnaráð þotuliðsins. Þau munu líka verða gömul.

Ég veit að ég er stundum gleymin. En þegar öllu er á botninn hvolft er sumt í lífinu betur gleymt en geymt. Og öllu jafna man ég það sem skiptir máli.


Auðvitað hefur hjarta mitt brostið nokkrum sinnum í gegnum árin. Hvernig er hægt að komast hjá því þegar þú missir einhvern sem þú elskar, barn þjáist eða jafnvel þegar gæludýrið þitt til margra ára verður fyrir bíl og endar lífið?

Brostin hjörtu eru það sem gefur okkur styrk, skilning og samkennd með öðrum. Hjarta sem aldrei hefur brostið er ósnert og dauðhreinsað og mun aldrei kynnast gleðinni í því að vera ófullkominn.

Ég hef verið blessuð til að lifa nógu lengi að sjá hár mitt verða grátt og æskuhlátur minn geymdan að eilífu í djúpu línunum í andliti mínu. Svo margir hafa aldrei hlegið... svo margir hafa dáið áður en hár þeirra fékk silfugráan tón.

Eftir því sem þú eldist, því auðveldara er að vera jákvæður. Þér stendur meira á sama hvað aðrir hugsa. Ég efast ekki um sjálfa mig lengur. Ég hef unnið mér inn réttinn til að hafa rangt fyrir mér.

Svo að hér kemur svarið við spurningunni:

Mér líkar vel að vera gömul. Það hefur frelsað mig. Mér líkar vel við þá manneskju sem ég hef orðið. Ég mun ekki lifa að eilífu, en á meðan ég er hér enn, mun ég ekki eyða tíma í að syrgja hvað hefði getað orðið eða hafa áhyggjur af hvað verður. Og ég ætla að borða ábæti og eftirrétti alla daga ef mig langar til.  

 


Hverju á að trúa?

Ég er ein af þessum jó-jó manneskjum. Hef alltaf verið. Rokkað upp og niður í vigt. Allt farið eftir veðri og vindum, skapsveiflum, meðgöngum, stöðu ástarlífsins o.sfrv.

Hef tekið tarnir og drukkið í mig allt sem skrifað er um heilsu, líkamsrækt, mataræði og svo mætti endalaust telja.

Ég veit að margir þekkja sig í þessari lýsingu. Kannski sérstaklega kvenfólk. Við erum manískar á eigið útlit og líkama. Finnum okkur alltaf eitthvað til foráttu. Ef það er ekki til staðar þá búum við það til.

Ég hélt aldrei að ég myndi þroskast og finnast ég verða sátt við sjálfa mig.  Þessi tilfinning sem mér skilst að þroskaðar konur finni oft fyrir. Séu búnar að finna sjálfar sig og séu sáttar eins og þær eru. Andlega og útlitslega.

En mér finnst ég finna þennan þroska læðast upp að mér. Í litlum skömmtum. Smáum skrefum. Hann lýsir sér í því að ég sætti mig við minna. Þá á ég við að mér finnst ég ekki þurfa að vera fullkomin. Hvorki í útliti né að öðru leyti. En ég hef lofað mér því að þegar fertugsafmælið mitt (september 2008) rennur upp ætla ég að:

  • Að vera í því besta líkamlega formi sem ég hef nokkru sinni verið (og trúið mér, það er alls ekki óraunhæft þar sem ég hef aldrei stundað íþróttir og reykti frá 15 ára aldri þar til í febrúar á þessu ári)
  • vera í kjörþyngd (kemur að sjálfu sér ef ég hreyfi mig og borða minna en ég brenni)
  • líta frísklega út (kemur að sjálfu sér ef ofagreind atriði eru uppfyllt)
  • vera heilbrigð (ekki undir mér komið að öllu leyti, en góðar líkur ef öll ofangreind atriði eru uppfyllt) 

Og út af því að ég er orðin þroskuð kona og búin að slá af kröfunni um fullkomleikann, þá er ég að leita að lífsstíl. Ekki átaki í 8 vikur eða 12. Heldur lífsstíl sem ég fylgi það sem eftir er ævinnar.

Og þá kem ég að kjarna málsins. Við teljum okkur öll vita hvernig hinn rétti lífsstíll á að vera. Hvað sé hollt. Hvað sé nægjanleg eða nauðsynleg hreyfing til að halda sér í formi. En ef grannt er skoðað þá eru skilaboðin þarna úti svo mismunandi að það getur gert hvern meðalgreindan mann brjálaðan.

Frá hinum og þessum líkamsræktastöðvum, einkaþjálfurum, læknum, misvel upplýstum blaðamönnum sem skrifa um málefnið, næringafræðingum og alls konar besservisserum streyma upplýsingar og leiðbeiningar. Og ekki hafa allir sömu sögu að segja.

Ég ætla að nefna hér dæmi:

Líkaminn byrjar ekki að brenna umframorku fyrr en stanslaus hreyfing hefur átt sér stað í 20-30 mínútur.

Með öðrum orðum: ef þú ætlar að hreyfa þig, dont bother ef þú sérð aðeins fram á 15 mínútna hreyfingu því það hefur ekkert upp á sig.

Hvað þá með alla predikunina um að ganga út í búð í stað þess að keyra þangað? Eða fara úr strætó einni stoppustöð fyrr  og ganga rest? Eða ganga upp stigana í stað þess að taka lyftu.

Ekkert af þessu gefur okkur 20-30 mínútna hreyfingu. Jú ef við ætlum í Kaupfélagið á Króknum, eða förum úr strætó áður en við stígum upp í hann, eða ef við höfum stigana í Eiffelturninum í huga.

Nauðsynlegt er að hreyfa sig minnst 3 sinnum í viku í lágmark 3o mínútur í senn.

Með öðrum orðum; ef þú sérð ekki fram á að komast frá heimilinu oftar en 2x í viku til að stunda einhvers konar líkamsrækt, slepptu því þá bara. Það tekur því ekki.

Hvað þýðir þetta? Þýðir þetta að þú ert í jafngóðum/slæmum málum, hvort sem þú hangir í sófanum heima hjá þér 7 daga vikunnar eða 5 daga vikunnar. I dont think so.

Ég veit um nýlegt dæmi þess að læknir sagði við mann sem er um 8 kg of þungur en  í fullkomlega góðu líkamlegu ástandi: það er ekki nóg að fara í göngutúra!!!

Ekki nóg til hvers!! Að ná af sér þessum 8 kílóum? Eða til að halda heilsu?

Það fauk í mig hreinlega. Hvað ef þessi maður hefur ekki tök á, eða engan áhuga á að fara inn á líkamsræktarstöð? Er þá betur heima setið en farið í röskan göngutúr 3x í viku?

Mér finnst hreinlega ábyrgðaratriði hvað fólk í þessum geira lætur út úr sér.

Hvað með allt fólkið þarna úti sem hefur ekki hreyft sig í 30 ár, en vill taka sig á? Svona skilaboð frá lækni eða líkamsræktarfrömuði fær suma til að missa kjarkinn. Fallast hendur. Verkefnið vex þeim í augum og verður of stórt.

Er eitthvað betra en að byrja á göngutúrum á þeim hraða sem fólk ræður við og feta sig smám saman upp í röskan gönguhraða sem aftur skilar auknu blóðrennsli og reynir mátulega mikið á hjarta og lungu?

Mín trú er sú að öll hreyfing er af hinu góða. Ef ég hreyfði mig 20 mínútur í dag, þá voru þær 20 mínútur svo sannarlega þess virði. Betri en 10 mínútur. Og ef ég hreyfði mig í 10 mínútur í dag þá voru þær betri en 2 mínútur. Slagsmál við Þann Einhverfa í fimm mínútur geta svo sannarlega skilað mér stærri upphandlegssvöðvum.

Það sem ég er að reyna að segja er: látum ekki segja okkur að til þess að hreyfing skili okkur einhverju þurfum við að fara eftir einhverjum stöðlum og uppskriftum. Nýtum þann tíma sem við höfum, þegar við höfum orku og löngun og munum að 10 mínútur hér og 15 mínútur þar gera sitt gagn. Ætlum okkur ekki of mikið og verum ánægð með það sem við afrekum.

Þetta var pistill í boði Jónu besservisser.


Ég fitna ekki í dag - það er alveg ljóst

Síminn hringdi í gærkvöldi.  Það var Fríða brussubína, stuðningsmamma með meiru.

Ég ætla bara að segja þér hvað sonur þinn er æðislegur og ég elska hann út af lífinu.

Mér hitnaði um hjartaræturnar. Nú? Sagði ég þó ég væri henni hjartanlega sammála. Hvað var hann að gera?

Æi, ekki neitt. Hann er bara svo mikið yndi.

Svo sagði hún mér að hann hefði orðið eitthvað fúll út í sig og verið með tárin í augunum en þau sættust og þá fékk hún faðmlag og knús.

Það er nefnilega það sem Sá Einhverfi gerir þegar hann verður vondur út í mann. Hann fær samviskubit og móral eftirá og þarf þá mikið á faðmlagi að halda. Þessi faðmlög gefa manni svoooo mikið því samkvæmt handbók einhverfra um hvernig eigi að hegða sér þá brýtur hann held ég reglu nr. 7, grein 4, með svona eðlilegri hegðun.

Sá Einhverfi var sem sagt hjá stuðningsfjölskyldunni sinni í nótt og Gelgjan var hjá Viðhenginu þar til seint í gærkvöldi. Við Bretinn ætluðu því að hafa það huggulegt en það skemmdi fyrir að mér leið eitthvað undarlega. Var óglatt og drusluleg (ég kalla það að vera tussuleg en ég kann ekki við að nota það orð hér).

Ég dröslaði því bala inn í herbergi þegar ég fór að sofa. Alveg handviss um að ég myndi vakna í nótt og kasta upp. Það gerðist ekki en deginum í dag hef ég eytt að mestu upp í rúmi því hver hreyfing vekur hjá mér ógleði. NEI ÉG ER EKKI ÓLÉTT.

Samt er dagurinn búinn að vera góður þó undarlegt sé.

Ég svaf að sjálfsögðu út. Sá Einhverfi ekki heima og þá notar maður tækifærið og sefur út. Á þessum tímapunkti vissi ég ekki ennþá hversu illa mér leið. Enda steinsofandi.

Um hádegisbilið hringdi Lísa bloggvinkona. Hún ætlaði að koma og fá lánað hjá mér eitthvað smádót sem hana vantaði fyrir þemakvöld hjá Senu. Ég tók verkjatöflu og tvíelfdist. Við sátum heillengi yfir kaffibolla og spjölluðum.

Eftir það skreið ég upp í rúm og sofnaði. Vaknaði við að Fríða og co voru komin með Þann Einhverfa sem lék á alls oddi. Ég rétt hékk á fótum þangað til þau fóru og svo var það bara rúmið aftur.

En ég hef fengið heimsóknir upp í rúm til mín í dag, eins og sönnum sjúklingi sæmir. Unglingurinn lá hér um stund við hliðina á mér og fletti Séð & Heyrt. Kettir og hundur hafa veitt mér félagsskap inn á milli. Gelgja með tíkarspena liggur nú við hliðina á mér og les það sem ég skrifa. Sá Einhverfi hefur nokkrum sinnum kastað sér yfir mig með allan sinn þunga og æpt; hjálp hjálp, hjálpiði mér. Það var nú meira ég sem þurfti á hjálp að halda.

Bretinn hefur komið reglulega og spurt hvort hann eigi að færa mér eitthvað. Breiddi yfir mig aukasæng í dag þegar mér var kalt, þrátt fyrir dúnsæng, heitan ofn og lokaðan glugga.

Á milli svefns og vöku í dag og í kvöld hef ég hlustað á vindinn gnauða fyrir utan gluggann og fjölskyldumeðlimi, jafnt fjórfætta og þá sem ganga um á tveimur fótum, athafna sig í húsinu. Og mitt í ógleðisköstum og beinverkjum hef ég flissað aðeins ofan í koddann. Verið glöð og fundið fyrir þakklæti.

Ég hlustaði á Bretann berjast við að fá Þann Einhverfa til að hætta í tölvunni og fara að bursta tennurnar. Á endanum kippti Bretinn tölvunni úr sambandi. Að heyra orminn minn, sem eitt sinn var mállaus góla á pabba sinn; Pabbi, hvað ertu að gera?!! er ekkert nema yndislega tilfinning. Og inni á baði við tannburstun; Pabbi, farðu fram.

Ekki aðeins hefur hann aukið við orðaforðann heldur eykst tilfinningin í röddinni. Orðin koma ekki vélrænt upp úr honum lengur.

Hvernig get ég annað en verið þakklát fyrir svona dag? Ekki aðeins fékk ég  að fylgjast með fjölskyldunni úr fjarlægð og uppgötva hana á nýjan hátt, heldur lifði ég matarlausan dag sem þýðir hvað...? Að minnsta kosti eitt kg niður á vigtinni.


Næsta síða »

Höfundur

Jóna Á. Gísladóttir
Jóna Á. Gísladóttir

 

 

 Ég er nokkuð dæmigerð íslensk útivinnandi kona. Hef lokið grunnnámi í markþjálfun og gengur betur að hjálpa öðrum við markmiðasetningu en sjálfri mér. Mér lætur líka betur að stjórna öðrum en sjálfri mér. 

 netfangið mitt er jonaagisla@gmail.com

 

 

 

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (28.3.): 2
  • Sl. sólarhring: 2
  • Sl. viku: 11
  • Frá upphafi: 1639864

Annað

  • Innlit í dag: 2
  • Innlit sl. viku: 11
  • Gestir í dag: 2
  • IP-tölur í dag: 2

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Bloggvinir

Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband