Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, apríl 2008

Að borga eða ekki borga

 

Ég hallast að því að keypt kynlíf sé allt önnur upplifun fyrir karlmenn en kynlíf sem kemur öðruvísi til.

Maður myndi halda að Ronaldo væri ekki tilneyddur til að taka upp veskið. Maðurinn er frægur og bara það kemur sér oft vel þegar menn eru á veiðum. Svo er hann að margra mati hinn ásjálegasti. Þetta hlýtur því að vera eftirsóknarverð aðferð við kynlífsiðkun. Að borga meina ég.

En svo getur líka verið að erfitt sé að finna 3 konur í einu sem eru tilkippilegar í svona fjöldasamkomu. Án greiðslu á ég við.

Æi greyið. Kannski var hann bara einmana. Þeir segja að það sé ekki tekið út með sældinni að vera frægur og ríkur.

O jæja. Það er sama hvað ég reyni. Ég mun aldrei geta rætt þetta á vitrænum nótum. Enda ekki karlmaður. 

 


mbl.is Ronaldo í útistöðum við klæðskiptinga
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Á morgun segir sá lati

 

Það er frábært að finna sig í því að eiga allt að því samræður við Þann Einhverfa. Athugasemdum frá okkur foreldrunum, sem áður kölluðu samstundis á grát og uppnám, er nú tekið af rósemi. Sá Einhverfi er meira að segja farinn að semja. Koma með málamiðlanir.

Ég: Ian, viltu fara úr stuttbuxunum. Ég ætla að setja í þvottavél.

Sá Einhverfi: Nei ekki fottavél

Ég: jú stuttbuxurnar eru skítugar. Leyfðu mér að setja þær í þvottavélina.

Sá Einhverfi (vonglaður á svip): Fottavél á morgun

Ég: Ok á morgun þvoum við stuttbuxurnar

Sá Einhverfi (sigrihrósandi og með áherslu): JÁ

 

Reyndar er þetta uppáhaldsmálamiðlunin hans; Á morgun. Allt á að gerast á morgun. Hann ætlar að bursta tennurnar á morgun. Þvo hendurnar á morgun. Fara í bað á morgun, slökkva á frönsku Toy story á morgun og hann ætlar jafnvel ekki að sofa fyrr en á morgun.

Stundum er það ''seinna'' en helst er það ''á morgun''.

Amma sagði alltaf: á morgun segir sá lati en ég kann betur við útgáfuna frá mömmu hennar Laufeyjar samstarfskonu minnar: Aldrei að gera í dag það sem þú getur gert á morgun.

Þetta er lífsmottóið mitt.

 


Komin heim

 

Ég er komin heim. Eftir langa og stranga daga á sjávarútvegssýningu í Brussel. En skemmtilegir voru þessir fjórir dagar.  Það er að segja kvöldin. Hvernig getur annað en verið skemmtilegt að sitja undir berum himni á hverju einasta kvöldi í skemmtilegum félagsskap, borða góðan mat (oftast), drekka (ótæpilega) mikið af rauðvíni og hlæja þar til manni verkjar í magann?

Það er reyndar ekki rétt að það hafi bara verið skemmtilegt á kvöldin.  Það myndast smávegis kunningsskapur á milli sýnenda svo rölt var á milli sýningarbása og spjallað. Ég hef eytt töluverðum tíma með frönskumælandi fólki og er orðin mjög frönsk. Eða þannig. Er alveg að ná handahreyfingunum. Talið kemur einhvern tíma seinna. Kannski.....  Bonsjour...

Ég hef ekki haft tíma til að blogga eða yfirfara tölvupóst: Vaknað um klukkan átta á morgnana. Sýningin opnar kl. 10 og er opin til 18. Þá upp á hótel í sturtu og yfirhalningu (sem tók sífellt lengri tíma eftir því sem leið á vikuna), og svo út í matarborð, að hitta kúnna o.sfrv. Auðvitað hangir fólk mislengi uppi á kvöldin en þetta hefst allt einhvern veginn.

Svo kostar það heila helvítis formúgu að tengjast interneti á hótelum. Barasta gat ekki réttlætt þann kostnað.

Þessi sjávarútvegssýning er árlegur viðburður . All about buisness. Á sýningartíma á daginn, en ekki síður á kvöldin. Á kvöldin safnast sýningargestir saman á Grand Place torgi í Brussel og maður gæti alveg eins verið staddur á Lækjartorgi á íslensku sumarkvöldi. Torgið er gjörsamlega mökkað af Íslendingum og halda þeir sig aðallega við einn pöbb. Á næsta pöbb eru Norðmenn. Þetta er auðvitað bara fyndið. Svolítið súrrealískt. Sjávarútvegsráðherra mætti eitt kvöldið og hélt uppi fjöldasöng. Stóð sig vel.

Brussels Town Hall (þessi stórfenglega bygging gnæfir yfir torgið)

townhall

Og haldið ykkur núna: Ég fór ekki í eina einustu búð. Núll, nix, zero, nét... Kom samt heim færandi hendi. Hljóp um á Heathrow og bjargaði andlitinu. Bretinn fékk sælgæti í tonnavís og krakkarnir DVD myndir.

Núna liggur Sá Einhverfi eins og skata fyrir framan sjónvarpið og horfir á sína mynd. Sem auðvitað er Toy Story. En eitthvað hefur hann smitast af mömmslunni sinni því hann þverneitar að velja annað tal á hana en frönsku.

GLEÐILEGT SUMAR BÖRNIN GÓÐ. Megi þetta sumar verða eins magnað veðurfarslega séð, og það síðasta.

 

 


Frá Kóngsins Köben

Þessi orð eru rituð úr brakandi hreinum og vellyktandi sængurfötum frá Hilton á Kastrup í Kóngsins Köben. Er á leiðinni á Sjávarútvegssýningu í Brussel.

Að gera hvað? gætu sumir spurt og ég reyndar líka. Takmarkið er að vera Icelandair Cargo til sóma. Sennilega fer ég létt með það þó að eitthvað vanti upp á að ég geti ráðlagt fiskframleiðendum hvert sé best að senda ferska fiskinn frá Íslandi.

Við erum þrjú á þessu ferðalagi, og ég er 3ja persóna vegna þess að Mikki, þessi elska, vill ekki yfirgefa hana Evu sína sem á von á þeirra þriðja barni. Er ekki dásamlegt hvað tímarnir hafa breyst? Ekki eru mörg ár síðan að karlmaður hefði ekki setið heima vegna barna og konu. Ég fylli því í skarðið og mun standa á bás Icelandair Cargo næstu 3 daga og brosa og vera sæt og skemmtileg eins og mér er einni lagið.

Hádegisfluginu í gær (sunnudag) til Köben seinkaði og því misstum við af tengifluginu til Brussel. Nóttinni er því eytt hér á Hilton á Kastrup og ég tek ofan fyrir sjálfri mér að hafa afrekað að tengjast internetinu. Hef reyndar ekki hugmynd um hvað ég þarf síðan að borga fyrir það.

Ég mun gera tilraun til að tengjast netinu á Hilton í Brussel og láta í mér heyra. Sjáum til hvort það tekst og hvort tími vinnist til. Kannski fer öll mín orka í vinnuna. Sjáum til.

 

 


Símtal frá fortíðinni

 

Í gærkvöldi fékk ég símtal frá fortíðinni.

Eldri maður með hlýja og örlítið hrjúfa rödd tjáði mér að ég væri honum ofarlega í huga þessa dagana. Og hann sagði mér sögu.

Hún bankaði upp á í Litla húsinu. Amman. Hún átti mikilvægt erindi við fjölskylduna sem þar bjó. Vildi biðja þau að taka ókunnugu barni opnum örmum. Vera góð við það. Barnabarnið hennar.

Fjölskyldan í Litla húsinu var kannski örlítið undrandi á bóninni, en tóku henni vel. Skildu að amman hefði áhyggjur af því að litla sonardóttir hennar yrði einmana hjá gömlu hjónunum. Ömmu og afa. Það var ómögulegt að segja hvernig henni tækist að afla sér vina á nýjum stað. Enda bara fimm ára gömul og systkini hennar  og foreldrar víðsfjarri.

Stúlkan vandi komur sínar í Litla húsið. Hún var ósköp smá og umkomulaus þessi telpuhnoðri. Kannski líka örlítið feimin. Fylgdist í fyrstu með mannmörgu fjölskyldunni í Litla húsinu úr hæfilegri fjarlægð. Þau vildu vera góð við hana en hún hleypti engum að sér. Ekki enn.

Í Litla húsinu bjuggu mamma og pabbi ásamt 3 börnum. Tveimur telpum og einum dreng. Seinna bættist í barnahópinn. Fljótlega vingaðist litla stúlkan við börnin í Litla húsinu og varð æ tíðari gestur á heimili þeirra. Ekki var verra að garðar þeirra lágu saman og fljótlegt var að hlaupa á milli húsa. Smokra sér í gegnum gat á grindverkinu.

Þegar frá liðu stundir, viðraði litla stúlkan þá ósk við ömmu sína að fá að flytja í Litla húsið. Svo vel undi hún hag sínum þar innan um öll börnin.  Hún saknaði systkina sinna. Börnin í Litla húsinu bættu þann missi upp á vissan hátt.

Barnsleg bón hennar bæði gladdi ömmu og hryggði. Hún sagði litlu stúlkunni að heimsóknirnar yrðu að nægja. Og amma bakaði eina af sínum víðfrægðu súkkulaðitertum og sonardóttirin bauð öllum börnunum í Litla húsinu heim í drekkutíma.

Litla húsið og íbúar þess eiga stóran sess í hjarta litlu stúlkunnar sem er löngu vaxin úr grasi. Ekki aðeins urðu þau við bón gamallar konu, heldur fylgdi umhyggja þeirra og alúð með í kaupunum. Og óendanleg þolinmæði með lítilli stúlku sem gekk inn og út á heimili þeirra eins og ætti hún þar heima.

Litla húsið, sem ekki lét mikið yfir sér bar nafn með rentu vegna þeirra sem þar bjuggu: Fagrabrekka.

Takk Pétur Heart


Valdís, þið, Hemmi Gunn og ég

 

Takk kærlega fyrir allar kveðjurnar eftir þáttinn hennar Valdísar. Mér þykir voðalega vænt um þær. Og þær hafa borist margar. Hér í kommentakerfinu, á sms, með símtölum og í tölvupósti. Þið klikkið aldrei á smáatriðunum.

Ég vaknaði í gærmorgun, óvenju spræk miðað við b-manneskjuna mig. Fiðrildin sem ég vissi að myndu láta á sér bæra í maganum á mér, vegna yfirvofandi viðtals, létu enn ekki á sér kræla. Ég leit út um gluggann á sveitabýlinu mínu og velti því fyrir mér upphátt hvort einhver væri að fokka í mér. Þrátt fyrir að hafa heyrt í Þeim Einhverfa á neðri hæðinni með sín venjulegu viðbrögð við snjó: Neeii... nei ma'ur.

Við blasti alhvít jörð, greinararnar á trjánum svignuðu af þunganum og ekkert lát var á ofankomunni. Stórar hvítar snjóflygsur svifu úr loftinu, Betlehemstjarnan blikaði á lofti og herskari engla á túninu... ekki alveg kannski, en jólalegt var það.

Af reynslu veit ég að það hentar mér ekki að koma á fljúgandi fart inn í stúdíó og setjast við hljóðnemann í andnauð. Ég fæ ennþá martraðir um þær aðstæður, frá því að ég vann við lestur auglýsinga og þurfti stundum að lesa í beinni. Því ákvað ég að vera sérstaklega tímanlega í því, og komst að því að það er hægt. Jafnvel þó að ég hafi talið mér trú um að það væri genatískt að vera sífellt of sein á alla staði.

Ég kom við í Mosfellsbakaríi á Háaleitisbraut á leiðinni og lét Helen gera kaffi handa okkur Valdísi, í þeirri dásamlegu kaffivél sem þar er að finna. Valdís tók vel á móti mér og knúsaði mig. Ég fann að ég var afskaplega velkomin, jafnvel þó að Ívar tæknimaður hafi látið mig standa úti í snjókomunni í 5 mínútur áður en hann opnaði húsið fyrir mér. En ég hafði þó kaffibollana til að hlýja mér við.

Ég var sest inn í stúdíó ca hálftíma áður en ég fengi að tjá mig og fylgdist með Valdísi afslappaðri og öruggri fyrir framan míkrafóninn. Fiðrildin voru mætt og dönsuðu villtan darraðadans í kviðarholinu á mér. En ég vissi að þau yrðu róleg um leið og ég léti fyrstu orðin út úr mér. Og það gekk eftir. Enda varla annað hægt en að vera afslappaður í kringum Valdísi.

Við vorum varla byrjaðar þegar tölvupóstarnir byrjuðu að streyma inn til hennar. Er ekki skemmtilegt þegar fólk lætur í sér heyra þegar það er ánægt?

Viðtalið gekk bara ágætlega og tíminn leið ótrúlega fljótt. Í hléum spjölluðum við saman og ég bauðst til að syngja fyrir Ívar tæknitröll. Mér fannst hann hafa takmarkaðan áhuga svo ég lét ekki verða af því. Ekki í þetta sinn.

Til marks um hversu pro hún Valdís er, þá fylgdist ég furðu lostin með því að þrátt fyrir að tárin lækju niður kinnarnar á henni, var ekki hægt að heyra það á talandanum hennar. Geri aðrir betur. Þetta er stelpa með stórt hjarta sem lætur sig varða um menn og málefni.

Þetta var ótrúlega skemmtileg lífsreynsla og ég komst að því að það er ekkert mál að blaðra um sjálfan sig í einn og hálfan tíma. Jafnvel þó að maður haldi að maður hafi ekkert að segja.

Ég var svo heppin að rekast á Hemma Gunn þegar ég kom út úr stúdíóinu og eyddi bráðskemmtilegum hálftíma í spjall með þeim mæta manni. Fannst ég auðvitað þekkja hann afskaplega vel, þó ég hefði aldrei séð nema rétt í mýflugumynd á göngum Íslenska útvarpsfélagsins á meðan það var og hét.

Þegar ég kvaddi Valdísi sagði hún að ég myndi finna til mikillar þreytu þegar ég kæmi heim. Það tekur svo á að afhjúpa sig svona, sagði hún við mig. Og ég beið eftir að þreytan helltist yfir mig en ég fann eiginlega bara til eirðarleysis. Þar til skyndilega seinnipartinn að mér leið hreinlega eins og ég hefði verið að moka skurð allan daginn. Svolítið spes. Sannast enn og aftur hvað andlega hliðin er tengd hinni líkamlegu.  

Helvíti góður sunnudagur myndi ég segja.

 

 


Ég á stefnumót við Valdísi í fyrramálið

 

Ég átti skemmtilega stund með Valdísi Gunnarsdóttur, dagskrárgerðarmanni, í gær. Mikið afskaplega er gott að tala við þá konu. Ég er viss um að þegar hún fær leið á útvarpinu, snýr hún sér að sálfræðihjálp.

Um leið og ég settist á móti henni var eins og við hefðum þekkst frá örófi alda og bla bla bla... Hún fór létt með að rekja úr mér garnirnar og það er aldrei að vita hversu mikið af minni kolsvörtu fortíð verður afhjúpuð í þættinum hennar í fyrramálið NinjaW00t.

Nú er bara að vakna í fyrramálið, fá sér góðan kaffibolla og stilla á Bylgjuna klukkan 9.


Helvítis óstjórn á þessu landi

 

Ég hringdi í Berlínar-Brynju vinkonu mína í gærkvöldi. Það er skrítið hvað ég get endalaust blekkt sjálfa mig á sumum sviðum. Til dæmis varðandi símtöl við Berlínarbúann.

Jæja, hugsa ég stundum. Nú ætla ég að hringja eitt tíu mínútna símtal til Brynju. Ég skal, ég skal, ég skal hafa þetta stutt.

En án undantekninga vara símtöl okkar á milli í lágmark klukkustund. Enga manneskju get ég blaðrað eins lengi og ákaft við, og farið út um eins víðan völl í efnistökum. Það er allt tekið fyrir sem nöfnum tjáir að nefna. Heimurinn krufinn niður í litlar einingar. Eftir þessi samtöl er ég mest hissa á að enginn hafi uppgötvað okkur. Kosið okkur á þing.

Ég komst að því í gærkvöldi, á meðan ég lét móðann mása að ég er svekkt og pirruð yfir því hvernig þetta land er rekið. Hvernig því er stjórnað. Ef stjórn skyldi kalla. Miklu frekar óstjórn. Mér finnst ríkja hér stjórnleysi. Og sérstaklega finnst mér vera þörf á að kynna orðið ''forgangsröðun'' fyrir ráðamönnum þjóðarinnar.

Á meðan fleiri tugum milljóna er gjörsamlega mokað í varðveislu á steinsteypu, er horft í klinkið þegar kemur að þjónustu við börnin okkar. Sko fötluðu börnin okkar. Mér er orðið vel ljóst að þau eru talin 5. flokks þjóðfélagsþegnar og það er langur vegur frá því að þau hafi sömu réttindi og önnur börn. Og allt strandar þetta á peningum.

Nýlegt dæmi er hártoganir út af, að mér skilst, 20 milljónum sem vantaði upp á til að hægt væri að reka frístundaklúbba ÍTR næsta sumar fyrir eldri krakkana. Það átti bara að líðast að klúbbarnir myndu leggjast niður og hvað...? Hvað eiga krakkarnir að hafast við? Og hvað eiga foreldrarnir að gera? Taka sér frí frá vinnu yfir allt sumarið?

En nú skilst mér að búið sé að draga þetta til baka. Þetta hafi allt verið misskilningur og 20 milljónirnar verði veittar. Misskilningur my arse... Þeir reyndu án þess að skammast sín, en hafa svo sennilega séð að þeir kæmust ekki upp með þetta.

Endilega leiðréttið mig ef ég fer með rangt mál. Þar sem Sá Einhverfi flokkast ekki enn undir þennan aldurshóp er málið mér ekki nógu skylt til að ég hafi farið ofan í kjölinn á því.

Svo er það þetta sumarbúðamál, sem ég hef minnst á áður. Sumarbúðir fyrir fötluð börn eru auðvitað mikið dýrari í rekstri en aðrar sumarbúðir, þar sem þarf mikið fleiri starfsmenn. Og vissulega styrkir ríkið þennan rekstur. En samt ekki betur en svo að foreldrafélagið þarf að fara í peningaleit á hverju ári, til að láta enda mætast. Við erum kannski að tala um 5 milljónir. Sem er vissulega ágætis upphæð og erfitt að afla með bréfaskrifum til hinna og þessara fyrirtækja. En ef það þarf 5 milljónir til að hægt sé að láta reksturinn ganga, þá er það mín skoðun að ríkið eigi að klára málið. Mér finnst það vera skylda ríkisins að sjá til þess að fötluðu börnin fái að njóta þess sama og þau heilbrigðu.

Í gærkvöldi villtist ég inn á stjórnarfund hjá Umsjónarfélagi Einhverfra. Hélt mig vera að mæta á aðalfund hjá félaginu, en hann er víst ekki fyrr en næsta miðvikudag. En ég átti góða stund með stjórninni og var minnt rækilega á það að það er fólk ''á bak við tjöldin'' sem er að berjast fyrir velferð sonar míns. Ég hálfskammast mín fyrir að vera ekki virkur þátttakandi í þessari baráttu, svo það er aldrei að vita nema að ég taki mig á í þeim efnum.

Á þessum fundi komst ég meðal annars að því að ég get ekki sjúkdómatryggt barnið mitt. Vegna þess að það er einhverft. How strange is that!

Jæja ég er hætt að röfla... í bili

-------

Þegar Sá Einhverfi kom heim úr skólanum í gær, valhoppaði hann eina bunu frá forstofu og inn í stofu, eins og hans er von og vísa. Svo stillti hann sér upp í borðstofunni, klæddi sig úr úlpunni og lét hana detta á gólfið.

Ian, hengdu úlpuna á snagann

Hann brást hinn versti við; Neeii ekki snagann, sagði hann, hálfillur.

Jú, jú, sagði ég ákveðin. Hengdu upp úlpuna

Mamma bílinn, sagði hann vongóður.

 

Þetta er greinilega það sem koma skal. Mér verður bara hent út ef ég reyni að standa mig í uppeldishlutverkinu.

 


Hvernig Tæfan upplifði Villa Vill tónleikana

 

Ég get ekki sleppt því að segja ykkur frá  minningartónleikum Vilhjálms Vilhjálmssonar sem Bretinn og ég fórum á síðastliðinn föstudag í Salnum í Kópavogi.

Pálmi Gunnars, Guðrún Gunnars, Stebbi Hilmars og Friðrik Ómar fóru á kostum. Því get ég lofað ykkur. Sem og hljóðfæraleikarar, bakraddir og 4ra mann strengjasveit sem birtist á sviðinu eftir hlé.

Við sátum ansi framarlega, á þriðja bekk. Ég veit ekki hvort nálægðin við listamennina átti þátt í þeim sterku áhrifum sem ég upplifði þarna. Á milli laga spjölluðu söngvararnir um Villa, þeirra tengingu við hann og lögin hans. Og þetta var gert á afar lifandi og afslappaðan hátt.

Ég veit að fólk sem stendur á sviði með ljósin í andlitið sér ekki sér ekki mikið fram í salinn. En það breytti engu fyrir Pálma Gunnarsson. Sterkt augnaráðið og brosið sem lýsir upp andlitið gerir það að verkum að þér finnst það allt ætlað akkúrat þér. Og Pálmi er söngvari í sérflokki. Enginn er eins og hann. Enginn kemst nálægt því að hljóma eins og hann.

Varðandi Stebba Hilmars... ég veit ekki hvernig ég á að koma þessu frá mér án þess að það misskiljist.. Ég fíla Sálina. Hef alltaf gert. Finnst Stebbi skemmtilegur söngvari. En það var ekki fyrr en á föstudaginn sem ég uppgötvaði hversu góður söngvari hann er. Þvílíkt vald á röddinni sem þessi drengur hefur. Og tilfinningin sem hann leggur í þetta.

Guðrún Gunnars er ein af okkar bestu söngkonum. Á því er enginn vafi. Svo er hún svo skemmtileg. Kom öllum til að hlæja hvað eftir annað með líflegri framkomu sinni. Var eins og ferskur andblær þarna á sviðinu.

Ég átti erfitt með að sleppa því að mæna á andlitið á Friðriki Ómari á meðan hann söng. Að þessi rödd komi upp úr þessum smágerða dreng en eiginlega meira en ég næ utan um. Ég er einlægur aðdáandi hans eftir þetta kvöld.

Ég gleymdi að taka með mér snýtubréf og það slapp. En stundum þurfti ég að sjúga óþarflega hátt upp í nefið. Bretinn gaf mér auga í hæstu hviðunum.

Mér á hægri hönd sátu 3 konur og þær voru yndislegar. Þetta geta hafa verið mæðgur. Sú elsta sennilega eitthvað um sjötugt. Þær lifðu sig svo inn í sýninguna og töluðu upphátt við þann sem stóð á sviðinu og var að kynna næsta lag, eða tala um Vilhjálm.

Já, sögðu þær stundarhátt og kinkuðu kolli til samþykkis. Eins og þær hefðu verið viðstaddar hvern einasta atburð sem talað var um og ættu pínulítið í hverju einasta lagi sem var kynnt.

Á fremsta bekk sat fólk sem virkilega naut kvöldsins og þorði að sleppa fram af sér beislinu. Söng með, teygði hendur til lofts og dillaði sér í takt við tónlistina. Undurfagur hópur, sennilega af sambýli fyrir fatlaða.

Þegar tónleikunum lauk ætlaði þakið að rifna af húsinu. Liðið var klappað upp og tóku þá Lítill drengur. Þá var mín búin á því. Skeifa myndaðist og tárin trítluðu niður kinnarnar.

En ég var nú fljót að jafna mig. Bretinn vildi heilsa upp á gamla félaga svo við læddumst baksviðs og knúsuðum liðið aðeins. Allir voðalega glaðir og ánægðir.

Ef fleiri aukatónleikar verða settir upp, og þú ert ein(n) af þeim sem bara verður að hefja upp raust þína þegar þú heyrir lögin hans Villa, þá mæli ég eindregið með því að þú látir þig ekki vanta.

 


Fordómar tæfunnar

 

Ég er uppfull af fordómum. Hef ég sagt ykkur frá því? Þoli afar illa þegar fólk beygir orð vitlaust. Samt geri ég það örugglega stundum sjálf. Vegna þessa er sjaldan lengi ládeyða á þessu heimili. Bretinn er nebblega breskur. Jahá.. þarna kom ég ykkur á óvart. Og breski Bretinn er ekki með íslenskuna 100% á tæru. Lái honum hver sem vill. Ég geri það. Muuhhaaaa.

Við gerum töluvert af því að misskilja hvort annað og svo þarf ég alltaf að kryfja það. Ég veit... óþolandi týpan.

Hann minntist eitthvað á læðuna okkar og spennur í sömu setningu í dag, og ég kveikti ekki á perunni. Horfði á hann með tómum svip. Spennur jú-nó, sagði Bretinn og skildi ekkert í þessu skilningsleysi. Það létti til í þokumistrinu í höfðinu á mér; maðurinn var að tala um spenana á dýrinu.

Eftir örlítinn misskilning við matarborðið í kvöld, varðandi muninn á ''á miðvikudegi'' og ''á miðvikudaginn'', fór eftirfarandi samtal fram á milli mín og míns heittelskaða:

Bretinn: Another confusing thing about Icelandic grammar

Ég: Láttu ekki svona. Annað með greini og hitt ekki greini. Þú hlýtur að þekkja muninn á því eftir 20 ár (meinfýsin tæfa, eins og Birna ''vinkona'' mín orðaði það svo skemmtilega í dag)

Bretinn (horfði einlæglega á mig og sagði hægt og mjööööög skýrt): I know the difference between a gun and a rifle.

 


Næsta síða »

Höfundur

Jóna Á. Gísladóttir
Jóna Á. Gísladóttir

 

 

 Ég er nokkuð dæmigerð íslensk útivinnandi kona. Hef lokið grunnnámi í markþjálfun og gengur betur að hjálpa öðrum við markmiðasetningu en sjálfri mér. Mér lætur líka betur að stjórna öðrum en sjálfri mér. 

 netfangið mitt er jonaagisla@gmail.com

 

 

 

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (20.4.): 0
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 23
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 21
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Bloggvinir

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband