Leita í fréttum mbl.is

Sá Einhverfi pakkar niður í tösku

 

Þegar Unglingurinn flutti til okkar í vetur, lá ljóst fyrir að það þyrfti að bæta við einu svefnherbergi í húsið. Og við Bretinn ákváðum að það væri ekkert vit í öðru en að Sá Einhverfi léti Unglingnum herbergið sitt eftir. Því staðreyndin er sú að unglingur þarf meira pláss og meira einkalíf en 9 ára gamalt barn. Því sló Bretinn upp vegg í holinu á efri hæðinni og úr varð lítið, en hið huggulegasta herbergi fyrir Þann Einhverfa.

Við vorum búin að segja drengnum frá fyrirhuguðum flutningum og útskýra fyrir honum eftir bestu getu hvað væri í gangi. Og hann virtist skilja og vera fullkomlega sáttur.

Svo kom að því að Sá Einhverfi átti að sofa fyrstu nóttina í nýja herberginu. Rúmið var komið inn með kunnuglegum sængurfötum, dótið hans var út um allt og vel sjáanlegt, sjónvarpið hans og teiknidótið... en hann var órólegur og vansæll. Sótti inn í gamla herbergið sitt og endurtók ''blár'' með reglulegu millibili.

Ég fór alveg í kerfi. Get ekki lýst því neitt betur... ég fór bara í kerfi. Sannfærð um að ég hefði gert stór mistök og brotið gróflega á rétti Þess Einhverfa með því að svipta hann öryggi þess kunnuglega og óbreytta. Hélt að hann væri að ákalla bláa vegginn í gamla herberginu sínu. Hvernig gat ég verið svona vitlaus, hugsaði ég, gjörsamlega miður mín.

En það kom að því að ég skildi hvað hrjáði drenginn. Þegar ákall á ''appelsínugulan'' bættist við, rann upp fyrir mér ljós. Í mörg ár hafa tveir litlir leikfangabílar haldið Þeim Einhverfa félagsskap á nóttunni. Annar er blár og hinn er appelsínugulur.

Það hófst allsherjar leit að bílunum tveimur og þegar þeir voru komnir á sinn stað í rúminu skreið Sá Einhverfi alsæll undir sængina og sofnaði með bros á vör. Eftir þetta kvöld er eins og herbergjaskipan hafi aldrei verið öðruvísi en hún er nú.

Ég minntist á það um daginn að Sá Einhverfi hefði sýnt ferðatösku Gelgjunnar áhuga, og giskaði á að hann væri að velta fyrir sér að byrja að pakka fyrir sumarbúðirnar. Það gladdi mig því þetta hefur svolítið togstreita þetta sumarbúðarmál allt saman. En dagatalið sem ég setti upp fyrir hann breytti miklu.

Í gær datt ég næstum um ferðatöskuna þar sem hún lá á gólfinu. Guttinn búinn að opna hana og jú.. byrjaður að pakka.

Í töskuna var komið nokkuð mikilvægt. Sundpokinn hans sem er ómissandi, þar sem farið er í sund á hverjum einasta degi í sumarbúðunum. Og í einu horninu lágu tveir leikfangabílar. Annar blár og hinn appelsínugulur.

Þá brosti ég hringinn og allar áhyggjur fuku út í veður og vind. Gaurinn minn er tilbúinn að leggja land undir fót.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Lilja Guðrún Þorvaldsdóttir

Það er sem ég segi drengurinn er algjör dásemd.

Lilja Guðrún Þorvaldsdóttir, 15.6.2008 kl. 01:36

2 Smámynd: Jóna Kolbrún Garðarsdóttir

Skemmtilegur gutti sem þú átt   Ég vona að hann eigi frábæra daga í sumarbúðunum og þið hin í fríinu ykkar.

Jóna Kolbrún Garðarsdóttir, 15.6.2008 kl. 01:43

3 Smámynd: Jens Guð

Þær eru yndislegar þessar sögur.

Jens Guð, 15.6.2008 kl. 01:58

4 Smámynd: Róslín A. Valdemarsdóttir

Mér finnst hann Ian þinn alltaf verða meira og meira krútt með hverri færslunni!!
Hann mun vonandi skemmta sér ótrúlega vel í sumarbúðunum - það eru ekki allir sem upplifa þær, og hvað þá treysta sér til þess að fara á þessum aldri!
Svo hann er sko stór strákur, það má hann eiga
Knúsiknúsi

Róslín A. Valdemarsdóttir, 15.6.2008 kl. 02:34

5 Smámynd: Sporðdrekinn

Vá! Segi ég nú bara. Það er ótrúlegt að fá að fylgjast svona með Ian, ég sit hér langt langt í burtu og les orð af tölvuskjá en mér líður eins og stoltri hænu. Sem er hálf furðulegt þar sem að ég hef aldrei hitt ykkur.

Það er ekki spurning að Ian fer svona mikið fram vegna foreldra sinna og því andrúmslofti sem að þið skapið á heimilinu og í kringum Ian.

Ég tek ofan fyrir ykkur og hrópa húrra með hjartanu

Sporðdrekinn, 15.6.2008 kl. 02:59

6 identicon

Þetta er eins og yndisleg saga, þú skrifar svo skemmtilega, hefur þú ekkert verið að hugsa um að skrifa bók um málefni einhverfra ?

Gyða (IP-tala skráð) 15.6.2008 kl. 09:58

7 Smámynd: Emma Agneta Björgvinsdóttir

Gaman að þessu, það er gott að eiga huggara dálítið fyndið að það séu bílar.

Emma Agneta Björgvinsdóttir, 15.6.2008 kl. 09:59

8 identicon

Yndislegur drengur.Framfarir hanns eru miklar.Falleg færsla

Birna Dis Vilbertsdóttir (IP-tala skráð) 15.6.2008 kl. 10:11

9 Smámynd: Ólöf Jóhanna Pálsdóttir

Gaman að fylgjast með fjölskyldunni þinni. Ýmislegt er það sem börn taka ástfóstri við og hafa með sér í rúmið, en oftast er það eitthvað mjúkt. Gott að það voru bara bílarnir sem honum Ian þínum vantaði og að hann er sáttur við herbergið.

Ólöf Jóhanna Pálsdóttir, 15.6.2008 kl. 11:46

10 Smámynd: Edda Agnarsdóttir

Ég er er í sunnudags værukærileika og svara þessu með ljóði frá Margréti Jónsdóttur.

Gleðst ég þegar geislinn skín,

gleymi sorg og trega.

Best þó kæta brosin þín

barnið elskulega.

Edda Agnarsdóttir, 15.6.2008 kl. 12:16

11 Smámynd: Kristín Katla Árnadóttir

yndislegur drengur hann Ian

Kristín Katla Árnadóttir, 15.6.2008 kl. 12:23

12 Smámynd: M

M, 15.6.2008 kl. 12:32

13 Smámynd: Sigrún Jónsdóttir

Frábær færsla Jóna

Sigrún Jónsdóttir, 15.6.2008 kl. 12:43

14 Smámynd: Sigrún Ósk Arnardóttir

Snillingur þessi drengur Ég er einmitt að fara að senda mína gelgju frá mér í sumarbúðir á mánudaginn.

Sigrún Ósk Arnardóttir, 15.6.2008 kl. 12:49

15 Smámynd: Linda Lea Bogadóttir

Góð eins og venjulega...
Yndislegur þessi drengur þinn og þið öll náttúrúlega

Linda Lea Bogadóttir, 15.6.2008 kl. 13:20

16 Smámynd: Guðrún Jóhannesdóttir

 yndislegt

Guðrún Jóhannesdóttir, 15.6.2008 kl. 13:31

17 Smámynd: María Guðmundsdóttir

 bara yndislegur thessi drengur.  

María Guðmundsdóttir, 15.6.2008 kl. 15:09

18 Smámynd: Guðrún Emilía Guðnadóttir

Þetta er yndislegt að lesa, þið eruð alveg frábær, kæra Jóna
                       Kveðja Milla

Guðrún Emilía Guðnadóttir, 15.6.2008 kl. 17:00

19 Smámynd: Hrafnhildur Þórarinsdóttir

 .. Hann er bara snillingur þessi drengur .. Hrikalega á eftir að vera gaman hjá honum í sumarbúðunum, og áður en þú veist af þá verður hann komin heim að taka uppúr töskunni ..

 Kv Hrafnhildur

Hrafnhildur Þórarinsdóttir, 15.6.2008 kl. 18:05

20 Smámynd: Jenný Anna Baldursdóttir

Elsku dúllan hann Ian.  Hann var svo duglegur í fyrra mannstu?  Og skemmti sér auðvitað konunglega.

Voru ekki bílarnir með þá líka?

Tala við sína áður en sín fer til útlanda.

Jenný Anna Baldursdóttir, 15.6.2008 kl. 18:47

21 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Og enn brustu gleðitár fram á steinandliti karlrembunnar.  Þetta er fegurðin ein.

Jón Steinar Ragnarsson, 15.6.2008 kl. 19:46

22 Smámynd: Heiður Þórunn Sverrisdóttir

Hann er yndi,en þó að barni mans sé í raun "heilbrigt" þá þarf það þennan stöðuleika líka ..takk fyrir fallega sögu af yndilegum dreng.

Heiður Þórunn Sverrisdóttir, 15.6.2008 kl. 20:35

23 Smámynd: Helga Björg

það þarf að búa yfir vissum stórum hæfileika að geta hugsað hlutina á þann hátt sem þú gerir , og enn stærri hæfileika þarf til þess að geta sagt frá þeim á svona áhugaverðan og skemmtilegan hátt þú færð alveg 10.0 hjá mér þakka þér fyrir að leyfa mér að fá að lesa þetta þið eruð frábær kveðja frá Austria Helga B

verðið samt að afsaka villurnar mínar í stafsetningunni er farinn að hallast á að ég sé meiriháttar lesblind  sé þetta bara ekki  

Helga Björg, 15.6.2008 kl. 21:09

24 Smámynd: Halla Rut

Halla Rut , 15.6.2008 kl. 22:14

25 Smámynd: Bergljót Hreinsdóttir

Ótrúlegt hvað þessi litli snáði snertir eitthvað í manni sem er svoóútskýranlegt...ósnertanlegt...eitthvað sem er svo tært og fallegt....fær mann til að klökkna...og brosa....

Takk fyrir að deila honum með okkur!

Bergljót Hreinsdóttir, 15.6.2008 kl. 23:03

26 Smámynd: Guðríður Pétursdóttir

the cars are in and he's ready to go...

hann á eftir að skemmta sér vel stúfurinn litli...
Flóki var sko mikið ánægður með herbergið sitt eftir að ég loksins gat raðað öllu inn til hans. Þá snerist hann einn hring og tylti sér í litla bast-stólinn og dæsti hástöfum: Aaaahhhh

Svo hljóp hann og náði í Hörð dró hann inn í herbergið sitt og skellti sér aftur í stólinn og dæsti aftur ennþá hærra í þetta skiptið.. rosalega montinn

takk aftur fyrir allt saman

Guðríður Pétursdóttir, 16.6.2008 kl. 00:13

27 identicon

Sæl Jóna!

Ég var einmitt að fá minn heim í gær eftir 2 vikna sveitardvöl    Mesti kvíðinn var hvernig hann myndi taka því að mamman hafði notað tækifærið og lagað all hraustlega til í herberginu sem nb. ENGINN má fara inn í nema brot úr mínútu og ALLS EKKI rugla einu eða neinu    Undirbúningurinn hófst strax á fyrstu hálfu mínútunni þar sem það fyrsta sem spurt var um var hvort nokkur hefði farið inn í herbergið á meðan hann var í burtu ... ég náði að fóðra hlutina þannig að ég hefði þurft að búa til pláss fyrir nýja dótið sem keypt var í útlöndum (eitthvað sem þeir feðgar höfðu rætt áður en farið var í sveitina).  Við það vék óttinn fyrir spenningi - sem var að gera útaf við alla því leiðin lá ekki beint heim!    Þegar heim var komið var rokið beint inn í herbergi og breytingarnar teknar út með auga þess nákvæmasta ... og samþykkt með bros á vör    Púff, hvað mér létti   

Sjaldnast veit maður hvernig svona breytingum verður tekið, eins sem hægt er að gera er að undirbúa hann vel og halda svo í vonina að allt falli réttu megin við  

Gangi ykkur annars vel með niðurökkunina - og góða ferð/skemmtun í Bretlandinu!

Margrét Laxdal (IP-tala skráð) 16.6.2008 kl. 10:48

28 identicon

Nei, þessa ásláttarvillu VERÐ ég að leiðrétta ... vissulega átti ekki að standa:

Gangi ykkur vel með "niðurökkunina"!!  Tíhíhí ... rétt er :

Gangi ykkur vel með NIÐURPÖKKUNINA!

Hin er svo sem meinlaus ... stendur "eins sem hægt er að gera" í stað "einA sem hægt er að gera" ... Flestir hefðu nú skilið hana, ekki satt?!

Margrét Laxdal (IP-tala skráð) 16.6.2008 kl. 10:52

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Jóna Á. Gísladóttir
Jóna Á. Gísladóttir

 

 

 Ég er nokkuð dæmigerð íslensk útivinnandi kona. Hef lokið grunnnámi í markþjálfun og gengur betur að hjálpa öðrum við markmiðasetningu en sjálfri mér. Mér lætur líka betur að stjórna öðrum en sjálfri mér. 

 netfangið mitt er jonaagisla@gmail.com

 

 

 

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (29.3.): 0
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 9
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 9
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Bloggvinir

Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband