Leita í fréttum mbl.is

Svuntuaðgerð, afmæli og Ðe Lónlí Blú Bojs

Þessi pistill hefði átt að líta dagsins ljós á sunnudaginn en ég var ofsalega upptekin. Aðallega við að vera í nettu kvíðakasti yfir því að litla barnið mitt (21 árs frá því á laugardaginn) var ekki heima á afmælinu sínu. Kvíðakastið tók sem sagt alla helgina, ásamt því að taka ákvörðun um hvaða aðkeypta mat ég ætti að bjóða upp á afmælisveislunni sem yrði haldin á mánudagskvöldið og hvaða mynd ég ætti að láta setja á aðkeyptu kökuna frá Mosfellsbakaríi. Það tók líka smá tíma að fyrirskipa verkaskiptingu á heimilinu á sunnudaginn á milli Bretans og dóttur okkar, á meðan ég tók þátt í kvennagolfmóti í Grafarholtinu. ,,Gætuð þið kannski sett í uppþvottavél og ryksugað allt húsið? Þá get ég farið beint í að þrífa baðherbergin og skúra þegar ég kem heim.‘‘ Bretinn átti að elda sunnudagssteikina.

Eins og hægt er að ímynda sér þá varð ég yfir mig glöð þegar ég kom heim og sá að það var búið að vinna öll verkin og þrífa klósettin að auki. Svo glöð varð ég að ég kveikti bara á fullt af kertum og sleppti því að skúra. Ég er enn ekki búin að því. Þið sjáið af hverju ég hef ekki haft tíma til að setja niður markmið þessarar viku á blað.

Tuttuguogeinsárs afmælisveisla fyrir Ian með einhverfuna hófst á mánudaginn klukkan 18.

Ian tók fyrirmælin frá mér alvarlega: ,,Ian, allir gestirnir eru að koma til þín til að fagna afmælinu þínu og þú þarft að taka á móti þeim.‘‘ Fólk varð hálfhvumsa þegar Ian fagnaði þeim í dyrunum og reif af þeim afmælispakkann.

Afmælisbarnið var hið hamingjusamasta með herlegheitin. Það sást best þegar hann hafði raðað öllum afmælisgjöfunum (allt tæknilego) í kringum stólinn sinn í stofunni, tók bakföll og hló sigri hrósandi hrossahlátri. Ég held hann hafi líka verið mjög sáttur með myndina sem ég valdi á kökuna en það var teikning eftir hann sjálfan. Hann hikaði samt ekkert við að skera strump og annan á háls.

Ian Kaka 2019

En markmið þessarar viku er nokkurn veginn eins og síðustu viku. Mér tókst ekki að halda öllu á pari en aldrei þessu vant er ég ekkert að berja sjálfa mig í hausinn fyrir það.

En ég er farin að láta mig dreyma um svuntuaðgerð. Ég hugsa sífellt um orð appelsínunnar í Ávaxtakörfunni:

En ef að það væri eitthvað,

sem mér líkaði ekki við,

ég skæri það burt og límdi svo nýtt,

sem ætti þá betur við mig.

Kviðurinn á mér, sem mér hefur tekið ótrúlega vel að halda í skefjum í gegnum árin, hefur eignast sjálfstætt líf. Hann vex og dafnar og er farinn að taka allt of mikið pláss í veröldinni. Og þegar tvö börn hafa verið rifinn út í gegnum láréttan skurð á þessum stað þá er tilfinningin í húðinni brengluð. Þess vegna er þetta alveg extra óþægilegt. Eins og klessu af trölladeigi hafi verið skellt framan á mig. Aukahlutur sem ekki tilheyrir mér og er fyrir mér. En appelsínan söng lika:

Ef spegillinn gæti talað,

þá myndi hann segja við mig,

að ég væri fegurst, flottust og fínust,

það mynd'ann segja við mig

 

Ég ætla að tileinka mér þau orð frekar og setja svuntuaðgerð á hold.

 

Vika 2 - 9.–15. September

1) Taka vítamínin mín og lýsi (hef trassað það í allt sumar) – Stóð mig 4 daga í síðustu viku

2) Mæta á 3 æfingar kl 6:10  (hef ekki mætt á 6-æfingu í amk 3 ár) – mætti 2x og svo gekk ég 18 holur á þriðjudag og sunnudag. Ekki alslæm frammistaða. Og vá hvað mér finnst það ljúf tilfinning að vera á undan mestu umferðinni í vinnuna eftir æfingu og vera sest við skrifborðið, hreyfð og sturtuð, fyrir kl 8. Mæli eindregið með þessu.

3) Drekka 2 x 750 ml af vatni yfir vinnudaginn (ég er þessi sem fylli vatnsglasið að morgni og stundum er það óhreyft þegar ég fer heim í lok dags) – stóð mig 99.89% í þessu. Þurfti reyndar tvisvar sinnum í vikunni að þræla í mig öllum seinni 750 millilítrunum rétt áður en ég hljóp út kl 17 og lá við drukknun. En niður fór vatnið.

4) Taka út kökur, sælgæti, brauð og gos annað en sódavatn (hef verið frekar hömlulaus í sumar) – mér reynist erfitt að sleppa öllu brauðmeti þegar ég er að golfast því oft er maður að hlaupa út á golfvöll óétinn og þá er svo auðvelt að grípa samloku. En auðvitað heitir það skipulagsleysi. Tvær kökusneiðar voru innbyrtar í vikunni og ½ líter af pepsi max

5) Í rúmið ekki seinna en 22:15 (er yfirleitt að leggjast á koddann um 00:30) – stóð mig í þessu kvöldin fyrir þessar tvær 6-æfingar

6) Nýja markmiðið í þessari viku er að sjá vigtina þokast niður á við. Engar tölur verða ræddar að svo stöddu

 

En þá er komið að hápunkti vikunnar og ástæðunni fyrir því að ég skrópaði á morgunæfingu á föstudaginn. Hápunkturinn heitir Ðe LÓNLÍ blú BOJS og ég brosi enn hringinn þegar ég hugsa um upplifunina. Á fimmtudagskvöldið fór ég í Bæjarbíó Hafnarfirði til að horfa á lítinn (að ég hélt), sætan söngleik eftir hinn kornunga Höskuld Þór Jónsson, sem jafnfram leikstýrir. Það kom fljótt í ljós að orðið ,,lítill‘‘ á ekki heima neinsstaðar í málsgrein þar sem rætt er um þetta verk.

Þegar maður fréttir af því að ungur maður hafi heyrt lag með Ðe lónlí blú bojs og heillast svo af hljómnum að hann fer á stúfana, les sér til um hljómsveitina, hlustar á tónlistina og sest svo bara si svona niður og skrifar handrit af söngleik eða leikriti… þá verður maður forvitinn.

Höskuldur Þór gerði meira en bara að skrifa handrit. Hann viðaði að sér góðu fólki og lét hlutina gerast. Úr varð dásamleg skemmtun með frábærum leikurum, söngvurum og tæknifólki. Persónusköpun er einstaklega skemmtileg, textinn hnyttinn, söngvarar eru hver öðrum betri og sagan er grípandi. Ég stóð mig að því í eitt skiptið að kalla fram í eins og börnin gera á dýrunum í Hálsaskógi eða öðrum spennandi viðburði. Ég bara gat ekki stillt mig.

Ég á ekkert í þessum stórkostlega hæfileikaríku ungmennum sem þarna stóðu á sviði og á bak við tjöldin og brilleruðu á allan hátt. En það kemur ekki í veg fyrir að ég sé stolt. Og skotin í þessum krökkum. Ég er óendanlega hreykin af ungu kynslóðinni okkar sem er óhrædd við að vinna að því hörðum höndum að láta draumana sína rætast.

Ég veit ekki hvort það séu fleiri sýningar framundan í Bæjarbíói en ég veit að þau verða með sýningar í Vestmannaeyjum um næstu helgi. Þetta er svo sannarlega skemmtun sem brúar bil á milli kynslóða.

Eins og sannri grúppíu sæmir henti ég mér baksviðs eftir sýningu til að ausa lofi yfir liðið. Ég er hrædd um að ég hafi verið í pínu æst og uppnumin en þau hafa vonandi bara kunnað að meta það að hafa eignast einlægan aðdáanda í einni miðaldra kvinnu. Látum það liggja á milli hluta að eitt eða tvö glös af freyðivíni (hver er að telja) höfðu runnið ljúflega niður þetta kvöld.

Ég náði tveimur í myndatöku: Berglindi Öldu sem fer á kostum sem Stína og Inga Þór með gullröddina sem leikur Sörla. Eins og sjá má nær brosið á mér eyrna á milli.

Stína Ðe lónlíIngi Þór Ðe Lónlí


Markmiðasetning og megrun í beinni

Frábært sumar er senn á enda. Þetta sumarið hef ég notið útiveru sem aldrei fyrr og fengið að spila golf í miklum mæli, ekki síst vegna þess að okkur áskotnaðist hjásætur fyrir "litla barnið," hver annarri dásamlegri. Ég hef oft sagt að ég var ekki viðlátin þegar var verið að úthluta íþróttageninu og er golfið þar engin undantekning. En það sem golfið hefur fram yfir aðrar íþróttir er að sama hversu lélegur þú ert geturðu stundað íþróttina með hverjum sem er, byrjendum jafnt sem afreksfólki. Ekki má gleyma því að engin önnur íþrótt býður upp á át, áfengisdrykkju og reykingar á meðan á ástundum stendur. Þetta hef ég nýtt mér óspart í sumar og sé ekki eftir neinu. En nú er tími að linni og ég víki af villu míns vegar.

Það er auðvitað óttaleg klisja, haustátakið. Í kjólinn fyrir jólin og Að sjá tólin fyrir jólin. Allir í megrun og allskonar bönn og bindindi á þessum árstíma. En það er bara allt í lagi, þó að auðvitað eigi þetta að heita lífsstílsbreyting og vera slík. Hver og einn þarf að finna sína leið og áherslur. Við prófum allskonar, lærum af mistökum og finnum hvað hentar okkur best.

Ég, sem hef stundað líkamsrækt svo að segja allt árið síðustu 6 ár, fjórum til sex sinnum í viku, skrópaði í allt sumar í ræktinni. Ég viðurkenni að ég dauðkvíði því að fara að rífa mig á fætur eldsnemma á morgnana og mæta með aukakílóin og aðþrengdu lungun mín á hlaupabrettið. En ég vinn hörðum höndum að því að sjá skjannabjörtu hliðarnar á því, sem eru:

  1. það er orðið bjart kl 6 á morgnana (ennþá)
  2. það eru afar fáir bílar á götum borgarinnar til að fara í taugarnar á mér kl 6 á morgnana
  3. ég mun mæta á réttum tíma í vinnuna aldrei þessu vant
  4. ég verð svo þreytt á kvöldin að ég hef styttri tíma til að drekka rauðvín

 

En það er ekki nóg að hreyfa sig. Ég hef verið dugleg að safna maga, lærum og mjúkum línum síðustu mánuði. Það klæðir suma afskaplega vel en ég kann ekki nógu vel við takmarkanirnar á nýtingu klæðanna sem ég á í fataskápnum. Mataræðið mitt þarfnast gífurlegrar tiltektar eftir sumarið til þess að öll fötin mín séu nothæf og til þess að mér líði sem best.

Ég er eindreginn talsmaður sjálfsvals í mataræði, hvort sem það heitir að vera grænmetisæta, grænkeri, lágkolvetna, keto eða alæta. Fátt fer meira í taugarnar á mér en yfirlýst skoðun fólks á því hvað aðrir leggja sér til munns. Ég verð þó að viðurkenna að ég skil alls ekki af hverju grænkerar vilja ekki ganga í lopapeysum. Kannski getur einhver útskýrt það fyrir mér.

Ketó mataræði hefur reynst mér óskaplega vel að mestu leyti; ég þarf aldrei að vera svöng, meltingin er í toppstandi, uppþemba lætur ekki á sér kræla og þeir sem hafa prófað ketó vita hversu mikið kjaftæði það er að þú prumpir af sunnudagssteikinni. Kolvetni eru prumpfæða (í bókstaflegri merkingu) ekki prótein eða fita. Ketó fólk prumpar ekki. Heilagur sannleikur.

Í þessari lotu ætla ég nú samt að prófa lágkolvetnafæði. Því mig langar að geta gripið í AB mjólk og epli. Borðað melónur og svolítið af hnetu-tegundum sem eru hærri í kolvetnum en ketófæði kallar á.

Ég, menntaður markþjálfinn, hef aldrei verið góð í setja mér sjálfri markmið. Eða öllu heldur, ég hef ekki verið góð í að fylgja eftir þeim markmiðum sem ég hef sett mér. Allir vita að markmið á að setja niður á blað til að gera þau raunverulegri og ég hef svo sem gert það. En blaðið þarf að vera sýnilegt og ekki ofan í skúffu. Og það er breytingin sem ég ætla að gera í þetta sinn. Ekki nóg með það, heldur ætla ég að hafa ,,blaðið‘‘ sýnilegt, hverjum þeim sem kærir sig um að lesa. Nefnilega hér, í pistlaformi.

Í stað þess að gleypa allan heiminn á einum degi og ætla mér að hoppa beint á þann stað sem ég var í síðasta vetur hef ég sett niður fyrir mig skrefin sem ég ætla að taka jafnt og þétt næstu vikurnar. Langtímamarkiðin eru ekki fullmótuð enn og því horfi ég stutt fram á veginn til að byrja með.

Fyrsta vikan er aðeins fimm atriði. En þessi fimm atriði hafa verið úti hjá mér í allt sumar og ég mun án efa eiga fullt í fangi með að standa við þau. En ég ætla svo sannarlega að gera mitt besta. Reykingaleysi er viljandi ekki á listanum. Drap í þeirri síðustu á sl föstudagskvöld og er þar með reyklaus eins og ég hef verið síðustu sex ár.

 

Vika 1 - 2.–8. September

1) Taka vítamínin mín og lýsi (hef trassað það í allt sumar)

2) Mæta á 3 æfingar kl 6:10  (hef ekki mætt á 6-æfingu í amk 3 ár)

3) Drekka 2 x 750 ml af vatni yfir vinnudaginn (ég er þessi sem fylli vatnsglasið að morgni og stundum er það óhreyft þegar ég fer heim í lok dags)

4) Taka út kökur, sælgæti, brauð og gos annað en sódavatn (hef verið frekar hömlulaus í sumar)

5) Í rúmið ekki seinna en 22:15 (er yfirleitt að leggjast á koddann um 00:30)

 

Ég finn að bara það að skrifa þetta niður hefur gert mig spenntari og bjartsýnni á komandi viku. Ég efast ekki um að vinnufélagarnir þrái að mér mistakist að einhverju leyti svo þeir geti gert grín að mér og ekki læt ég þar gerast, er það nokkuð? Eitthvað stolt verður maður að hafa.

Gaman væri að heyra frá ykkur hvaða markmið þið eruð að vinna með í augnablikinu


Höfundur

Jóna Á. Gísladóttir
Jóna Á. Gísladóttir

 

 

 Ég er nokkuð dæmigerð íslensk útivinnandi kona. Hef lokið grunnnámi í markþjálfun og gengur betur að hjálpa öðrum við markmiðasetningu en sjálfri mér. Mér lætur líka betur að stjórna öðrum en sjálfri mér. 

 netfangið mitt er jonaagisla@gmail.com

 

 

 

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (20.4.): 0
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 23
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 21
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Bloggvinir

Sept. 2019
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30          

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband