Leita í fréttum mbl.is

Polli = Pólverji ?

 

Eitt eru ryskingar á milli tveggja drengja á unglingsaldri þar sem hormónaflæði er á fullu blasti, sem kannski endar með smá blóðnösum og særðu stolti. Annað er hrein og bein líkamsárás tveggja drengja á jafnaldra sinn, sem svo endar á slysadeild eða spítala.

Ég er furðu lostin yfir þessu viðtali við skólastjórann sem vill sem minnst úr málinu gera og finnst það blásið upp af fjölmiðlum. Hvað þýðir það? Blásið upp..? Staðreyndirnar liggja fyrir og þær eru ekki fallegar.

Ég er viss um (eða vona allavega) að þjálfarar í bardaga- og sjálfsvarnaríþróttum hvers konar leggja ríka og mikla áherslu á drengskap og það að nota ekki kunnáttuna utan æfinga og keppna. Nema að sjálfsögðu í sjálfsvörn.

Að mínu mati er þetta mál hið alvarlegasta af fleiri en einni ástæðu. Og ég er afar ósátt við þá vörn (eða kannski afneitun) sem skólastjórinn virðist vera í. Hún minnist ekki orði á að tekið verði á atvikinu og það rætt til að koma í veg fyrir endurtekningu. Hver eru eiginlega skilaboðin til annarra nemenda í skólanum ef tekið er á þessu af slíkri léttúð?

Og nú spyr sá sem ekki veit: getur verið að Polli sé nýyrði og sé notað sem uppnefni og í niðrandi tón um   Pólverja?

 

 


mbl.is Blóðug slagsmál skóladrengja
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Einar Axel Helgason

Þetta mál virðist vera hið undarlegasta. Ég er alfarið á móti því að farið sé með börn sem fullorðna í réttarkerfinu – en ég skil ekki að ekki skuli litið á mál sem þessi sömu augum og ef atvikið ætti sér stað í miðbæ Reykjavíkur – sem líkamsárás.

En polli er, já, uppnefni (yfirleitt niðrandi væntanlega) um Pólverja. Ég heyrði það fyrst fyrir um það bil tveimur árum síðan, á að giska. Mér finnst fjöldi níðorða um þjóðerni í Íslenskri tungu hreint ótrúlega ríkulegur miðað við stærð landsins – og sífellt bætist í sarpinn.

Einar Axel Helgason, 2.3.2009 kl. 20:19

2 Smámynd: Helga Magnúsdóttir

Það á ekki að taka á svona málum með silkihönskum. Ég hef aldrei heyrt orðið polli notað í þessum skilningi en það hljómar ekki ólíklega.

Helga Magnúsdóttir, 2.3.2009 kl. 20:21

3 identicon

Er afar undrandi á afstöðu skólastjórans "málið blásið upp" Sú leiða tilfinning læðist að mér að þetta hefði ekki þótt í lagi ef sá slasaði (pólverjinn) hefði meitt íþróttamann bæjarins svona illa.

Elín (IP-tala skráð) 2.3.2009 kl. 20:32

4 identicon

Ég segi bara eins og konan mín, "hvernig væri tekið á þessu máli ef þetta hefði verið á (öðrum) vinnustað, ég meina ef ég hefði verið lamin í vinnunni af því að ég væri ekki sáttur við að vera uppnefndur eða lagður í einelti"  Hvað er málið? Finnst skólastjórum þessa lands það vera í lagi að börn séu lamin í skólanum eða hvað?  Komið með það sem þið viljið að sé gert í þessum málum.  Allir aðrir vinnuveitendur þurfa að taka á eineltismálum skv. vinnuverndarlöggjöfinni, af hverju er það öðruvísi með börnin okkar?  Ég bara krefst þess að Katrín Jakobsdóttir geri eitthvað í þessum málum!  Það á bara aldrei að líða ofbeldi undir nokkrum kringumstæðum og hananú!!!

brynjar (IP-tala skráð) 2.3.2009 kl. 20:33

5 Smámynd: Jóna Á. Gísladóttir

Einar Axel. En þá skil ég ekki að því sé haldið fram að þetta hafi ekkert haft að gera með þjóðerni hans!! Það er tekið fram að slagsmálin (ef slagsmál skyldi kalla þar sem tveir níðast á einum)  hófust í kjölfarið á að fórnarlambið var kallað polli!!

Helga. Sammála. Engin vettlingatök eða silkihanska.

Jóna Á. Gísladóttir, 2.3.2009 kl. 20:35

6 Smámynd: Jóna Á. Gísladóttir

Brynjar. Í sannleika sagt held ég að upphaflega liggi vandamálið liggi heima fyrir. Foreldrar þessa lands verða að hætta að tala niðrandi um innflytjendur í eyru barna sinna. Í alvöru!!

Ég er sammála þér. Við líðum ekki svona ofbeldi á vinnustað. Því í skólunum? Það þarf virkilega að gera eitthvað í þessum málum áður en allt endar í klíkum og bardögum upp á líf og dauða.

Jóna Á. Gísladóttir, 2.3.2009 kl. 20:41

7 Smámynd: Jóna Á. Gísladóttir

Elín. Já ég er ansi hrædd um að þú hafir rétt fyrir þér þar.

Jóna Á. Gísladóttir, 2.3.2009 kl. 20:42

8 Smámynd: Anna Margrét Bragadóttir

Mér fannst viðtalið við þennan skólastjóra alveg út í hött,ég get ekki skilið hvernig henni dettur í hug að láta út úr sér að málið sé ekki eins alvarlegt og fjölmiðlar vilji vera að láta,þetta er einelti að mínu mati og það er alltaf ógeðslegt,og það er skylda skólayfirvalda að taka þá sem því beita föstum tökum.

Anna Margrét Bragadóttir, 2.3.2009 kl. 21:01

9 identicon

Nýtískulega Rasisma vænisýkin er að drepa þessar tilgerðarlegu siðferðishænur í þessu landi, væri þetta "orð" svona mikið stórmál hefði það snúið að einhverju öðru en þjóðerni? Ef orðið hefði verið frekknufés eða krulluhaus þá væri fjölmiðlum nokk sama ásamt flestum þessum bjánum sem arga "rasisti brennið hann". 15 ára unglingar uppnefna hvorn annan, fituhlunkur, rauðhaus og af hverju ætti surtur eða polli ekki að flakka líka ef það á við í það skipti, þetta er eðli krakka og unglinga að uppnefna og finna móðgandi orð eftir staðalímyndum ef til átaka kemur. En í "rasisma-histeríu" fjölmiðla er reynt eftir bestu getu að snúa málinu (líkt og svo mörgum öðrum) upp í það að "ráðist hefði verið á aðila aðeins á grundvelli þjóðernis". Þetta er að verða bráðfyndið, þessi pólitíski rétttrúnaður og siðferðis tilgerð í fólki í Íslensku samfélagi.

Rasisma histerían (IP-tala skráð) 2.3.2009 kl. 21:08

10 Smámynd: Róslín A. Valdemarsdóttir

Hæ Jóna mín!

Það sem ég er að spá, er það að einhverstaðar heyrði ég að það væri bannað að nota það sem maður æfir, box og kung fu á manneskju nema að það sé verið að keppa. Það má heldur ekki í sjálfsvörn, eða það sem ég best veit.

Hormónaflæðið í okkur unglingunum veldur miklum skapsveiflum - sumir komast létt í gegnum þetta en verða fyrir ofbeldi andlega eða líkamlega, eða verða gerendur og meiða með nyðrandi orðum eða beita líkamlegu ofbeldi... svo fer það líka stundum eftir því hvernig uppeldi krakkar hafa fengið! Þá meina ég, hvað sé "leyfilegt" innan heimilisins og fólk viti þá ekki hvað má utan þess og hver mörkin eru.

Róslín A. Valdemarsdóttir, 2.3.2009 kl. 21:13

11 Smámynd: Einar Axel Helgason

Eina hugsanlega málsvörn skólastjórans væri ef til vill að vita ekki um þessa þjóðernistengdu merkingu orðsins polli. Að öðrum kosti finnast mér ummæli hennar óskiljanleg og helst lýsa afneitun.

Ef ótti við rasisma og fordóma er nýtíska, þá þykir mér ekki seinna vænna að hún komi til. Mér finnst það að kalla önnur börn „fituhlunk“ eða „rauðhaus“ líka hræðilegt og nokkuð sem þyrfti að taka á út af fyrir sig. Á hinn bóginn, þá er sérstaklega mikilvægt að ala á skilningi og fordómaleysi milli þjóðernis og kynþátta, því umfram mörg önnur tilefni til uppnefninga, þá tengjast þjóðernisuppnefni og tilheyrandi fordómar miklu alvarlegra afli, sem margoft hefur orðið uppspretta gegndarlauss haturs og ofbeldis, á Íslandi og víðar.

Einar Axel Helgason, 2.3.2009 kl. 21:23

12 Smámynd: Ómar Ingi

Þeir eru ansi hraustir unglingarnir þarna á suðurnesjunum alltaf einhver læti í skólunum eða á skólalaóðunum, en þetta gerist víða Selfossi núna fyrir skömmu  ef mig minnir rétt , en heyrði bara lítið af þessari frétt og þá kom þetta var kallaður Polli og ég var einmitt að hugsa er það slæmt í dag að vera kallaður Polli ?

Já það er alltaf eitthvað nýtt í þessu

Ómar Ingi, 2.3.2009 kl. 21:25

13 Smámynd: Jóna Á. Gísladóttir

Þú þarna Rasisma histería. Ég held að enginn hér sé að meina að alvarleikinn snúi eingöngu að þessari polla uppnefningu. Fyrst og fremst er málið gegndarlaust virðingarleysi barna við hvort annað, umhverfi sitt, kennara og samferðarfélaga. Fullorðna fólkið er litlu skárra. Og þetta er ekki meint sem alhæfing. Sem betur fer eru svörtu sauðirnir alltaf mikið færri en hinir.

Og Einar Axel hefur fullkomlega rétt fyrir sér; fordómar ala af sér ofbeldi. Þetta hefur ekkert með pólitískan rétttrúnað.

Best er að setja sig í spor annarra í huganum til að skilja...

Ommi minn. Eins og ég segi, málið snýst ekki um orðið Polli. Auðvitað eru alltaf læti á skólalóðum og hefur alltaf verið og mun aldrei breytast. En það sem hefur breyst er þetta með réttlætiskenndina og drengskapinn.

Róslín. Vel orðað.

Anna sys. Veit ekki hvort ég geti neglt niður að þetta sé einelti. Einelti er í mínum huga endurtekin atvik og ég veit ekki með fyrri samskipti þessara drengja. En já ég er svo sammála þér; málið er alvarlegt og þarf að taka á uppsprettu þess og ræða málin opinskátt.

Jóna Á. Gísladóttir, 2.3.2009 kl. 21:46

14 identicon

Þessi skólastjóri virtist lafhræddur og alveg út í hött í þessu viðtali og þetta viðtal alveg útí hróa hött. Spurning hvort skólastjórinn sé í klappliðinu á hnefaleikaæfingum þarna í

Sandgerði..eða var þetta ekki þar. Aumingjans fólk.

alva (IP-tala skráð) 2.3.2009 kl. 22:01

15 identicon

1. Þarf ekki áreiti gagnvart einstaklingi að vera síendurtekið svo það teljist einelti?
2. Á atburðarásin í þessu tilfelli sér einhverja forsögu? 
3. Kemur íþróttaiðkun árásaraðila, annars eða beggja, málinu eitthvað við?
Annars er ég ekki að mæla atferli þeirra kumpána nokkra bót, ofbeldi á að sjálfsögðu aldrei rétt á sér. En ábyrgðin á meintu ofbeldi barna og unglinga liggur hjá skólayfirvöldum, okkur foreldrum og ekki síst þeim aðilum sem sinna þeim uppeldisþætti sem íþróttaiðkunin er. Þar á að innræta börnum virðingu fyrir fyrir andstæðingum sínum, bæði innan vallar og utan.
Aga-og virðingarleysi gagnvart umhverfinu er að mínu mati versti óvinur æsku landsins og við vitum hverra hlutverk er að bæta þar úr, gleymum því ekki þegar hellt er úr skálum reiði og fyrirlitningar.
Að lokum, ætli það sé alvarlegra ef knattspyrnuiðkandi sparkar í gumpinn á mér en ef handknattleiksiðkandi gerir slíkt hið sama?

Guðm. B. (IP-tala skráð) 2.3.2009 kl. 22:52

16 Smámynd: Högni Jóhann Sigurjónsson

Í skólanum sem mín börn gengu í sagði skólastjórinn alltaf ,,ég taldi að búið væri að taka á þessu máli.

Högni Jóhann Sigurjónsson, 2.3.2009 kl. 22:58

17 Smámynd: Róslín A. Valdemarsdóttir

Úff.. mér fannst svakalegt að sjá skólastjórann neita því að þetta væri hrottalegt ofbeldi!

Hrottalegt ofbeldi nær yfir svo mikið, og þetta er nú meira en hrottalegt..

Annars sárnar mér ekki fyrir að kalla mig rauðhaus ef út í það er farið - það er bara staðreynd, ég er rauðhaus og svo er ég líka fituhlunkur....

Róslín A. Valdemarsdóttir, 2.3.2009 kl. 23:33

18 identicon

Ég fylgist illa með þessu eins og svo mörgu þarna heima á gamla landinu en eitt veit ég og það er að einelti gýs upp og dafnar þar sem bleiður stjórna. Svona skólastjórar td.

Vona að drengurinn sem ráðist var á jafni sig og að drengirnir sem réðust á hann fái hjálp með að skilja mun á réttu og röngu og satt best að segja er mér nákvæmlega sama hvaða þjóðernis þeir eru allir þrír.

Takk fyir gott blogg að venju!! 

Birna (IP-tala skráð) 3.3.2009 kl. 14:35

19 identicon

Orðið Polli þýðir einfaldlega ungur drengur, eða eitthvað sem að ekki rís hátt frá jörð sbr bryggjupolla. Þetta orð á ekket skylt við rasisma af mínu viti og er gamalt og gott íslenskt orð, sem enn er notað um mest allt land um litla stráka.

Júlíus Freyr Theodórsson (IP-tala skráð) 3.3.2009 kl. 16:18

20 Smámynd: Einar Axel Helgason

Júlíus, polli hefur að sjálfsögðu þá merkingu og ég nota orðið af og til sjálfur á þann veginn. Á hinn bóginn er staðreynd að víða – sérstaklega meðal unglinga – hefur breiðst út notkun orðsins sem slanguryrði um Pólverja.

Einar Axel Helgason, 3.3.2009 kl. 17:30

21 identicon

Bíðið við, hvað er að gerast í þessari umræðu? Má vera að orð skólastjórans (hér eftir skólastýrunnar) hafi verið tekin úr samhengi og sett fram á óábyrgan hátt og vegna skorts á vitneskju? 

Eftir því sem ég best veit þá gerðist eftirfarandi: Tveir ganga til verks gagnvart einum einstaklingi,  Þá lætur annar gerandinn högg vaða að fórnarlambinu, sem að því ég hef heyrt voru nokkur. Ok. Drengurinn er færður á sjúkrahús til athugunar og aðhlynningar, gott mál. Ekki það að ég ætli að halda hlífiskyldi yfir geranda/gerendum, en hvað er hægt að gera úr því sem komið er. Jú Skólastjórnendur þ.a.m. skólastýran, eru skyldug til að koma málinu í ferli. Hvað hefur komið fram í fjölmiðlum? Daginn sem skólastýran var í viðtalinu við Þóru Kristínu á mbl.is, þá kemur fram að nemandanum hefur verið vísað úr skólanum, málið hafi verið sent barnaverndaryfirvöldum, félagsmálayfirvöldum og sent til skólaráðs bæjarins til frekari umfjöllunar. 

Ég segi gott og vel, flestir samfélagsþenkjandi borgarar hafa sagt og/eða hugsað látum verkin tala því það er jú eini sannanlegi mælikvarðinn. Mín tilfinning er sú að Skólastýra Grunnskólans í Sandgerði hefur sinnt sinni skyldu og sett málið í ferli eins og skólastjórnanda er sæmandi og ætlast er til af. Það að kynna sér ekki málin eilítið áður en farið er fram þeim hætti sem margir hafa gert hér í bloggheimum, er innantómt raus og dæmist af sjálfu sér. Mikil reiði, ákafi, skortur á efni viðfangsefnisins eru hluti af einkennum þeirra sem vaða fram í villu sinni, en þetta eru jú bloggheimar og því geta allir tölvubærir sagt sína skoðun, hvort sem eitthvað er á bak við hana eða ekki. Það er jú eins og fólk talar um málfrelsi á Íslandi. Eitt skulum við samt hafa hugfast að öll umræða skal ábyrg og meðferð stóryrða vandleg gagnvart öllum einstaklingum t.d. í þessu dæmi, til eru fordæmi fyrir tilefnislausum aðdróttunum í bloggheimum.

Hvað þetta mál varðar þá átti árásin sér ekki forsögu varðandi gerendur og fórnalamb, þ.a.l. má segja tillefnislaus með öllu. Hins vegar er það svo að hvað sem skólastýran hefur sagt, þá er það á hreinu að málið er komið í ferli eins og áður hefur komið fram. Skólastýran hefur unnið sína vinnu af vandvirkni í þessu máli hvernig dóm sem við kunnum að leggja á orðaval hennar.

Ég er íbúi í Sandgerði á barn í grunnskólanum, leikskólanum og hef líka verið þátttakandi í íþróttalífinu. Ég get fullvissað ykkur sem ekki vita að skólayfirvöld og íþróttafélagið hér í bæ vinna hörðum höndum við að uppræta einelti í skóla og við æfingar. Varðandi kynþáttafordóma þá ætla ég að efast um að það sé vandamálið, kynþáttafordómar eiga ekki rétt á sér og er skortur þekkingu, ég sammála þér Jóna Á. Gísladóttir varðandi það að málið snýst ekki um það að fórnalambið hafi verið kallaður polli deginum áður. Einnig er ég á sama máli varðandi það að skyldur okkar foreldra og forráðamanna eru miklar er kemur að upplýsingaflæði varðandi fordóma og að eins og við köllum það sem eru í kringum 35 og eldri "gömlu gildin" þ.e. virðing fyrir samborgurum hvort sem um börn og fullorðna eða eigur er að ræða. 

Ari Gylfason (IP-tala skráð) 3.3.2009 kl. 22:18

22 Smámynd: Jóna Á. Gísladóttir

Ari. Kærar þakkir fyrir gott og málefnalegt innlegg. Það gleður mig mikið að heyra að málið sé í ferli, eins og þú segir.

Nú veit ég auðvitað ekki hvort viðtalið við skólastjórann var á einhvern hátt klippt úr samhengi. Vona svo sannarlega ekki. Því leyfi ég mér að gagnrýna það að hún skuli ekki veita þær upplýsingar í viðtalinu sem þú veitir hér. Þ.e.a.s. að verið sé að taka á málinu af fullri alvöru.

Þetta kemur út eins og henni þyki þetta vera einkamál skólans og að hún hafi vilja ''þagga'' málið niður opinberlega. Mér á hinn bóginn, þykir einmitt svo nauðsynlegt að senda þau skilaboð út í samfélagið að verið sé að taka á atvikinu.

Jóna Á. Gísladóttir, 3.3.2009 kl. 22:54

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Jóna Á. Gísladóttir
Jóna Á. Gísladóttir

 

 

 Ég er nokkuð dæmigerð íslensk útivinnandi kona. Hef lokið grunnnámi í markþjálfun og gengur betur að hjálpa öðrum við markmiðasetningu en sjálfri mér. Mér lætur líka betur að stjórna öðrum en sjálfri mér. 

 netfangið mitt er jonaagisla@gmail.com

 

 

 

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (18.4.): 0
  • Sl. sólarhring: 4
  • Sl. viku: 35
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 31
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Bloggvinir

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband