Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, desember 2009

Cargo til Kína

 

Á tímabili hættum við að telja niður í tannburstun á kvöldin fyrir Þann Einhverfa. Mér þótti þetta í raun ýta undir þráhyggjuna hans þar sem ekki var séns að sleppa með að segja: Bursta eftir 10 mínútur og segja svo næst: bursta eftir 5 mínútur.

Nei, það varð að telja rétt niður og svo gleymdum við okkur auðvitað inn á milli og talning fyrir 10 mínútur gat tekið allt að 40 mínútur.

Ég nennti þessu alls ekki lengur og ákvað að strákurinn væri orðinn alltof stór til að við stæðum í svona hringavitleysu.

Við tók hræðilegasta tímabil sem við höfum átt í fara-að-sofa rútínunni. Grátur, hótanir og handalögmál varð næstum því daglegt brauð. Þessu fylgdi skelfilegur vanlíðan og samviskubit yfir því að langa til, allavega annað hvert kvöld, að pakka barninu sínu ofan í ferðatösku, merkja hana ''to whom it may concern'' og senda til Xiamen í Kína.

Það var ekki fyrr en nýlega sem ég áttaði mig á þessari tengingu, þ.e. að háttatíminn varð svona erfiður eftir að við hættum að telja niður. En þá byrjaði ég líka að telja aftur. Af fullum krafti og af mikilli gleði og ástríðu. Tel bara eins og ég eigi lífið að leysa. Og ástandið hefur skánað til muna.

Sá Einhverfi reynir að vísu oft að teygja lopann.

Ian, fjórar mínútur

Nei mamma, bara sex mínútur

 

Og í stráknum, sem mér finnst alltaf vera litla barnið, er að fæðast unglingur og töffari.

Í gærkvöldi kvað við alveg nýjan tón

Jæja Ian, bursta eftir tíu mínútur

Mamma, gleymdu því....

 


Mamma veðurgyðja

 

Ég er mætt til vinnu. Afskaplega syfjuð enda hefur sólarhringurinn hjá fjölskyldunni farið svolítið á annan endann í fríinu.

Jólin voru ljúf í faðmi fjölskyldunnar. Engin jólaboð. Bara við á náttfötunum, horfandi á imbann eða með bók í hönd... og konfektkassann á lærunum (í fleiri en einni merkingu).

Góðir göngutúrar með Vidda Vitleysing slógu á át-samviskubitið, sem reyndar var með minna móti þessi jólin.

Sá Einhverfi reynir sífellt að semja við foreldrana um veðurfarið í Reykjavík. Á 2. í jólum stalst hann út á pall með vatnskönnu til að bræða frostið. Hann gerir auðvitað illt verra og móðirin er í lífshættu  á glerhálum pallinum þegar hún stelst út í bílskúr til að smóka sig.

Rigning á morgun mamma, sagði hann.

Nei Ian, veistu ég held ekki, sagði ég. Það verður örugglega snjór og kalt.

Þá fríkaði barnið út. Orðið ''snjór'' kveikir á einhverjum óhemjutökkum hjá honum.

Eftir langar og strangar samningaviðræður sættumst við á að þann 3. í jólum yrði ''kalt, ský og sól''.

Það gekk nokkurn veginn eftir. En í morgun byrjaði að snjóa algjörlega miskunnarlaust. Ég hringdi í Vesturhlíð til að athuga hvernig aumingja litli snjófælni drengurinn minn hefði það.

Það er skemmst frá því að segja að hann lagðist undir feld í morgun til íhugunar. Sundferð var þó nógu freistandi til að hann varð hreyfanlegur. Ég sé hann fyrir mér í heita pottinum, gólandi formælingar á eigin tungumáli upp til himins.

Kannski eru þær formælingar ætlaðar mér. Allavega virðist hann ekki efast um það eitt andartak að móðir hans sé hin eina sanna veðurgyðja.

 


Hinn sanni jólaandi...

 

Sá Einhverfi er kampakátur þessa dagana. Það er búið að vera yndislegt að ''setja upp jólin'' með honum síðustu vikur. Ég veit ekki hvort ljómar meira, jólatréið, sem stendur nú þegar í fullum skrúða í stofunni, eða augun í Þeim Einhverfa. 

Hann vaknar á nóttunni til að gúffa í sig litlum gotterís-bitum sem jólasveinarnir skilja eftir í skónum hans en er alveg laus við áhyggjur eins og til dæmis að velta því fyrir sér hvernig jólasveinninn komist inn til hans. Sem er eins gott, því gluggarnir á herberginu hans hafa verið harðlokaðir undanfarið í rokinu og kuldanum.

Og talandi um veðrið.. Ég myndi nú frekar kjósa logn og að sjá hvítum flyksum kyngja niður í bjarmanum frá jólaljósunum sem loga svo fallega við næstum hvert hús. En því miður er hætt við að eitthvað af ljómanum í augum drengsins myndi slokkna við slíka sjón. Og ég myndi sennilega elska hann aðeins minna... NEI NEI NEI EKKI SNJÓR EKKI FROST (Argh Ian, heldurðu að ég ráði því?).

En frostið böggar hann ekki núna. Ekki á meðan það er ekki sjáanlegt á jörðinni. Frostið í vindinum bítur ekki á hann og veldur honum ekki hugarangri. Já, hann er skrítin skrúfa hann sonur minn. Skrítin og skemmtileg skrúfa.

Ég hef merkt kyrfilega inn á vikuplanið hans að skógjöfum sé lokið þann tuttugastaogfimmta. En samt sem áður á ég von á því að vakna upp um miðja nótt aðfaranótt jóladags við dreng sem lætur í sér heyra af vandlætingu yfir svikulum jólasveinum (eða móður) þegar hann mun vakna upp við tóman skó.

En það er seinna-tíma-vandamál. Núna hlakka ég til að upplifa jólin í gegnum börnin mín. 

Gelgjan hefur pantað stöðu pakkastjóra á aðfangadagskvöld og ég veit henni mun farast starfið vel úr hendi. Eins og allt annað sem hún gerir. Hún hefur allt sitt líf haft þann heiður að setja engilinn á topp trésins en vék af fúsum og frjálsum vilja fyrir litla bróður þetta árið.

 

Ian Engill á topp 2009

Ég er búin að skemmta mér vel yfir þessari mynd. Það er engu líkara en Gelgjan haldi 10 kílóum þyngri bróður sínum á lofti. En það rétta er að Sá Einhverfi stendur upp á stól og ''stóra'' systir styður við hann.

Undir tréinu er heill hellingur af jólapökkum sem Sá Einhverfi hjálpaði mér við að pakka inn og skrifa á til-og-frá kortin. Eitt slíkt kort skrifaði hann á án eftirlits. Til Ian frá Ian stendur á því. Og þannig myndi hann helst vilja hafa þau öll.

 

 

 

 

 


Höfundur

Jóna Á. Gísladóttir
Jóna Á. Gísladóttir

 

 

 Ég er nokkuð dæmigerð íslensk útivinnandi kona. Hef lokið grunnnámi í markþjálfun og gengur betur að hjálpa öðrum við markmiðasetningu en sjálfri mér. Mér lætur líka betur að stjórna öðrum en sjálfri mér. 

 netfangið mitt er jonaagisla@gmail.com

 

 

 

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (28.3.): 2
  • Sl. sólarhring: 2
  • Sl. viku: 11
  • Frá upphafi: 1639864

Annað

  • Innlit í dag: 2
  • Innlit sl. viku: 11
  • Gestir í dag: 2
  • IP-tölur í dag: 2

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Bloggvinir

Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband