Leita í fréttum mbl.is

Færsluflokkur: Menning og listir

Svuntuaðgerð, afmæli og Ðe Lónlí Blú Bojs

Þessi pistill hefði átt að líta dagsins ljós á sunnudaginn en ég var ofsalega upptekin. Aðallega við að vera í nettu kvíðakasti yfir því að litla barnið mitt (21 árs frá því á laugardaginn) var ekki heima á afmælinu sínu. Kvíðakastið tók sem sagt alla helgina, ásamt því að taka ákvörðun um hvaða aðkeypta mat ég ætti að bjóða upp á afmælisveislunni sem yrði haldin á mánudagskvöldið og hvaða mynd ég ætti að láta setja á aðkeyptu kökuna frá Mosfellsbakaríi. Það tók líka smá tíma að fyrirskipa verkaskiptingu á heimilinu á sunnudaginn á milli Bretans og dóttur okkar, á meðan ég tók þátt í kvennagolfmóti í Grafarholtinu. ,,Gætuð þið kannski sett í uppþvottavél og ryksugað allt húsið? Þá get ég farið beint í að þrífa baðherbergin og skúra þegar ég kem heim.‘‘ Bretinn átti að elda sunnudagssteikina.

Eins og hægt er að ímynda sér þá varð ég yfir mig glöð þegar ég kom heim og sá að það var búið að vinna öll verkin og þrífa klósettin að auki. Svo glöð varð ég að ég kveikti bara á fullt af kertum og sleppti því að skúra. Ég er enn ekki búin að því. Þið sjáið af hverju ég hef ekki haft tíma til að setja niður markmið þessarar viku á blað.

Tuttuguogeinsárs afmælisveisla fyrir Ian með einhverfuna hófst á mánudaginn klukkan 18.

Ian tók fyrirmælin frá mér alvarlega: ,,Ian, allir gestirnir eru að koma til þín til að fagna afmælinu þínu og þú þarft að taka á móti þeim.‘‘ Fólk varð hálfhvumsa þegar Ian fagnaði þeim í dyrunum og reif af þeim afmælispakkann.

Afmælisbarnið var hið hamingjusamasta með herlegheitin. Það sást best þegar hann hafði raðað öllum afmælisgjöfunum (allt tæknilego) í kringum stólinn sinn í stofunni, tók bakföll og hló sigri hrósandi hrossahlátri. Ég held hann hafi líka verið mjög sáttur með myndina sem ég valdi á kökuna en það var teikning eftir hann sjálfan. Hann hikaði samt ekkert við að skera strump og annan á háls.

Ian Kaka 2019

En markmið þessarar viku er nokkurn veginn eins og síðustu viku. Mér tókst ekki að halda öllu á pari en aldrei þessu vant er ég ekkert að berja sjálfa mig í hausinn fyrir það.

En ég er farin að láta mig dreyma um svuntuaðgerð. Ég hugsa sífellt um orð appelsínunnar í Ávaxtakörfunni:

En ef að það væri eitthvað,

sem mér líkaði ekki við,

ég skæri það burt og límdi svo nýtt,

sem ætti þá betur við mig.

Kviðurinn á mér, sem mér hefur tekið ótrúlega vel að halda í skefjum í gegnum árin, hefur eignast sjálfstætt líf. Hann vex og dafnar og er farinn að taka allt of mikið pláss í veröldinni. Og þegar tvö börn hafa verið rifinn út í gegnum láréttan skurð á þessum stað þá er tilfinningin í húðinni brengluð. Þess vegna er þetta alveg extra óþægilegt. Eins og klessu af trölladeigi hafi verið skellt framan á mig. Aukahlutur sem ekki tilheyrir mér og er fyrir mér. En appelsínan söng lika:

Ef spegillinn gæti talað,

þá myndi hann segja við mig,

að ég væri fegurst, flottust og fínust,

það mynd'ann segja við mig

 

Ég ætla að tileinka mér þau orð frekar og setja svuntuaðgerð á hold.

 

Vika 2 - 9.–15. September

1) Taka vítamínin mín og lýsi (hef trassað það í allt sumar) – Stóð mig 4 daga í síðustu viku

2) Mæta á 3 æfingar kl 6:10  (hef ekki mætt á 6-æfingu í amk 3 ár) – mætti 2x og svo gekk ég 18 holur á þriðjudag og sunnudag. Ekki alslæm frammistaða. Og vá hvað mér finnst það ljúf tilfinning að vera á undan mestu umferðinni í vinnuna eftir æfingu og vera sest við skrifborðið, hreyfð og sturtuð, fyrir kl 8. Mæli eindregið með þessu.

3) Drekka 2 x 750 ml af vatni yfir vinnudaginn (ég er þessi sem fylli vatnsglasið að morgni og stundum er það óhreyft þegar ég fer heim í lok dags) – stóð mig 99.89% í þessu. Þurfti reyndar tvisvar sinnum í vikunni að þræla í mig öllum seinni 750 millilítrunum rétt áður en ég hljóp út kl 17 og lá við drukknun. En niður fór vatnið.

4) Taka út kökur, sælgæti, brauð og gos annað en sódavatn (hef verið frekar hömlulaus í sumar) – mér reynist erfitt að sleppa öllu brauðmeti þegar ég er að golfast því oft er maður að hlaupa út á golfvöll óétinn og þá er svo auðvelt að grípa samloku. En auðvitað heitir það skipulagsleysi. Tvær kökusneiðar voru innbyrtar í vikunni og ½ líter af pepsi max

5) Í rúmið ekki seinna en 22:15 (er yfirleitt að leggjast á koddann um 00:30) – stóð mig í þessu kvöldin fyrir þessar tvær 6-æfingar

6) Nýja markmiðið í þessari viku er að sjá vigtina þokast niður á við. Engar tölur verða ræddar að svo stöddu

 

En þá er komið að hápunkti vikunnar og ástæðunni fyrir því að ég skrópaði á morgunæfingu á föstudaginn. Hápunkturinn heitir Ðe LÓNLÍ blú BOJS og ég brosi enn hringinn þegar ég hugsa um upplifunina. Á fimmtudagskvöldið fór ég í Bæjarbíó Hafnarfirði til að horfa á lítinn (að ég hélt), sætan söngleik eftir hinn kornunga Höskuld Þór Jónsson, sem jafnfram leikstýrir. Það kom fljótt í ljós að orðið ,,lítill‘‘ á ekki heima neinsstaðar í málsgrein þar sem rætt er um þetta verk.

Þegar maður fréttir af því að ungur maður hafi heyrt lag með Ðe lónlí blú bojs og heillast svo af hljómnum að hann fer á stúfana, les sér til um hljómsveitina, hlustar á tónlistina og sest svo bara si svona niður og skrifar handrit af söngleik eða leikriti… þá verður maður forvitinn.

Höskuldur Þór gerði meira en bara að skrifa handrit. Hann viðaði að sér góðu fólki og lét hlutina gerast. Úr varð dásamleg skemmtun með frábærum leikurum, söngvurum og tæknifólki. Persónusköpun er einstaklega skemmtileg, textinn hnyttinn, söngvarar eru hver öðrum betri og sagan er grípandi. Ég stóð mig að því í eitt skiptið að kalla fram í eins og börnin gera á dýrunum í Hálsaskógi eða öðrum spennandi viðburði. Ég bara gat ekki stillt mig.

Ég á ekkert í þessum stórkostlega hæfileikaríku ungmennum sem þarna stóðu á sviði og á bak við tjöldin og brilleruðu á allan hátt. En það kemur ekki í veg fyrir að ég sé stolt. Og skotin í þessum krökkum. Ég er óendanlega hreykin af ungu kynslóðinni okkar sem er óhrædd við að vinna að því hörðum höndum að láta draumana sína rætast.

Ég veit ekki hvort það séu fleiri sýningar framundan í Bæjarbíói en ég veit að þau verða með sýningar í Vestmannaeyjum um næstu helgi. Þetta er svo sannarlega skemmtun sem brúar bil á milli kynslóða.

Eins og sannri grúppíu sæmir henti ég mér baksviðs eftir sýningu til að ausa lofi yfir liðið. Ég er hrædd um að ég hafi verið í pínu æst og uppnumin en þau hafa vonandi bara kunnað að meta það að hafa eignast einlægan aðdáanda í einni miðaldra kvinnu. Látum það liggja á milli hluta að eitt eða tvö glös af freyðivíni (hver er að telja) höfðu runnið ljúflega niður þetta kvöld.

Ég náði tveimur í myndatöku: Berglindi Öldu sem fer á kostum sem Stína og Inga Þór með gullröddina sem leikur Sörla. Eins og sjá má nær brosið á mér eyrna á milli.

Stína Ðe lónlíIngi Þór Ðe Lónlí


Nú þarf ég að láta rigna upp í nefið á mér

 

Þann Einhverfa bráðvantaði liti í dag, svo ég gerði mér ferð inn í tvær verslanir Eymundssonar í Kringlunni. Langaði að nota tækifærið og sjá bókina mína í því umhverfi sem hún þarf að byrja í, til að komast í sitt rétta umhverfi, þ.e. inn á heimilin í landinu. 

Það má segja að þessi ferð hafi verið ágætis ''reality check'' fyrir mig. Í fyrri búðinni var bókin ekki einu sinni sjáanleg. Og ég hafði mig ekki í að spyrja um hana. Í seinni búðinni lágu nokkur eintök af ''Sá Einhverfi og við hin'' á borði, ásamt bókum frá því í fyrra. Nýjar bækur lágu á borði nær dyrunum og við dyrnar var heill gámur af nýjustu bók Arnalds Indriðasonar. Sennilega eina bókin sem ekki þarfnast auglýsingar. Og þó... sennilega þarfnast allir auglýsinga. Jafnvel Arnaldur.

En ég kom sjálfri mér á óvart þegar ég fann að það hálffauk í mig inni í fyrri búðinni. Í Fréttablaðinu í morgun er heilsíðu auglýsing með bókum frá Sögu útgáfu (m.a. bók Þráins Bertels, Óttars Norðfjörð og minni). Undir auglýsingunni stendur Eymundsson, bóksali frá 1872. Ég held þetta sé ókeypis auglýsing fyrir það ágæta fyrirtæki. Mér finnst lágmark að þeir skelli fram í búðina hjá sér, bókum sem eru auglýstar undir þeirra nafni.

Og ég var ekkert sérstaklega ánægð að sjá bókina innan um bækur frá því í fyrra. Samt sagði ég ekki neitt.

Ef ég hef haldið í einhver andartök að ég gæti gengið inn á ritvöllinn ásamt öllum hinum höfundunum og gert mér vonir um að selja slatta af eintökum af bókinni, án þess að vekja á mér einhverja sérstaka athygli... þá læknaðist ég af þeirri firru í dag.

Ég ákvað eftir dágóða umhugsun að kaupa eitt eintak. For luck. Sem betur fer var verðmiðinn límdur yfir andlitið á mér.. ekki mér sjálfri, heldur á bókarkápunni. Reyndar er líklega engin leið að þekkja mig af bókarkápunni en mér leið samt eitthvað undarlega með það að kaupa eigin bók. En ég sór þess eið á þessu andartaki að þetta mun ég geri hér eftir. Ég mun gefa út bók á hverju ári og fyrsta daginn sem hún kemur í búðir mun ég fara og festa kaup á einu stykki. Og hana nú!

Nú er um að gera að bera höfuðið hátt, láta rigna örlítið upp í nasaholurnar og... og.. já bara rífa svolítið kjaft. Ef ég hef ekki fulla trú á því sem ég er að gera, hver hefur það þá?

 


Þangað sem lífið leiðir okkur

Í fyrra fór ég á námskeið sem ber nafið Skapandi skrif. Það er Þorvaldur Þorsteinsson, rithöfundur og listamaður sem er með þessi námskeið. Ég fékk ótrúlega mikið út úr þessum 4 kvöldum og var ákveðin í að fara á framhaldsnámskeið seinna meir.

Ég sá það svo auglýst um daginn og gat ekki hætt að hugsa um það. En ég gat heldur ekki gleymt peningunum sem ég á ekki til. En á föstudaginn hugsaði ég: what the f..., maður lifir víst bara einu sinni og ákvað að skella mér. Og ekki slæmt, kostar 40.000 en ég fæ 20.000 frá VR.

Ég byrja annað kvöld og hlakka þessi lifandi ósköp til.

Í tilefni af þessu kemur hér smásaga sem varð til í þeirri miklu andagift sem ég fylltist af í návist skáldsins Cool. Eg birti hana reyndar í fyrra, svo einhver ykkar hafa lesið hana. Hún er nú samt að einhverju leyti breytt og bætt. 

Þangað sem lífið leiðir okkur

Snjórinn er kaldur og harður viðkomu. Berir fæturnir eru orðnir rauðir og þrútnir af kuldanum og hún er hætt að finna fyrir þeim.

Samt heldur hún sínu striki. Hún veit varla hvað það ser sem rekur hana áfram. Aðeins að þessi draumur kallar fram svo sterk viðbrögð að hún má engan tíma missa.

 Á meðan hún bröltir yfir kalt hjarið streyma svipmyndir frá nóttunni fram í höfuð hennar. Myndir frá Draumnum. Eins og leiftursýnir birtist hvert myndbrotið á fætur öðru. Sum svo björt að hún lokar augunum andartak.

Ískur. Undarlegir brestir. Rauðleitur hlutur flýgur í gegnum loftið og ber við rökkvaðan himinn. Skaðræðisóp. Samanhnipruð mannvera. Blóð. Sársauki. Grátur. Er þetta karlmaður að gráta?

Hún hristir höfuðið eins og til að losa sig við þessar sýnir og tárin byrja að renna niður kinnarnar á henni. En hún finnur það ekki. Skynjar ekkert nema þennan mikla ákafa að halda áfram.

Einhver er í vandræðum... lífshættu.. hún verður að finna út hver það er. Koma til hjálpar. Hún er næsta viss að það er einhver henni nákominn. En þetta er einhver vitleysa. Hver ætti svo sem að vera kominn hingað uppeftir.

Hún er farin að tala upphátt við sjálfa sig en það er eins og orðin komi frá einhverjum ókunnugum. Hún er orðin hrædd, en getur ekki stoppað. Einhver ósýnilegur kraftur neyðir hana áfram í ísköldu næturloftinu.

Hún hefur alltaf verið berdreymin. Eiginleiki sem hún tekur ekki fagnandi. Hann veldur henni oft sársauka og vanlíðan.Stjórnar lífi hennar á margan hátt. Eins og núna. Hvaða manneskja með fullu viti myndi rjúka út um hávetur, íklædd engu nema ermalausum kjól? hugsar hún með sjálfri sér. Berfætt? Til að leita einhvers sem sennilega er draumur. Draumur og ekkert annað.

Hún og Kristján höfðu ákveðið að fara hingað upp eftir, í sumarbústað foreldra hans. Fengu bústaðinn lánaðan yfir helgina. Hann stendur afskekkt og þau ætluðu að njóta þess að vera saman, bara tvö ein áður en prófin byrjuðu og myndu aðskilja þau um tíma.

Hún heyrir Kristján kalla á sig:

RAKEL RAKEL 

Undrunin og skelfingin í rödd hans er eins og bergmál af hennar eiginn ótta. En hún getur ekki svarað honum. Þó hún þrái ekkert meira en að finna heita og sterka arma hans umlykja sig. En hún verður að halda áfram. Áfram.

Í nokkra stund rýfur ekkert kyrrðina, fyrir utan marrið í snjónum undir fótum þeirra beggja. Rakel veit að Kristján nálgast og bara tímaspursmál hvenær hann nær henni. Hún heyrir másandi og öran andardrátt hans fyrir aftan sig. Hann má ekki ná til hennar. Hún veit að hann mun stoppa hana og hún verður að ljúka þessu. Verður að fá svörin.

Hún gerir sér ekki grein fyrir því hversu langt þau hafa farið fyrr en hún sér glitta í veginn fyrir ofan bústaðinn. Það er stjörnubjart og tunglið sendir birtu sína niður til hennar.

RAKE HVAÐ ERTU AÐ GERA.. HVERT ERTU AÐ FARA

Kristján er orðinn skelfingu lostinn. Heldur líklega að ég hafi misst vitið, hugsar Rakel og flissar móðursýkislega með sjálfri sér. Kannski er hún búin að missa vitið. Hún er ekki viss. Ekkert virðist raunverulegt á þessari stundu.

En hún getur ekki hugsað um það núna. Hvorki um geðheilsu sína né um ótta Kristjáns. Hún mun útskýra þetta brjálæði fyrir honum seinna. Ekki núna. Það eru aðeins örfá skref eftir upp á veg og hún finnur að ef hún aðeins nær þangað þá verður allt eins og það á að vera.

Já, segir hún stundarhátt út í nóttina. Upp á veginum fæ ég öll svörin. Þá getum við snúið við og allt verður eins og það á að vera.

Hún klifrar upp á veginn, aðframkomin af þreytu og örvinglan. Henni er ískalt og óskar þess að hún hefði að minnsta kosti vettlinga. Fingurnir eru dofnir og hún kreppir þá og réttir á víxl til að fá blóðið á hreyfingu. Eitt andartak stansar hún til að líta við og athuga hversu langt Kristján á eftir.

Ljósgeisli rýfur rökkrið og Rakel blindast af birtunni. Ósjálfrátt ber hún hendur upp að augunum til að verjast áleitnu ljósinu. Heyrir Kristján öskra nafnið hennar um leið og hávært ýskur í bremsum sker í eyrun. Brestirnir í brotnandi beinum eru óraunverulegir finnst Rakel. Hljóð sem hún hefur aldrei heyrt áður en þekkir strax. Líkami hennar í rauða kjólnum flýgur í gegnum loftið og ber við himininn. Sýnin er tilkomumikil í skini mánans.

Einhver öskrar af öllum lífs og sálar kröftum. Hún skynjar sársauka. Hann er ekki líkamlegur. Og hann er ekki hennar.

Á meðan líf hennar fjarar út heyrir hún grát. Er þetta karlmaður að gráta?


Hvernig Tæfan upplifði Villa Vill tónleikana

 

Ég get ekki sleppt því að segja ykkur frá  minningartónleikum Vilhjálms Vilhjálmssonar sem Bretinn og ég fórum á síðastliðinn föstudag í Salnum í Kópavogi.

Pálmi Gunnars, Guðrún Gunnars, Stebbi Hilmars og Friðrik Ómar fóru á kostum. Því get ég lofað ykkur. Sem og hljóðfæraleikarar, bakraddir og 4ra mann strengjasveit sem birtist á sviðinu eftir hlé.

Við sátum ansi framarlega, á þriðja bekk. Ég veit ekki hvort nálægðin við listamennina átti þátt í þeim sterku áhrifum sem ég upplifði þarna. Á milli laga spjölluðu söngvararnir um Villa, þeirra tengingu við hann og lögin hans. Og þetta var gert á afar lifandi og afslappaðan hátt.

Ég veit að fólk sem stendur á sviði með ljósin í andlitið sér ekki sér ekki mikið fram í salinn. En það breytti engu fyrir Pálma Gunnarsson. Sterkt augnaráðið og brosið sem lýsir upp andlitið gerir það að verkum að þér finnst það allt ætlað akkúrat þér. Og Pálmi er söngvari í sérflokki. Enginn er eins og hann. Enginn kemst nálægt því að hljóma eins og hann.

Varðandi Stebba Hilmars... ég veit ekki hvernig ég á að koma þessu frá mér án þess að það misskiljist.. Ég fíla Sálina. Hef alltaf gert. Finnst Stebbi skemmtilegur söngvari. En það var ekki fyrr en á föstudaginn sem ég uppgötvaði hversu góður söngvari hann er. Þvílíkt vald á röddinni sem þessi drengur hefur. Og tilfinningin sem hann leggur í þetta.

Guðrún Gunnars er ein af okkar bestu söngkonum. Á því er enginn vafi. Svo er hún svo skemmtileg. Kom öllum til að hlæja hvað eftir annað með líflegri framkomu sinni. Var eins og ferskur andblær þarna á sviðinu.

Ég átti erfitt með að sleppa því að mæna á andlitið á Friðriki Ómari á meðan hann söng. Að þessi rödd komi upp úr þessum smágerða dreng en eiginlega meira en ég næ utan um. Ég er einlægur aðdáandi hans eftir þetta kvöld.

Ég gleymdi að taka með mér snýtubréf og það slapp. En stundum þurfti ég að sjúga óþarflega hátt upp í nefið. Bretinn gaf mér auga í hæstu hviðunum.

Mér á hægri hönd sátu 3 konur og þær voru yndislegar. Þetta geta hafa verið mæðgur. Sú elsta sennilega eitthvað um sjötugt. Þær lifðu sig svo inn í sýninguna og töluðu upphátt við þann sem stóð á sviðinu og var að kynna næsta lag, eða tala um Vilhjálm.

Já, sögðu þær stundarhátt og kinkuðu kolli til samþykkis. Eins og þær hefðu verið viðstaddar hvern einasta atburð sem talað var um og ættu pínulítið í hverju einasta lagi sem var kynnt.

Á fremsta bekk sat fólk sem virkilega naut kvöldsins og þorði að sleppa fram af sér beislinu. Söng með, teygði hendur til lofts og dillaði sér í takt við tónlistina. Undurfagur hópur, sennilega af sambýli fyrir fatlaða.

Þegar tónleikunum lauk ætlaði þakið að rifna af húsinu. Liðið var klappað upp og tóku þá Lítill drengur. Þá var mín búin á því. Skeifa myndaðist og tárin trítluðu niður kinnarnar.

En ég var nú fljót að jafna mig. Bretinn vildi heilsa upp á gamla félaga svo við læddumst baksviðs og knúsuðum liðið aðeins. Allir voðalega glaðir og ánægðir.

Ef fleiri aukatónleikar verða settir upp, og þú ert ein(n) af þeim sem bara verður að hefja upp raust þína þegar þú heyrir lögin hans Villa, þá mæli ég eindregið með því að þú látir þig ekki vanta.

 


Andagiftin mín hún Astrid

 

Ég er ekki að tala um Astrid Lindgren í þetta skiptið heldur hana Astrid Sigurðardóttir. Þessi Astrid á reyndar ættir að rekja til Skandinavíu en ekki til Sverige heldur Norge. En það er algjört aukaatriði.

Þessi  Astrid varð kveikjan að því að ég ákvað að tími væri til kominn að ég færi að koma frá mér orðum á blað.

Og hér kemur sagan:

Astrid hét lítil stúlka sem hafði gaman af að teikna.  Ekkert merkilegt við það svo sem. En með tímanum fór hana að dreyma um að mála myndir. Málverk. En það var ekki fyrr en hún varð fullorðin sem hún ákvað að gera eitthvað til láta draumana sína rætast.

Hún fór og keypti sér málningu og hóf að mála. Ljótar myndir.

Og þá hugsaði hún sem svo: ég get haldið áfram að mála ljótar myndir mér til gamans en það er ekki það sem ég raunverulega vil.

Og því fór hún í Myndlistarskólann í Reykjavík í kvöldnám árið 2003, þá orðin 37 ára.

Sumarið 2006 bætti hún um betur og fór á námskeið til Ítalíu. Var þar undir handleiðslu hins breska Robin Holtom.

Við Astrid rekumst á hvor aðra öðru hverju. Unnum saman á DV í gamla daga og eigum sameiginlega vinkonu og fyrrverandi samstarfskonu þaðan.  Fríðu Brussubínu.

Í einu af hinum bráðskemmtilegu partýum hjá Fríðu & Co hittumst við Astrid og ég eyddi næstum heilu kvöldi í að horfa á hana með stjörnur í augunum. Og þó að Astrid sé ofsalega hugguleg kona var það ekki ástæðan. Heldur rakti ég úr henni garnirnar og öfundaðist út í skapfestuna. Markvissa stefnuna að settu marki.

Og það var þar og þá sem ég ákvað að gera eitthvað í mínum málum. Kanna hvort ég kæmi ekki orðum  á blað. Hvort ég gæti kallað fram frásagnagáfuna, sem ég taldi að ég ætti til, og fengið aðra til að njóta.

Síðan í partýinu þarna um kvöldið hefur Astrid farið tvær ferðir í viðbót til Ítalíu í frekari myndlistarnám.  Og á þessu ferli hefur hún þróast og þroskast sem listamaður. Fundið ástríðuna sína í skugga og birtu. Og undir vatni. Og það sem meira er; hún er tilbúin til að leyfa okkur hinum að njóta afraksturins.

Á Hilton Reykjavík Nordica kl. 14, næsta laugardag, opnar hún sína fyrstu sýningu. Í undirdjúpum.

Sýningin stendur yfir frá 19.-20. janúar kl. 13-17. Í undirjúpum... Heillandi nafn. Og á boðskortinu sem kom inn um lúguna í gær blasir við mér mynd eftir Astrid af gjánni Silfra í Þingvallavatni. Og ég get ekki beðið eftir að sjá meira. Ég er spennt eins og Sá Einhverfi á jólum.

Næsta mál á dagskrá hjá Astrid er að læra köfun svo hún geti séð undirdjúp með eigin augum.

Orðatiltækið Allt er fertugum fært er ekkert kjaftæði.


Reðursafnið vs Downsarar

 

Ég myndi auðvitað gráta ef þetta væri ekki svona djöfulli fyndið. Og þó... er hægt annað en að hlæja að fáránleikanum í forgangsröðun og mati... já hverra... á hvað er mikilvægt og hvar peningar ríkisins eru best geymdir.

Hér kemur örsaga; byggð á staðreyndum. 

Félag áhugafólks um Downs heilkenni sótti um styrk hjá ríkinu fyrir sín félagasamtök. Held það hafi verið milljón sem þau báðu um. Þau fengu 500 þúsund. Voru afskaplega glöð og í rauninni undrandi. Vá við fengum fimmhundruðþúsundkrónur!!! Áttu greinilega ekki von á því.

Skuggi féll á gleðina þegar þau komust að því að Íslenska reðursafnið fékk úthlutað á sama tíma 800 þúsund króna styrk. Hið íslenska fokking reðursafn!!

ER EINHVER HEIMA!!!!

Eru menn farnir að selja á sér reðurinn? Ég hélt að reðursafninu væri ánöfnuð öll þessi tippi. Ekki það að ég hafi neitt á móti reðursafninu. En ég er á móti því að skattpeningarnir mínir séu notaðir til að halda starfseminni gangandi.

Ég spyr; er þetta í nafni menningar sem svona styrkir eru  veittir.

Ég get alveg ímyndað mér að hægt hefði verið að gera eitthvað gagnlegt við þessi 800 þúsund. Hvað með allt hitt sem er verið að gefa pening í úr ríkissjóði. Eru birtir listar yfir það einhversstaðar hvað ég og þú erum að borga fyrir?

Ég er samt alveg að komast í jólaskap. Og ég er að fara á jólatónleika Bóóóóóóóó á sunnudagskvöldið.  

 

 

 


Mynd af gleði

 

Enn skora Íslendingar á erlendri grundu og það er alltaf gaman að því.

Hljómsveitin Hraun er komin í 20 hljómsveita úrslit í tónlistarkeppni sem nefnist The Next Big Thing á vegum BBC.

Ég veit ekkert um þessa hljómsveit og hef aldrei heyrt hana nefnda. En það sem heillar mig upp úr skónum er myndin við þessa frétt. Hún sýnir væntanlega hljómsveitarmeðlimi og ekki ólíklegt að hún sé tekin á því andartaki sem tilkynnt er um áframhaldandi þátttökurétt, eða eitthvað slíkt.

Það er svo mikil gleði í þessari mynd og takið eftir barninu á myndinni. Ekki hægt annað en að fyllast gleði og hlæja svolítið yfir þessu litla andliti sem lítur út fyrir að vera hundrað prósent með á nótunum.

 


mbl.is Hraun í úrslit í tónlistarkeppni BBC
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Crazy Indian video

Sumt er bara hlægilegra en annað. Svo einfalt er það.

Hér kemur George Michael þeirra Indverja.

 Takið eftir getnaðarlegum munngeiflunum. Þeir eru líka vel girtir ennþá þarna fyrir austan.

 ''Listamaðurinn'' er klárlega undir vestrænum áhrifum. Örugglega brjálaður ''hittari'' á Indlandi. W00t

Það sem mig langar að vita er hvar þeir fá þessar úlpur!

 


Snúið út úr hreinleikanum

Hreinleiki

Sá Einhverfi elskar Astrid Lindgren. Eða öllu heldur myndirnar sem gerðar hafa verið eftir bókunum hennar. Emil, Lína, Lotta, Börnin í Ólátagarði, Karl Blómkvist, Kalli á Þakinu.....

Hann er í þessum töluðu (skrifuðu) orðum að leggja lokahönd á enn eitt listaverkið sem er trélitateikning af DVD coverum nokkurra þessara mynda. Hann benti á eigin skrift; Börnin í Ólátagarði og sagði: Lítil börn.

Já, sagði ég. Börnin í Ólátagarði.

Stundum veit hann ekki hvað hann er að skrifa en samt er hvert einasta orð rétt stafsett. Sjónminni hans er gífurlegt.

Þar sem ég sat fyrir framan sjónvarpið með honum og horfði á Ný skammarstrik Emils í Kattholti var ég að hugsa um hreinleikann í þessum sænsku myndum öllum.

Emil og Alfred vinnumaður veiða krabba og synda naktir saman í vatninu. Þeim þykir alveg svakalega vænt hvorn um annan og enginn hrópar; perri perri.

Emil hellir bláberjasúpu yfir andlitið á fínni frú eftir að hún fellur í yfirlið og Anton pabbi hans tekur hann upp á eyrunum og hristir allan til. Enginn kallar: ofbeldi ofbeldi.

Eða þegar Anton eltir Emil með hnefann á lofti og öskrar ''strákskratti'', og Emil flýr inn í Smíðakofann og er heppinn að komast í öruggt skjól. Annars myndi karlinn faðir hans lúskra ærlega á honum.

Mikið væri heimurinn einfaldur ef hann væri eftir Astrid Lindgren emil

 

 

 



mbl.is Varað við nöktum börnum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Allir verða að taka þátt - sýnum einu sinni samstöðu

Hún Þórdís Tinna okkar sem berst við krabbamein er hér með afar sterka færslu sem minnir mig á hversu gott ég hef það og hversu auðveldlega það góða gengi gæti allt verið horfið á morgun.

Sjúkdómar og slys gera ekki boð á undan sér og okkur hættir öllum til að taka heilsuna og öðrum góðum atriðum í lífi okkar sem gefnum.

Í framhaldi af færslunni hennar Þórdísar Tinnu er Gíslína Erlendsdóttir með færslu á blog.central þar sem hún hvetur til þrýstings á stjórnvöld á eftirfarandi hátt:

Ég vil því koma á framfæri hugmynd um þrýsting á stjórnvöld sem er í anda þeirra aðferða sem Amnesty International notar til að þrýsta á stjórnvöld víða um heim í mannréttindamálum.

Hugmyndin er þessi. Á þriðjudaginn fyrir hádegi  milli 10 og 12 sendi allir öryrkjar, aldraðir og aðrir þeir sem vilja taka þátt  tölvupóst á netföng heilbrigðisráðuneytisins og félagsmálaráðuneytisins með meðfylgjandi  texta: ....Ég skora hér með á íslensk stjórnvöld að leiðrétta þegar í stað kjör öryrkja og aldraðra til samræmis við íslenskan veruleika.... (hugmynd að texta).....undirskrifað af viðkomandi með kennitölu.

Ég tek undir afar góða hugmynd Gíslínu og hvet ykkur öll hér á blogginu til að setja inn færslu um málið og/eða senda tölvupóst. Einnig held ég að það væri góð hugmynd að þeir bloggarar sem senda tölvupóst á þriðjudagsmorguninn setji í hann link inn á sína bloggfærslu um málið sem og link inn á færsluna hennar Þórdísar Tinnu.

 Póstfang félagsmálaráðuneytis er  postur@fel.stjr.is og hjá heilbrigðis- og tryggingarráðuneyti er það postur@htr.stjr.is og Guðlaugur Þór heilbrigðisráðherra gudlaugurthor@althingi.is

Kommmmma sooooo krakkar. Verum fyrirmyndir. Setjum strax inn bloggfærslur og stillum gsm símana og látum þá minna okkur á kl. 10 á þriðjudagsmorgunn. Það er svo auðvelt að gleyma í amstri dagsins og ekki viljum við missa af mómentinu.


Næsta síða »

Höfundur

Jóna Á. Gísladóttir
Jóna Á. Gísladóttir

 

 

 Ég er nokkuð dæmigerð íslensk útivinnandi kona. Hef lokið grunnnámi í markþjálfun og gengur betur að hjálpa öðrum við markmiðasetningu en sjálfri mér. Mér lætur líka betur að stjórna öðrum en sjálfri mér. 

 netfangið mitt er jonaagisla@gmail.com

 

 

 

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (18.4.): 0
  • Sl. sólarhring: 3
  • Sl. viku: 35
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 31
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Bloggvinir

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband